VIÐ HVERJA ÆTLA MENN AÐ KEPPA?

Merkilegt er hvað við Íslendingar gerum lítið í því að læra af mistökum annarra þjóða. Dæmi um það er tilhneigingin til að gera gamla miðbæinn í Reykjavík að eftirmynd af miðborg Stokkhólms og ótal fleiri borga þar sem menn dauðsjá eftir því að hafa gengið allt of langt í því rífa hin gömlu, vinalegu hús, og reisa gler- og steinsteypuhallir í staðinn. Ef menn ætla að keppa við krossgötur og þungamiðju höfuðborgarsvæðisins sem er á svæðinu Elliðavogur-Árthúnshöfði-Mjódd-Smárinn á þann hátt að ná til sín fólki á sömu forsendum, þá er það tapað stríð. Krossgötur og þungamiðja byggðar hafa ævinlega forskot. 

Ísland er vindasamasta land Evrópu með kaldasta sumarið og hinar yfirbyggðu verslunarmiðstöðvar njóta þess. Ætla menn að keppa við Smáralind og Kringlu með því að gera miðbæinn sem líkastan þeim en þó ekki undir einu heildarþaki? Eða stefna menn enn hærra og vilja keppa við Oxford Street eða Fimmtu tröð? 

Um alla Evrópu harma menn að hafa gert miðborgir að samansafni kuldalegra stein- og glerkastala. Prag er hins vegar auglýst sem minnst breytta höfuðborgin í mið-og norðanverðri Evrópu og nýtur góðs af því, - hefur þótt vera með einstaklega heillegan svip af því að hinu gamla var ekki rutt skefjalaust í burtu.

Síðustu misseri hef ég uppgötvað Laugaveginn sem ágætis hraðgöngu og skokkleið í rigningu og sudda, vegna þess að í suðlægum áttum er skjól meðfram húsunum við norðanverða götuna. Þegar ég fer upp Laugaveginn hef ég orðið var við hvað götunni hefur þegar verið breytt mikið, - svo mikið að maður þekkir götuna varla lengur og er ekki viss um hvað maður er kominn langt.

Þetta hef ég til merkis um hvað er að gerast og að ef þessu verður haldið svona áfram mun gatan missa sinn gamla, vinalega og sjarmerandi svip, sem er einmitt það sem er og hefur verið aðalsmerki hennar og eina leiðin til að laða þangað fólk sem vill vera í manneskjulegu umhverfi.

"Það á ekki að vera að halda í þessi kofaskrifli og ónýta hjalla" er sagt. Jú, þetta var líka sagt þegar litlu munaði að Bernhöftstorfan yrði rifin og þar með eyðilögð húsalínan frá Íþöku norður að Stjórnarráðshúsinu.

Það er þegar búið að raska mörgum húsalínum og það sem til stendur að rífa er ekkert ónýtara en Bernhöftstorfan var. Við erum ekki að tala um nokkra fúahjalla, það er verið að tala um hundrað hús.

Það er alveg hugsanlegt að taka hluta af þessu miðborgarsvæði og reisa þar verslunarmiðstöð sem reynir að keppa við Kringluna og Smáralind. En með því að rústa heildarsvip svæðisins með skefjalausu niðurrifi er tekið af því það eina sem veitir því einu sérstöðuna sem það getur haft: Hlýleg, aðlaðandi og manneskjuleg byggð sem dregur að sér ferðafólk og borgarbúa vegna þess að hún á engan keppinaut. 

Að lokum eitt einfalt atriði. Sólin er lægra á lofti á sumrin í Reykjavík en nokkurri annarri höfuðborg í heimi. Því hærri sem húsin eru, því verr gengur geislunum að komast ofan í götuna og ylja upp mannlífið í landi kaldasta sumars Evrópu. 


mbl.is Rætt um niðurrif í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ömurleg þróun. Meira en 100 hús er allsvakaleg tala. Ég geng ekki svo langt að segja að það megi ekki taka e-ð smá af þeim, þekki ekki öll tilvik, en þetta hljómar virkilega allt of mikið. Ég kom f. svona mánuði við í Kaffi Hljómalind v. Laugaveginn (sem á að rífa held ég líka) og þar var plakat með myndum af helstu húsunum sem á að rífa (man ekki hver stóð f. því, kannski Torfusamtökin) , ég varð hvumsa stundum þegar ég var að fara yfir myndirnar, hugsaði stundum "nei hvur þremillinn ætla þeir virkilega að rífa þetta hús".

