ÞÖRF FRÆÐSLA SEM HEFUR VANTAÐ

Þegar við fáum fræðslu í skólakerfinu um hvað eina sem koma kann að gagni á lífsleiðinni vantar að mestu fræðslu um það eina sem mun örugglega gerast, - að við deyjum. Hvernig á að umgangast deyjandi mann? Vorkenna honum og veita honum samúð? Uppörva hann í því að takast á við hið óumflýjanlega með reisn? Þegar að þessu kom varð ég að taka ákvörðunina án þess að hafa fengið um það neina tilsögn að gagni.

Í þjóðfélagi okkar ríkir ákveðin firring gagnvart dauðanum. Fólk deyr einhvers staðar inni á stofnun. Í tölvuleikjunum er dauðinn bara leikatriði sem eykur á firringuna. Í samfélagi fyrri kynslóða gerðust bæði fæðing og dauði inni á heimilinu þar sem allar kynslóðirnar bjuggu saman. Í daglegu lífi í sveitinni skiptust fæðing og dauði dýranna nánast á bæjarhlaðinu fyrir framan augun á öllum.

Morgunblaðið fjallar um vaxandi tækni í læknisfræði sem gerir það æ algengara að dauði fólks sé í höndum þeirra sem yfir tækninni ráða. Í uppeldis- og menntakerfinu veit ég ekki til að neitt sé kennt um þau viðfangsefni sem aðstandendur deyjandi fólks þarf að ráða fram úr.

Ég er kominn á þann aldur að frétta af sífellt fleiri kunningjum mínum sem geta haft hönd í bagga með að taka ákvarðanir varðandi dauða foreldra sinna. Eitt atriðið er þessi spurning: Hversu mikilvægt er það að kveðja t.d. foreldri sitt á banabeði?

Ég áttaði mig ekki á þess fyrr en að því kom og raunar ekki fyrr en andlátið var af staðið. Þá var niðurstaðan þessi:
Í sambúð barns og foreldris eru tvö afgerandi augnablik, fæðing og dauði. Sambúðin byrjar við fæðingu barnsins og endar þegar foreldrið deyr.

Aðeins foreldrið man eftir fæðingunni og var meðvitað um mikilvægi hennar. En bæði foreldri og barn eru meðvituð um gildi hinstu kveðjustundar. Þess vegna er kveðjustundin mikilvægari, raunar mikilvægasta stund sambands barns við foreldri sitt.

Af þessu leiðir að við leiðarlok getur komið upp sú staða að afkomendurnir séu ekki alltaf allir á landinu eða dauðastaðnum þegar kallið kemur. Þá getur komið upp sú staða ef binda verður enda á dauðastríðið með beinni eða óbeinni notkun tækninnar, að afkomendurnir vilji láta andlátið verða þegar allir geta verið viðstaddir.

En þetta er að mínum dómi ómögulegt. Afkomandi getur ekki tekið svona stóra ákvörðun fyrir foreldri sitt.

Niðurstaðan varð sú í þeim tilfellum sem ég veit af,- (og eru ótrúlega mörg), - að afkomendur ákváðu að þessu yrði best komið í höndum þess fólks sem hefði af þessu mesta reynslu, þ. e. læknanna. Ákveðið var að líta á slíkt í sama ljósi og óviðráðanlegt atriði, "force majör."

Í mínu tilfelli fór þetta svo að ekki gátu allir afkomendur verið viðstaddir hina mikilvægu kveðjustund og það var alger tilviljun hver það var.

Hafi Morgunblaðið þökk fyrir upplýsandi umfjöllun um þetta.


mbl.is Treysta dómgreind lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hér er það tæknin marglofaða sem skapar vandamálið. Ef ekki væri hægt að halda lífinu í fólki löngu eftir að öllu vitbæru lífi er lokið væri ekkert vandamál. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.3.2008 kl. 11:29

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þetta var þörf og góð umfjöllun sem birtist í Morgunblaðinu. Þetta er óumflýjanleg stund sem við öll komum til með að verða þátttakendur í. Sum bara einu sinni sem sá sem kveður, eða þá líka sem barn/foreldri/aðstandandi. Auðvitað veit maður ekkert hvernig maður á að mæta þessari stund, en einhvern veginn hef ég komist í gegnum þetta í 2 skipti þ.e. sem barn og sem foreldri. Að sjálfsögðu var það síðarnefnda miklu erfiðara og að manni fannst algjörlega ósanngjarnt. Ef ekki hefði verið fyrir óbilandi hugarró sonar míns og æðruleysi hans hefði kveðjustundin orðið miklu erfiðari.  Ég held að það sé í raun ekki hægt að kenna neinum hvernig hann mætir þessum örlögum, þetta sé miklu frekar innbrennt í persónuleika hvers og eins hvernig hann/hún mætir þessari stundu.

Gísli Sigurðsson, 31.3.2008 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband