VELDUR TÆMING LÓNSINS ÓRÓANUM NÚ ?

Í fyrstu bloggpistlum mínum um skjálftana við Upptyppinga setti ég fram þá tilgátu að líklegt yrði að þegar tæming Hálslóns hæfist myndu skjálftar aukast og að létting vatnsfargsins á jarðskorpuna myndi verða líklegri til að valda eldgosi heldur en þynging. Vísaði ég þar í það að snögg létting á vatnsfargi hefði valdið gosum í Grímsvötnum og þess vegna kynni hætta á eldsumbrotum að verða meiri  þegar liði á veturinn, jafnvel þótt létting lónsins væri mun hægari en hraðasta þyngingin. Má minna á að létting ísaldarjökulsins var mjög hæg fyrir 11 þúsund árum en gosvirknin þrítugfaldaðist samt við það norðan Vatnajökuls. 

Nú hefur það gerst samtímis, að þegar vatn er tekið að renna úr lóninu niður í stöðvarhúsið í Fljótsdal og lónið að lækka og léttast kemur mikil skjálftahrina sem er nær Kárahnjúkum en áður var.

Það vekur athygli mína, þegar ég ber saman lónhæðina og skjálftana nú í haust með því að skoða tölur Veðurstofunnar og Landsvirkjunar, að þegar lónið var að nálgast fulla hæð í september til nóvember og því var haldið í svipaðri hæð á þessum tíma með því að hleypa vatni um botnrás og síðar yfirfall, var rólegt við Upptyppinga.

Þess vegna kemur skjálftahrinan nú mér ekki á óvart að öðru leyti en því að ég hélt að hún kæmi  kannski seinna. Hin vegar kemur mér það á óvart þegar haft er eftir sérfræðingi Veðurstofunnar í fréttum Stöðvar tvö í kvöld, að með þessari nýju skjálftahrinu sé kenningin um að fylgni þunga Hálslóns skjálftanna geti bent til orsakasambands þarna á milli, fokin út í veður og vind.

Eins og sést í nýrri athugasemd minni hér fyrir neðan frá klukkan 13:45 virðist ég hafa misskilið það sem haft var eftir sérfræðingnum. Það sem hann átti við var svipað og ég segi hér fyrir neðan, að þegar umbrotin aukast kemur að því að þau verða svo öflug að þau fara sínu fram án tillits til lónhreyfinga. Að því leyti vísar hann ekki á bug tilgátunni um að tilvist lónsins hafi komið óróanum af stað, samanber ummæli Páls Einarssonar í fréttum í október s.l.   

Ég er bara leikmaður og þegar ég benti fyrstur manna á hugsanlegt orsakasamband milli fyllingar og skjálfta ríkti þögn um það meðal vísindamanna. Síðan féllst sá virti jarðvísindamaður Páll Einarsson á að ekki væri hægt að útiloka það, enda fylgdust línurnar sem sýndu skjálfta og mismunandi hraða á hækkun lónsins svo kyrfilega að, að með ólíkindum var.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvort hæð lónsins og skjálftavirknin muni fylgjast að áfram. Hugsanlega verður uppstreymi kvikunnar sem hófst í sumar brátt orðið það mikið að hrinurnar byrja að fara eigin ferla eftir því sem nær dregur yfirborði.

Það verður líka spennandi að sjá hvað á eftir að "fjúka út í veður og vind" áður en upp er staðið.  

 


mbl.is Ekkert lát á jarðskjálftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sérkennilegt er, að sá fréttamaður sem hefur sýnt þessum kenningum langmestan áhuga, er dóttir þín. Skemmtileg tilviljun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.12.2007 kl. 02:36

2 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Sæll Ómar, þú hefur rétt fyrir þér :) já þú ert leikmaður - það er rétt.

Einar Ben Þorsteinsson, 11.12.2007 kl. 08:06

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Virnin byrjaði á það miklu dýpi, að engar líur eru til, að þyngdarmismunurinn (þrýstingur á fertommu) hafi haft nokkurt að gera með kvikuhreyfingarnar.

Þungi ísbriðunnar sem bráðð hefur norðar á hnettinum er miklu líklegri til að hafa áhrif hingað en örfáir lítrar af jökulvatni í smálóni uppi á Héraði.

 Stærðirnar eru bara ekki nægar og massinn er svo lítill, að hann reiknast tæpast með, þegar kvkuhryfingarnar eru svo djúpar, sem nú er raunin.

 Annars væri gaman að ímynda sér, að við hefðum svona ,,djúpstæð" áhrif á gossögu landsins okkar.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 11.12.2007 kl. 09:45

4 identicon

Nafni , þú ert alltaf jafn málefnalegur !

Gunnar  

Gunnar (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 11:49

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Af hvaða völdum sem óróinn er hefur Kjartan Pétur útbúið glæsilegt kort þar sem sjá má af mikilli nákvæmni hvar skjálftarnir eru. Hvet alla til að kíkja á kortið hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.12.2007 kl. 11:53

6 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Orðrétt sagði Páll í tíu-fréttum sjónvarps 22. október : "Hrinan fer af stað þegar Kárahnjúkalónið byrjar að fyllast og hún nær hámarki í sumar þegar vatnið reis hvað hraðast. Það meira að segja tók sér hlé virknin þegar hætti tímabundið að hækka í Kárahnjúkalóninu í maí."

Pétur Þorleifsson , 11.12.2007 kl. 12:00

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessir "nokkrir dropar" eru alls rúmlega 3000 milljónir tonna, sem Hálslón vegur, en það samsvarar rúmlega 200 Kárahnjúkastíflum. Þeir sem gera lítið úr þessum þunga og kalla hann nokkra dropga og gera lítið úr áhrifum þungans á þunna jarðskorpuna gera líka lítið úr Guðmundi heitnum Sigvaldasyni, fyrrum forstöðumanni Norrænu eldfjallastöðvarinnar og Páli Einarssyni, okkar helsta sérfræðingi í þessum málum.

Enda byggist öll þessi framkvæmd á því að nýta sér bestu fáanlega verkfræðiþekkingu sem fyrir hendi er en víkja til hliðar allri annarri þekkingu sem gæti valdið efasemdum um framkvæmdina.  

Við nánari athugun mína í dag kemur í ljós að ég hef að hluta til misskilið ummæli sérfræðingsins á Veðurstofunni um það að kenningin um fylgnina væri rokin út í veður og vind, heldur meinti hann það sama og ég, leikmaðurinn, set fram í pistlinum hér að ofan, að eftir að ferlið er komið af stað getur það endað með því að þegar það færist í aukana fari það að hegða sér algerlega sjálfstætt.

Ætla að breyta pistlinum í samræmi við þetta.  

Ómar Ragnarsson, 11.12.2007 kl. 13:37

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar, ég hef látið fréttastofu Sjónvarpsins hafa algeran forgang í aðgangi að myndum sem ég hef tekið og hverju eina sem geti nýst henni í þessum og öðrum málum þótt ég sé ekki lengur fastur starfsmaður Sjónvarpsins.

Fréttastofa Sjónvarpsins hefur því haft allt í hendi til þess að "skúbba" í þessu máli eins og það er kallað og ég hef verið og verð áfram reiðubúinn til að leggja fram öll gögn fyrst til hennar af öllum.

Hvað dóttur mína áhrærir þá getur hún lítið að því gert að vera eini fréttamaður Stöðvar tvö sem er staðkunnug á umbrotasvæðinu frá því að hún fór um það ásamt konu minni og börnum á sínum tíma.

Og enda þótt hún sé dóttir mín, þá nýtur fréttastofa Sjónvarpsins þess forgangs í aðgangi að mínu myndefni og gögnum sem ég ræddi um hér á undan.  

Ómar Ragnarsson, 11.12.2007 kl. 13:46

9 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þessi órói heima á Íslandi er meira að segja byrjaður að hafa áhrif hér í Danmörku. Þegar vatnið rann niður í stöðvarhúsið varð vatnslaust hér. Hvað er eiginlega að gerast? Getur ein hver gufað að mér skýring..... Nú er helvít s tö va  a  bil . Hva hef r nJ gerst h ima?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 11.12.2007 kl. 23:35

10 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Ómar, þú segir að lónið sé 3000 milljónir tonna. Hér segir að það sé tveir milljarðar kílóa, hér 2,4 milljarðar milljarða tonna og hér 2100 gígalítrar.  Ef að það er 2,4 rúmkílómetrar ættu þá gígalítrarnir ekki að vera 2400 ?

Pétur Þorleifsson , 12.12.2007 kl. 21:43

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Miðlunarrými lónsins er 2100 gígalítrar, þ. e. það vatn sem hægt er að nota við miðlunina með því að lækka og hækka í lóninu á milli ca 570 m. y. s. og 625 m. y. s. En fyrir neðan 570 m. hæðina er viðbótarvatnsmassi sem ekki er talinn með í tölunni 2100 gígalítrar. Neðsti botn lónsins er meira en 150 metrum neðar en lægsta staða lónsins getur orðið.

Talan 2100 gígalítrar er ekkert smáræði og á hverju ári verður fargið létt um þetta magn og þyngt um þetta magn.

Ómar Ragnarsson, 13.12.2007 kl. 21:34

12 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Áttu neðri mörkin ekki að vera við 550 m.y.s.  ?  Fer kannski yfirleitt ekki neðar en að 570.

Pétur Þorleifsson , 13.12.2007 kl. 22:28

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Frá upphafi þessarar framkvæmdar hef ég séð mismunandi mörk nefnd. Fyrst var talað um 70 metra hámarkssveiflu, þ. e. frá 555m upp í 625, en síðar hef ég séð 50 metra mörk nefnd, þ. e. frá 575 upp í 625.

Í góðum vatnsárum verður sveiflan að sjálfsögðu minni en við skoðun á svipuðum stíflum í Ameríku kom í ljós að hraði sveiflunnar þarna verður tífalt meiri en vestra. 

Ómar Ragnarsson, 14.12.2007 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband