31.3.2008 | 09:50
ÞAÐ KOSTAR ORKU AÐ FLYTJA ÞYNGD.
Sparnaður í samgöngum fæst með því að létta bíla og gera þá minni svo að loftmótstaðan minnki. Þetta geta almennir bílaeigendur gert en ekki vöruflutningabílstjórar. Hagkvæmasta stærð flutningabíla eru stærstu bílarnir, því að léttari og minni bílar hafa sömu loftmótstöðu. Allir þessir bílar eru með dísilvélum, enginn með bensínvélum.
Að meðaltali er 1,1 - 1,2 um borð í hverjum af þeim 150 þúsund einkabílum sem fara um götur og vegi. Meðalbíllinn er 4,5 metra langur og 1,5 tonn. Sívaxandi fjöldi einkabíla er milli 2 og 3 tonn með allt að 500 hestafla vélum.
Engin þörf er á slíkum drekum og hinn gríðarlegi fjöldi þeirra er mesta bruðl- og mengunarvandamálið.
Að "almenningur rísi upp" er einfaldlega krafa um að áfram verði haldið á braut eyðslu og bruðls því að bílakaupin hafa aldrei verið meiri og bílarnir aldrei stærri og eyðslufrekari og hvergi í Evrópu keypt jafn lítið af dísilbílum.
Það er frekar hægt að hafa samúð með vöruflutningabílstjórum sem ekki hafa sömu möguleika og almennir borgarar til að minnka við sig. Engin bót væri af því að þeir minnkuðu vélarnar í bílum sínum, eyðslan myndi jafnvel aukast og bílarnir verða dragbítar í hraðri þjóðvegaumferð.
Hins vegar þarf ítarlega rannsókn á hinum raunverulega kostnaði við landflutninga samanborið við sjóflutninga og taka með í reikninginn það dýra auka viðhald sem þungir landflutningar kosta. Á þetta lagði Íslandshreyfingin áherslu í síðustu kosningabaráttu en ekkert hefur gerst í þeim málum.
Ráðamenn vakni" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir þetta. Þótt mér finnist trukkarnir vera dragbítar á þjóðvegunum þá og þegar, en það er annað mál. Það þarf klárlega að endurskoða þetta með sjóflutningana.
Annað sem mér þykir skondið er að fólk er að ferðast innanbæjar meira og minna eitt í bíl. Margir með tvo eða fleiri bíla á heimilinu. Jafnvel jeppa, keypta á dýrum lánum. Svo er fólk að væla yfir bensínverðinu. Fólk ætti að byrja á að líta sér nær og spyrja sig spurningarinnar: "Hvað get ég gert til að bæta minn hag?"
Brjánn Guðjónsson, 31.3.2008 kl. 11:15
Vörubílafloti íslendinga er allt öðruvísi samsettur en þekkist í nágrannalöndum okkar. Hér er algengast útgáfan þriggja ása (10 hjóla) stellarar með tveggja ása festivögnum. Eigin þungi þessara vagnlesta er mjög mikill og að auki virðast menn velja bíla út frá hestaflafjölda, aukaljósum og skreytingum. Algengur eigin þungi slíkrar vagnlestar er 14 - 16 tonn og leyfð heildarþyngd 44 tonn. Sem sagt farmþunginn er 28 - 30 tonn.
Algeng þyngd vagnlestar sem samanstendur af tveggja ása (6 hjóla) og þriggja ása festivagni er 10 - 13 tonn en leyfður heildarþungi 40 tonn. Slík vagnlest getur því borið allt að 27 - 30 tonn eða nánast það sama en stóri þungi og eyðslufreki bíllinn. Þeir sem reynt hafa segjast spara 15 - 30% í eldsneytisnotkun hið minnsta, í sumum tilfellum meira en auðséð er að orkueyðsla per kg. er mun minna en í þeim stóru.
Einnig má benda mönnum á að sækja námskeið og tileinka sér vistakstur (eco-driving) þar sem algengt er að ná 5 - 20% eldsneytissparnaði með réttum vinnubrögum og breyttu aksturslagi.
Lítum fyrst í eigin barm og skoðum hvað við getum gert til að mæta hækkandi heimsmarkaðsverði á olíu. Sérfræðingar telja að verðið muni verða komið í 150 dollara tunnan á árinu. Hvað gerum við þá?
Sveinn Ingi Lýðsson, 31.3.2008 kl. 12:43
Á vefsíðunni Samferda.net er hægt að skrá niður ferðir sem fólk er að fara. Bæði er hægt að óska eftir farþegum og fari.
Þetta geta Íslendingar gert til að spara eldsneytiskostnað um 50-70%, þ.e. skrá ferðir á vefsíðuna. A.m.k. þangað til server síðunnar hrynur!
Í ljósi verðhækkananna á eldsneyti er það hætt að vera fyndið að sjá bíl eftir bíl eftir bíl úti á þjóðvegum og alltaf einn í bílnum, eins og Brjánn bendir á.
Þess vegna vil ég nota tækifærið og benda á þessa síðu, sem er frábært framtak.
Theódór Norðkvist, 31.3.2008 kl. 14:08
Davíð Þorvaldur Magnússon, 31.3.2008 kl. 16:53
Það mun litlu breyta þó sjóflutningar yrðu niðurgreiddir. Fólk á landsbyggðinni er alveg jafn "nútímavætt" og höfuðborgarbúar. Það vill vöruna sína ekki seinna en í gær.
Þegar ég flutti austur á Reyðarfjörð árið 1989 úr höfuðborginni, voru sjóflutningar enn við líði og töluvert ódýrari en landflutningar. En sá böggull fylgdi skammrifi að varan var u.þ.b. viku til 10 daga að skila sér, en með flutningabíl 1-2 daga. Fólk virtist einfaldlega tilbúið til að borga meira fyrir skjótari þjónustu og þar kom, þrátt fyrir niðurgreiðslu að það var ekki verjandi að halda úti þjónustunni með skipum.
Þess vegna held ég að allt tal um að efla sjóflutninga séu draumórar einir og flokkist jafnvel undir "eitthvað annað", í nýrri orðabók sem væntanleg er á markaðinn
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 18:07
Þeir sem hafa áhyggjur af því að maðurinn hafi eitthvað með hlýnun jarðar að gera hljóta að fagna "sívaxandi fjölda einkabíla ... með allt að 500 hestafla vélum" því slík tæki (framleiðsla + notkun) setja mun minna af CO2 út í andrúmsloftið en minni og ódýrari bifreiðar. Því má ekki gleyma að framleiðsla bifreiðar setur meira CO2 út í andsrúmsloftið en bifreiðin sjálf gerir á 10 árum. Bílar sem endast í 30 ár (burt séð frá eyðslu þeirra per km) valda því mun minni CO2 framleiðslu en litlir, eyðslugrannir bílar sem endast e.t.v. 3-5 ár. Því fögnum við umhverfissinnar slíkum drekum á götum borgarinnar enda minnka þeir mengunarvandamálið og seinka fyrir hlýnun jarðar. Umhverfissóðarnir geta hins vegar hallmælt þeim. Munum einnig að með því að aka út í búð .. frekar en að ganga ... fer tíu sinnum minna af CO2 út í andrúmsloftið, einkum vegna þess hve mikið af CO2 fer út í andsrúmsloftið við framleiðslu matvælanna sem við þurfum við aukna brennslu. Notum bílana og því endingarbetri sem þeir eru ... því minna mengum við.
Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 18:18
já og fer líka mikið CO2 út í andrúmsloftið við það að eyða þessum nánast einnota bílum fyrir utan hvað fólk er í miklu meiri lífshættu í þessum dósum nú til dags miðað við eldri bíla sem voru miklu sterkari
Davíð Þorvaldur Magnússon, 31.3.2008 kl. 18:59
Sumarið 1981, þegar ég var 11 ára, fór ég ásamt foreldrum mínum norður í Aðalvík. Við fórum með strandferðaskipinu Heklu. Sigldum suður fyrir og næstum hringinn áður en við yfirgáfum dallinn og í bát, úti fyrir Aðalvíkinni. Þetta ferðalag okkar tók 5 eða 6 daga með stoppum, ef ég man rétt. Við lögðum af stað frá Reykjavík um hádegisbil og vorum komin til Vestmannaeyja seint um kvöld eða fyrri part nætur. Tveimur dögum eftir að við lögðum af stað vorum við komin austur fyrir land.
Hve langan tíma tekur trukk að aka austur á Egilsstaði? Líklega ca 8 tíma, eða svo. Vitanlega munar einhverju og vitanlega er enginn að tala um að legga af flutninga landleiðina. Hinsvegar er það þannig að með suma hluti skiptir ekki megin máli hvort flutningur þeirra taki einn eða tvo daga.
Liggi hinsvegar á, er um að gera að senda vöruna með bíl eða flugi. Það þarf ekki að afleggja vöruflutninga með bílum þótt menn taki upp strandsiglingar. Ekki frekar en að leggja niður flutninga með flugi. Hins vegar er margt sem allt eins mætti flytja sjóleiðina eins og land- eða flugleiðina. Hvað liggur t.d. á að flytja niðursuðuvöru eins og ORA baunir? Þær renna ekki út fyrr en eftir 2 til 3 ár.
Brjánn Guðjónsson, 31.3.2008 kl. 19:34
Fyrir smásala skiptir miklu máli að þurfa ekki að eyða plássi í birgðir, jafnvel þó það séu "bara" ORA baunir. Það er hagstæðara fyrir þá að fá vörurnar oftar og minna í einu. Sjóflutningar eru liðin tíð og kemur ekki aftur
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 20:22
Það er rétt hjá Gunnari að landflutningarnir hafa yfirburði hvað snertir það að geta nánast farið frá dyrum til dyra á skömmum tíma. Hins vegar er mikið um flutninga þar sem slík tímapressa er ekki fyrir hendi.
Ég er ekki að fullyrða að sjóflutningar á tveimur skipum, sem færu gagnstæða hringi, væru hagkvæmari, - á aðeins við það að dæmið hefur aldrei verið reiknað allt til enda.
Ég er sammála gagnrýni vöruflutningabílstjóranna og 4x4 klúbbins á það hve miklu minna stjórnvöld hér á landi gera en í flestum öðrum löndum til að lækka verð á dísilolíu.
Það er þekkt staðreynd sem allt of fáir vita um, að kuldi hefur miklu minni áhrif á eyðslu dísilvéla en bensínvéla og það er mjög mikið atriði hér á landi þar sem meðalhiti er lægri en í nokkru öðru landi Evrópu.
Þess vegna eyða bensínbílar oftast miklu meira en gefið er upp og eigendurnir verða að grípa til þess ráðs til að réttlæta sig fyrir öðrum að segja tröllasögur af lítilli eyðslu bíla sinna.
Gæti nefnt um það ýmis dæmi hvernig menn hafa í einni mælingu talið sig hafa höndlað sannleikann um eyðsluna en það er aðeins á tiltölulega löngu tímabili sem hægt er að komast að hinu sanna.
Ómar Ragnarsson, 31.3.2008 kl. 20:58
Það er auðvitað slatti sem kemur með skipum, byggingarefni o.fl., en dagvörur í verslanir, matvörur, raftæki, fatnaður, varahlutir o.s.fr.v. fer og mun fara landleiðina. Það er eflaust hægt að pikka eitthvað út úr farmi bílanna og segja að það geti farið sjóleiðina, en það er ekki hægt að ætlast til þess að einkafyrirtæki sinni slíkum markaði. Peningum sem verja ætti í niðurgreiðslur á sjóflutningum væri betur varið í að gera þjóðvegina öruggari.
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 22:31
Auk þess myndi það ekki skipta sköpum um umferð vöruflutningabíla, þó eitthvert brot farmsins færi sjóleiðina. Og að senda allt sjóleiðina nema ferskar matvörur, myndi kippa þjónustustiginu á landsbyggðinni áratugi til baka. Það yki enn á fólksflóttann sem væri algjörlega á skjön við þá viðleitni að sporna gegn honum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2008 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.