27.3.2008 | 12:27
TÆKNIN LÉTTIR LÍFIÐ.
Tæknin getur breytt mörgu í lífi mannsins, bæði í leik og starfi og einnig í veikindum. Sú var tíðin að þegar fólk var flutt á sjúkrahús, var því að miklu leyti kippt úr sambandi við umheiminn. Ef það var rúmfast og veikt voru heimsóknir nánast eina sambandið við lífið utan spítalans.
Fjarskiptatæknin hefur breytt þessu og ég er einn þeirra sem hef notið góðs af tækniframförum í rúmlega tveggja vikna vist á Borgarspítalanum, sem stefnt er að að ljúki á morgun, þótt lengri tíma taki að ná fullum bata.
Allan tímann á spítalanum hefur mér verið kleift að blogga, vera í sambandi við netið og fylgjast með lífinu utan dyra, þótt þrek til þess hafi ekki verið mikið fyrstu vikuna. Aðstæður til þess arna eru að vísu örlítið misjafnar eftir deildum og sjúkrastofum en lipurt starfsfólk reynir það sem það getur til að létta sjúklingum dvölina á ýmsan hátt.
Fyrir bragðið vissu fæstir að ég væri hér inni fyrr en upp komst á netinu á fimmta degi spítalavistarinnar og ég hafði gaman af því að það dróst svo lengi. Það er engin ástæða til að velta sér upp úr veikindum eða sjúkrahúsdvöl því að það er svo sem í sjálfu sér ekkert merkilegra að fólk fari á spítala til viðgerðar en að bílar fari á verkstæði.
Þetta er eitthvað það eðlilegasta í tilverunni, munurinn hins vegar nokkur þegar tekið er tillit til þess að bílar eru dauðir hlutir en sjúklingar ekki.
Á þessum hálfa mánuði hef ég átt náttstaði á fjórum stöðum á spítalanum og kynnst nokkrum sjúklingum í næstu rúmum sem hafa verið mjög mismunandi veikir. Ég hef fylgst með harðri baráttu sumra þeirra og fórnfúsu starfi hjálparfólksins, þar sem allur sólarhringurinn hefur verið undir.
Síðustu dagarnir hafa verið mjög gefandi. Með vaxandi þreki hef ég byrjað á að skrifa tvær bækur, sem setið hafa á hakanum í tuttugu ár vegna þess að alltaf var eitthvað annað í daglega lífinu, sem mér fannst ég þurfa að taka fram yfir.
Með hinum snöggu veikindum sem dundu yfir fyrirvaralaust fyrir þremur vikum, var sem gripið í taumana og ráðin tekin af mér. Kannski var það ekki svo slæmt eftir allt.
Önnur bókanna, sem ég hef byrjað að skrifa hér, er þess eðlis að ég held að ég hafi ekki fengið skárri hugmynd um ævina. Samt hef ég vanrækt hana í sautján ár, kannski vegna þess að maður getur alltaf efast um það hvað hugmyndir manns séu góðar.
En spítaladvöl kennir manni samt þörfina á að forgangsraða viðfangefnum upp á nýtt og meta betur þá Guðs gjöf að fá að vera til og eiga nána aðstandendur, ættingja og vini.
Nú, þegar stefnir í brottför mína héðan er mér ljúft að þakka starfsfólkinu hér fyrir frábæra umönnun og störf í þágu sjúklinganna, sem ég hef orðið vitni að. Hér vinna margir hljóðlát hugsjónastörf og veita mörgum ómetanlega aðstoð við að fást við erfiðustu viðfangsefni lífsins.
Ég var svo heppinn að mitt tilfelli var vel viðráðanlegt og í sjálfu sér minniháttar þótt aðstæður krefðust þess að ég væri svo lengi inni þrátt fyrir þrána til þess að komast héðan.
Af fáu getum við Íslendingar verið stoltari en heilbrigðiskerfinu. Eftir veru á smitsjúkdómadeild hefur mér birst betur en áður að lega landsins, langt frá öðrum löndum, kann að vera kostur, sem getur verið ómetanlegur og reynst okkur dýrmæt staðreynd í framtíðinni.
Stefni að því að blogga betur um það síðar.
Athugasemdir
Einangrun okkar er auðlind í sjálfu sér
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.3.2008 kl. 14:41
Það er kannski alls ekki svo slæmt að leggjast inn á spítala af og til og hlaða batteríin, svo framarlega að ekki sé neitt mikið að. Annars má ná sömu áhrifum með því að keyra upp í sveit að sumri til og setjast að á eyðibýli í 1-2 vikur. Vandinn er bara að þar er hvorki rafmagn né netsamband. Sennilega er það þó kostur... Þetta er auðvitað skrifað af einhverjum sem er í tveimur vinnum, á rúmlega ársgamalt barn og hjálpar til við heimilisstörfin.
Villi Asgeirsson, 27.3.2008 kl. 17:16
~ Allt sem okkur hendir á lífsleiðinni, er okkur þegar upp er staðið, til góðs á einn eða annan veg, þó svo að vegirnir séu óendanlega margir.......... ~
Hef ekki trú á tilviljunum en sendi þér mínar dýpstu óskir og vonir um bata.
Takk fyrir að vera til!
Vilborg Eggertsdóttir, 28.3.2008 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.