VOPN Í HÖNDUM BARNS, AUKAATRIÐI?

Rennihurðin þunga sem einhverf telpa renndi á kennara í augnabliksæsingi var með brún sem var aðeins 4mm á þykkt, næstum eins og fallöxi eins og hver maður sér, sem mælir þykkt hurða á heimili sínu. Í málinu kom fram að strax hefði verið skipt um hurð en samt hefði hún staðist kröfur! Sökin var öll færð á barnið, vegna þess að talið var það hefði vitað mun á réttu og röngu. Ég spyr: Gat barn í augnabliksæsingi gert sér grein fyrir því hve þunn brúnin var á þessari þungu hurð? Gat það vitað að það væri að handleika stórhættulegt vopn?

Ég fullyrði að í bandarísku dómsmáli hefði þetta verið gert að aðalatriði málsins og sök felld að öllu leyti eða stærstum hluta á þá sem báru ábyrgð á svona umbúnaði. Afleiðingar þess dóms hefðu orðið að kröfum um að svona hurðum hefði verið breytt.

Þetta segi ég eftir að hafa árum saman fylgst með greinum í bandarískum tímaritum um lögsóknir á hendur flugvélaframleiðendum og að hafa sjálfur farið í yfirheyrslu fyrir bandarískum dómstóli út af ökumannshjálmi, sem brotnaði við árekstur.

Að vísu fóru bandarískir dómstólar og lögfræðingar á tímabili offari í svona málum en ennþá mega framleiðendur og hönnuðir búnaðar, svo og þeir sem bera ábyrgð á lögum og reglugerðum um búnað, búast við því að vera dæmdir til skaðabóta, jafnvel þótt búnaðurinn hafi staðist ströngustu kröfur síns tíma.

Afleiðingin verður oft sú að kröfunrnar eru hertar. Í yfirheyrslunni yfir mér varðandi hjálminn sem Hafsteinn heitinn Hauksson bar þegar hann beið bana í árekstri við tré kom fram að hann keypti sér fyrir slysið besta og öruggasta hjálm sem völ var á.

Einnig var mikið lagt upp úr því að sanna, að á þeim hraða sem bíll Hafsteins var, hefði hjálmurinn átt að standast það högg, sem hann varð fyrir, en ekki að brotna eins og raunin varð. Að lokum það að áreksturinn hefði ekki orðið vegna fráleits ofsaaksturs og slysið eingöngu orðið svona alvarlegg vegna þess að hann lenti á eina trénu á löngum kafla. Einnig að tíu sentimetrar til eða frá í árekstrinum hefðu breytt öllu.

Sem sagt: Hjálmurinn var aðalatriðið í þessu máli.

Mikið var lagt upp úr framangreindum atriðum í bandaríska málatilbúnaðinum til að koma í veg fyrir að Hafsteinn yrði sakaður um að hafa ekki keypt og notað hið besta fáanlega. Þessi aðferð sækjandans á hendur hjálmaframleiðandanum beindist greinilega að því að það væri rangt að gefa keppanda falskt öryggi með því að framleiða vöru, þar sem ekki voru gerðar nóg strangar styrkleikakröfur.

Ég veit ekki hvernig þessu máli lyktaði nákvæmlega, hvort það var með sátt eða dómi, en mér skilst að árangur hafi náðst fyrir ekkju Hafsteins. Hitt veit ég af þessu máli og fleirum að dómskerfið vestra telur það réttlætismál að skoða vel hvern þann búnað eða tæki sem á þátt í slysum og að framleiðendur og löggjafinn uppfylli sanngjarnar kröfur um endurbætur.

Gaman væri að vita hvort hættuleg vopn á borð við þungar rennihurðir með örmjórri egg séu enn löglegar hér á landi. Ef svo er, er það tilviljanakennt hvaða eigendur og umráðamenn slíkra hurða hafa þær hættulausari en hurðin var í Mýrarhúsaskóla.

Í bandarísku réttarfari væri slikt ekkert vafaatriði. Dómstóllinn hefði lagt línuna í dómnum í stað þess að einblína á það eitt hvort blessað barnið vissi mun á réttu og röngu, burtséð frá því hvort það gat gert sér grein fyrir raunverulegum aðstæðum.

Bendi síðan á bloggsíðu Ólínu Þorvaðardóttur með umræðum um fleiri hliðar þessa máls.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Maður verður meira og meira undrandi á þessum dómi eftir því sem meira kemur fram. - Þessar upplýsingar þínar eru athyglisverðar Ómar og þarft skoðunarefni því það eru víða slysagildrur og ef dómstólar fella fleiri svona dóma er almenningur illa varinn.

Haraldur Bjarnason, 18.3.2008 kl. 21:06

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef hurðin stenst kröfur eins og þú segir, þá hlýtur þetta að vera á ábyrgð gerandans, sama hvort um óhapp eða viljaverk var að ræða. Hins vegar furðar maður sig á að hurðin hafi staðist kröfur því hún er auðvitað hættuleg í alla staði.

En lærdómurinn sem hægt er að draga af þessu er sá að mínu mati, að nemendur og starfsmenn skóla ættu að vera tryggðir gagnvart hverskyns óhöppum innan skólans. Og ef sjúkir einstaklingar valda tjóni eða örkumlan, þá komi opinberir aðilar að bótagreiðslum. Það myndi ég kalla samfélagslega ábyrgð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2008 kl. 22:14

3 identicon

Var að lesa færslu Ólínu sem þú bendir á. Ég er algjörlega sammála henni.

Kristín Helga (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 22:16

4 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Fyrst að Seltjarnarnesbær er búinn að festa hurðina þá er það ákveðin staðfesting að hurðin hafi ekki staðist kröfur.

Svo vil ég benda á að þetta er héraðsdómur sem dæmir. Við höfum Hæstarétt sem á lokaorðið og það er hann sem gefur fordæmin, ekki undirréttur.

Sigurður Haukur Gíslason, 18.3.2008 kl. 23:02

5 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Þessi stórfurðulegi dómur fæst aldrei staðfestur í Hæstarétti. Spyrjum að leikslokum.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 18.3.2008 kl. 23:27

6 Smámynd: Ingólfur

Mér finnst reyndar frekar erfitt að gera mér grein fyrir hvernig þessi hurð er í raun og veru. T.d. hvernig er brúnin? Hvað nær hún langt framyfir brún hurðarinnar sjálfrar?

Þó finnst mér það eðlilegt að hættuleg hurð beru hluta ábyrgðarinnar.

Hins vegar er ég ekki viss um að ég vilji fara að fordæmi þeirra sem gera kröfur um að innbyggðs glasahaldari í bíl fylgi viðvörun um að vökvinn sem er í glasinu sem maður kýs að geyma þar kunni að vera það heitur að hann geti brennt mann. Og NB, það eru til meira "absúrd" dæmi. Ég tók bara eitt svona "venjulegt".

Ingólfur, 19.3.2008 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband