25.1.2008 | 07:20
"...MARGT ER Á HULDU..."
Til að útskýra beint eftir orðanna hljóðan hvað ég held að Guðni Ágústsson eigi við með tali um litgreiningu á frambjóðendum fyrir kosningar get ég upplýst að sérfræðingar á þessu sviði eru alloft fengnir til að hjálpa til við að skapa frambjóðendum og þeim sem koma fram í fjölmiðlum sem heppilegasta liti í fatnaði, hárgreiðslu, farða og skartgripum. Ég skal nefna dæmi. Rétt upp úr 1990 var slíkur sérfræðingur fenginn til að litgreina fréttafólk á Stöð tvö og fengu allir fréttamenn úrskurð frá honum um heppilegustu litina.
Vegnan þess að ég er bláeygur með rautt hár átti samspil skyldra lita en þó heldur daufari að ráða för í fatavali mínu. Grænn litur var til dæmis talinn óheppilegur hvað útlit mitt snerti, burtséð frá viðfangsefnum mínum og skoðunum. Vegna daufs húðlitar hef ég orðið að nota "maskara" á augnhár frá upphafi ferils míns fyrir 40 árum.
Mér er það minnisstætt að litgreiningarsérfræðingurinn tók okkur Huldu Styrmisdóttur fyrir áður en við færum í sett sem par fréttaþula. Sérfræðingurinn þurfti lítið að fást við mig því að konan mín hefur alla tíð séð um klæðnað minn og er ekki aðeins smekkmanneskja, heldur ótrúlega hagsýn og notar útsölur af snilld.
Litgreiningarsérfræðingurinn umbylti hins vegar Huldu svo gersamlega að hún var nær óþekkjanleg þegar hún kom í settið. Þarna naut ég skallans, sem takmarkaði mjög svigrúm sérfræðingsins, en hann nýtti sér á hinn bóginn til hins ítrasta hár, farða,liti og skartgripi hvað Huldu snerti.
Þegar hún settist niður við hliðina á mér örskömmu fyrir útsendingu, datt þessi vísa til hennar út úr mér og vegna þess að Hulda gat ekki heyrt hvort eitt orðið í vísunni var ritað með stórum eða litlum staf fór hún að skellihlæja og var næstum búin að klúðra upphafi fréttatímans. Vísan var svona:
Litbrigðin fallegu ljúft er að sjá.
Löngum það hugann vill erta.
Margt er á (H)huldu, sem mér líst vel á
en má bara alls ekki snerta.
Vona ég að þessi vísa útskýri málið að einhverju leyti fyrir dómsmálaráðherranum.
Dómsmálaráðherra veltir orðum Guðna fyrir sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hahaha, nú hló ég upphátt. Takk Ómar fyrir að vera svona lífsglaður og skemmtilegur í morgunsárið, einkum með tilliti til að "sumir" eru nánast fenntir inni, og lesa því sér til skemmtunar.
Takk fyrir fróðlegar og skemmtilegar færslur.
Jenný Anna Baldursdóttir, 25.1.2008 kl. 07:27
Gaman að þessu, veitir ekki af aðeins meiri hressileika núna.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.1.2008 kl. 14:03
Góður Ómar! Eru ekki annars haust?
(pssst..... hvar er "mynnið" á þér?)
Júlíus Valsson, 25.1.2008 kl. 19:38
Ertu haust?, .....ætlaði ég að skrifa
Júlíus Valsson, 25.1.2008 kl. 19:42
Þetta er besta fréttaskýring sem ég lesið í langan tíma :)
Hólmgeir Karlsson, 25.1.2008 kl. 19:52
Til hamingju Ómar með að vera kominn til valda í borginni, þetta er aðallega þitt fólk sem fylgir Ólafi F.
Elvar Atli Konráðsson, 26.1.2008 kl. 00:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.