Það er minni peningur í gömlum húsum skv. nútímanum, þau eru ekki bisnissvæn. Bisnissvæn hús má hins vegar sjá við Borgartúnið, einföld ferköntuð háhýsi með mikið af bílastæðum. Mér finnst margur slíkur nútíma-arkitektúr leiðinlegur (hverfi líkt og Grafarholtið mætti líka nefna í því tilviki) , það er ekkert verið að leika sér með form eins og í gamla daga. Afleiðingin verður ekki góð á fegurðarskyn mitt. Að skipta út gömlum húsum f. steingeldan arkitektúr nútímans er líkt og að skipta út venjulegri konu með fagrar ávalar línur fyrir ferkantaða konu. Ég hef aldrei hrifist af ferköntuðum konum.

Ari (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 04:04

2 identicon

Mér finnst alltaf jafn ótrúlegt þegar ég er á leið í og úr vinnu að hér á öllu Íslandi búi bara 350.000 manns. Ég þekki ekki mjög vel til í öðrum skandinavískum löndum, en þar sem ég hef búið í Evrópu hef ég umborið ástandið vegna þess að 350.000 manns á sömu leið og ég vilja komast heim úr vinnu kl. 5.

Mér finnast húsin sem verið er að ræða um ekki vera vinaleg eða verndarverð, en ég er sammála þér um að það sem er verið að byggja á Íslandi í dag er kalt og alls ekki það sem á eftir að skilja eitthvað eftir sig fyrir næstu kynslóðir. Sennilega rífa þær líka það sem okkur finnast vera alveg nothæf hús og byggja það sem þeim sýnist vera betra í staðinn.

Kristbjörg (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 04:16

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég hef oft komið með erlenda vini og kunningja til Íslands á undanförnum árum. Það er ótrúlegt hvað augu manns opnast við að hlusta á þetta fólk.

Eitt af því sem kom mér á óvart var að fólki finnst Reykjavík ekki vera falleg borg. Þetta hafði mér aldrei dottið í hug, enda uppalinn í henni og þar með alveg laus við gestsaugað glögga. Margir segja að hún sé beinlínis ljót. Þegar ég spyr út í hvað er að henni, fæ ég yfirleitt sama svarið. Húsin eru svo ferköntuð og óspennandi. Voðalega sálarlaust. Þetta gildir um flest hverfi borgarinnar. Miðbærinn er undantekning. Hann er leifar fallegs þorps og það skín í gegn. Laugavegurinn hefur þótt skemmtilegur, þótt hann sé að missa sjarmann. Þingholtin eru vinsælust, gömlu húsin úr alfaraleið sem enginn hefur nennt að rífa eða breyta.

Það er sorglegt ef á að "nútímavæða" einu hverfi borgarinnar sem útlendingum þykja falleg. Ef við gleymum okkur í "kúlinu" því við erum svo æðisleg núorðið, er hætt við því að við gleymum okkar menningararfi, gleymum hvaðan við komum, búum til ómanneskjulegra samfélag og völdum ferðamönnum vonbrigðum.

Ég er ekki að mæla með því að miðbærinn verði gerður að einhvers konar Árbæjarsafni, en 100 hús í ekki stærri miðbæ hljómar eins og sálarmorð á borginni. 

Svo væri gaman að sjá veggspjaldið sem Ari minnist á að ofan. Er það til á netinu? 

Villi Asgeirsson, 19.12.2007 kl. 06:55

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mér þykir það leitt að hrella kofaverndarkórinn en mér finnst rétt að benda á að flestir sem vilja að aðrir verndi gömul hús dytti sjálfum aldrei í hug að búa í slíkum kumböldum og eldgildrum.

Fortíðarhyggja sem nær svona skammt er mér einnig umhugsunarefni. Þessi hús hafa ekki staðið þarna flest nema í u.þ.b. eina öld og mér finnst það einkennileg tilfinningasemi að þau megi ekki hverfa. Það er búið að margbreyta þeim og varla fjöl í þeim lengur frá upphaflegum byggingartíma. Auk þess eru þessi hús forljót og illa við haldin. Alvöru fortíðarhyggja væri t.d. sú að krefjast þess að þúfurnar sem þarna stóðu í hundruð eða þúsundir ára fái að birtast aftur (segi bara svona!). Einhver hér mætti svara mér því hvort hér sé á ferðinni eitthvert óþol fyrir breytingum á umhverfi?

Ég segi fyrir mína parta. Leyfum þeim sem eiga þessi hús að gera það sem þeir vilja innan þeirra marka sem nágrennið leyfir og tilbær yfirvöld.

Mér hefur alla tíð fundið miðbærinn herfilega ljótur ef frá er talin ásýnd Austurvallar með Alþingishúsið, Hótel Borg, Dómkirkjuna og Reykjavíkurapótek sem helstu kennileiti sem og örfá önnur hús eins og Stjórnarráðið, Menntaskólann, Þjóðmenningarhúsið, hús Eimskipafélagsins, Iðnó og Þjóðleikhúsið. Síðan má halda upp á gamla Fógetann í Austurstræti sem er, held ég, elsta hús borgarinnar.

Að öðru leyti mætti taka þrívíddarmyndir af restinni og farga ef eigendur þess svo kjósa.

Haukur Nikulásson, 19.12.2007 kl. 10:28

5 Smámynd: Sturla Snorrason

Það er með ólíkindum hvað borgin getur verið á miklum villigötum með sitt aðalskipulag og fólk hefur ekki hugmynd um alla þessa jarðganga vitleysu til að leysa umferðarvandan í gamla bænum. Borgin þarf nýtt aðalskipulag og gamlibærinn nýtt deiliskipulag til að flauta þessa niðurbrots stefnu af.

Byggð við Elliðarásósa er besta lausnin fyrir borgina. 

Sturla Snorrason, 19.12.2007 kl. 11:27

6 Smámynd: Ívar Jón Arnarson

Það er nú þannig í lögum að ekki má hrófla við húsum eða innviðum þeirra sé húsið byggt fyrir 1918, fyrr en húsfriðunarnefnd hefur farið yfir málið og úrskurðað um það.

Persónulega finnst mér að það mætti endurskoða þessi lög í þá átt að gera þau enn strangari, skoða jafnvel mun yngri hús í þessu sambandi.

Ívar Jón Arnarson, 19.12.2007 kl. 11:29

7 identicon

Villi, ég fann þetta.

plakatið sem ég sá: http://torfusamtokin.blog.is/users/82/torfusamtokin/files/torfu_baeklingur_2791.jpg

Hér er bæklingurinn (sem ég get reyndar sjálfur ekki opnað núna)http://torfusamtokin.blog.is/users/82/torfusamtokin/files/torfu_baeklingur_2790.pdf

p.s. Hvað finnst Hauki Nikulásarsyni vera fallegt ef honum finnst yfirgnæfandi meirihluti miðbæjarins vera herfilega ljótur spyr ég nú bara. Annars bý ég nú í einum kofa frá 1894. 

Ari (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 14:02

8 Smámynd: Sigurður Hrellir

Haukur Nikulásson er örlátur maður að deila visku sinni með okkur hinum misvitrum. Hann býr að sjálfsögðu ekki í miðbænum enda finnst honum hann herfilega ljótur svona víðast hvar. Hann stingur upp á því að gerðar verði þrívíddarmyndir af gömlu húsunum og þeim svo fargað.

Gallinn er bara sá að Haukur lifir enn á 20. öldinni. Hann virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því að það telst mjög eftirsóknarvert að búa í gömlu timburhúsunum. Mörg þeirra hafa verið gerð upp á smekklegan hátt með ærinni fyrirhöfn og eru borginni til sóma. Án þeirra væri borgin bæði karakterlaus og ósjarmerandi.  

Það er undarlegur misskilningur að "kofaverndunarkórinn" kjósi fremur að búa annars staðar en í húsunum sem þeir vilja vernda. Þetta eru svipuð rök og að segja að náttúruverndarsinnar hangi sífellt á kaffihúsum og fari aldrei út fyrir 101.

Vandamálið er að svokallaðir "athafnamenn" kaupa upp mörg gömul hús og láta þau vísvitandi fara í niðurníðslu. Þannig er auðvelt að sannfæra fólk eins og Hauk um að þau séu einskis virði og best sé að farga þeim til að byggja önnur í staðinn og nýta plássið í leiðinni.

Það þarf einfaldlega að setja reglur um þessi hús og skylda eigendur þeirra til að sjá sómasamlega um þau. Það er hagur okkar allra að eiga fallegan miðbæ.

Getur ekki einhver vakið hann Hauk?

Sigurður Hrellir, 20.12.2007 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband