30.12.2007 | 18:29
JÖKLAFERÐ ER EKKI ÞAÐ SAMA OG JÖKLAFERÐ.
Ýmsar spurningar vakna við fréttirnar af björgunarleiðangri upp á Langjökul til að bjarga tepptum jöklaförum og verst er ef þessar fréttir verða til þess að fólk álykti sem svo að ekki sé hægt að fara í jöklaferðir í slæmu veðri. Veldur þar hver á heldur. Vísa í næsta bloggpistil á undan þessum um þetta efni.
Að ná til ferðalanganna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Thad vaeri nu i lagi ad skilja bornin eftir heima ad minu aliti.
Ásta Björk Solis, 30.12.2007 kl. 20:41
Skyldu þeir kaupa svona eins og eina rakettu af björgunarsveitunum þegar í bæinn er komið...eitthvað kostar ævintýrið hjálparsveitirnar.
Að vera með börn í ferðinni , veðurspáin alveg ljós fyrir nokkrum dögum og kunnáttan til svona ferða virðist í lágmarki--er nokkur önnur önnur umsögn um ráðslagið en -Vítavert ábyrgðarleysi.. ?
Sævar Helgason, 30.12.2007 kl. 21:00
Úr sófanum heima virðist ferð á jökul vera hið mesta glapræði, gönguferð uppi í utan þéttbýlisins lítur jafnvel út fyrir að vera hin mesta heimska þegar hreyfir vind.
Fólkið sem lenti í hrakningunum á Langjökli kunni til verka. Það nam staðar þegar veðrið versnaði, stefndi bílunum upp í vindinn, safnaðist saman í nokkra bíla og síðast en ekki síst, það gat komið skilaboðum til byggða. Fáir hafa bent á þessar staðreyndir.
Eilíft svartsýnisraus Ómars Ragnarsson og annarra af hans tagi hefur orðið til þess að fjölmargir fjallamenn kalla ekki á aðstoð björgunarsveita, ekki einu sinni þó allar bjargir virðast bannaðar. Menn treysta sér einfaldlega ekki til að lenda í strigakjöftum sófaliðsins og fjölmiðla sem verðleggja hvert einasta útkall björgunarsveita.
Sá sem lendir í þeirri ÓGÆFU að þurfa á aðstoð björgunarsveitar verður fyrir vikið stórskuldugur maður í augum fjölmiðla. Hvurn fjandann var hann að flækjast um fjöllin, sá hann ekki veðurspána?
Menn þurfa að varast þessa eftirábundnu gagnrýni. Eflaust á hún oft rétt á sér en sá sem lendir í svona aðstæðum gerir sér miklu betur grein fyrir þeim heldur en flestir aðrir. Hann lærir. En það sem Ómar veit ekki er að eftir áratuga gagnrýni hans og annarra fjölmiðlamanna á ferðamenn sem heimtir eru úr vanda á fjöllum hugsa fjölmargir fjallamenn, þeirra á meðal ég, sig að minnsta kosti tvisvar um áður en þeir kalla aftur á aðstoð hjálparsveita.
Þetta viðhorf er auðvitað stórhættulegt, ég viðurkenni það. Rökin eru þau að menn vilja einfaldlega komast hjá því að koma heim með þann stimpil á rassinum að þeir hafi ekki komist hjálparlaust úr þeim vanda sem skapaðist, hvort sem hann var þeim sjálfum að kenna eða tilviljunarkenndum aðstæðum. Ómar Ragnarsson ber stóra sök á þessu viðhorfi!
Hversu oft hefur ekki mátt ekki lesa í fjölmiðlum um þann fjölda björgunarsveitarmanna sem leitaði að einhverju fólki og hversu lengi, hvað margir bílar voru notaðir, vélsleðar og hundar. Allt þetta kostaði kannski fimmhundruð þúsund kall á hvern þeirra sem leitað var að. Skipta krónur og aurar einhverju í þessu sambandi.
Þegar öllu er á botnin hvolft er líklega einfaldast að koma dauður heim, að minnsta kosti minnist ég þess ekki að sófaliðið rísi upp á afturlappirnar og gagnrýni þann dauða fyrir að hafa ekki kunnað til verka eða hafa ekki fylgst með veðurspánni.
sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 22:38
Sá sem talar um svartsýnisraus mitt hefur greinilega ekki lesið bloggpistilinn hér fyrir neðan þar sem ég greini einfaldlega frá því að það er hægt að vera í ferð á jöklum í hvaða veðri sem er ef rétt er að staðið. Það myndu sumir frekar kalla bjartsýnisraus en svartsýnisraus.
Ómar Ragnarsson, 30.12.2007 kl. 22:51
Sá sem talar um svartsýnisraus mitt hefur greinilega ekki lesið bloggpistilinn hér fyrir neðan þar sem ég greini einfaldlega frá því að það er hægt að vera í ferð á jöklum í hvaða veðri sem er ef rétt er að staðið. Það myndu sumir frekar kalla bjartsýnisraus en svartsýnisraus.
Mér myndi aldrei detta í hug að hvetja nokkurn mann til að kalla ekki á hjálp ef hann er hjálpar þurfi. En best er auðvitað ef ekki er farið þannig að hlutunum að beinlínis er stefnt að því að það þurfi björgunarleiðangur til að greiða úr vandanum.
Ég hefði ekkert haft við það að athuga ef fólkið á Langjökli hefði planlagt það fyrirfram að dveljast á jöklinum þar til veður leyfði að fara niður af honum, - hefði haft með sér nægar vistir og eldsneyti til þess.
Ómar Ragnarsson, 30.12.2007 kl. 22:54
Ég hef aldrei farið á fjöll í þeim tilgangi að ferðast með björgunarsveit til baka. Og ég veit ekki til þess að nokkur maður iðki þann leik. Hins vegar þekki ég fjölda fólks sem hefur heitið því að kalla aldrei á björgunarsveit lendi það í vanda á fjöllum. Ég er enn þeirra.
Hvers skyldi nú ástæðan vera? Það sem meira er, hvaða afleiðingar hafa svona viðhorf?
Við félagarnir lentum einu sinni í þeirri ÓGÆFU að þurfa að kalla á björgunarsveit til aðstoðar. Sem betur fer reyndist ótti okkar ástæðulaus. Hver skyldi nú hafa þurft að tjá sig um útkallið þessa nótt á Fimmvörðuhálsi? Jú, Ómar Ragnarsson heitir maðurinn og það var ekki í fyrsta sinn og ekki heldur í það síðasta sem hann hefur þurft að skamma ferðalanga. Fleiri en Ómar í stétt fjölmiðlamanna hafa fundið þessa knýjandi þörf til að hnýta í ferðmann sem „heimtir eru úr helju“.
Afleiðingin af uppsláttum fjölmiðla hefur ekki orðið til þess að menn ferðast með meiri gætni en áður. Nei, þá staðreynd má þakka allt öðrum en fjölmiðlum. Afleiðing þessarar eftirábundnu gagnrýni og aðfinnslum er að fjallamenn telja það nú meiri háttar ávirðingu að þurfa að kalla á björgunarsveit sér til aðstoðar.
Þetta er aðalatriðið í athugasemdum mínum við bloggið hans Ómars. Mér þykir leitt ef hann skilur mig ekki, biðst afsökunar á því að vera svona óskýr í framsögn.
Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 23:25
Ég verð nú að taka upp hanskan fyrir Ómar í þessu tilfelli, vegna árása Sigurðar. Það sem Ómar er að segja í þessum pistli og pistlinum á undan, er alveg rétt, þ.e. að ekkert að því að fólk sé að þvælast þetta í hvaða veðri sem er ef það gerir ráðstafanir í upphafi ferðar, að það geti þurft að hafast við jafnvel dögum saman í óveðri, þannig að ekki væsi um það. En að fólk ani af stað með börn í svona óvissuferðir og kalli svo á aðstoð af því það kemst ekki lengra, er ábyrgðarleysi. Fólk lætur fyrirberst í svona veðrum af því það er oftast hættulaust, ef réttur útbúnaður er með í för. Að þurfa að leita að því er hins vegar ekki hættulasut. Fyrirhyggjuleysi þess setur björgunarmenn í hættu og slíkt á að fordæma.
Og þessi ummæli Sigurðar: "Hins vegar þekki ég fjölda fólks sem hefur heitið því að kalla aldrei á björgunarsveit lendi það í vanda á fjöllum. Ég er enn þeirra". - segir mér að hann hafi ekki dómgreind til þess að stunda fjallaferðir.
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.12.2007 kl. 01:25
Athugasemdir Gunnars Th. Gunnarssonar snerta ekki því miður ekki kjarna málsins, en hann hefur áreiðanlega rétt fyrir sér um dómgreind mína.
sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 01:56
Kjarni málsins Sigurður er umfjöllun Ómars um þetta tiltekna mál í dag og gagnrýni þín á hana , ekki einhver illska í þér út af einhverju gömlu máli.
Ómar segir í fyrri pistli sínum:
"Ferðin á Langjökul nú var hins vegar greinilega ekki í þessum gæðaflokki fyrst það þurfti að kalla út björgunarsveitir og lýsa því yfir í lok erfiðs björgunarleiðangurs að fólkið væri því mjög fegið að hafa verið bjargað. Mér skilst að meðal fólksins hafi meira að segja verið börn".
Hver er kjarninn í þínum málflutningi Sigurður?
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.12.2007 kl. 02:18
Við vitum öll sem eitt að veðrið getur orðið ansi slæmt á Ísland og ég tala nú ekki um á þessum árstíma. Við fáum líka veðurspár marga daga fram í tímann og getum þess vegna fylgst vel með þess vegna.Mér finnst það vítavert gáleysi að taka börn með í svona ferðalög þegar allra veðra er von,að vera að þvælast með þau með sér uppá fjöll.Skítt með ykkur sem elskið að ögra ykkur sjálfum og fáið svona mikið út úr því að þvælast á fjöllum og það í veðri sem var spáð að yrði kolbandbrjálað fyrir 5 dögum eins og í þessu tilfelli.
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 31.12.2007 kl. 09:48
Kjarninn í gagnrýninni á þetta ferðalag er að börn skuli hafa verið með í ferðinni - ferð sem átti að standa frá morgni til kvölds og í alveg einsýnu veðurútliti- mjög slæmu.
Kannski hefur sú staðreynd að börn voru með í för valdið því að óskað var aðstoðar.
Ég tek mikið mark á Sigurði Sigurðarsyni sem tjáir sig hér að framan , en hann er sennilega einn reyndasti fjallamaður hér á landi til áratuga ,við allskonar aðstæður.
Sjálfur hef ég lent í þeim aðstæðum á fjöllum að ekki var annað forsvaranlegt en að leita eftir aðstoð björgunasveitar.. áður en til þess kom að óska aðstoðar var farið mjög vandlega yfir stöðu mála. Í þessu tilviki var um skíðahóp að ræða og veður og færð hafði spillst mjög í ferðinni og ferðatími margfaldast frá því sem áætlað var, ofþreyta og ofkæling hjá hluta hópsins orðin mjög varhugaverð og fjalllendið sem fara átti niður ófært vegna ísingar, en stutt var til byggða. NMT sími og GPS tæki voru með í för og því lítið mál að ræða allar aðstæður við björgunarsveitina um ástand og staðsetningu. Allt fékk þetta farsælan endi , en án aðstoðar hefði þarna getað orðið mikið slys. Og auðvitað fengum við harða gagnrýni , svona eftirá, á þetta ferðalag okkar um hávetur í varhugaverðu veðurútliti...þó nú væri. Það varð bara að taka því.
Auðvitað hafði ég samviskubit vegna þess umstangs , kostnaðar og alls þess erfiðis sem björgunarsveitin fórnaði í okkar þágu sem vorum þarna uppi á fjöllum í mikilli hættu stödd a.m.k sum okkar. Það er alveg gríðarlega mikilvægu hlutverki sem allt þetta fólk sem í björgunasveitunum starfar, gegnir ...
Og nú er aðal fjáröflunartími alls þessa mikilvæga starfs ...látum björgunarsveitirnar njóta flugeldakaupa okkar. Þú getur fyrr en varir þurft þeirra aðstoðar með.
Sævar Helgason, 31.12.2007 kl. 10:01
Best að spara stóru orðin. Auðvitað þarf að fylgjast með veðurspám en það er auðveldara að sitja heima í stofu og gagnrýna þá sem þurftu á aðstoð að halda heldur en að lenda í þessu. Ég og þrír aðrir fórum í fyrravetur á tveimur jeppum í vitlausu veðri á Vatnajökul að leita að göngumönnum (vorum 3 daga og fundum þá sem betur fer), vorum í sambandi við björgunarsveitir og þeir voru tilbúnir ef á þyrfti að halda en til þess kom ekki en það var mjög gott að vita af þeim tilbúnum í slaginn. Það geta nefnilega líka komið upp vandræði hjá vönum mönnum.
Hjálmtýr Guðmundsson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 11:34
Var um skemmtiferð að ræða eða var hún nauðsynleg hjá þeim sem fóru á Langjökul.Ég var að hugsa um að fara í Borgarfjörðinn ( úr Rvík ) í kvöld til að fagna nýju ári með syni mínum sem býr þar ásamt fjölskyldu. EN það spáir STORMI þannig að ég fer ekki. Afhverju fer ég ekki,getur einhver svarað því ?
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 31.12.2007 kl. 12:11
Aðeins tvisvar sinnum á þessu ári hefur verið spáð fárviðri af verstu gerð, - fyrr í þessum mánuði og síðan fyrir gærdaginn. Spáin fyrir gærdaginn var mjög nákvæm og kom snemma fram. Almannavarnarnefndir voru kallaðar saman fyrirfram, sem er sjaldgæft, og allt gert sem hugsanlegt var til að vara okkur við því sem talið var að yrði vesta óveður ársins.
Þetta er kjarni málsins. Auðvitað getur veður alltaf orðið verra en spáð var og skollið fyrr á en slíku var ekki að dreifa í þetta sinn. Allir fjölmiðlar landsins lögðust á eitt við að upplýsa um komandi óveðri sem reyndist síðan alveg nákvæmlega eins og spáð var.
Síðasta ár bauð upp á 363 daga til að ferðast um jöklana í skárra veðri en var í gær. Einkennilegt er ef ekki má minnast á möguleikana á því að læra af reynslunni en það er ekki hægt nema að minnast á það sem úrskeiðis fór.
Ómar Ragnarsson, 31.12.2007 kl. 12:20
Það var nú aldeilis ekki stoltið sem skein úr ásjónu ferðalangsins er talað var við hann í fréttatímanum í gærkvöld. Helst hefði hann viljað fela sig í skugga fréttamannsins.Það skil ég mæta vel. (ég hefð skammast mín fyrir svon kjánaskap)
Aldrei hefur verið auðveldara að fylgjast með veðurútliti eins og nú. Fjölmiðlar keppast við að mata okkur á uoolýsingum. Auk þess eru flestir netvæddir í dag og nokkrir veðurvefir spá veðri fram í tímann liggur við klukkustund fyrir klukkustund svo auðvelt er að gera plön og áætla hvort ævintýraferðin verður svaðilför með ófyrirsjáanlegum endi eða hamingjusöm FJÖLSKYLDUFERÐ.
í dag er ekkert sem segir að veðrið skall á með ófyrirsjáanlegum hætti nema við afneitum fréttafluttniningi og veðurspám og teljum okkur æðri en náttúruöflin.
Jóhanna Garðarsdóttir, 31.12.2007 kl. 12:48
Svo er annað innlegg í þessa umræðu sem er ef til vill ekki beint í kjarna umræðunar.
Hvernig væri að við gætum hakað við björgunartryggingu á skattaskýrslunni okkar í stað heimilistryggingar (eða hvor tveggja) Þar kæmi auka fjármagn sem gengi beint til björgunarsveita landsins. Flugeldasamkeppnin er greinilega að harna á markaðnum og ekki hægt að hringja í hvaða flugeldasala sem er í neyð.
Jóhanna Garðarsdóttir, 31.12.2007 kl. 12:54
Ómar
Jeg ønsker deg og din familie et godt nyttår.
Takk for alle artiklene på blogget og andre steder og fordi du har åpnet øynene på mange.
Med hilsen, Heidi
Heidi Strand, 31.12.2007 kl. 15:28
Ástæðan fyrir því að fjöldi fólks kallar ekki á aðstoð björgunarsveita er einfaldlega vegna neikvæðrar umfjöllunar fjölmiðlamanna. Ég á enga harma að hefna gagnvart Ómari Ragnarsyni, ber svo mikla virðingu fyrir honum að ég les bloggið hans reglulega. Bið svo Henry Bæringsson vinsamlegast að lesa athugasemdir mínar aftur sem og þess sem skrifar undir nafninu „Hrifla“. Læt svo lokið umfjöllum um þetta mál á þessum vettvangi.
Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 16:47
Kæru bloggvinir. Legg til að við sláum botninn í þetta jöklaferðaspjall og einbeitum okkur að því að því jákvæða, að halda gleði hátt á loft í kvöld og á morgun og hugsa hlýlega til hvers annars. Gleðilegt ár.
Ómar Ragnarsson, 31.12.2007 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.