23.1.2008 | 21:26
ÓGLEYMANLEG SJÓN.
Gosið í Heimaey og hernám Íslands 1940 voru líklega stærstu fréttir síðustu aldar á Íslandi. Gosið verður mér ógleymanlegt og margar voru ferðirnar sem ég fór þangað. Að kvöldi 22. janúar hafði ég, aldrei þessu vant, farið snemma að sofa en vaknaði við það að Finn A. Jensen hringdi í mig, og spurði hvort ég ætlaði ekki út í Eyjar til að skoða eldgosið í Heimaey. Ég hélt að þetta væri plat og svaraði að ég væri ekkert á leiðinni þangað, lagði mig á hina hliðina og ætlaði að sofna aftur.
Fékk bakþanka og ákvað að hringja eitt símtal til að tékka á þessu.
Hringdi í Veðurstofuna og fékk fréttina staðfesta. Hringdi í Emil fréttastjóra og komst að því að ég var einn af fyrstu frétta- og blaðamönnum sem vissi tíðindin.
Var kominn út á flugvöll skömmu síðar og fékk heimild til nætursjónflugs undir skýjum út í Eyjar. TF-FRÚ var eina litla eins hreyfils flugvélin sem flaug út í eyjar þessa nótt og daginn eftir. Stærri flugvélar flugu í blindflugi skýjum ofar og komu niður úr skýjunum rétt við Eyjarnar.
Af þessu leiddi að ég upplifði einn þá ógleymanlegu sjón að koma fljúgandi lágt fram hjá Þrídröngum á móti röð báta með flóttafólk, sem stóð á þiljunum. Í baksýn var Heimaey með logandi eldvegg að baki ljósunum í bænum.
Við ræddum það oftar en einu sinni, ég og frændi minn, Bjarni Jónsson listmálari, að hann málaði þessa sjón á striga því að birtan var ekki nægileg til að ég gæti náð henni á filmu litlu kvikmyndatökuvélarinnar sem ég hafði meðferðis. En Bjarni lést nýlega svo að ekki verður af því að þetta verði gert hérna megin grafar.
Ég var með flugvélina í Eyjum allan daginn eftir og á hana féll aska, sem eyðilagði lakkið. Ófært var til Eyja þennan tíma vegna öskufallsins. En það skipti að mínu mati engu máli, aðalatriðið var að hafa þá sérstöðu að vera með flughæfa flugvél á staðnum.
Hvöss suðvestanátt dundi síðan yfir en í skamman tíma eftir hádegið lægði nógu mikið til þess að ég hefði getað farið með kvikmyndatökumann til að taka mynd úr lofti af eldveggnum og eyjunni.
En þá vildi svo óheppilega til að í gildi var bann í Sjónvarpinu við því að kvikmyndatökumenn flygju í einshreyfils vélum. Sömuleiðis voru allar myndir teknar á svart-hvítar filmur.
Daginn þar á eftir stóð til að Örn Harðarson kvikmyndatökumaður færi í flug yfir eyna. Hann neitaði að fara nema með litfilmu á eins hreyfils flugvél, taldi réttilega að mun lakara væri að taka myndir úr tveggja hreyfla vél.
Niðurstaðan var sú að ég flaug með Örn á Frúnni en þá var eldveggurinn ekki lengur eins og hann var fyrsta daginn, heldur var gosið komið niður í hluta af henni.
Tvisvar sinnum hafði ég séð ógleymanlega og einstæða sjón á fyrsta gosdegi og tvívegis höfðu aðstæður og óskynsamlegar reglur komið í veg fyrir að ég gæti miðlað henni til annarra.
Ég set þetta niður hér til að þetta sé skjalfest svo að einhvern tíma í framtíðinni sé hægt með nýrri tækni eða gamalli að koma þessu á pappír eða léreft.
Í ferðum mínum síðar út til Eyja dáðist ég að baráttu heimamanna, vísindamanna og hjálparsveita við eldinn og það var magnað að miðla af því hljóði og myndum til þjóðarinnar og upplifa þetta í návígi.
Í gegnum ömmu mína hafði ég kornungur kynnst frásögnum hennar af Kötlugosinu 1918 og frásögnum formæðra og forfeðra hennar af Móðuharðindunum sem lfiðu svo sterkt meðal Skaftfellinga, að talað var um atburði og hluti fyrir og eftir eld, líkt og nú er talað um atburði í Eyjum fyrir og eftir gos.
Eftirminnileg eru ummæli Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra í sjónvarpsþætti um Eyjagosið fljótlega eftir að gosið hófst, þar sem bollalagt var hvort leggja ætti byggð niður í Eyjum og gera nýja höfn við Dyrhólaey.
Þá tók Ólafur Jóhannesson af skarið og sagði: "Vestmannaeyjar skulu rísa! " Og þannig fór það sem betur fór.
Athugasemdir
skemmtilegur pistill
Brjánn Guðjónsson, 23.1.2008 kl. 21:53
Takk fyrir þetta Ómar.
Pistlar þínir frá þessum tíma renna manni aldrei úr minnum.
Karl Ólafsson, 23.1.2008 kl. 23:47
Þetta var eftirminnilegur tími. Ég var þá í fyrsta bekk (1G) í MT og umsjónarkennarinn, Halldór Vilhjálmsson, sem reyndar var einnig kennari í MR, krafðist þess að kosinn væri bekkjarformaður eða ,,Inspector classae" - eða eitthvað í þá veruna. Ég varð fyrir valinu og varð að sitja fyrir framan kennarapúltið og bera ábyrgð á ,,kladdanum". Mér var djöfullega við það. Aðallega vegna þess að ég var vanur að sitja í hægra horninu efst, séð frá kennarapúltinu. Halldór var reyndar fínn kennari og góður í því að koma aga á þennan óstýriláta hóp sem fór mikinn eftir að hann hætti að aga hann.
Mánudaginn 24. janúar 1973 bað Halldór umræddan ,,Inspector class eitthvað" um að velja með sér einn mann úr bekknum til þess að fara upp í Fellaskóla og verkefnið var það að taka á móti búslóðum Vestmannaeyinga vegna gossins á Heimaey. Rúnar Guðbrandsson, síðar leikari og leikstjóri, varð fyrir valinu. Veit ekki hvers vegna ég valdi Rúnar. Ég átti marga æskuvini í bekknum en sennilega mat ég það svo að það þyrfti ,,leikara" til þess að takast á við þá fáránlegu stöðu sem upp var komin.
Þetta var reyndar það eina góða, sem ég hafði upp úr krafsinu með að vera ábyrgur fyrir kladdanum í 1G í MT, og ég prísaði mig síðan alla tíð sælan af því að hafa aðeins fengið nasaþefinn af fortíðarhyggjunni úr MR.
Eiríkur St. Eiríksson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 00:40
Í minningunni var þetta mánudagur en vel má vera að mér skjátlist. Mánudagar voru jafnan erfiðir í MT ef ég man rétt.
Eiríkur St. Eiríksson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 00:45
Þú ert nú órjufanlegur hluti af þessu gosi Ómar. Gleymist seint allar þær myndir og fréttir sem þú færðir þjóðinni á þessum tíma. Takk fyrir það.
Halldór Egill Guðnason, 24.1.2008 kl. 09:00
takk fyrir gott blogg
Adda bloggar, 24.1.2008 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.