HALLÆRISPLANIÐ OG FLÓTTAMANNALEIÐIN.

Þessi tvö "örnefni" alþýðunnar upp úr miðri síðustu öld voru einhver hin skemmtilegustu á þeirri tíð ásamt Klambratúni. Þau sögðu öll merka sögu en þótti auðvitað ekki nógu fín, - nafninu á Klambratúni var breytt í Miklatún sem var eitthvert hallærislegasta nafn sem ég gat hugsað mér, lýsti skoplegri minnimáttarkennd enda túnið eitt minnsta tún landsins.

Síðan var Hallærisplaninu breytt í Ingólfstorg og sennilega munu einhverjir gangast í því að Flóttamannaleiðin, sem er vegurinn frá Vífilsstöðum yfir á Kaldárselsveg, verði afmáð.

Á bak við nafnið Hallærisplanið er sú saga að eftir að Hótel Íslands brann 1944 myndaðist autt plan á gatnamótum Austurstrætis og Aðalstrætis sem varð að aðal "húkk"stað borgarinnar, miðpunkti samskipta ungs fólks. Þá varð þetta dásamlega nafn til sem sagði allt sem segja þurfti. Menn hengu niðri á Hallærisplani þangað til þeir komust á fast, en þá hurfu þeir þaðan.

Ég er með tillögu sem tekur mið af því sem gert hefur verið við brunarústirnar á horni Lækjargötu og Austurstrætis, en þar er nú frábær myndasýning sem sýnir þróun þess svæðis.

Á sunnanverðu Ingólfstorgi verði sett upp skilti með nafninu "Hallærisplanið" og fyrir neðan það útskýringar með myndum, sem sýnir hvaða hluti Ingólfstorgs hét þessu nafni í munni fólks og hvers vegna. 

Flóttamannaleiðin fékk það nafn þegar Bretar létu íslenska verkamenn leggja þennan veg á þeim tíma 1940-41 þegar Bretar voru á flótta á Balkanskaga og misstu Singapúr í verstu ósigri hernaðarsögu sinnar. Höfðu Íslendingar á orði að vegurinn væri lagður til þess að Bretar gætu flúið frá Reykjavík þegar Þjóðverjarnir kæmu.

Á mínum sokkabandsárum fékk þetta nafn nýja merkingu sem fólst í því að þetta væri hentug akstursleið ölvaðra ökumanna fram hjá því svæði þar sem lögreglan væri helst á ferð. Einnig hentug leið til að stinga af eða hrista af sér eftirför af ýmsum ástæðum. 

Ég myndi vilja sjá að í endanlegu skipulagi þessa svæðis verði Flóttamannaleiðin látin halda sér eins og hægt væri og fengi opinberlega þetta nafn með tilheyrandi nafnskiltum og útskýringaskiltum með myndum.  

Það er ekki aðeins skemmtilegt fyrir hina eldri að halda til haga sögulegum minjum. Ungu fólki finnst skemmtilegt að heyra sögur sem tengjast ungu fólki fyrri tíma.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Hallærisplanið var dásemdarstaður fyrir okkur. Það var byrjað á að keyra hægan hring og stúdera aðstæður. Ef löggan var ekki við Planið, var komið til bara hægt og rólega með orgelið spilandi og svo gefið í á fulli fyrir hornið til að fá dekkin til að væla eins hátt og mögulegt var. Bara 118 hestar í V8unni!!. Ég keyrði alltaf af því ég var með próf, en Valli átti bílinn. Þetta gekk vel þangað til löggan sat fyrir okkur inni í dyragætt og stökk út á götu og stoppaði okkur þegar við héldum að við værum sloppnir. Annar lögregluþjóninn vildi alltaf taka okkur inn á stöð, en hinn talaði við okkur á rólegan og huggulegan máta. Ég held að hann sé lögreglustjóri í dag. Við á Fordinum V8 1952, kallaður Orgelið sem við bjuggum til úr dyrabjöllum og eingin fékk að sjá, vorum bara prúðir og sögðust aldrei gera þetta aftur og sluppum við það. Ég man ekki eftir þessari Flóttamannaleið, en Klambratúninu auðvitað þar sem ég var í Garðyrkjuskólanum og lærði á grænmeti og karteflur. Vildi óska að krakkar í dag hefðu sömu möguleika til að læra að rækta í matinn. Þetta kom sér vel fyrir heimilin í þá daga. Væri fínt að fá upp þessi spjöld á valda stað í bænum.

Wolfang 

Eyjólfur Jónsson, 17.1.2008 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband