AÐ GERA SÉR DAGAMUN.

Sumum kann að finnast það hafa skotið skökku við að sjá sex metra langan þriggja tonna jeppa í fremstu röð þeirra sem mótmæltu háum álögum á bílaeigendur hér á landi við Alþingishúsið. Ég er þeirrar skoðunar að fráleitt sé að það þurfi slíka bíla til að snattast um í borgarumferð. En málið hefur tvær hliðar. Líklega kostar það sem ég kalla snatt meira en 90% af eldsneytiseyðslu landsmanna en það að geta gert sér dagamun á fjöllum kostar aðeins örlítið brot af eyðslunni.

Lausnin felst í að skilja þarna á milli svipað og fólk myndi gera ef það vildi grenna sig og minnka óþarfa innbyrðingu hitaeininga í fæðunni. Árangurinn fæst í hinni hversdagslegu neyslu en ekki með því að banna jólasteikina eða góðan sunnudagsverð. Boðorðið um hvíldardaginn og hliðstæð speki vísar til þeirrar nauðsynjar sem það er fyrir fólk að geta gert sér dagamun frá gráma hversdagsleikans og brauðstritsins.

Síðan má benda á að það er algengur misskilningur að ekki sé hægt að fara á jökla nema á risastórum rándýrum eyðslufrekum ofurjeppum. Sjálfur á ég minnsta jöklajeppa landsins, 920 kílóa þungan Suzuki Fox árgerð 1985, nokkur hundruð þúsund króna bíl á 32 tommum dekkjum, án brettabreytinga.

Í þessum bíl er 101 hestafla Suzuki Swift GTI vél sem er léttari en standard jeppavélin og gefur þessum bíl snerpu á við 3ja tonna bíl með 300 hestafla vél en Súkkan fer niður í 7 lítra eyðslu á þjóðvegi.

Á þessum bíl hef ég farið í nokkurra daga ferðalag um Vatnajökul þar sem færið var víða þannig að hleypa þurfti lofti í úr hjólbörðum niður í 2 pund. Súkkan gaf engum ofurjeppanna eftir í þessu ferðalagi.

Með þessu er ég ekki að segja að stórir og öflugir jöklajeppar eigi ekki rétt á sér. Þegar menn fara saman á fjöll er gott að bílarnir séu af fleiri en einni stærð. En í slíkum ferðum felast miklir möguleikar til að gera sér dagamun á þann hátt sem Ísland eitt býður upp á.


mbl.is Áfjáðir í íslenska jeppa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Tryggvason

Góður pistill hjá þér Ómar og gaman að sjá einhvern tjá sig um þetta sem hefur vit á málefninu ólíkt mörgum sem eru að kommenta á mótmæli jeppamanna.

Það er frekar fúllt að sjá fólk vera agnúast úr í jeppamenn eins og við séum einhverjir hriðjuverkamenn af því að sumir okkar eiga stóra jeppa.

Ólafur Tryggvason, 4.4.2008 kl. 09:58

2 Smámynd: Ísdrottningin

Ómar - Enda hafa Súkkueigendur oft gaman af því þegar þeir fljóta vel, að fara í hringi í kringum pikkfasta " klafabíla" suma hverja á 44" og jafnvel 49" 
Ég hef nú reyndar ekki þvælst með þér á fjöllum á minni Pat-rollu en á það kannski eftir, hver veit.

KING - Þú hefur bara ekki verið að lesa réttu pistlana, við erum nokkuð mörg sem svörum fyrir okkur bæði í pistlum og tilsvörum. 

Ísdrottningin, 4.4.2008 kl. 10:11

3 Smámynd: Sævar Helgason

Tímarnir breytast - jarðeldsneyti fer varanlega hækkandi . Bæði minnkar framboðið frá olíulindunum og kaupendum fjölgar , einkum í Kína og Indlandi. Tími ofurjeppanna , bæði í borgarsnatti og á torleiði er að líða hjá.  Bílar koma til með að léttast mjög og vélar þeirra snarminnka í hp. og sparneytni verða eftirsóknarverðasi kostur þeirra.

Nýjir orkugjafar á farartæki hljóta að sækja mjög á. 

Raforkumöguleikarnir hjá okkur eru okkar "olíulindir " , ef við sóum ekki okkar orkulindum í hræbillega álvinnslu .

Ekki er ósennilegt að þeir gömlu góðu dagar séu í nánd að langi fólk í góða hálendisferð verði sameinast í stóra rútu og síðan verði það gönguskórnir , skíðin og bakpokarnir sem verði toppurinn á tilverunni til fjalla.

Háð er örvæntingarfull barátta 4x4 félaga við olíustöðina í Örfyrirsey við að ríghalda í tíma sem ört líða í aldanna skaut. 

Þetta er svona það sem mér finnst 

Sævar Helgason, 4.4.2008 kl. 10:25

4 identicon

Finnst náttúruverndarmönnum ekki sú þróun varhugaverð að fjöldinn allur af jeppum og öðrum vélknúnum farartækjum sé að þvælast á fjöllum og jöklum ? Ef maður er á fjöllum eða jöklagöngu er þá það ekki síst sem maður vill heyra og sjá, einhverjar véladrunur og tæki ? Ómar, þú hefur oft talað hvernig Norðmenn haga sér í umhverfismálum, er ekki kominn að þú minnist á það, að þeir banna öll vélknúinn ökutæki á ákveðnum stöðum ? En hér á landi, ja það má nánast keyra alls staðar, eða engin viðurlög við því ! Hér á landi hafa menn verið að keyra á sprungnum jöklum eins og ekkert sé, t.d. Hofsjökli. Sjá menn ekkert athugavert við það vegna umhverfissjónarmiða ? Snúast þá umhverfismál ekkert um hávaðasöm leiktæki á ósnortum svæðum ?

Kveðja

Gísli (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 10:36

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef ekkert út á jeppamenn að setja, þeir þurfa bara að vera ábyrgir gerða sinna og ekki ana út í óvissu og vitleysu þannig að ekki þurfi að leita þeirra í tíma og ótíma.

Það hefur hins vegar verið bent á, að bara framleiðsla eins svona sérútbúins fjallabíls, kosti töluverðan gróðurhúsaútblástur. Ætti ekki bara að loka þeim málmbræðslum sem framleiða efnið í slíka bíla?

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.4.2008 kl. 12:14

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er með þetta eins og allt annað að öfgar eru ekki af hinu góða. Þá skiptir ekki máli hvort það sé stóriðja, stærð bíla, ríkisafskipti eða súkkulaðiát. Allt á þetta rétt á sér og allt er þetta gott, en ef of langt er farið er voðinn vís.

Ég lít á mig sem náttúruverndarsinna vegna þess að ég vil vernda náttúruna eins og hægt er. Náttúran er ekki til staðar fyrir okkur, nema síður sé. Þó er ekkert að því að njóta hennar, hvernig svo við förum að því. Göngur, vélsleðar, bílaferðir. Það væri kannski ráð að takmarka umferð tækja á einhverjum svæðum, en það þyrfti að skoða það rækilega áður en reglur eru settar sem fólki er illa við og brýtur. Á meðan við berum virðingu fyrir náttúrunni á þetta allt rétt á sér. Séum við að skilja eftir hjólför og Snickersbréf um allar trissur er það allt annað mál. Sömuleiðis er það sjálfsagður hlutur að nýta náttúruna, en þá verður það verð sem maður fær að vera í einhverju samræmi við kostnað og spjöll. Það hefur vantað.

Öfgar í stjórnmálum eru ekki góðar. Of langt til vinstri og stjórnvöld stýra öllu. Það endar yfirleitt í forsjárhyggju og kúgun. Of langt til hægri og einstaklingurinn er engu betur settur en ef hann væri staddur í frumskógi. Þeir stóru éta þá litlu og auður safnast á örfáar hendur sem svo kúga einstaklinginn. Gullni meðalvegurinn er aldrei í jaðrinum. Eins er það með umhverfismál. Auðvitað eigum við að njóta náttúrunnar og nýta, en það er óþarfi að fara um öll lönd gargandi LOWEST ENERGY PRIZES og láta eins og smástelpa utan í rokkstjörnu.

Villi Asgeirsson, 4.4.2008 kl. 12:16

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Algengt er að jeppamenn séu jafnframt björgunarsveitarmenn, a.m.k. á smærri stöum úti á landi. Ég ek um á pallbíl með 33" dekkjum, en er samt að fara með minna í eldsneyti eða svipað og þegar ég átti lítinn fólksbíl vegna minni keyrslu.

Nú get ég nefnilega skellt hjólinu aftur í pallhúsið, keyrt hluta af vegalengd á ákveðinn áfangastað og hjólað afganginn. Það er ekki hægt eða erfiðara að gera á litlum fólksbíl.

Theódór Norðkvist, 4.4.2008 kl. 14:18

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Á smærri stöðum átti að standa hér að ofan. Síðan má bæta við að heilmikil þekking er orðin til á landinu á jeppum og breytingum, sem útlendingar sækja nú í, eins og fram hefur komið í frétt mbl.is.

Theódór Norðkvist, 4.4.2008 kl. 14:21

9 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ef Ómar er einn á sinni súkku (sem hann er líklega oftast) og fer 100 Km á 7 lítrum. Þá til samanburðar geta stóru bílarnir sem Ómar vísar til tekið allt að 14 farþega. En þeir eru að mestu notaðir fyrir ferðamenn. Eyðslan á slíkum bílum getur farið upp í 30-40 lítra á 100 Km við erfiðar aðstæður.

Það gerir 2-3 lítra á farþega sem er 2 til 4 sinnum minna en Ómar notar :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.4.2008 kl. 14:24

10 identicon

Ég er nú jeppamaður (á Suzuki Vitara með 38" og klafa að framan) og mér finnst að ef einhverjir vanvitringar vilja banna umferð ökutækja á einhverjum svæðum þá á að ganga það skref til fulls og banna _alla_ umferð ökutækja, hleypa ekki einusinni  björgunarsveitum eða þyrlum að. Þannig geta þeir sem vilja ekki heyra vélarhljóð verið fullvissir um að þegar þeir fótbrjóta sig eða týnast úti á víðavangi, að engin vélarhljóð munu spilla friðnum eða auka á kvalirnar.

Í alvöru talað þá held ég að þeir sem telja sig ekki geta notið útiveru vitandi af bílum einhversstaðar í nágrenninu hafi í alvörunni engan áhuga á útvist, heldur séu þeir bara að gera sér upp einhverjar afsakanir fyrir því að fara aldrei og skoða náttúruna. Ég get ekki sagt að ég verði mikið var við hljóðin í öðrum bílum þegar ég er stopp. Get heldur ekki sagt að ég hafi nokkurn áhuga á því að fara fótgangandi neinar vegalengdir að vetrarlagi eins og aðstæðurnar eru oft (blindbylir, straumharðar ár, botnlausir krapapyttir)

Baldur (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 15:10

11 identicon

Og í guðanna bænum ekki fara að blanda saman umhverfismálum og eldsneytis/kolefnis notkun. Það fyrrnefnda hefur allt með lífsgæði okkar að gera, það síðarnefnda er fyrirbæri úr þeim vísindaskáldskap sem biblía kolefniskirkju Al Gore er. 

Baldur (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 15:14

12 Smámynd: Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói )

Jeppamenn eru nú yfirleitt mjög skynsamir menn, annars endast þeir illa í þessu. Ómar, þú ert búinn að sanna það gegnum árin að rödd þín er góð, söngur og tal, og finnst mér alltaf gaman og gott að lesa pistlana þína.

Ómar á Bessastaði.!!!

Þorleifur Magnús Magnússon. ( Brói ), 4.4.2008 kl. 15:25

13 identicon

Að sjálfsögðu er ekki verið að gagnrýna akstur á fjallvegum og þekktum slóðum en utanvegaakstur og reyndar alltof mikla notkun snjósleða og fjórhjóla á viðkvæmum svæðum er einfaldlega vandamál vegna landskemmda og hávaða ! Menn ættu að fara um og skoða Reykjanesfólkvangssvæðið, djúp hjólför hvarvetna. Og ef menn vilja kalla það útivist að sitja í bíl, þá þeir um það. Ábendingin um að banna öll vélknúin farartæki á ákveðnum svæðum á sér fyrirmynd frá mörgum löndum án þess þeir hafi talað um öfga. Að sjálfsögðu á það ekki við bjarga þarf fólki, það er bara til að snúa umræðunni á haus. Sjálfur keyri ég um á jeppa, en ekki utanvega ! Umhverfismál snúast líka um hávaða og landskemmdir eða kannski ekki, ef það kemur við ferðafrelsi okkar sjálfra ?

Gísli (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 17:34

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrir nokkrum vikum síðan voru á þriðja tug norskra loðnuveiðiskipa í höfn hér eystra vegna brælu. Ég keyrði þó nokkra þeirra þessa 2-3 daga sem þeir voru hér. Einn þeirra, frá Bergen, spurði hvort mikið væri um snjósleða hérna og ég sagði honum að svo væri. Þá spurði hann hvort það mætti keyra þá hvar sem er hérna og þegar ég sagði honum að það mætti þá varð hann mjög hissa og sagði að það væru töluverðar hömlur á því á sínum heimaslóðum. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.4.2008 kl. 20:21

15 identicon

Gunnar, þetta er einmitt málið. Í Noregi er ekki hægt að fara út um allt á vélknúnum tækjum sem og í mörgum öðrum löndum. Ég maður dirfist að benda á þetta, þá fara sumir að tala um forræðishyggju oþh. Og oft er þetta sama fólkið og mótmælti t.d. álverum og olíuhreinsunarstöðvum, ss. fólk sem segist umhverfissinnað. En það grátbroslega í þessu er einmitt sú staðreynd að þessi tækja-lífstíll kallar einmitt á fleiri álver og sérstaklega á fleiri olíuhreinsunarstöðvar, hvar svo sem þær verða reistar í heiminum. Umhverfisvernd þegar atvinnutækifæri eru annars vegar en alls ekki þegar á að leika sér með tækin ! Sjáðu bara hvað Landvernd er að gera, þeir myndu aldrei þora að beita sér gegn akstri út um allar trissur, en álver eða þvíumlíkt, uss.

Gísli (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 21:25

16 Smámynd: Ólafur Tryggvason

það að banna að þeysa um á snjóbreiðum landsins er álíka gáfulegt og að banna að þeysa um á sjóbreiðum hafsins (á bát eða jetsky)

Þróun vélknúinna "leiktækja" er í umhverfisvænni átt, fyrir stuttu síðan voru allir vélsleðar og krosshjól tvígengis en nú er þetta allt að verða fjórgengis. En fyrir ykkur sem ekki vitið þá eru fjórgengismótorar mun umhverfisvænni en tvígengis. það má því leiða að því líkum að þessi "leiktæki" verði almennt orðin rafmagns eða vetnis á svipuðum tíma og önnur ökutæki.

Ólafur Tryggvason, 4.4.2008 kl. 21:38

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ágætis færsla hjá þér Kristinn, á siðunni þinni. Ég vil þó benda þér á að Vegagerðin hefur gert töluvert átak í "hvíldarstæðum" við þjóðvegina á Íslandi, en það er þó tiltölulega nýfarið að sinna þessu atriði af alvöru og það þarf að bæta þetta enn frekar.

