12.3.2008 | 20:45
LÖNGU TÍMABÆRT.
Það var löngu tímabært að reyna að rjúfa kyrrstöðuna í endursýningu leikins efnis í Sjónvarpi. Allt frá upphafi Sjónvarpsins 1966 hafa verið tekin þar upp mjög vel gerð leikverk og þótt þau væru svart-hvít fyrsta áratuginn gat þar að líta í mörgum tilfellum mjög mikla fagmennsku á öllum sviðum. Sem dæmi um það hve slæmt það var að þessi verk rykféllu áratugum saman má nefna að þegar Gísli Marteinn Baldursson var að gera hina skemmtilegu bók sína um topp tíu þetta og topp tíu hitt á Íslandi, bar hann undir lista sína undir ýmsa álitsgjafa.
Hann sýndi mér lista yfir tíu bestu karlleikarana og tíu kvenleikara og ég tók eftir því að enginn hinna eldri jöfra voru þar á blaði. Ég sagði við Gísla Martein að lágmark væri að Brynjólfur Jóhannesson væri á þessum lista. "Hver var hann?" spurði Gísli Marteinn, eðlilega, - hans kynslóð hafði aldrei séð neitt til þessa frábæra leikara og margra annarra sem léku í fyrstu sjónvarpsleikverkunum.
Ég svaraði að Brynjólfur hefði verið einhver fjölhæfasti leikari allra tíma á Íslandi, jafnvígur á dramatísk hlutverk og grínhlutverk. Þótt hann væri höfðuleikarinn hjá Iðnó eftir stofnun Þjóðleikhússins var talið óhjákvæmilegt að láta hann leika Jón Hreggviðsson í sýningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni og Jón bónda í Gullna hliðinu.
Enginn hefði síðan getað gert þetta eins vel og hann.
Það eitt að verið sé að reyna að koma hreyfingu á þessa hluti nú er gott. Nógu stórt menningarslys hefur þegar orðið.
RÚV semur við félög leikara og tónlistarmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
RÚV liggur á gersemum sínum eins og ormur. Frægt er orðið hvernig farið var með aðstandendur heimildamyndarinnar Blindsker. Það er vonandi að RÚV verði, hér eftir, menningarstofnunin sem það hefði alltaf átt að vera.
Villi Asgeirsson, 12.3.2008 kl. 21:33
en hvað með Stöð 2.......Nú fær maður örugglega að sjá Nínu ömmu aftur á skjánum(Nínu Sveins)
Einar Bragi Bragason., 13.3.2008 kl. 00:23
Það vakti nú ekki allt hrifningu sem gert var í sjónvarpinu í árdaga þess. Reyndar eru vonbrigði, hneikslan og deilur um þau leikverk sem gerð voru, ofarlega í minningunni frá þessum árum. Leikar kunnu ekki á þennan miðil og frammistaða þeirra flestra afleit. Uppskrúfaður sviðslekur passar ekki í kvikmyndir. Það eru helst ómenntaðir leikarar sem náð hafa tökum á kvikmyndaleik á Íslandi, s.s. Egill Ólafsson, Eggert Þorleifsson, Laddi, Jón Gnarr, Pétur Jóhann o.fl.
Illa unnin kvikmyndahandrit og sviðsleikur er akkilesarhæll íslenskrar kvikmyndagerðar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2008 kl. 00:37
Já því miður er uppvaxin heil kynslóð sem ekki þekkir frábæra listamenn á borð við Brynjólf Jóhannesson. Vonandi verður breyting á þessu sem fyrst.
Mosi minnist þess að hafa einna fyrst heyrt nafn þessa fræga leikara fyrir langt löngu skömmu upp úr 1960. Þá sat hann á stéttinni fyrir framan útidyrnar við hlið gamals manns sem fæddur var 1878 og sagði Mosa óspart frá. Allt í einu stóð gamli maðurinn upp og sagði og benti mér yfir Miklubrautina: „Nei sko, þarna fer Brynjólfur gamli“. Sjálfur var gamli maðurinn um 20 árum eldri!
Þegar mér óx fiskur um hrygg fór eg að sækja leiksýningar einkum í gamla Iðnó. Mikið var gaman að túlkun Brynjólfs á sr. Sigvalda skúrksins í Manni og konu eftir Jón Thoroddsen í leikgerð Emils Thoroddsen svo eftirminnilega þar sem ágirndin kom svo berlega í ljós.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 14.3.2008 kl. 14:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.