1.3.2008 | 00:56
MANNAUÐURINN ER VERÐMÆTASTUR.
Baltasar Kormákur er gott dæmi um þau verðmæti sem felast í menntun landsmanna sem laðar fram það besta úr hverjum manni. Sú var tíðin að menn kumruðu yfir því fjármagni sem væri "eytt" í kvikmyndagerð og listir og því stillt upp sem andstæðu þess að fjárfesta í "framleiðslugreinum" sem gæfu sem flestu verkafólki atvinnu. Sú hugsun var eðlileg og nauðsynleg fyrir 40 árum en er það ekki lengur, því að velgengni þjóða á 21. öld byggist fyrst og fremst á því að mannauðurinn sé mikilvægari en megavöttin.
Nú þegar gefa menning og listir af sér stærri skerf til þjóðarframleiðslu og tekna en landbúnaðurinn, svo dæmi sé tekið.
Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á þá ómissandi vinnu sem inna verður af hendi við framleiðslustörf eða umönnunarstörf. Sjálfur hefði ég ekki viljað missa af þeim lærdómi, sem flest ungt fólk fer á mis við í dag, en fólst í því í gamla daga að æskufólki gafst færi á að vinna verkamannastörf bæði í borg og í sveit um helgar og í skólafríum á sumrin.
Það víkkaði sjóndeildarhringinn og skilning á þjóðlífinu að kynnast beint á þann hátt öllu litrófi atvinnulífs og mennta.
En það stingur í augun að hvergi í nálægum löndum eru eins margir sem ekki fara út í neitt framhaldsnám eftir skyldunám og að starfsmenntun og verkmenntun hér á landi þarf mikillar eflingar við.
Baltasar: Getur breytt öllu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég tek ekki endilega undir þegar þú segir að "mannauðurinn sé mikilvægari en megavöttin". Þessu er einfaldlega ekki hægt að líkja svona saman. Þetta er gott hvað með öðru og megavöttin skila atvinnu og bættri afkomu til fólks sem Baltasar kemur hvergi nærri - og öfugt.
Ég tel að líta beri á þetta tvennt, mannauð og náttúruauð, sem tvo þætti sem styrkja hvor annan en ekki sem tvo andstæða póla; og stilla málum þannig upp að þar komi bara annað hvort til greina. Lífið er ekki svart hvítt.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 09:42
Hér gerir þú lítið úr okkur á Grænlandi...!
Við eigum metið í fjölda þeirra sem sækja sér framhaldsmenntun, þ.e. erum neðst þó svo víða væri leitað.
1.8% þjóðarinnar hér er með háskólamenntun, þ.a. búa helmingurinn erlendis.
Svipað hlutfall fer í fjölbrautar og verkmenntaskóla.
Fjöldi þeirra sem útskrifuðust úr háskólanum okkar hér heima er sambærilegur við ef 230 nemendur hefðu útskrifast með háskólapróf á Íslandi 2007.
Grænland er jú Íslands næsti nágranni, svo hafa skal það sem réttara reynist.
Baldvin Kristjánsson, 1.3.2008 kl. 12:46
Tek undir með Sigurjóni Pálssyni. Mannlífið og atvinnulífið er allt ein heild en rekst ekki hvert á annars horn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.3.2008 kl. 14:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.