26.1.2008 | 21:20
ÓÐINN, LIFANDI SAFNGRIPUR.
Allar þjóðir, sem hafa staðið í hernaðarátökum, geyma skip, flugvélar, landfarartæki, hús og aðrar minjar til að minnast þeirra. Þrjú þorskastríð Íslendinga voru ekkert annað en hernaðarátök, því að varðskipin voru vopnuð og ekki þarf að spyrja um eðli herskipa Breta. Þótt Týr lenti í mestu og frægustu átökunum og hefði kannski þess vegna átt að varðveita hann lentu hin varðskipin líka í árekstrum og átökum. Óðin hefur sérstöðu að einu leyti.
Það er sú staðreynd að eini heimildarmyndarþátturinn af lífinu um borð í herskipunum í leiðangri út á vígstöðvarnar fjallar um Óðin og var tekin um borð í skipinu í nokkurra daga leiðangri ca 15-20 desember 1975. Skipið lenti í návígi gagnvart breskum herskipum og rætt var við skipverja og fylgst með þeim við skylduströrfin.
Leiðangurinn endaði á óvæntan hátt, því að vegna eldgoss við Leirhnjúk var því snúið til Húsavíkur til að vera þar til taks.
Þátturinn hét "Heimsókn. Á vígstöðvum þorskastríðsins." Ég held að upplagt væri að láta þessa mynd malla í borðsalnum um borð eða á öðrum heppilegum stað í skipinu sem partur af stemingunni og einnig er spurng hvort aðrar heimildarmyndir um þorskastríðin gætu verið þar á boðstólum. Að sjálfsögðu þarf að safna saman eins mörgum ljósmyndum og öðrum gögnum um þorskastríðin og unnt er. Einnig að spila þau tvö lög sem þrjú lög sem gefin voru út á plötum um þau.
Eitt óvenjulegt atriði í myndinni af ferð skipsins er fólgið í því að vélin í vélarsalnum spilar með takti sínum lagið "La danza". Litlu munaði að klipping þessa atriðis klúðraðist því að nóttina fyrir útsendingu þegar verið var að klippa það til að skila því í hljóðsetningu morgunin eftir kom í ljós að skipsvélarnar gengu ekki á jöfnum hraða heldur á misjöfnum hraða eftir því hvort skipið var á leið nður í öldudal eða upp úr honum.
Ég sendi klipparann heim um miðja nótt og hélt einn áfram að reyna að leysa málið alveg fram á morgun. Vandamálið fólst í því að takmörk voru fyrir því hve mikið og oft var hægt að klippa filmuna niður. Loksins tókst það þó.
Þorskastríðin eru einu hernaðarátökin sem Íslendingar hafa lent í. Sem betur fór varð ekki mannfall eins og í öðrum hernaðarátökum og ber að þakka forsjóninni og ábyrgum skipherrum fyrir það.
Athugasemdir
Það er eins og mig minni að það hafi orðið mannfall.
Ef ég man rétt lést einn skipverji þegar hann var að gera við eftir eina ákeyrsluna, hann var að rafsjóða og fékk yfir sig sjó og fékk raflost þegar Bretar gerðu aðra atlögu að skipinu.
Leiðréttið mig ef þetta er rangt.
Einar Steinsson, 27.1.2008 kl. 00:14
Þetta er rétt og var sorglegt. Orðaval mitt var ónákvæmt og byggðist á samanburði við önnur hernaðarátök milli þjóða. Í heilum þremur þorskastríðum vorum við mjög heppnir að missa ekki fleiri menn.
Ómar Ragnarsson, 27.1.2008 kl. 14:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.