ENNÞÁ VON UM BÆRILEGA LAUSN.

Vaxandi ósætti NATO og Rússa vekur áhyggjur. Viðbrögð Rússa við uppsetningu á eldflaugum NATO í Póllandi og Tékklandi eru skiljanleg svo og áform að NATO færi út kvíar í fyrrum ríkjum Sovétríkjanna sálugu. NATÓ er einfaldlega hernaðarbandalag þótt yfirlýst sé að það sé varnarbandalag og að á sínum tíma hafi verið til þess full ástæða að stofna NATÓ. Í herförinni inn í Írak á uppdiktuðum forsendum var ekki lengur hægt að segja að eingöngu væri um varnarviðbrögð að ræða, því miður.

En rétt eins og að Rússar segja að ekki sé viðunandi fyrir þá að hafa við landamæri sín lönd og bækistöðvar á vegum hernaðarbandalags sem þeir eru ekki sjálfir í, myndu Bandaríkjamenn væntanlega ekki taka því þegjandi ef Mexíkó væri í hernaðarbandalagi sem Bandaríkin væru ekki í, heldur gamall andstæðingur úr kalda stríðinu.

Þótt margt hafi breyst síðan 1963 ætti okkur að vera í minni lætin sem urðu út af því að Rússar ætluðu að segja upp kjarnorkueldflaugar á Kúbu og þá stóð öll samúð hins vestræna heims með Bandaríkjamönnum en ekki Kúbverjum.

Ásókn fyrrum austantjaldslanda og lýðvelda Sovétríkjanna í búnað sem geti minnkað áhrif hins stóra rússneska nágranna eru líka skiljanleg rétt eins og það var skiljanlegt að Castro vildi fá til sín mótvægi við yfirþyrmandi nálægð hins kjarnorkuvædda risaveldis. Aðeins tveimur árum fyrr höfðu Bandaríkjamenn stutt innrás kúbverskra útlaga í Svínaflóa og Castro var því uggandi um sinn hag.

Castro hafði það upp úr krafsinu að þegjandi samkomulag varð um að ef Rússar flyttu eldflaugarnar burtu myndu Bandaríkjamenn ekki reyna aftur neitt ævintýri í líkingu við Svínaflóainnrásina og að þessu leyti borgaði brölt Castros sig fyrir hann þótt það kostaði næstum því kjarnorkustyrjöld.

Nú er að sjá hvort hægt sé að lægja öldurnar sem hafa risið við bæjardyr Rússa. Eins og oft í deilum er það liður í áætlun beggja að bera fram hinar ítrustu kröfur sem síðan er hægt að slá af til að ná málamiðlun. Svipuð aðferð og hjá aðalhönnuði GM á sinni tíð sem lagði þessar línur: "Go all the way, then back off."

Æskilegast væri að finna lausn sem tryggir sjálfstæði nágrannaríkja Rússlands og afskiptaleysi Rússa af innanlandsmálum þeirra án þess að það þurfi að hnykla mikla eldflaugavöðva við landamæri Rússlands.

Rússar hafa gasið sem þeir selja til vesturs uppi í erminni og vonandi kemur ekki til þess að þeir beiti því vopni í þvingunarskyni.En það gætu þeir gert ef þeim finnst þeim vera niðurlægðir í eldflaugamálinu.

Það er engum í hag að nýtt kalt stríð hefjist. Þótt manni hugnist stjórnarfarið í Rússlandi illa, ekki hvað síst eftir að hafa farið þangað og þefað af grasrót rússnesk samfélags, verður raunsæispólitík sem beinist að friði vonandi látin ráða í samskiptum NATO og Rússa.


mbl.is Bush þáði boð Pútíns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

NATO er varnarbandalag, ekki hernaðarbandalag.

Jón Valur Jensson, 27.3.2008 kl. 01:02

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

NATO var varnarbandalag, ekki hernaðarbandalag.

Villi Asgeirsson, 27.3.2008 kl. 08:12

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sú fullyrðing Jóns Vals Jenssonar að NATO sé ekki hernaðarbandalag finnst mér dæmi um furðu algenga afneitun á megin eðli NATO og annarra hernaðarbandalaga. NATO var stofnað til að hamla gegn þeirri hættu, sem þótti vofa yfir ríkjum Vestur-Evrópu eftir að Rússar höfðu rænt völdum í lýðræðisríkinu Tékkóslóvakíu og gert það að kommúnísku leppríki sínu.

Sovétmenn höfðu yfirburði í hefðbundnum herafla á meginlandi Evrópu, svo mikla yfirburði, að einn af stjórnmálaforingjum í Danmörku lagði til að ef Sovétmenn létu til skarar skríða skyldi vera símsvari í höfuðstöðvum danska hersins sem segði: Við gefumst strax upp.

Ógn Sovétmanna var hernaðarleg og ekki hægt að bregðast við henni á raunsæjan hátt nema með myndun hernaðarbandalags, þar sem því var slegið föstu að hernaðarlegri árás á hvert eitt ríki NATÓ skyldi skoðuð sem árás á þau öll.

NATÓ hafði frá byrjun heildarskipulag í hernaðarlegum dúr, með yfirherráð og yfirhershöfðingja.

Bandaríkin sendu herlið til Íslands 1951, sem voru búnir vopnum.

Bandalagið og Bandaríkjamenn gerðu áætlanir um árásir á Sovétríkin "í varnarskyni" og til var áætlun um að ef ótvírætt væri yfirvofandi kjarnorkuárás Sovétmanna, kæmi til greina að verða fyrri til í öryggisskyni.

Sams konar ráð voru brugguð á vegum Sovétmanna og Varsjárbandalagsins.

NATO er með herlið í Afganistan og hermenn frá bandalagsþjóðum fóru með her inn í Írak.

Mér er ómögulegt að skilja hvernig hægt er að skilgreina starfsemi NATÓ án þess að megininntakið, beiting herafla í varnarskyni ef á þyrfti að halda og sú fæling sem fólst í hótun um kjarnorkuárás, sé tekið með í reikninginn.

Það er ótrúleg

Ómar Ragnarsson, 27.3.2008 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband