ÓLAFUR F. KEMUR STERKUR INN.

Ólafur F. Magnússon stóð sig vel að mínum dómi í Silfri Egils í dag og ætti því að koma sterkur inn í borgarmálapólitíkina. Ólafur hefur þá sérstöðu meðal stjórnmálamanna okkar daga að hafa gengið í gegnum vítiseld ofsókna vegna skoðana sinna. Ég segi ofsóknir því að ég finn ekki betra orð yfir það hvernig hann var úthrópaður sem hryðjuverkamaður á landsfundi flokks síns í desember 2001 og hrakinn úr ræðustóli.

Þessi uppákoma var lygileg þegar þess er gætt að fundarstjóri, sem náði því á framaferli sínum að verða forseti elsta löggjafarþings heims, lét sér þessi ólýðræðislegu og ruddalegu vinnubrögð vel líka.

Ætlun þeirra sem að þessu stóðu var að niðurlægja Ólaf sem allra mest og láta hann finna svo fyrir svipunni að hann bæri ekki sitt barr eftir. En stundin sem fyrir flesta hefði orðið stund ósigurs og niðurlægingar varð í staðinn að stærstu stund Ólafs F. Magnússonar að mínum dómi. Það mun sagan staðfesta þótt síðar verði og letra nafn Ólafs gullnu letri fyrir staðfestu og trúfesti við góðar hugsjónir.

Vopnin snerust í höndum andstæðinga hans sem ekki tókst það ætlunarverk sitt að fella hann úr borgarstjórn 2002 og kosningarnar 2006 urðu mikill sigur fyrir hann og fylgismenn hans.

Í stað þess að mynda meirihluta í borgarstjórn sem hefði að baki sér meirihluta kjósenda eins og eðlilegast hefði verið varð annað uppi á teningnum. Sjálfstæðismenn brugðu á það ráð að fara aðra leið.

Nú heyrir það borgarstjórnarsamstarf fortíðinni til og ný staða er komin upp í borgarmálapólitíkinni.

Ég hef áður bloggað um hinn fráleita uppslátt þess að Ólafur framvísaði læknisvottorði við endurkomuna. Það var að sjálfsögðu hans einkamál og engar reglur borgarstjórnar virðast kveða á um að það sé skylt.

Ég nefndi dæmin um tímabundin og mislöng veikindaleyfi Ólafs Thors, Ronalds Reagan, Ólafs Ragnars Grímssonar, Össurar Skarphéðinssonar, Georg Bush og Ingibjörgar Pálmadóttur. Í engu þessara tilfella var verið að spá í hvort læknisvottorð hefðu orðið til eða ekki.

Það er rétt hjá Ólafi F. Magnússyni að skrýtið var hvernig þetta mál, sem engu skipti, var komið í gang á fjölmiðlunum á augabragði. Ég vil samt ekki útliloka að þetta hafi getað verið eins konar slys.

En á sama hátt og nákvæmlega ekki neitt var blásið upp og gert að "stóra vottorðs málinu" á það skilið að vera ekki nefnt á nafn meir.

Það er af nógum öðrum verkefnum að taka í borgarmálunum og alveg eins og í borgarstjórnarkosningunum 2006 geta þau Ólafur og Margrét látið að sér kveða.

Velkominn til starfa á vettvangi hugsjóna þinna, Ólafur F. Magnússon.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Já, það var reginhneyksli þegar fundarstjóri landsfundarins lét það líðast að hrópa Ólaf F. niður úr ræðustóli. Það var Sturlu til skammar hvernig hann tók á þessu þar. Sýndi hversu lélegur til fundarstjórnar hann er og virðist ókunnugur almennum og alþjóðlegum reglum fundarskapa, sem og hlutleysis sem fundarstjóri verður að gæta sem og almennrar reglu á fundi þannig að sá sem hefur orðið fái frið til þess að ljúka máli sínu.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 2.12.2007 kl. 17:36

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er misskilningur hvað varðar Sturlu því þetta var Halldór Blöndal.

Ómar Ragnarsson, 2.12.2007 kl. 17:40

3 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Þessi 34. landsfundur Sjálfstæðisflokksins var ekki í desember heldur frá 11. til 14. október 2001.  Ólafur sagði sig úr flokknum 20.desember 2001, sama dag og umhverfisráðherra gaf grænt ljós á Kárahnjúkavirkjun.

Pétur Þorleifsson , 3.12.2007 kl. 08:28

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Já það er sennilega rétt hjá þér kæri Ómar að þarna hafi Halldór Blöndal stjórnað fundi, og er honum til minnkunar. Hitt er annað að ég minnist illrar stjórnar Sturlu í samtvinni við Sigríði Önnu þar sem þau opinberuðu fákunnáttu sína og ofríki svipað þessu í fundarstjórn.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 3.12.2007 kl. 22:08

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt hjá þér Pétur enda var ég í nánu sambandi þetta haust við Ólaf, gamalgróinn vin okkar hjóna, Helgu og mín, frá því að þau voru í borgarstjórni.

20. desember 2001 mun þegar fram líða stundir fá á sig svipaðan stimpil og 7. desember 1941 í hugum Bandaríkjamanna sem Roosevelt forseti kallaði "day og infamy" ef ég man rétt.

En þó voru tvær hliðar á málinu í báðum tilfellum. Rétt eins og 7. desember 1941 var dagurinn þegar Bandaríkjamenn gripu til vopna var 20. desember 2001 dagurinn þegar Ólafur F. Magnússon gerðist svo djarfur að rísa af öllu afli gegn umhverfis- og orkustefnu Sjálfstæðisflokksins og þar með gegn sjálfum Davíð.

Það sýndist óðs mann æði til að byrja með en ellefu dögum síðar var Ólafur F. valinn maður ársins á Rás tvö og stóð að sigri F-lista óháðra og frjálslyndra í borgarstjórnarkosningunum vorið 2002.

Ómar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband