"ÁRÁS" AÐ FARIÐ SÉ AÐ LÖGUM.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði að kæra Landverndar vegna framkvæmdaleyfis við Helguvík væri "árás". Líklega er hann sama sinnis um kæru Náttúruverndarsamtakanna. Í þessum skilningi var það "árás" þegar Hjörleifur Guttormsson kærði framkvæmdir við álver á Reyðarfirði vegna þess að þær byggðust á mati á umhverfisáhrifum verksmiðju, sem mengaði á allt annan hátt en verksmiðjan sem reisa átti. Hjörleifur vann málið en framkvæmdir voru aldrei stöðvaðar.

Sá sem braut af sér hagnaðist á brotinu og þetta er aðferð stóriðjupostulanna.

Þeir virðast setja sig á annan stall en venjulega borgara. Þegar almennnir borgarar hyggjast fara út í framkvæmdir sem eru háðar lögbundnum skilyrðum af ýmsu tagi, bíða þeir með að hefja framkvæmdirnar þangað til öllum skilyrðum hefur verið fullnægt.

Hefji þeir framkvæmdir fyrr eru þær venjulega stöðvaðar strax af þeim sem ber að halda uppi eðlilegum lögum. Hér á landi virðist annað eiga að gilda um virkjanir og stórverksmiðjur og hinir framkvæmdaglöðu treysta því að komast upp með að hefja framkvæmdir og láta þær ganga svo hratt að ekki verði aftur snúið.

Hvorki hefur verið gengið frá orkuöflun, orkuflutningum né losunarkvótum fyrir álverið í Helguvík, en með því að hefja samt framkvæmdir eru sveitarfélögin, sem semja þarf við um línurnar og virkjanirnar, beittar kúgun og það vafalaust skilgreint sem "árásir" ef þessir samningsaðilar mögla.

Kæra Landverndar byggðist á því að samkvæmt eðlilegum og skynsamlegum lagaskilningi væri rétt að álverið og allar framkvæmdir, sem tengjast því, færu í eitt heildarmat á umhverfisáhrifum frekar en að matið færi fram í bútum, lína hér og lína þar, virkjun hér, virkjun þar, leiðsla hér og leiðsla þar o.s.frv. Þess vegna skaut Landvernd málinu til umhverfisráðherra sem er með mat á umhverfisáhrifum á sínu forræði.

Nú hafa jarðýtuvöðlarnir með framkvæmdum sínum sett kúgunarpressu á umhverfisráðherrann sem verður siðan sakaður um "árás" ef hann makkar ekki rétt.

Landsvirkjun tilkynnti með pomp og pragt á Keflavíkurflugvelli á dögunum að búið væri að ganga frá samningum um orkusölu frá Neðri-Þjórsá til netþjónabús á vellinum og þess hvergi getið að ósamið væri enn við landeigendur.

Samt höfðu stjórnarþingmenn á borð við Illuga Gunnarsson og einnig Þorsteinn Pálsson ritstjóri, sagt að ekki dygðu lengur þau rök fyrir þvinguðu eignarnámi að "brýnir þjóðarhagsmunir" krefðust þess.

Landsvirkjun skellir skollaeyrum við slíku og er greinilega búin að afgreiða málið með þeirri hugsun að valta yfir allt og alla eins og venjulega. Hún hefur ekki fallið frá hugmyndum um innrás í Þjórsárver, endanlega uppþurrkun Dynks, flottasta foss landsins, ásamt fleiri stórfossum og eyðileggingu Langasjávar.

Þegar þar að kemur heldur Landsvirkjun því opnu að framkvæma þetta allt gert og andóf gegn því verður vafalaust kallað "árás."

Síðustu daga fyrir kosningar var gengið frá óafturkræfum gerningum sem varða óafturkræfar framkvæmdir, annars vegar um innrás jarðýtna í Gjástykki vegna rannsókna og hins vegar vegna eignaskipta við Þjórsá.

Í nágrannalöndunum eru það óskráð lög, sem farið er eftir, að fráfarandi stjórnvöld forðist að ljúka rétt fyrir kosningar gerningum sem eru óafturkræfir og binda hendur þeirra sem taka við eftir kosningar.

Í Bandaríkjunum líkja menn forsetanum við "lame duck", lamaða önd í þessu tilliti og telja það hluta af eðlilegu lýðræðislegu siðgæði. Þar í landi eru menn líka meðvitaðir um það að yfirgnæfandi meirihluti þeirra kjósenda, sem óafturkræfar ákvarðanir varðar, er ófæddur.

Slíkur hugsunarháttur virðist enn eiga langt í land með að nema hér land. Hér þykir sjálfsagt að teygja og sveigja lög að vild. "Löglegt en siðlaust" kallaði Vilmundur Gylfason slíkt.

Hér á landi er viðleitni þeirra sem vilja að farið sé að lögum og í samræmi við lýðræðislegt siðgæði kölluð "árás."
Í samræmi við það reikna ég með því að vera skilgreindur af þessum aðilum sem "árásarmaður."

Miðað við þann málstað sem þjónað er með slíkum nafngiftum ætla ég hins vegar að bera þetta heiti stoltur ásamt því fólki sem má sæta því að vera kallað "hryðjuverkamenn", "illgresi" og "öfgafólk" vegna skoðana sinna á umhverfismálum.


mbl.is Kæra útgáfu byggingarleyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er svolítið villandi hjá þér Ómar, í sambandi við Kæru Hjörleifs hér fyrir austan. Hjörleifur kærði að sama umhverfismatið fyrir álver Norsl Hydro, skyldi notað fyrir álver Alcoa, þar sem mengunarvarnabúnaður verksmiðjanna var ólíkur, þ.e. vothreinsibúnaður hjá Norsk Hydro en þurhreinsibúnaður hjá Alcoa. Hjörleifur vann það mál og nýtt umhverfismat var unnið fyrir Acoa sem sýndi að lífríkið og umhverfi fjarðarins bæri ekki skaða af verksmiðjunni,  ekki frekar en Norsk Hydro verksmiðjan sem var enda 25% stærri.

Hjörleifur vildi stöðva byggingu Alcoa verksmiðjunnar á meðan nýtt umhverfismat færi fram, til þess að skaða fyrirtækið og jafnvel Landsvirkjun sem mest, svo mikið hatur er í hans Austur-þýsku kommúnistabeinum gagnvart erlendum auðhringum og kapitalisma.

Alcoa, í vissu sinni að 25% minni verksmiðja þeirra kæmist í gegnum nálarauga umhverfismatsins nýja, vildi ekki hætta byggingunni, enda væri um miljarðatap á því að ræða. Þess vegna tóku þeir þá "áhættu" að halda ótrauðir áfram. Á meðan reitti Hjörleifur hár sitt og skegg af bræði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.3.2008 kl. 16:16

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er alveg hárrétt hjá þér að venju. Ég hef verið að skrifa talsvert um þessi mál á mínu bloggi og hef átt í verulegum erfiðleikum í athugasemdakerfinu að fá fólk til að skilja hve mikið er í húfi ef reist verður álver í Helguvík.

Álverssinnar neita að skilja, að þetta er ekki bara spurning um að hrófla upp einni verksmiðju í víkinni og stinga henni svo í samband. Öðrum en Suðurnesjamönnum komi það hreinlega ekki við. En það þarf að leggja náttúruna að veði, rústa Ölkelduhálsi t.d. og strengja háspennulínur þvers og kruss um Reykjanesið til að afla orkunnar fyrir þetta álver og það kemur okkur öllum við.

Að sjálfsögðu hlýtur að verða að skoða allar þessar framkvæmdir í samhengi hver við aðra því ein er gagnslaus án hinna. Nákvæmlega það sama á við um annan orkufrekan iðnað eins og dæmið um netþjónabúið og Þjórsá sem þú nefnir.

Á suðvesturhluta landsins búa um 2/3 hlutar landsmanna og hafa heilmikið um þessar framkvæmdir að segja, ekki síst vegna þeirrar gríðarlegu brennisteinsvetnismengunar sem jarðgufuvirkjanirnar á Hengilssvæðinu hafa í för með sér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.3.2008 kl. 16:21

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef þarf á annað borð að leggja línur til íbúa Reykjanessskagans, vegna endurnýjnnar þeirra, breytir þá miklu hvort þessar línu fljóti með?

Annars er svolítið merkilegt að skoða sögu stóriðjumótmæla. Alltaf poppar upp eitthvað nýtt sem ofuráhersla er lögð á. Nú eru það línulagnir sem er aðal málið. Hvað næst?

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.3.2008 kl. 16:33

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Æ, Gunnar minn Th...  stundum finn ég svo innilega til með þér.

Ekkert eitt er aðalmálið, það er einfaldlega ekki rétt hjá þér. Þetta eru margar samtengdar framkvæmdir og allar skipta þær aðalmáli, hver á sinn hátt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.3.2008 kl. 16:35

5 identicon

Æj, já maður er orðin afskaplega þreyttur á þér Gunnar TH. þú virðist sitja um þessa síðu og röfla eitthvað bull, og segi eins og Lára hér að ofan "Æ, Gunnar minn Th...  stundum finn ég svo innilega til með þér"

kv. Bart Skofe

Bart Skofe (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 16:43

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sleppið því alveg að blanda minni persónu inn í umræðurnar, ég þarf ekki á gæsku ykkur að halda.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.3.2008 kl. 17:31

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"En það er einmitt vandarmálið að það er alltaf ætt af stað í einhverjar svona framkvæmdir án þess að skoða aðrar leiðir".

Þetta er einfaldlega röng fullyrðing

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.3.2008 kl. 17:54

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Æi krakkar, veriði ekki með þetta tuð. Hvaða máli skipta nokkrar snúrur? Hafa atburðir síðustu vikunnar ekki sýnt, svart á hvítu, að stóriðja er lausnin og að ekkert geti snert okkur ef stíflurnar eru nógu stórar? Hvaða máli skiptir það þótt nokkrar gæsir þurfi að færa sig einhversstaðar lengst upp í fjöllum. Ekki hef ég komið í Þjórsárver. Og Langisjór, lítur sennilega betur út á RAX myndum en í kuldagalla í súld.

Annars var ég að skoða fasteignasíðu MBL og sá að fasteignaverð er einstaklega lágt á Siglufirði. Það hlýtur að vera vegna lítillar atvinnu. Er ekki pláss fyrir álver þar?

Villi Asgeirsson, 26.3.2008 kl. 21:21

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já Langisjór er ekkert sérstakur í kuldagarra í súld. Esjan ekki heldur eða Þingvellir. Burt með þetta allt!

Ómar Ragnarsson, 26.3.2008 kl. 23:31

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og svo viljið þið plata saklausa ferðamenn yfir hálfan hnöttinn til að norpa yfir engu sérstöku! Það er nú illa gert finnst mér

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.3.2008 kl. 00:04

11 identicon

Allgjörlega er ég sammála Bart Skofe og Láru, Gunnar TH (stendur það fyrir tómur haus?)

virðist sitja um þessa síðu hjá Ómari og flestir að mér sýnist hundleiðir á honum og ekki

er nú myndin að gera neitt fyrir hann. ég finn til með honum og velti fyrir mér hvort

guð sé í raun til og ef hann er til þá hvers vegna hann er svona miskunnarlaus.

Ævar Oddur Ævarsson (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 00:35

12 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er illa gert, Gunnar. Annars er súld komin í tísku, þökk sé 66°Norður.

Villi Asgeirsson, 27.3.2008 kl. 08:34

13 identicon

Ánægður með að þú stimplar Dynk sem flottasta foss landsins. Það kom mér virkilega á óvart fegurð þess foss þegar ég sá hann um árið.  Ætli það mætti ekki þurrka upp líka Gullfoss hefði hann valið sér þá óhagkvæmu staðsetningu að vera á afskekktum stað á hálendinu?

Ari (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 10:22

14 identicon

Já, þetta er furðulegt með hann Gunnar TH. Hann virðist hreinlega vera í krossferð á síðunni hans Ómars. Hefur Ómar gert honum eitthvað? Mér finnst þetta illa gert af Gunnari og í tilefni af því ætla ég að ganga aftur þegar ég drepst og hrella hann upp úr skónum.

Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband