DÆMIGERT FYRIR ÍSLENDINGA.

Hugsanlegt afnám UNESCO-gæðastimpilsins af Þingvöllum er dæmigert fyrir vítavert skeytingarleysi Íslendinga um mestu verðmæti landins. Fyrir meira en áratug komst til umræðu að nokkrir staðir á Íslandi gætu komist á heimsminjaskrá UNESCO og héldu Íslendingar að Þingvellir og Mývatn ættu þar góða möguleika. Erlendis vakti hugmyndin um Mývatn aðhlátur vegna tilvistar Kísiliðjunnar og kísilnáms í þessu einstæða vatni.

Nú er að koma í ljós óafturkræf og áframhaldandi eyðilegging á stórum hluta lífríkis vatnsins af völdum verksmiðju sem starfaði aðeins í 40 ár með eins ósjálfbæra og skaðlega starfsemi gagnvart einstæðum verðmætum vatnsins og hugsast gat.

Þáverandi sveitarstjóri hafði engan skilning á gildi þess gæðastimpils og þeim tekjumöguleikum sem UNESCO-viðurkenningin hafði þótt ég sýndi honum hvernig UNESCO-stimpill bryggjuhúsanna í Björgvin var nýttur á norskum ferðamannabæklingi til að laða ferðafólk þangað með því að hafa bryggjuhúsin á forsíðu helsta kynningarbæklings um landið.

Þótt Kísiliðjan sé farin munu Mývetningar fjarlægjast UNESCO-viðurkenninguna enn frekar á næstu árum með þeim hrikalegu umhverfsspjöllum sem í ráði eru með skefjalausum virkjunum fyrir austan og norðaustan vatnið.

Ég hef í blaðagreinum lýst því hvernig er í lófa lagið að stytta hraðleið milli uppsveita Árnessýslu og Reykjavíkur fyrir sunnan Þingvallavatn. Á það er ekki hlustað heldur talað um nauðsynlega hraðleið skólabarna um Lyngdalsheiði. Börnunum hefur farið fækkandi og mun nú hægt að telja þau á fingrum annarrar handar. Með lítilsháttar lagfæringum á núverandi Gjábakkavegi og notkun öflugs jeppa í nokkra daga á vetri er auðvelt að leysa þetta mál.

Líka má spyrja hvort skólaumdæmaskipting landsins sé svo heilög að ekki megi láta þessi börn læra í skóla í Mosfellsbæ í aðeins 20 mínútna aksturfjarlægð.

Fastheldni slendinga í úrelt nýtingarsjónarmið og skaðleg skammtímagræðgi er með ólíkindum. Náttúruverndarnýting er okkur fjarlæg hugsun en aðeins hugsað um "skástu leikina í stöðunni" hverju sinni varðandi stanslausar virkjana- stóriðjuframkvæmdir sem byggjast nú að mestum hluta á jafn ósjálfbærri nýtingu og hjá Kísiliðjunni á sinni tíð.


mbl.is Þingvellir af heimsminjaskrá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Góður pistill, því miður virðist það markmið að skaffa verktökum viðfangsefni ætíð vera æðst á stalli. Áherslur á náttúruverndar og útivistar þurfa að víkja fyrir því sem kallað er framfarir og uppbygging. Stundum er slík uppbygging í óþökk meginþorra fólks en samt er henni þröngvað í gegn með þumbaragangi.

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.3.2008 kl. 10:16

2 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Ótrúlegt skilningsleysi Íslendinga á náttúru landsins. Dæmigert. Þegar fólk hefur fallega náttúru stöðugt fyrir framan sig þá er eins og það haldi að þetta sé bara verðlaust fyrirbæri af því að það er bara þarna. Hættir að sjá gildi þess. Fegurðin verður of venjuleg í augum sumra því miður.  Auðlind felst líka í náttúrufegurð og sérstæðri náttúru. Vildi óska þess að fleir landar mínir væru betur meðvitaðir um það.

Ég segi það sama hver er munurinn að keyra börnin annað, Mosfellsbæ eða Selfoss á góðum vegum sem eru þar fyrir?

Jóhanna Garðarsdóttir, 20.3.2008 kl. 11:03

3 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sammála þér, Ómar.

Þröngsýni og hugsunarleysi virðist ráða ferðinni hér einu sinni enn. Ég hef aldrei séð tilgang með því færa gjábakkaveginn. Ef sá vegur sem nú er yrði lagfærður þannig að bílar og rútur hristast ekki í sundur á þvottabrettunum þá væri það hitt besta mál og þyrfti ekki að gera meira.

Úrsúla Jünemann, 20.3.2008 kl. 11:26

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Alveg sammála þér Ómar!
Við eigum að láta Þingvelli vera í friði og vernda Þingvallavatn.
Gjábakkavegurinn var hrein hörmung á sínum tíma en létti þó umferð af gamla veginum um Vatnsvíkina. Enn á eftir að rannsaka lífríki vatnsins nánar og þá mengun sem þar er að finna m.a. mikið magn kvikasilfurs í fiski.

Júlíus Valsson, 20.3.2008 kl. 11:56

5 identicon

Sammála ykkur.

Ég man eftir umræðunni um Gjábakkaveg þá var það orðað þannig að það væri "mannréttindarbrot ef börnin fengju ekki góðan veg í skólann sinn". Nákvæmlega þessi rök komu á forsíðu blaðanna. Það er sorglegt hvað náttúran er lágt skrifuð og hvenær er nóg komið.

Varðandi Þingvallavatn þá er margt þar í gangi sem þarf að athuga. Mikil bátaumferð er á vatninu með tilheyrandi bensínmengun og svo öll sumarhúsabyggðin með rotþróm sem einn daginn skilar sér út í vatnið. Ég vildi sjá skýrar umgengnisreglur um Þingvelli og Þingvallavatn en sjálf hefur mín fjölskylda sumahús á þessu svæði, engar reglur gilda um umgengni á svæðinu. Skógrækt á svæði sumarhúsanna er mikil og sumir nota alls konar skordýraeitur á trén á vorin. Þetta skilar sér allt út í vatnið einn góðann veðurdag.

Andrea (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 12:00

6 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

AAaaaargggg!!!! eina sem ég get sagt! Ómar ég vildi að fleiri hlustuðu á þig

Gleðilega Páska 

Ragnhildur Jónsdóttir, 20.3.2008 kl. 12:11

7 identicon

Sæll Ómar og ég vil nefna það strax að ég er mikill stuðningsmaður þinn.

En þegar menn taka afstöðu í máli sem þessu skiptir máli hvernig það er matreitt.

Það eitt að Þingvellir séu komnir með UNESCO stimpil kemur til með að STÓRAUKA umferð ferðamanna um Þingvelli og ég leyfi mér að efast um að þeir komi labbandi. Allir staðir sem ég veit um sem hefur orðið fyrir áhuga og straumi ferðamanna hafa og munu aldrei bíða þess bætur. Þeim fylgir stórauknar framkvæmdir til að geta tekið á móti og gera staðinn "ferðamannavænni"

Stóri misskilningurinn er að uppbygging Lyngdalsheiðarvegar hefur ekkert með Þingvallavatn sjálft að gera.

Fyrir er gríðarleg umferð á Gjábakkavegi og aukning umferðar á betrumbættum Lyngdalsheiðarvegi verður ekki svo mikil,,,, en hinsvegar mun umferðaröryggi stórbatna, slysum fækka sem og útköllum björgunarsveita að bjarga fólki úr lífsháska. (bílaleigurnar hafa misst ófáa bíla einmitt á þessum Gjábakkavegi)

Nýi vegurinn á að liggja töluvert neðar en núverandi og ef menn skoða landlegu á þessum stað, liggur vegurinn töluvert neðar í landinu og hallar frá Þingvallavatni. Ómar minn, er þessi stubbur sem nú á að taka ekki í sömu línu og þú teiknaðir "hraðbrautina" þína? Eina sem þarf svo að gera er að halda áfram og hver væri betur til þess fallinn að berjast í því en þú.......:)

Ég er alveg sammála þér með að nota skólabörn sem aðal skjöld í vörn með veginum ekki það rétta þar sem önnur miklu veigameiri forsendur liggja að baki lagningu vegarins.

Númer 1, 

er öryggi, gríðarleg aukning ferðamanna, erlendra og innlendra er um þessa leið sem aldrei hafa komið á bugðótta malarvegi. Í gríð og erg eru þessir ferðamenn að lenda þar í vandræðum og oft hefur farið illa og oft legið við stórslysi. Það eru ekki mörg ár síðan að rúta hrapaði þarna niður í gil, rétt fyrir ofan Laugarvatn. Ef það hefði ekki verið fyrir færni og skynsemi rútubílstjórans að biðja farþega að yfirgefa rútuna á meðan hann var að glíma við aðstæður hefði endirinn orðið hrikalegur.

Vegurinn mun minnka hættu á stórslysum og umhverfisslysum á þessum stað.

Númer 2,

Gjábakkavegurinn er hluti af "Gullna hringnum" sem 90% af öllum ferðamönnum sem heimsækja landann fer um. Ég er alveg viss um að ferðaþjónustan í heild sinni munu fagna þessum vegi.

Númer 3

Á Laugarvatni er mikið menntafræðisetur. Með Lyngdalsheiðarvegi styrkist stoð skólanna þar sem bæði nemendur og kennarar þurfa að keyra daglega á milli Laugarvatns og Höfuðborgarinnar. Oft hefur verið sótt að þessum merku skólum, Menntaskólanum og ÍKHÍ sem eru lífæð alls samfélags á Laugarvatni en þeir hafa staðist þær prófraunir sem á þá hafa verið lagðar og nú blásið til sóknar. Lyngdalsheiðarvegur kemur til með að gegna mikilvægu hlutverki þar.

Númer 4,

Mikil uppbygging er að eiga sér stað á Laugarvatni sem er mjög mikilvægt og jákvætt fyrir Bláskógabyggð. Kemur hún til með að efla allar grunnstoðir samfélagsins, skólana, verslun, þjónustu við ferðamenn og margt fleira. Ef hætt yrði við Lyngdalsheiðarveg yrði það óbætanlegt tjón fyrir mannlífið og þungt högg á þá bjartsýni sem athafnafólk á Laugarvatni hefur haft á staðnum.

Númer 5,

Gjábakkavegurinn núverandi er byggður á Kóngsveginum sem eru miklar fornminjar sem tók 1/3 hluta af fjárlögum Íslands að byggja. Með frekari uppbyggingu á þeirri leið sem þú stingur uppá Ómar, væri endanlega verið að eyðileggja þessar merku fornminjar og gera þær óafturkræfar. Og ég bara trúi því ekki Ómar að þú viljir standa fyrir slíku.

Númer 6,

Á tímum sameiningar Þingvallasveitar, Laugardalshrepps og Biskupstungna, sem mikill þrýstingur var á að gera frá samfélaginu, var lagning Lygndalsheiðarvegar ein megin forsenda fyrir sameiningunni en eins og staðan er í dag er enginn heilsársvegur til sem tengir saman þessi sameinuðu sveitarfélög.

Númer 7

Lyngdalsheiðavegur mun stórbæta aðgengi og öryggi til og frá  Þingvöllum og ekki veitir af þar sem staðurinn er kominn á Heimsminjaskrá UNESCO.

Númer 8

Eigum við að búa til kynslóð af einstaklingum í Bláskógabyggð sem aldrei fá að kynnast sveitungum sínum vegna þess að nokkrar þröngsýnisraddir náðu að stoppa eðlilega uppbyggingu og þóun í sveitarfélaginu? Auðvitað eigum við að veita krökkunum í Þingvallasveit möguleika á að ganga í skóla með sínum sveitungum. En það er bara eitt lítið lóð á vogarskálina með þessari framkvæmd.

Stundum finnst mér menn (ekki þú Ómar) búi sér til tómstundagaman af því að berjast gegn einhverju,,,,,,,, en bara að það sé nógu langt í burtu þannig að það snerti alveg örugglega ekki þeirra daglega líf og lifibrauð.

Hvar voruð þið hobbífólk þegar Hellisheiði var rústuð. Þar var hægt að eyðileggja náttúru- og fornmynjar frá landnámi án þess að stuna heyrðist frá ykkur. Hellisheiðin VAR ein fallegasta og merkilegasta "ósnorta" náttúra í nágrenni Reykjavíkur.

Nú er ekki hægt að keyra til og frá Reykjavík öðruvísi en með grettum og að  halda fyrir nefið..... sorglegt.... og kannski bara einum of nálægt.

...og finnst ykkur allt í lagi að Orkuveita Reykjavíkur dæli ómældu magni af kísil úrgangi í Þingvallavatn frá Nesjavallavirkjun?

með kveðju

Bjarni Dan

Bjarni Daníelsson (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 12:16

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þær lagfæringar sem ég sé fyrir mér á Kóngsveginum eru ekki þess eðlis að eyðileggja veginn, aðeins um að ræða að hækka hann litillega á tveimur hundrað metra köflum sem eru snjóþungir, leggja á hann bundið slitlag eins og hann er og setja nokkur útskot fyrir ferðamenn til að stansa og nota hið frábæra útsýni sem er af veginum.

Ef mönnum finnst þetta lítilræði of mikið er ég til í að endurskoða þessa tillögu að frátöldu því að bundið slitlag á veginn líkt og gert hefur verið við Bolabás er til bóta og nákvæmlega jafn afturkræf aðgerð og malarvegur.

Nýi vegurinn sem þú berst fyrir verður það mikil hraðbraut að umferð um Þingvelli mun aukast miklu meira en ella. Það er vegna þess að þá munu tugþúsundir aka um svæðið sem aðeins gera það til að flýta för sinni en á milli annarra staða ekki til að njóta Þingvalla, sem þeir þekkja fyrir.

Ein af nýju leiðunum sem ég hef stungið upp á liggur fyrir sunnan Lyngdalsheiði og með slíkri hraðleið er þeim sem eiga aðeins sem greiðast erindi milli Laugarvatns og Reykjavíkur beint á heppilega leið fyrir þá og létt álagi af Þingvöllum, sem ég er sammála þér um að eigi að einskorða sem mest við þá sem fara þangað gagngert til þess eins að njóta staðarins.

Þingvellir eiga að mínum dómi ekki að verða lega fyrir einskonar Miklubraut á milli Laugarvatns og Reykjavíkur.

Ef þau sjónarmið ættu að ráða að við norðanvert Þingvallavatn liggi sem greiðust hraðleið milli Laugarvatns og Reykjavíkur myndi sá vegur að sjáfsögðu fara yfir suðurenda Almannagjár og við Valhöll stystu leið með strönd vatnsins.

Hugmynd mín um hraðleið um Grafningsskarð eða Ljósafoss beinist að því að stysti ferðatíminn verði á þeirri leið. Það er besta ráðið til að vernda Þingvelli og Þingvallavatn og gefa fólki val á leiðum í stað þess að beina öllum inn á sama svæðið við norðausturhorn Þingvallavatns.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2008 kl. 13:03

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þeim blekkingum var beitt við Nesjavallavirkjun að affallsvatn frá henni rynni til suðurs. Hver sá sem kemur að tjörninni fyrir norðan virkjunina sér þó að sú leið liggur upp í móti! Nú hefur fundist arsenik í vatninu og komið hefur í ljós að þessi virkjun er ekki sjálfbær. Þarna hef ég nefnt tvennt sem ekki var vitað á sínum tíma þegar ákvarðanir voru teknar.

Enginn hefur bent oftar á síðara atriðið en ég svo að mín afstaða ætti að liggja ljós fyrir: Taka verður allt virkjanaferlið á Nesjavalla-Hengilssvæðinu til gagngerðrar rannsóknar og endurskoðunar og það er beinlínis rangt að halda því fram að náttúruverndarfólk setji kíkinn fyrir blinda augað í nágrenni Reykjavíkur.

Ekki þarf annað en að fylgjast með baráttu Landverndar nú og að undanförnu, svo og baráttunni gegn álveri í Helguvík og stækkun álvers í Straumsvík til að sjá hvar meginþungi náttúruverndarbaráttunnar liggur nú og mun liggja á næstunni.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2008 kl. 13:08

10 Smámynd: Bjarni Daníel Daníelsson

fyrirgefðu Ómar en um hvaða miklubraut, hraðleið ert þú að tala um???

Þar sem á að leyfa 90km hámarkshraða liggir ekki einu sinni í Þingvallasveit.

Ég hef hvergi heyrt annað en að þær umferðareglur sem fyrir eru á Þingvöllum muni standa hvað sem verður.

og enn og aftur elsku vinir Ómars og Íslands alls..... VEGURINN mun EKKI stórauka umferð heldur STÓRBÆTA umferðaröryggi UTAN VIÐ ÞJÓÐGARÐ ÞINGVALLA. Ef eitthvað er að þá hefði ég í fyrstu veðjað á að veginum yrði einróma fagnað.....en oft veltur lítil þúfa þungu hlassi.

Og ég skora á ykkur að kynna ykkur málið fordómalaust, af skynsemi og raunverulega hagsmuni Þingvalla.

Bjarni Daníel Daníelsson, 20.3.2008 kl. 14:03

11 Smámynd: Júlíus Valsson

Bjarni Dan á hrós skilið fyrir málefnalega umræðu.

Júlíus Valsson, 20.3.2008 kl. 14:18

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ókey, vegurinn um Bláskógaheiði milli Þingvalla og Gjábakka er ekki Miklubraut en hlutverk nýs vegar um Lyngdalsheiði er hins vegar það sama og Miklubrautarinnar, að bjóða upp á fljótförnustu og stystu leiðina milli Laugarvatns og Reykjavíkur rétt eins og Miklabrautin á að vera fljótfarnasta og stysta leiðin gegnum Reykjavík. Þar með yrði stefnt að stóraukinni umferð um Þingvelli og flöskuháls norðan vatnsins sem mun þá væntanlega kalla á kröfur um breikkun þess vegar, enda þá orðið líklegt að svæðið verði komið af heimsminjaskránni.

Eins og ég hef margbent á áður er hægt að bjóða upp á sama og jafnvel betri árangur í styttum umferðartíma milli Laugarvatns og Reykjavíkur án þess að beina þessari hröðustu umferð um Þingvelli.

Það er mergurinn málsins.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2008 kl. 20:14

13 Smámynd: Bjarni Daníel Daníelsson

Ómar minn, enn er þetta spurning hvernig við matreiðum hlutina þar sem úr sama efni getur þú mallað óbjóðandi graut eða lystisemdir.

ég er alveg viss um að ef að vegurinn væri rétt fram borin til UNESCO myndu þeir gera kröfu um að hann yrði lagður.

horfum á staðreindir:

vegurinn liggur alfarið utan þjóðgarðs

vegurinn veitir betra og fjöbreyttara aðgengi að Þjóðgarðinum

vegurinn kemur til með að stórauka ÖRYGGI ferðamanna til og frá þjóðgarðinum

vegurinn mun bjarga mannslífum

vegurinn mun bera 90 km hámarkshraða en vegurinn um þjóðgarðinn mun halda sínum hámarkshraða sem allir hingaðtil hafa þurft að virða og munu gera í framtíðinni. Það sem hinsvegar mun gleðja vegfarandann er heilsársvegur sem ekki þarf að leggja líf og limi undir til þess að keyra.

Þar fyrir utan er það staðreind að núverandi vegur er fljótfarnasta leiðin til Reykjavíkur og er þegar notuð sem slíkur og þá undantekningalaust er tekin norðurleiðin en ekki meðfram vatninu.

En hvort sem vegurinn verður lagður eða ekki, myndi ég samt vilja sjá að öll umferð vöruflutninga og þar á meðal olíuflutningar yrði bannaður innan þjóðgarðsins.

Ég sé þennan veg sem fyrsta kaflann af þínum hugmyndum um Miklabraut til Reykjavíkur sunnan Þingvalla.

En af hverju er því haldið endalaust fram að þessi tiltekni vegur muni "Stórauka" umferð um Þingvelli.......... hvað með heimsminjaskrá UNESCO??????? halda menn virkilega að það kalli ekki á stóraukna umferð og framkvæmdir???

ég er farinn að hallast á það að mergurinn málsins sé að berja hausnum við stein.

Bjarni Daníel Daníelsson, 20.3.2008 kl. 21:17

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hárrétt, Bjarni, að aukin frægð Þingvalla mun kalla á aukna umferð. En þá vilt þú og skoðanabræður þínir stórauka umferðina enn frekar í stað þess að beina umferð, sem ekkert hefur með ferðamennsku að gera yfir á leið sem er sérstaklega hugsuð fyrir slíka umferð.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2008 kl. 23:16

15 Smámynd: Bjarni Daníel Daníelsson

Ókey, Ómar

Í mínum huga á þessi vegur að þjóna þeirri umferð sem fyrir er. Stórbæta umferðaröryggi. það er alveg gríðarleg umferð um gamla Gjábakkaveginn og alveg greinilegt hér að menn gera sér ekki alveg grein fyrir því.

Hérna hafa fleiri og fleiri menn tekið afstöðu og geta ekki bakkað.

Vegurinn kemur ekki til með að stórauka umferð um Þjóðgarðinn....

....það gerir heimsminjaskrá UNESCO hinsvegar.

og ég segi enn og aftur....

á ekki að bjarga fornminjum...

...Kóngsveginum?????

hvar eru friðunaröflin sem öllu vildu bjarga við Kárahnjúka?

eruð þið að missa trúverðuleikann?

eftir hverju er farið??

að lokum.... Gleðilega Páska

Bjarni Daníel Daníelsson, 21.3.2008 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband