ALBERT GERÐI ÞETTA LÍKA !

Ronaldo er ekki eini knattspyrnumaðurinn í heiminum sem hefur notað þá sparktækni sem hefur gagnast honum svo vel í aukaspyrnum. Albert Guðmundsson sýndi í tveimur frábærum mörkum sínum í leik á Melavellinum fyrir rúmri hálfri öld að þessa tækni hafði hann á sínu valdi.

Í þessu leik lék Valur við frábært erlent gestalið og það var leikur kattarins að músinni sem gestirnir unnu og hefðu getað skorað fleiri mörk en þeir gerðu. En Albert Guðmundsson, sem þá var í fríi hér heima, sá fyrir því að gestirnir urðu að hafa fyrir sínu.

Ekki þýddi fyrir Albert að liggja frammi því að þá fékk hann aldrei boltann. Leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Valsmanna og þar var Albert við miðju vallarhelmingsins, plataði nokkra mótherja upp úr skónum í þau skipti sem hann fékk boltann og gaf síðan frábærar sendingar á samherja sem fengu alla vallargesti til að klappa af hrifningu. Þegar hann fékk boltann hópuðust mótherjarnir að honum eins og flugur að haug og engin leið var fyrir Albert að prjóna sig alla leið í gegn, oftast nær endilangan völlinn, hvað þá að finna smugu sem hægt væri að skjóta í gegnum.

Í örfá skipti komst hann þó fram fyrir miðju en sá að of margir voru á leið hans nær markinu, hún var lokið bæði fyrir einleik og skot. Albert hafði fram að þessu gefið boltann til baka í þessari stöðu en tekur nú upp á því alveg upp úr þurru að spyrna firnafast af 35-40 metra færi í átt að markinu en þessi þrumufleygur stefndi þó hátt yfir og framhjá markinu hægra megin. Markvörðurinn var rólegur og rölti af stað til að sækja boltann aftur fyrir.

En þá gerðist það sem ég hef aldrei, fyrr né síðar, séð í knattpyrnuleik. Rétt áður en boltinn var kominn að markinu, hægðist hratt á honum og hann skrúfaðist inn að markinu og "datt" efst ofan í markhornið. Það var mark!

Skömmu síðar gerðist svipað, hann lék snilldarlega á nokkra mótherja og af 35-40 metra færi skaut hann þrumfleyg sem var nákvæmlega eins og hinn fyrri, firnafast skot sem stefndi þráðbeint yfir og fram hjá markinu. Í þetta skiptið var markvörðurinn á varðbergi og skutlaði sér sem elding til þess að tryggja að Albert endurtæki ekki leikinn frá fyrra marki sínu.

En aftur gerðist það sama og fyrr. Þegar allir héldu að boltinn væri á fleygiferð yfir og framhjá markinu, hægði hann skyndilega á sér og skrúfaðist inn fyrir stöngina, efst í markhornið, gersamlega óverjandi fyrir markvörðinn þótt hann skutlaði sér sem óður væri í átt þangað. Albert hafði skorað tvö mörk á þann hátt sem aðeins snillingum er gefið.

Talsmenn gestanna sögðu eftir leikinn að Albert væri tvímælalaust í hópi ellefu bestu knattpsyrnumanna Evrópu og áttu ekki orð yfir því hvernig hann fór að því að skora þessi tvö mörk.

Skýringin liggur líklegast í því að vegna þess hvað skotið er firnafast stefnir það lengi vel yfir markið og jafnvel framhjá því um leið. En mikill snúningur sem er á boltanum og má nefna skásnúning, þ. e. boltinn snýst bæði í láréttu og lóðréttu plani - þessi snúingur fer að virka betur þegar loftmótstaðan hægir á skotinu og þá skrúfast boltinn niður á við og "dettur" undir slána og inn fyrir stöngina.

Ég gæti sagt fleiri sögur af snilli Alberts, allt fram um sjötugsaldur þegar hann var kominn vel á annað hundrað kílóa þyngd en læt þetta nægja.

P.S. Nú hef ég séð í fyrsta sinn aukaspyrnu Ronaldos og sé ekki betur en að spyrnur Alberts hafi verið enn flottari, miklu fastari og af miklu lengra færi !


mbl.is Botna ekkert í aukaspyrnum Ronaldos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Albert var ótrúlegur!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 20.3.2008 kl. 12:22

2 Smámynd: Pétur Kristinsson

Það væri nú gaman ef að RÚV myndi nú búa til fyrir okkur myndbrot af fyrri afrekum þessa snillings.

Pétur Kristinsson, 21.3.2008 kl. 01:42

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því miður er nánast ekkert til af kvikmyndum af Alberti þegar hann var upp á sitt besta á árunum 1947-54. Hann varð bæði Ítalíumeistari og Frakklandsmeistari og lék þar að auki á tímabili með Arsenal.

Hann gerði ýmislegt ótrúlegt eftir að hann kom hingað heim. Ekki er víst að til sé mynd af því þegar hann tók vítaskot í körfubolta með fætinum og setti boltann þannig ofan í körfuna!

Heldur ekki af af enn ótrúlegra trixi Ladda, sem kom hlaupandi þvert yfir salinn í Ljónagryfjunni í Njarðvík og stökk upp í "splitti" eins og ballettdama til að taka á móti langri sendingu Jóns bróður míns til hans.

Boltinn lenti á hnénu á Ladda í fluginu og var svo lengi á leiðinni þaðan beint ofan í körfuna að Laddi var lentur sjálfur á undan og "kvittaði" fyrir þessu einstæða skoti. Ég er ekki að grínast - hundruð áhorfenda urðu vitni að þessu.

Þessir tveir menn voru í stjörnuliðinu mínu á sínum tíma en nú er það til dæmis Magnús Scheving sem gerir hina ótrúlegu hluti í því liði.

Ómar Ragnarsson, 22.3.2008 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband