FIMMTUNGS AUKNING Á ÚTBLÆSTRI EKKERT MÁL?

Í umræðunni um olíuhreinsstöðvar minnast fylgjendur þeirra helst ekki á að þær muni kosta útblástur gróðurhúsalofttegunda. En jafnvel þótt miðað sé við mjög hæpið lágt mat þeirra sjálfra á útblæstrinum, verður útblástur frá tveimur olíuhreinsitöðvum á Vestfjörðum meina en fimmtugur af öllum útblæstri hér á landi. Ég segi TVEIMUR hreinsistöðvum því að ef stöð verður reist við Dýrafjörð munu íbúar í Vesturbyggð heimta stöð líka og öfugt.

Bæði á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum er það að verða að trúaratriði að öll byggð á Vestfjörðum standi eða falli með þessum tveimur stöðvum. Ef stöð rísi við Arnarfjörð verði úti um Ísafjarðarbæ og öfugt. Ríkisstjórnin á þá að leggjast á hnén og væla út aukakvóta í samningaviðræðum á alþjóðavettvangi eins og gert var í Kyoto.

Við hjónin höfum tvívegis ferðast norður eftir öllum Noregi og séð sjávarbyggðir þar í svipuðum vanda og slíkar byggðir á Íslandi. Hvergi heyrði ég minnst á það að lausnin fælist í því að hrúga niður olíuhreinsistöðvum þar.

Í Noregi er mun meiri tandurhrein vatnsorka óbeisluð en á Íslandi en samt dettur frændum okkar ekki í hug að heimta alþjóðlegan aukakvóta út á það að hrúga upp fleiri stóriðjuverum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Olíuhreinsistöð á vestfjörðum er einn sá versti brandari sem ég hef heyrt, og ég bara trúi því ekki fyrr en á reynir að  sannir verstfirðingar séu í alvöru fylgjandi því að eyðileggja eina ósnortna landið á Íslandi.

Glanni vestfirðingur í húð og hár.

Glanni (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 01:13

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er reyndar vaxandi áhugi í Noregi að taka til við vatnsaflsvirkjanir á ný. Það sögðu mér Norðmenn sem ég átti samtal við hér á Reyðarfirði. Þeir vildu meina að samlandar þeirra hefðu farið offari í umhverfisvernd á sínum tíma, en séu að átta sig í dag.

Það er nefnilega þannig að mengun er hnattrænt vandamál og þó að Íslendingar margfaldi útblástur gróðurhúsaloftegunda, þá getur það alveg verið réttlætanlegt og vel það fyrir hnöttinn okkar vegna grænu orkunnar okkar. Enginn skyldi halda að þó við viljum ekki gera neitt í "our own back yard", að þá verði hlutirnir ekki gerðir. Álnotkunn í heiminum hefði t.d. ekkert minnkað ef ekki hefði komið til álversins á Reyðarfirði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2008 kl. 05:18

3 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Mér sýnist hérna sé talað um þriðjungi meiri losun með tilkomu einnar olíuhreinsistöðvar.

Pétur Þorleifsson , 3.2.2008 kl. 06:31

4 identicon

Það er svolítið athygglisvert að sjá hvernig allskonar rök eru notuð, til að gera lítið úr vandamálum Vestfirðinga í atvinnumálum.  Og af einhverjum ástæðum eru áhrif hugsanlegra framkvæmda gerð meiri en í sambærilegum málum.

  • Fyrir það fyrsta, eru vandamál Vestfirðinga í atvinnumálum sköpuð af stjórnvöldum.  Blind stefna sjálfstæðisflokksins í fiskveiðimálum, þrátt fyrir engan árangur eru meginn ástæða atvinnuástandsins víða um land.  Störf í sjávarútvegi sem áður voru vel launuð, eru núna ílla launuð.  Dæmi:  ég hef heyrt að menn láti sig hafa það að veiða fisk á kvótalausum bátum fyrir allt niður í 20 kr/kg.  Það er bein kjaraskerðing um ca.90% mv. markaðsverð.
  • Mengun frá olíuhreinsistöðvum er bara brot af vandamálunum.  Þau tæki sem nota þessa hreinsuðu olíu menga mun meira og það er mesta vandamálið, að lítið er gert til að minka notkun á olíu/bensíni.  T.D. eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu ekki að gera neitt í þeim efnum.  Þeir telja sig vera einu íbúa höfuðborga í heiminum sem ekki þurfa að nota almenningssamgöngur.
  • Mesta stóriðjusvæði landsins er á Grundartanga.  Samt sem áður er Hvalfjörður vinsæll til útiveru og td. er Skorradalur, einhver mesta náttúruperla landsins aðeins í 20 km. fjarlægð.  Ég hef ekki heyrt að fólk hafi minni áhuga á því að vera þar eftir að álver Norðuráls var reist.

Ég er Vestfirðingur í húð og hár.  Mér svíður að sjá byggðirnar hér brenna og án þess að aðrir landsmenn virðist kippa sér upp við það.  Raunar hefur mér frekar fundist að fólk hlakki yfir þeirri þróun og líti á okkur sem þá einstaklinga sem eiga að fylla upp í þær íbúðir sem eru sífellt í smíðum á SV-horninu.  Bæjarstjóri Akranes sagði það m.a.s. berum orðum í haust.  Í þeim atvinnugreinum sem hels hefur verið horft til; fiskveiðum og vinnslu, ferðamálum, menntamálum og iðnaði, eru Vestfirðingar sérstaklega komnir undir náð og miskun ríkisvaldsins, af þeirri einföldu ástæðu að allir þessir liðir lúta beinni stjórn ríkisins og samgöngur á Vestfjörðum eru ekki komnar í nútímalegt horf.  Þessvegna segi ég; það er spurning um líf eða dauða að komast undan ægivaldi ríkisins, með öllum tiltækum ráðum þar á meðal olíuhreinsistöð.

PS. Ómar, ég sendi völdum aðilum lausn á staðsetningu á stóriðju á Vestfjörðum, með lausn á vegtengingum.  Sé sú leið farin þarf ekkert að "óttast" um tvær stöðvar.

Sigurður Hreinsson (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 12:04

5 Smámynd: Hjalti Árnason

Það er rétt hjá þér að það er ekki fyrir að fara haugunum af olíuhreinsistöðvum Hér í noregi. Þeir eru meira í gasorkuverum, þe. að brenna gasið úr norðursjónum til að fá raforku. Áður en þetta er komið í gagnið stendur litla náttúruverndarlandið noregur fyrir 2,7% af heildarútblæstri CO2 í heiminum, samkvæmt upplýsingum frá Bellona. Þvílíkt fyrirmyndarland!

Mér sýnist mesta áhættan fyrir Ísland helst vera flutningur á olíu og áhætta honum tengd. Það virðist alveg vera sama hversu miklar öryggiskröfur eru gerðar, það verða alltaf slys, eins og í norðursjóum í vetur. Vestfirðirnir eru líka alltof fallegir til að fórna þeim í slíkt; atvinnuleysi eða ekki.

Hjalti Árnason, 3.2.2008 kl. 15:39

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Störf í sjávarútvegi sem áður voru vel launuð, eru núna ílla launuð", segir Sigurður Hreinsson. Hvenær hafa laun landverkafólks í fiskvinnslu verið vel launuð? Sjálfur vann ég í Grindavík eina vertíð fyrir daga kvótakerfisins á lægstu launum sem fyrirfundust í landinu. Og hlutaskiptakerfi sjómanna á ekki að skerðast þó útgerðarmaðurinn borgi fyrir leigukvóta.

Hjalti Árnason segir: "Vestfirðirnir eru líka alltof fallegir til að fórna þeim í slíkt; atvinnuleysi eða ekki".  Sá sem svona segir hefur aldrei upplifað atvinnuleysi. Fjölskyldufólk sem þarf að brauðfæða munna barna sinna, þurfa að borga lánin af húsinu og bílnum, slíkt fólk kvittar ekki undir þessa fullyrðingu. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2008 kl. 15:54

7 identicon

Eins og er sagt hér að ofan þá er CO2 losun veraldarvandamál, ekki staðarvandamál.  Ál verður framleitt eins og heimsmarkaðir krefjast og er þá ekki betra að framleiða það með hreinni orku á Íslandi heldur en með raforku frá reikspúandi kolaraforkuverum?  Sem dæmi er helmingur raforku hér í USA ennþá frá kolaverum.  Sama er með olíuhreinsunarstöðvar.  Ef ekki hreinsuð á Vestfjörðum, þá yrði þessi sama olía hreinsuð einhverstaðar annarstaðar, kanski með hreinni raforku en kanski frá kola eða gas orkustöð.  Það er nefnilega allfaf CO2 ávinningur að nota hreina orku, eins og notuð er á Íslandi, þó svo að framleiðslan sjálf sendi út mengun.  Framleiðslan fer fram vegna þess að það er markaður fyrir vöruna, og þessi markaður gufar ekkert upp þó við viljum ekki framleiða hana á Íslandi vegna þess að við höldum að við séum að gera heiminum greiða með að neita að hafa hana í okkar bakgarði.  Þeir sem eru á þeirri línu að við ættum ekki að standa í neinu sem heitir mengunarvaldadi iðnaði þurfa að hugsa um hvar þessi iðnaður færi framm ef ekki á Íslandi, og þá hvaðan orkan kæmi.  Sjálfumglöð hræsni og þrönghyggja þarf að víkja fyrir staðreyndum.

Annað gott dæmi um heimsku mannsins er þegar græningjar í Svíþjóð komu í gegn að loka flestum ef ekki öllum kjarnorkustöðvum sínum "vegna nátturuverdar".  Í staðinn kaupa þeir núna raforku tildæmis frá Póllandi sem er framleidd, já giskið þið nú... með kolum.  Svo nú fá Svíar þessa fínu orku og súrt regn í kaupbæti frá grönnum sínum í Póllandi.  Núna eru græningjar loksins farnir að átta sig á að kjarnorka er ekki svo slæm.  

Emil Sigtryggsson (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 16:30

8 Smámynd: Magnús Jónsson

Ætla mætti af skrifum sumra að olíuskip sigldu ekki framhjá Íslandi, þau gera það nú samt, það er alltaf hætta á slysum á sjó og breytir þá einu hvert skipið er að sigla, það að telja hættu á mengunarslysi aukast við það að hreinsa olíu á Íslandi er mestmegnis bölsýni, risaolíuskip sigla framhjá okkur nú þegar og ferðum mun fjölga, hvað halda men til dæmis að gerist ef olíuvinnsla hefst við Janmayen og við Íslendingar gerumst olíufurstar.

Ég má til að benda á að það yrði sparnaður á orku að hreinsa olíu hér hjá okkur, frekar en að láta sigla framhjá okkur með óunna olíu og sigla síðan með fullunna vöru hingað frá hreinsistöð, eins er staðsetning okkar hér á milli tveggja stærstu olíumarkaða heims ákjósanleg staðsetning fyrir hreinsistöð, ekki skil ég þá sem tala um mikla eiðileggingu ef hreinsistöð rís á Vestfjörðum, mér eins og fleirum blöskrar sú eyðilegging sem skortur á atvinnu er að valda á Vestfjörðum,  

Magnús Jónsson, 3.2.2008 kl. 17:29

9 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Landhelgisgæslan er ekki hrifin af siglingum olíuskipa úti fyrir Vestfjörðum.  Ætli hún sé hrifnari af olíuhreinsistöð þar ?

Pétur Þorleifsson , 3.2.2008 kl. 18:03

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn og aftur er dæminu stillt þannig upp að annað hvort knýi "hrein og endurnýjanleg" íslensk orka álverin eða kolaorkuver í öðrum löndum. Þá er alveg horft fram hjá því að öll þessi íslenska orka er líklegast aðeins einn þúsundasti af óbeislaðir jarðvarma- og vatnsorku í heiminum.

Að fórna fyrst íslenskum náttúruverðmætum fyrir slíkt er eins og ef skortur væri á góðmálmum í heiminum og menn myndu fyrst bræða frægustu styttur og hvolfþök heimsins og snúa sér síðan að borðbúnaði og hinum smærri listaverkum.

Ómar Ragnarsson, 3.2.2008 kl. 20:53

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef áður farið í gegnum það hér á bloggsíðunni að "hreina og endurnýjanlega" orkan á Nesjavalla- og Hellisheiðarsvæðinu verður uppurin eftir ca 40-50 ár og að útblástur brennisteinsvetnis frá þessum virkjunum er miklu meiri en hjá öllum álverum landsins og veldur því að þegar er lyktarmengun í Reykjavík yfir mörkum, sem sett eru um slíkt í Kaliforníu, 40 daga á ári.

Ómar Ragnarsson, 3.2.2008 kl. 20:56

12 identicon

Ég elska garðinn minn og vill honum allt hið besta, klippi runna, reiti arfa, og vökva það sem vökva þarf, nota tilbúinn áburð á bæði blómabeð og blett, svo nota ég bensínknúna sláttuorfið til að halda blessuðu grasinu í skefjum því að garðurinn minn á að vera sem fallegastur enda er hann glæsilegur á að líta frá náttúrurnar hendi.

En garður náungar míns, hans Borisar sem býr hér við Austurveg er sko ekki eins fallegur og minn garður oh nei,  kannski af því greyið fær allt sitt rafmagn frá kjarnorkuveri, og ekki nóg með það, olían og bensínið sem ég nota á sláttuorfið mitt er framreitt í garðinum við hliðina á hans garði með hjálp kolabrennslu.

Þvílíkir fantar  að fara svona með garðana sína en það skiptir mig svo sem engu máli, ég verð reynar svolítið súr yfir rigningunni  sem rignir í mínum garði annað slagið í ákveðinn átt en ég elska samt garðinn minn og hætti aldrei að nota olíu og bensín hvað þá tilbúinn áburð.

 

P.s Þessir Borisar eru náttúrusvín

Birgir Sm (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 21:10

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, já Ómar, það er alveg ljóst að þú metur íslenska náttúru mikils og það er vel og ég held að við gerum það öll en enn grípur þú til samlíkinga eins og:

"Að fórna fyrst íslenskum náttúruverðmætum fyrir slíkt er eins og ef skortur væri á góðmálmum í heiminum og menn myndu fyrst bræða frægustu styttur og hvolfþök heimsins og snúa sér síðan að borðbúnaði og hinum smærri listaverkum".

Þetta hljómar eins og að íslensk náttúra sé kóróna sköpunarverka jarðarinnar, sem hún er alls ekki, og restin af jörðinni sé frekar brúkleg til orkuöflunnar. Okkur þykir öllum vænt um náttúruna okkar enda þykir hverjum sinn fugl fagur, þó hann sé bæði ljótur og magur. Vissulega eru hér mörg einstök fyrirbrigði sem okkur ber að vernda en við þurfum ekki að vernda allt.

Og varðandi það að orkan verði búin í Hellisheiðar og Nesjavallavirkjunum eftir 40-50 ár, þá las ég nýlega grein einmitt um þetta atriði þar sem talað var um að þessu sé hægt að stjórna með skynsamlegri nýtingu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.2.2008 kl. 01:48

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því miður, Gunnar, er ekki enn búið að leysa þetta verkefni með "skynsamlega nýtingu", en það felst í djúpborunum og niðurdælingu vatns. Ef það væri búið þyrftum við ekki að hafa áhyggjur.

Hvað íslenska náttúru snertir hef ég áður bent á að hinn eldvirki hluti Íslands er taliinn eitt af aðeins örfáum tugum undra jarðar, hvað snertir náttúrufyrirbæri og að hinn heimsfrægi hvera-þjóðgarður Yellowstone, kemst ekki á þann lista. Og engum Bandaríkjamanni dettur í hug að snerta hann né svæði umhverfis sem er á stærð við Ísland.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2008 kl. 07:47

15 Smámynd: Sigurður Hrellir

Svo virðist sem að troða eigi þessari olíuhreinsistöð niður í kokið á Vestfirðingum og öðrum landsmönnum sama hvað tautar og raular. Því miður leggjast helstu hvatamenn fyrir framkvæmdunum býsna lágt í málflutningi sínum. Bæjarstjórinn í Vesturbyggð hefur m.a. skrifað á bloggsíðu sinni

"Olíuhreinsistöð telst hvorki til stóriðju né orkufreks iðnaðar."
"Þessi iðnaður er mjög snyrtilegur og má segja að vinnslan sé svipuð og í mjólkurbúum þ.e. einhverskonar skilvinda. Mengun er sáralítil."

Hér er vísvitandi verið að blekkja fólk með rangfærslum og að segja ekki hálfan sannleikann. Þó svo að raforkuþörf fyrirhugaðrar olíuhreinsunarstöðvar verði einungis 15 MW þá er það ekki nema um 2,5% af heildarorkuþörf verksmiðjunnar. Samanlögð orkuþörf verður svipuð og hjá álverinu í Reyðarfirði - 97,5% orkunnar kemur frá olíubrennslu!

Til stendur að hreinsa 8 milljónir tonna af hráolíu í stöðinni og framleiða úr henni ýmsar nýtanlegar afurðir. Framleiðsla álversins á Reyðarfirði eru hreinir smámunir í samanburði og því hlýtur að vera um algjöra útúrsnúninga að ræða þegar því er haldið fram að ekki sé um stóriðju að ræða.

Auk þess þyrfti gífurlegt magn aðfluttra efna (2400 tonn) til framleiðslunnar. Með öðrum orðum er þetta líka efnaverksmiðja og úrgangurinn úr henni (mengunin) er hreint ekki lítil eins og bæjarstjórinn heldur fram. Grein Stefáns Gíslasonar umhverfisstjórnunarfr. (sjá ath. 4 hér að ofan) lýsir þessu umbúðalaust.

Sigurður Hrellir, 4.2.2008 kl. 11:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband