DAVÍÐ ODDSSON SEXTUGUR.

Einn allra merkasti, litríkasti og áhrifamesti stjórnmálamaður í sögu íslenska lýðveldisins er sextugur í dag og honum eru fluttar árnaðaróskir.  Í fjölmennu afmælisteiti í ráðhúsinu í dag fór afmælisbarnið hreint á kostum í þau skipti sem það tók til máls og reif upp stemninguna. Svo skemmtilega vill til að þegar ég var að grauta í gömlum blöðum í tilefni af 50 ára afmæli mínu í skemmtikraftabransanum, sem verður í lok þessa árs, fann ég vísur um Davíð á einum af landsfundum Sjálfstæðisflokksins á tíunda áratugnum. Allir í salnum tóku undir viðlagið sem var undir laginu Davy Crockett. Áður en ég held lengra vil ég taka það fram að í skrifum mínum um umdeildar embættisveitingar að undanförnu hef ég eingöngu haldið mig við hið faglega svið þeirra og þær sjálfar en ekki persónurnar sem í hlut eiga aðrar en ráðherrana og nefndina sem fjallaði um umsækjendur um héraðsdómarastöðuna. Ég veit um mikla mannkosti þess sem ráðinn hefur verið héraðsdómari nú og hef minnst á það áður. Ég hef einnig bent á með dæmum hvernig það hefur að ósekju bitnað á mörgum sem hafa verið ráðnir hvernig þeir hafa komið inn í röð af umdeilanlegum ráðningum, sem hafa vakið tortryggni, en lögunum um ráðningar í dómskerfinu er einmitt ætlað að draga úr tortryggni almennings og auka traust hans. Framtíðin á eftir að leiða í ljós hve vel heppnaðar mannarráðningarnar nú reynast. Í því efni er ekkert gefið fyrirfram og ég hef áður bent á það sem dæmi að Pálmi Hannesson reyndist einhver virtasti og merkasti rektor Menntaskólans í Reykjavík þótt allt yrði vitlaust þegar Jónas frá Hriflu réði hann í stað margfalt reyndari kennara. Ég get tekið undir það með Einari Kárasyni að sífelldar nafnbirtingar og myndbirtingar fjölmiðla hafa ekki alltaf verið málefnalegar í þessu máli. Þegar fjölmiðill fjallar um embættisveitingu ráðherra á að birta mynd af honum einum.

Nóg um það og víkjum aftur að vísunum um Davíð Oddsson. Af tæknilegum orsökum sem ég ræð ekki við í augnablikinu vill kerfið ekki gefa mér greinaskil í fyrstu vísunum. Þær voru börn síns tíma en hljómuðu svona:

DAVÍÐ ODDSSON.

Hann fæddist í Reykjavík og frægð sér vann
Furðusmíð snemma þótti hann
og brátt átti af vinum hið besta safn
en sá besti og erfiðasti var Hrafn.

Davíð! Davíð Oddsson! Dugmikill alla tíð.
Davíð! Davíð Oddsson! Dásamleg furðusmíð.

Í ástamálum varð hann ákafur
er ástríður hans vakti Ástríður.
Hann gerði mikið með Matthildi
en meira þó með Ástríði.

Davíð! Davíð Oddsson! Davíð við Tjörnina.
Davíð! Davíð Oddsson! Og Bergþórugötuna.

Flestum í orðheppni af hann bar,
var afburða fljótur að taka af skar.
Sú virðing hefur við hann fest
að vera "the fastest gun in the west."

Davíð! Davíð Oddsson! Hann náði borginni.
Davíð! Davíð Oddsson! Og ruslaði upp ráðhúsi.

Albert heimtaði að hann héldi sig frá
stuttbuxnadeildinni í flokknum þá.
Þá svaraði Davíð og sagði með hægð:
"Þú sjálfur á stuttbuxum hlaust þína frægð."

Davíð! Davíð Oddsson! Stjórnaði ótal ár.
Davíð! Davíð Oddsson! Með krúttlegt og krullað hár.

Hann fann upp aðferð sem þykir þjál
um það hvernig best er að afgreiða mál.
Við Friðrik Sophusson hann setti´hana fram:
"Svona gera menn ekki! Skamm!"

Davíð! Davíð Oddsson! Varði blaðburðarbörn.
Davíð! Davíð Oddsson! Þótt flokksmerkið væri örn.

Ennþá í fullu fjöri hann er
en fer samt í kúra til að létta á sér
og hárskerar á það hafa bent
að hár hans þurfi senn permanent.

Davíð! Davíð Oddsson! Skorar og skýtur fast.
Davíð! Davíð Oddsson! Með hárið á tvist og bast.

Þegar við verðum báðir fallnir frá
fjörugt ég held að okkur verði hjá,
fyrir handan allt hresst við og bætt
og himnaríki einkavætt.

Davíð! Davíð Oddsson! Drjúgt verður þá um mál.
Davíð! Davíð Oddsson! Drukkin Bermúdaskál.
Davíð! Davíð Oddsson! King of the lone prairie.
Davíð! Davíð Oddsson! Kóngur á Íslandi.

Þess má geta að þegar Hrafn Gunnlaugsson færði Davíð góða gjöf á stórafmæli Davíðs sagði Davíð um Hrafn að hann væri nánasti, besti og erfiðasti vinur sinn og uppskar mikinn hlátur. Þegar Reykjavík varð 200 ára árið 1986 stóð borgin fyrir mikill veislu í Lækjargötu með ógnarlangri afmælistertu og heyrðust þá raddir um það að hér væri bruðlað. Rétt er að vekja athygli á spádómi í syrpunni hér að neðan sem rættist fimm árum síðar og að geta þess að skrifstofa borgarstjóra var þá uppi í Reykjavíkurapóteki við horn Austurstrætis og Póshússtrætis. Síðasta lagið í syrpunni var lag Bjartmars Guðlaugssonar um fúlan á móti.

DAVÍÐ REYKJAVÍK.

Hver gengur þarna eftir Austurstræti

með ilmandi og hrokkið hár

og djarfan svip og ögn af yfirlæti

svo ótrúlega íhaldsblár?

Ó, það er Bubbi kóngur borgarfrík.

Það er hann Davíð Reykjavík

sem gengur þarna eftir Austurstræti

og ætlar upp á efstu brík

og því er eins og vaxi hérna gleði rík

og kæti.

 

Hann var einu sinni lítill

en er orðinn gróflega stór.

Hann var einu sinni magur.

Hann var einu sinni mjór.

Hann var eitt sinn fyndinn trúður

á öllum jólaböllunum

en nú arkar hann um með bumbu

og forsætisráðherra í maganum.

 

Hvað getur Davíð gert að því þótt hann sé sætur

og geri kjósendurna vitlausa í sér?

Hvað getur Davíð gert ef Össur greyið grætur

og glápir rauðum augum á hann hvert sem hann fer?

Hvað getur Davíð gert að því þótt borgin eigi

sitt afmæli og eyði fé í hopp og hí

en dagheimilin bíði´og gamla fólkið þreyi?

Hvað getur hann Davíð, aumingja Davíð gert að því?  

 

Hann sér allt. 

Hann er allt.

Er helmingi fyndnari en fúll á móti.

Býr til þrumu tertu og grauta.

Vertu ekki að þrasa og tauta.

Haltu kjafti!

Fáðu´þér fleiri tertubita

þótt því fylgi síðan skita

og haltu kjafti !  

 

Þegar deilt var um ráðhúsbygginguna var því haldið fram að fuglalíf myndi stórskaðast við Tjörnina og bílakjallarinn fyllast af vatni og leðju. Einn helsti gagnrýnandinn var Flosi Ólafsson. Ég minnist þess að Davíð hafði sjálfur gaman af hraðri syrpu sem ég söng um þetta mál á þeim tíma, svo hljóðandi:

 

RÁÐHÚSBRAGUR.

 

Gæsamamma gekk af stað

með gæsabörnin smáu, -

upp á bakkann ætlaði

að éta grösin lágu.

Þá kom Davíð, krunk, krunk krá

með kolsvart hár í framan

og éta vildi unga smá

og ofsa fannst honum gaman.  

 

Það á að gefa bra-bra brauð

að bíta í á jólunum -

 

Komdu til mín, komdu til mín, komdu til mín, bra-bra.

Farðu frá mér, Flosi, frá mér, Flosi, þú ert ga-ga -

 

Nú andasuðið ekki á við hlýðum

en okkar ráðhús hér á floti smíðum -

 

Hér rís hús langt út í vatnið.

Hér rís hús með stjórastól.

Hér rís hús, sem Dabbi byggði

undir vatni á lágum hól.

 

Nú skal segja, nú skal segja

hvernig ráðhúsið á að vera: 

Fljóta´í drullu, fljóta´í drullu

og svo snúa því þar í hring.

 

Það verður allt á floti alls staðar,

ekkert nema Tjörn en segðu mér.

 

Bráðum kemur bílageymslan. 

Bleytan fer að hlakka til.

Allir fá þá eitthvað rennblautt,

í það minnsta djúpan hyl.

 

Við heilsum öllum bílunum og hlæjum:

 

Kaggar mínir, komið þið sælir,

hvað er það sem niðar?

Áðan heyrði ég eitthvað væl

hvað kafaranum miðar.

 

En litlu andaraularnir

allir kjósa D. Áfram kjósa D.

Höfuð hneigja í djúpið

og láta sem ekkert sé.

Höfuð hneigja í djúpið

og láta sem ekkert sé.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Framtíðin á eftir að leiða í ljós hve vel heppnaðar mannarráðningarnar nú reynast." Það segir Ómar, en

þetta er ekki kjarni málsins. Þetta heitir að drepa málum á dreif. Kjarni málsins er sá að pólitísk spilling - lögleysa - ræður skipan dómara. Við skulum horfast í augu við það og ekki líta undan. Ef við gerum það megum við eiga von á fleiri "Kárahnjúkavirkjunum". Samhengi hlutanna.

“Skylt að ráða þann hæfasta

Í þessu sambandi má nefna að stundum gleymist í umræðunni hérlendis að það er óumdeild lagaregla að skylt er að ráða þann hæfasta; ekki er nægilegt eins og stundum virðist talið að ráða einn af mörgum hæfum. Ef slíkt er leitt í ljós er ákvörðun um ráðningu í starf ólögmæt.”

http://www2.bhm.is/main/view.jsp?branch=618844

http://www.visir.is/article/20080116/SKODANIR03/101160040

Rómverji (IP-tala skráð) 18.1.2008 kl. 23:10

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef áður skrifað nokkra pistla um þennan plagsið sem hefur verið í gangi svo lengi sem ég man eftir að með reglulegu millibili er stæk pólitísk lykt sé með reglulegu millibili af mannaráðningum.

Fréttamenn fengu nóg í fyrra þegar fáránleg ráðning var í gangi í embætti fréttastjóra útvarpsins.

Þegar ráðið er í störf eins og hjá fréttastofum RUV og í dómskerfinu verður að keppa eftir því að almenningur beri traust til ráðninganna og þar með traust til fréttastofanna og dómskerfisins. Í lögunum sem gilda um ráðningar í dómskerfinu er beinlínis sagt að lögin eigi að virka á þann hátt.

Ómar Ragnarsson, 19.1.2008 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband