19.1.2008 | 01:18
NÝRUN BERA OFURHEILANN OFURLIÐI.
Kannski var Bobby Fisher mesti skáksnillingur sögunnar. Á leiðinni til þess að fá að tefla við Boris Spasskí vann hann bestu skákmenn heims með fáheyrðum yfirburðum, m. a. einn allra snjallasta skákmann Sovétríkjanna, Taimanov, 6-0 og einnig Bent Larsen með sömu yfirburðum. Ógleymanlegt var hvernig engu máli skipti fyrir hann þótt hann gæfi Spasskí forskot í upphafi einvígis þeirra með því að byrja það á 0-2, og koma ekki að skákborðinu í annarri skákinni. Andvörp áhorfenda í Laugardalshöllinni yfir sumum snilldarleikjum hans í einvíginu verða mér ógleymanleg.
Magnús Pálsson, bróðir Sæma, sagði mér í dag að Fisher hefði ekki aðeins verið mikill bókaormur og ótrúlega fróður á mörgum sviðum, heldur hefði hann verið undrafljótur að lesa þykka doðranta og muna efni þeirra.
Minni hans á skákbyrjanir og skákir var næstum ómennsk. En eins og margir snillingar vantaði í ýmsa þætti persónuleikans og til dæmis er ekki hægt að sjá mikla skynsemi í því að afneita nútíma læknavísindum. Það dró hann til dauða um aldur fram.
Bobby Fisher var dásamleg viðbót við þjóð sem hefur átt Reyni Pétur, Jón Pál, Kjarval, Sölva Helgason, Björk, Gísla á Uppsölum, Kvískerjabræður og Einar Ben. Ég held að það hafi verið Íslendingum til sóma að taka að sér og aumka sig yfir þennan óstýriláta, skrýtna og sérvitra snilling og bæta honum í ótrúlega fjölskrúðugt liftróf eyjarskeggana á Klakanum.
Tvívegis í sögu Bandaríkjanna skipuðust mál á þann veg að augu bandarísku þjóðarinnar og vestrænna lýðræðisþjóða hvíldu á einstaklingum sem áttu í höggi við stolt stórvelda með alræðisþjóðskipulagi.
Í fyrra skiptið var það Joe Louis í hnefaleikahringnum andspænis fulltrúa "ubermensch"hins aríska kynþáttar Hitlers og seinna skiptið Bobby Fisher einn og einmana andspænis fulltrúa hinnar stórkostlegu skákmaskínu sem Sovétríkin höfðu byggt upp kerfisbundið áratugum saman.
Í bæði skiptin var það einstaklingurinn sem sigraði með yfirburðum. Þegar Fisher er allur held ég að gott sé fyrir Bandaríkjamenn að meta þetta afrek hans að verðleikum sem dæmi um það hverju einstaklingurinn getur áorkað, - og skipa honum, þrátt fyrir alla sérviskuna og ýmsar ógeðfelldar yfirlýsingar, á þann stall sem honum ber meðal mestu afreksmanna ameríkumanna.
Dánarorsök Fischers var nýrnabilun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég mæli með því að reist verði vegleg stytta honum til heiðurs í Reykjavík.
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.1.2008 kl. 02:33
Flott hugmynd Erlingur, styttan fyrir utan safnið
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.1.2008 kl. 12:37
Mér líst vel á hugmyndina um safn
Hólmdís Hjartardóttir, 19.1.2008 kl. 17:34
Hann var lunkinn við taflsins leiki
en lagðist í einhverja veiki.
Og sést hér að framan
að sjaldnast fer saman
gæfa og gjörvileiki.
hb
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 19:26
64°norður 0°vestur er táknrænn staður til hinstu hvílu skáksnillingsins Bobby Fisher, sem dó 64 ára. Árin sem hann lifði voru jafn mörg og reitirnir á skákborðinu. 0°vestur, vegna þess að hann var útskúfaður og vildi ekkert um land sitt í vita vestri.
Benedikt V. Warén, 20.1.2008 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.