BJARNI VAR JÓLASVEINNINN Á ÍSLANDI

Í pistli mínum um það hvernig Finnar hefðu hirt af okkur jólasveininn og stórgrætt á því að á margvíslegan hátt, gat ég þess hvílík plága það þótti á fyrstu áratugunum eftir stríð að evrópsk börn stóðu í þeirri trú að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og sendu hingað bréf til hans í þúsundatali. Í stað þess að sjá möguleikana sem þetta gat gefið, leyfðu Íslendingar Rovaniemi í Finnlandi að færa sér það í nyt að auglýsa borgina sem heimkynni jólasveinsins. Nú hef ég fengið upplýsingar sem skýra kannski að einhverju leyti af hverju "jólasveinsplágunni" fór að slota upp hér úr 1970.

Hildur Bjarnadóttir fréttamaður, skólasystir mín úr MR, rifjaði það upp fyrir mér sem ég hafði gleymt þótt ég hefði vitað þetta á sínum tíma, að faðir hennar, Bjarni Guðmundsson blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sem var alveg einstaklega bóngóður maður, tók það að sér að svara þessum bréfum.

Hann gerði meira en það, keypti sér heilu pokana af einseyringum, en einn einseyringur samsvaraði líklega nokkrum krónum nú að verðgildi, - og sendi hverju barni til baka einseyring með bréfinu. Þetta gerði Bjarni á eigin kostnað allt fram til 1970 og borgaði úr eigin vasa.

Þegar þessu tímabili lauk voru einhverjir einseyringspokar eftir og barnabörn Bjarna léku sér að þeim að sögn Hildar.

Bjarni var einhver mesti hæfileika- og mannkostamaður sem ég hef kynnst og það var honum líkt að aumka sig yfir evrópsk börn, enda var hann ákaflega víðsýnn heimsborgari. Hann var um margt á undan samtíð sinni og kom ótrúlega víða við í menningarlíf okkar. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig hann hefði notið sín á okkar tímum þegar möguleikarnir eru meiri fyrir hæfileikamenn að hasla sér völl í henni veröld.

Bjarni var hafsjór af þekkingu og hafði annan skilning en tíðkaðist meðal samtímamanna. Sem einstaklingur reyndi hann að þjóna uppvaxandi kynslóðum nágrannalandanna.

Ég greindi frá því í bloggpistli hér á undan hvernig Japanir náðu tökum á bandaríska bílamarkaðnum með 20 ára söluáætlun sem fólst í því að selja fyrst fátækum háskólastúdentum litla og ódýra bíla, en bjóða þessu fólki sem síðar varð velmegandi menntafólk, smám saman dýrari og stærri bíla.

Ef við Íslendingar hefðum sem þjóð gert það sama og Bjarni Guðmundsson gerði, - að þjóna uppvaxandi kynslóðum í Evrópu, hefðum við ekki aðeins fengið jólasveininn og allar tekjurnar af honum á silfurfati, heldur einnig getað skapað þann draum í hjörtum þessara barna sem leiddi þau til Íslands jafnt sumar sem vetur þegar þau yrðu fullorðin og hefðu efni á því að láta æskudrauma sína rætast.

Dæmið er sláandi, sem ég nefndi í pistli mínum, um fátæka þýska bakpokastúdentinn sem amast var við um 1970 vegna þess að gæfi ekkert af sér hér, en kemur nú árlega hingað með nokkra tugi nemenda sinna.

Bara ef við hefðum nú haft vit á því að taka upp merki Bjarna Guðmundssonar með myndarlegu og sameinuðu átaki þegar hann féll frá.


mbl.is Náttúruverndarsamtökin fagna stefnumótun Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband