AÐ FORÐAST ÞAÐ ÓHJÁKVÆMILEGA.

Það þarf ekki annað en að líta á kort af Seltjarnarnesinu öllu, þ. e. byggðinni vestan Elliðaáa, til að sjá að það hlýtur að koma að því að svæðið fyrir utan Reykjavík á nesinu verði fullbyggt. Þetta svæði Seltjarnarnesbæjar er svo lítið miðað við annað hugsanlegt byggingarland á höfuðborgarsvæðinu að þetta er ekki spurningin um hvort, heldur hvenær. Í þjóðfélagi þar sem óendanlegur vöxtur og hagvöxtur eru orðin trúarsetning er þetta skiljanlega nokkuð sem bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi virðast ekki geta sætt sig við.

Ég hef áður sagt frá íslenskum ráðamanni sem sagði við mig fyrir áratug: Reynslan sýnir að ef ekki er haldið áfram viðstöðulaust að virkja kemur kreppa og atvinnuleysi. Og þegar ég spurði hann á móti hvað ætti að gera þegar allt virkjanlegt hefði verið virkjað svaraði hann: Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður í landinu.

Og þá vaknaði ný spurning: Úr því að óhjákvæmilega kemur að þessu, hvers vegna eigum við að velta þessu viðfangsefni yfir á afkomendur okkar? Myndu þeir ekki verða okkur þakklát ef við fyndum sjálf lausnina á afleiðingum gerða okkar? Og er það ekki réttlátar en að velta því yfir á næstu kynslóðir?

Það getur ekki verið langt í það að endimörkum byggðarvaxtar í Seltjarnarnesbæ verði náð. Hvernig væri nú að Seltirningar gerðu afkomendum okkar allra þann greiða að finna lausn á því ástandi sem skapast þegar ekki verður lengur hægt að feta sömu braut og farin hefur verið?

Hvernnig væri að fundin væri leið til nauðsynlegrar endurnýjunar og kynslóðaskipta í þessu bæjarfélagi sem byggist ekki aðeins á því að reisa ný og ný hús?

Það er augljóslega stutt í það hvort eð er að byggingarland bæjarfélagsins verði fullnýtt. Nema að menn ætli sér að umbreyta bænum úr friðsælu og umhverfisvænu byggðarlagi í byggð sem smám saman missir þann svip og það aðdráttarafl, sem svona byggð hefur, - breyta henni í byggð hárra skýjakljúfa í stíl við það sem er við Skúlagötu í Reykjavík. 

En jafnvel þótt stefnt verði inn á þá braut verður endapunkturinn augljóslega hinn sami vegna takmarkaðs byggingarlands og þá munu orð ráðamannsins rætast: "Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi  að leysa úr vandamálinu. Vandanum velt yfir á afkomendurna í stað þess að leysa hann strax.  


mbl.is Óttast umhverfisslys við Nesstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Ómar.

Ég fékk í fyrirtækið til mín málgagn VG í Kópavogi e-n tímann fyrir jól. Aldrei þessu vant var þar heillöng áhugaverð grein sem kom stjórnmálunum ekkert við - hressandi og óvenjulegt miðað við svona málgögn.

Þessi grein var semsagt um upphaf Kópavogshrepps og svo Kópavogsbæjar.  Umfjöllun um "kofafólkið" í Kópavogi sem var hluti af Seltjarnarneshreppi. Ég er greinilega allt of ungur - hafði ekki hugmynd um þetta.  En allavega, í ljósi þess að Seltirningar gáfu frá sér allt þetta rosalega byggingaland á 5. áratugnum (eða hvenær sem það var nú aftur) og geymdu ekki nema þessa litlu totu handa sjálfum sér, er orðið frekar pínlegt að þeir séu búnir að klára allt byggingarland af viti, en Kópavogur byggir sem aldrei fyrr (og náttúrulega allt of mikið, en það er önnur saga).

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 12:17

2 identicon

Það má alveg bæta nokkrum húsum þarna í stað fyrirtækjanna við Bygggarða, 100 manns í staðinn f. 600 manna byggð er mun raunhæfara. Þessi tillaga gengur allt of langt. Þá ertu að minnka lífsgæði íbúanna sem fyrir eru. Dettur mönnum ekki í hug að það sé ástæða f. því að fólk vilji búa á þeim stað þar sem það velur sér.  

  Ég væri ennfremur til í að fjarlægja þennan golfvöll og hafa svæðið þar eingöngu að göngu og útivistarsvæði, mér finnst ekki taka því að hafa hann þarna, hann er svo lítill. Ég man þegar hann var minni og það var hægt að njóta fuglalífsins þarna betur, en svo var hann stækkaður til muna og krían fór að mestu.

Ari (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 18:52

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Krían er uppáhalds fuglinn minn, langfleygastur og þó jafnframt liprastur, minnir á Mustang-vélarnar í lok heimsstyrjaldarinnar hvað snertir langflugið eða Mitsubishi Zero eða Lavochkin La-2 sem voru liprustu orrustuvélar stríðsins.

Mér skilst að krían eigi í vök að verjast víða og hef ekki á móti því að hugað sé að kjörum hennar.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband