SKAÐLEG ÁSÆLNI RÍKISINS.

Ég heyrði útundan mér í útvarpi undan og ofan af kröfum ríkisins um þjóðlendur á sunnanverðu Miðnorðurlandi en nóg til þess að spyrja hvenær talsmenn ríkisvaldsins ætli að láta af endalausri kröfugerð sem stórskaðað hefur umræðu um flest varðandi nýtingu landsins. Þetta hefur reitt landsbyggðarfólk til reiði svo að margt af því fær grænar bólur þegar það heyrir orð sem byrja á "þjóð" svo sem þjóðlendur og þjóðgarðar.

Ekki er vafi á að þessi stanslausi málarekstur hefur tafið eðlilega framþróun í því sem ég vil kalla náttúruverndarnýtingu um mörg ár og sér ekki fyrir endann á því.

Þessi alltof harða ásælni hefur eðlilega hleypt illu blóði í dreifbýlisfólk og aukið á tortryggni þess gagnvart "kaffistofu-liðinu í 101 Reykjavík" eins og sumt landsbyggðafólk kallar þá sem búa á suðvesturhorni landsins.

Að mínum dómi eru kröfur um þjóðlendur á Tröllaskaga og á milli dala og byggða á Norðurlandi til þess eins fallnar að valda óþarfa úlfúð og deilum. Ég held að í grófum dráttum megi draga línu frá Kiðagili um Nýjabæjarfjall og vestur til Hrútafjarðar og láta af öllum kröfum um þjóðlendur fyrir norðan þá línu.

Reykvíkingar skildu loksins um hvað var að ræða þegar ríkið vildi rífa Esjuna af borgarbúum og Kjalnesingum og gera að þjóðlendu. Það sem talsmenn ríkisins vilja fyrir norðan er ekkert skárra og enginn endir virðist eiga að verða á óþarfa deilum og málarekstri af þessum toga sem hleypir illu í blóði í fólk .


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Af hverju ásælist ríkið allt þetta land? Er það til að geta mergsogið auðlindir sem gætu mögulega leynst þar?

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.3.2008 kl. 22:46

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Ég held að ríkisvaldið ætti nú bara að leggja þessar þjóðlenduhugmyndir á hilluna. - Fulltrúar ríkisins eru búnir að vera með allt niður um sig í þessum málum hingað til.

Haraldur Bjarnason, 28.3.2008 kl. 23:09

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Alvarlegt fannst mér líka að landeigendur fá ekki nema þrjá mánuði til að bregðast við þessum kröfum.

María Kristjánsdóttir, 28.3.2008 kl. 23:22

4 identicon

Sæll Ómar

Mér hefur stundum fundist málflutningur þinn varðandi náttúruvernd full eindreginn en í þessum pistli heldur þú fram skoðun sem að  ég get verið mjög sammála. Ég hef það fyrir satt að landeigendur í Skagafirði muni ætla sér að fara í mjög hart vegna kröfugerðarinnar, landeigendur sem að öðru leyti eru mjög fygjandi heilbrigðri náttúruverndarnýtingu eins og þú kallar það. Það er í raun hlálegt að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokks, þess flokks sem hæst hefur talað um eignarréttinn og nauðsyn þess að standa vörð um hann, skuli ganga fram með þessum hætti. Mér finnst þessi kröfugerð ekki í anda þess sem Árni Mathiesen sagði á dögunum á aðalfundi félags landeigenda. Ég var að vona að þar hefði rödd skynseminnar talað en því miður virðist hún vera hjáróma og veik. Ef svona heldur fram sem horfir er hætt við að framundan séu áratuga deilur um þessi mál. Við höfum ekki þann tíma.

FR (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 23:53

5 identicon

Má maður bara „sækja sér hnefa"? Er ekki ástæða til þess að eignarhald á landi sé yfir allan vafa. Til þess er verið að búa til þjóðlendur að færa það land sem enginn getur sannað eignarétt sinn á formlega undir einn aðila.

Hverjir eiga svo fjöllin, tindana, jöklana og heiðarnar? Afnotaréttur er ekki sama og eignaréttur.

Enginn ætlaði að taka Esjuna frá borgarbúum eða Kjalnesingum. Hverskonar bull er þetta? Illu heilli ákvað ríkið að láta ekki reyna á eignarheimildir meintra landeigenda og ekki er þar með sagt að eighverjir geti kastað eign sinni á Esjuna, svo dæmi sé tekið.

Við eigum að krefjastt þess að menn sanni eignarétt sinn á hálendinu og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að einhver geti átt fjöll og tinda. Hver gaf þeim réttinn og hvar er réttur okkar landslausu Íslendinga? Þvert á móti skaðar öll óvissa um eignarhald „umræðu umræðu um flest varðandi nýtingu landsins“.

Ég spái því að deilur um landareign sé ekki lokið þrátt fyrir úrslit í þjóðlendumálum.

sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 01:56

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Verst að ríkinu er ekki treystandi fyrir landinu.

Villi Asgeirsson, 29.3.2008 kl. 11:34

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mikill munur er á eðli máls þegar krafist er þjóðlenduréttar á fjallarimum milli byggðra dala eins og gert hefur verið á Norðurlandi eða þegar um er að ræða um þjóðlendur inni á hálendi, langt frá byggð. Ég er mikill talsmaður fleiri náttúruverndarsvæða, friðaðra svæða og þjóðgarða og hef skoðað vel fordæmi um skynsamlega skipan slíkra mála í Noregi þar sem sátt náðist milli landeigenda og ríkisvaldsins.

Þegar maður lítur t.d. á það hvernig málum er háttað í Jóstedalsjökulsþjóðgarðinum og sér hvernig hægt er að eyða tortryggni og ná samstöðu, sker í augun hve klaufalegt það er hjá ríkisvaldinu hér að vaða fram með allt of harðar kröfur með þeim afleiðingum að auka tortryggni og illindi.

Ómar Ragnarsson, 29.3.2008 kl. 12:26

8 identicon

Hvernig geta kröfur í þjóðlendumálum verið allt of harðar? Annað hvort eiga menn land eða ekki.

Vissulega hefur það gerst að kröfur um þjóðlendur hafi ekki náð fram að ganga. Ekki síður hafa fjölmargir landeigendur talið sig hafa átt meira land en þeir hafi getð sannað eignarétt sinn á. Því hefur verið breytt og það er gott.

sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 13:26

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það sem ég á við er það að kröfur á borð við fjallarima milli byggða á Norðurlandi og Esjuna eru augljóslega langt umfram alla sanngirni. Þegar tveir deila er auðvitað skiljanlegt að báðir geri ítrustu kröfur.

En maður gerir meiri kröfur til ríkisvaldsins en einkaaðila í því efni að fara nálægt meðalhófi og ég hefði talið eðlilegt að kröfur ríkisins hefðu verið hófstilltari þótt þær færu eitthvað fram inn fyrir þann eignarétt sem landeigendur töldu sig eiga.

Ómar Ragnarsson, 30.3.2008 kl. 14:27

10 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Nú var Mosfellsbær og eigandi Seljabrekku sýknaðir í héraðsdómi af kröfum ríkisins um eignarrétt þess hluta Mosfellsheiðar sem er vestan við sýslumörkin við Árnessýslu. Brandarinn er að sama ríki seldi þetta sama heiðarflæmi 1932 og vildi nú krefjast viðurkenningar á eignarrétti.

Svona vinnubrögð eru óskiljanleg í lýðræðisríki. Þau voru tekin góð í gild þar sem daglegt brauð er að troða mannréttindum um tær og gefa eigarréttindum annarra langt nef.

Eigi veit eg svo gjörla hve mikið fé hefur verið varið í þessa endemis vitleysu en það mun vera æríð. Tilgangurinn helgar meðalið: það á að spara ríkinu háar fjárhæðir þegar náttúruauðlindir eru sölsaðar undir ríkisins. Þá þarf ekki að greiða neinum bætur hvorki fyrir ork né rask og þaðan af síður fyrir að leggja rafmagnslínur þvers og kruss eftir geðþótta.

Betra hefði þessu mikla fé varið í e-r þarflegri verkefni. Það þarf að bæta heilbrigðiskerfið, efla skólana og bæta kjör eldri borgara svo dæmi sé nefnt. Svo hefur einnig verið rætt um að bæta þarf úr fjársvelti lögreglunnar sem veldur nú að ekki verði öll verkefni leyst.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 31.3.2008 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband