25.3.2008 | 23:51
"STAÐINN AÐ VERKI..."
Fréttin af Dunlap, sem átti að fara að taka líffæri úr vegna heiladauða, minnir á Íslendinginn, sem úrskurðaður var látinn eftir að hafa týnst í Bandaríkjunum en dúkkaði síðan sprellifandi upp á Íslandi mörgum árum síðar.
Stærsti "stand-up" draumur minn hefur lengi verið þessi: Ég stend í beinni útsendingu í Leifsstöð þegar tveir menn koma gangandi út úr Flugleiðaþotu, og um leið og alþjóð sér hverjir þeir eru, segi ég í myndavélina: "Við erum stödd hér í Leifsstöð og sjáið þið hverjir koma þarna labbandi sprelllifandi eftir öll þessi ár, - Guðmundur og Geirfinnur! Sælir strákar, hvar hafið þið verið?"
Annars minnir þessi heiladauðasaga mig á eina af eftirlætissögum Boga Ágústssonar hér á árum áður þegar Pólverja-, Álaborgara- og Hafnarfjarðarbrandarar voru hvað vinsælastir. Læt hana flakka hér með og vona að Bogi fyrirgefi mér það:
Í Póllandi lá Pólverji á skurðarborði og færustu heilaskurðlæknar landsins höfðu lyft heilanum úr hauskúpu hans og lagt til hliðar við hana til að komast betur að meini sem þurfti að fjarlægja. Allt í einu leit einhver á klukkuna og hrópaði:"Kaffi!" og allir fóru í kaffi.
Þegar þeir komu úr kaffinu brá þeim í brún því að Pólverjinn var horfinn hafði rankað við sér heilalaus og strokið af spítalanum. Þetta var grafalvarlegt mál og hafin víðtæk leit lögreglu að Pólverjanum heilalausa um allt Pólland.
Þegar sú leit bar ekki árangur var leitað á náðir Interpól, alþjóðalögreglunnar og leitarsvæðið útvíkkað um allan heiminn og leitað árangurslaust í heilt ár, þangað til að lokum að hinn stórhættulegi heilalausi Pólverji
fannst og var handtekinn, STAÐINN AÐ VERKI þar sem hann var að kenna félagsfræði við sænskan háskóla.
Maður sem lýstur var látinn segist nokkuð hress | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.