Varðandi takmörkun á ferðum jeppa og snjósleða þá er ég almennt á móti því, svo framarlega sem það veldur ekki óþarfa náttúruspjöllum. En það er örugglega við hæfi að gera einhver svæði "mótorfrí", en ég sé samt fyrir mér að ef farið yrði út í slíka friðun einhversstaðar, þá verði fjandinn laus vegna öfgasjónarmiða.  

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.4.2008 kl. 22:27

19 identicon

"Og ef menn vilja kalla það útivist að sitja í bíl, þá þeir um það."

 Gísli ekki snúa svona útúr. Það þarf nú að keyra á staðinn til þess að geta skoðað náttúru sem er hundruð km frá nokkrum þjóðvegi. Og sannarlega er það að njóta náttúrunnar að keyra landið þvert til þess að skoða hana.

Það má skipta jeppafólki (og vélsleðafólki) í 2 hópa, annar hópurinn fer meira í dagsferðir eitthvert þar sem snjór er bara til þess að leika sér og fá smá útrás. Svo er það hinn hópurinn sem leggur upp í löng ferðalög til þess að virða fyrir sér náttúruna. Bæði eru góð og gild ástæða til þess að gera út slík farartæki.

Baldur (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 23:10

20 identicon

ASM (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 23:13

21 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er tæpast hægt að kalla það útivist að flækjast um á vélknúnum farartækjum til fjalla. Ekki frekar en að það sé útivist að þeysa um á spíttbát eða fljúga á milli staða í flugvélum. Í mínum huga er þetta hreinræktuð tækjadella.

Á mörgum ferðum mínum um hálendið á reiðhjóli hef ég því miður orðið fyrir talsverðu ónæði af jeppamönnum þó svo að plássið sé ærið nóg og ég hafi ekki verið að flækjast fyrir þeim viljandi. Ég nefni 3 dæmi:

Eitt sinn var ég að hjóla á Kjalvegi, ekki langt frá Hveravöllum. Fram hjá mér geystist tröllvaxinn Ford Econoline á 100 km hraða. Hann sló ekkert af þó svo að hann æki framhjá mér á þröngum malarvegi og ég mátti víst telja mig hólpinn að fá engan af fljúgandi hnullungunum í mig. Þennan bíl sá ég skömmu síðar á Hveravöllum og hafði ég upp á ökumanninum til að eiga við hann orð. Maðurinn tók aðfinnslum mínum ekki vel og sagði að Kjalvegur væri enginn reiðhjólastígur. Ég gæti bara fundið mér annan stað að hjóla á.

Annað dæmið var fyrir næstum 20 árum á afar fáförnum vegi norðan Hofsjökuls. Þar óku 2 jeppar framhjá okkur í bleytu og kærðu ökumenn sig kollótta þó að drullan slettist yfir okkur. Síðar um daginn hittum við þetta fólk í skála sem heitir Ingólfsskáli. Þau voru undrandi að heyra að við værum Íslendingar og sögðust hafa haldið að við værum "einhverjir ruglaðir útlendingar". Ég gat ekki skilið það öðruvísi en að þessu fólki finndist það í góðu lagi að sletta drullu á útlendinga og að þau teldu okkur stórskrýtin að ferðast um á þennan hátt.

Þriðja dæmið sem kemur upp í hugann var í Laugavalladal ekki langt frá Dimmugljúfrum. Þetta var 2 árum áður en framkvæmdirnar hófust við Kárahnjúka. Við komum nokkur hjólandi og höfðum hlakkað mikið til þess að komast í heitu laugina sem þar er. Fyrir okkur varð lítill hópur jeppafólks frá fyrirtæki nokkru í Reykjavík. Þeir höfðu ekið jeppunum sínum alla leið að lauginni yfir grasið sem þar er og sátu misfullir í lauginni með bjórdósir og tónlist. Við reyndum að láta þennan félagsskap ekki skemma fyrir okkur þó svo að það væri illmögulegt. Því miður létu þeir okkur ekki í friði og höfðu gaman af að hæðast að okkur þangað til eiginkonur þeirra skipuðu þeim að halda sig á mottunni.

Vissulega má ekki dæma alla jeppamenn út frá fáeinum skemmdum eplum. Samt held ég því miður að allt of margir þeirra séu líkt og Baldur svo vanir að hafa mótorhljóðið í eyrunum að þeim líði illa þegar drepið er á vélinni. Útivist og vélarhljóð fara mjög illa saman.

Sigurður Hrellir, 4.4.2008 kl. 23:42

22 Smámynd: Ólafur Tryggvason

Mér finnst þú Sigurður Hrellir nú dálítið vera að "hæðast" að annarri tegund ferðamennsku en þinni eigin.

Það er þitt mat að vélarhljóð og útivist fari ekki saman. Mér þætti td gaman að vita hvort að þú ættir stóra fjölskyldu með mörgum börnum og hvort þú hljólaðir með fjögur börn um hálendið þvert og endilangt?

Þó svo ég hafi á mínum yngri árum verið fjallahjólreiðamaður (Down hill keppni) og eigi enn mitt flotta ál dempara fjallahjól þá sé ég mig ekki ferðast með mína stórfjölskyldu um hálendið þvert og endilangt á fjallahjóli.

Ólafur Tryggvason, 5.4.2008 kl. 00:29

23 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil bæta því við að ég hef lengi og margoft rætt um það við jeppamenn að með vaxandi fjölbreytni umferðar á hálendinu þarf að fara að skipuleggja viss svæði. Eitt af þessum svæðum er til dæmis Öræfajökull þar sem augljóst er að gangandi fólk þarf að fá tryggingu fyrir því að þar sé ekki stanslaus ófriður af jeppum og vélsleðum.

Í Bláfjöllum er þegar komið bannsvæði fyrir vélknúnin tæki og fleiri slík svæði kunna að verða nauðsynleg.

Það er rangt að menn megi aka hvar sem er. Aðeins er leyft að aka að vetri til ef farartækið er á merktri og viðurkenndri slóð eða snertir ekki jörð, þ. e. ekur á snjó eða ísi.

Einhverjir snillingar fundu það út í fyrr að ákveða ætti vissar leiðir sem mætti aka að vetrarlagi á hálendinu. Augljóst var að þessir menn höfðu ekki farið í hálendisferðir, því að það er mjög misjafnt eftir snjóalögum og ástandi jökla frá vetri til vetrar, hvar best er að aka.

Leið sem er þakin góðum snjó einn vetur getur verið auð og illfær næsta vetur og ástandið getur jafnvel verið misjafnt á milli mánaða.

Munurinn á Noregi og Íslandi hefur stundum verið skilgreindur þannig að allt sé bannað í Noregi nema það sé leyft, en á Íslandi sé allt leyft nema það sé bannað.

Ég komið að vetrarlagi að endanum á færum vegum á Harðangursheiði og í Jötunheimum í Noregi og þar er bannað að aka á snjónum ofan á malbikinu.

Ég vil frekar halda mig nær íslensku hugsuninni og huga vel að því hvað er bannað og hvernig.

Ómar Ragnarsson, 5.4.2008 kl. 00:40

24 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ágæti KING. Það var ekki tilefni athugasemdar minnar að hæðast að jeppamönnum eða þeim sem stunda annars konar ferðamennsku en ég. Fólk hlýtur að velja sér þann ferðamáta sem þeim líkar best. Því miður getur mikil umferð vélknúinna farartækja spillt fyrir þeim sem ferðast gangandi, hjólandi, á hestbaki eða skíðum. Þeir sem aldrei fara neitt öðruvísi en á vélfáki munu líklega seint skilja þetta vandamál.

Í Noregi þar sem svo margir stunda skíðagöngu að vetrarlagi kærir fólk sig ekki um að vera með vélsleðadyn í eyrunum. Það einfaldlega spillir algjörlega þeirri upplifun að vera úti í náttúrunni. Vélsleðamennirnir kæra sig kollótta enda eru þeir á öðrum forsendum úti að leika sér.

Hvað börnin varðar þarf vissulega að gera töluverðar ráðstafanir. Það er trúlega óráðlegt að ferðast með lítil börn á reiðhjólum langt frá mannabyggð en þegar þau stækka er fátt skemmtilegra en að ferðast um á reiðhjóli. En dæmi hver fyrir sig.

Sigurður Hrellir, 5.4.2008 kl. 01:19

25 Smámynd: Pétur Kristinsson

Ég er sammála þér að mörgu leiti Sigurður. En göngu og skíðafólk má ekki líta á hálendið sem sitt þegar að það er á hálendinu. Ég "neyðist" til þess að skoða hálendið úr mínum fjallabíl og kemur það til vegna þess að íþróttirnar nánast kláruðu hnén á mér.

Ég get nefnt þér fjölmörg dæmi um yfirgang hestamanna, göngumanna o.s.frv. á mínum ferðalögum um landið alveg eins og þú getur talað um yfirgang jeppamanna. Það eru allstaðar rotin epli. Málið er að við þurfum að sætta okkur við að fólk vill upplifa hálendið á mismunandi hátt, sumir gangandi, sumir á skíðum og sumir á jeppum. Allt eru þetta skemmtilegir kostir.

Ég er einn af þeim sem finnst óviðjafnanlegt á áfangastað að drepa á bílnum og hlusta á þögnina sem ríkir á hálendinu, skoða náttúrufegurðina og taka örfáar myndir. Þetta dæmi þitt um að jeppamenn upp til hópa vilji eingöngu hlusta á hávaðann frá vélum sinna bíla er út úr kú. Flestir okkar eru náttúruunnendur alveg eins og þú ert greinilega.

Pétur Kristinsson, 5.4.2008 kl. 09:02

26 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég sé ekki að Sigurður Hrellir hafi verið að gera grín af jeppamönnum. Ég skil hvað hann á við. Sjálfur myndi ég mikið frekar ferðast um hálendið á jeppa. Kannski gangandi eða á hestum en alveg örugglega ekki hjólandi. Það er samt alveg sjálfsagt að sýna hjólreiðamönnum, eins og öðrum, fulla virðingu. Við förum öll í frí með það eitt í huga að skemmta okkur eða slappa af. Er einhver ástæða til að skemma það fyrir öðrum, jafnvel þó mann gruni að hjólreiðamaðurinn sé útlenskur nöttari eða ekki? Það er kannski allt í lagi að muna að útlendingar höfðu um margt að velja þegar þeir skoðuðu ferðabæklingana, en þeir völdu landið okkar. Það ber að virða.

Ef við högum okkur öll eins og manneskjur er engin þörf fyrir boð og bönn og það hlýtur að vera okkur öllum til góða.

Villi Asgeirsson, 5.4.2008 kl. 09:14

27 Smámynd: Pétur Kristinsson

Ég var heldur ekki að tala um að hann hefði verið að gera grín að jeppamönnum. Og ég gæti ekki verið meira sammála þér um að við eigum að sýna samferðafólki tillitssemi á ferðalögum okkar um hálendið sem og annars staðar hvort sem ferðalangurinn er íslenskur eða erlendur ríkisborgari.

 Hitt er hins vegar annað mál að Sigurður dregur okkur jeppamenn svolítið í dilka vegna atvika sem að hann lenti í á hálendinu. Það eru rotin epli innan okkar raða alveg eins og það eru rotin epli í hópi skíðagöngufólks, göngufólks o.s.frv. Ábyrgð okkar jeppamanna er þó meiri en hinna þar sem að við erum á þungum og miklum tækjum sem geta valdið slysum og spjöllum á náttúrunni.

Pétur Kristinsson, 5.4.2008 kl. 10:25

28 identicon

HVOR ER MEÐ MEIRI "RÉTT" til að skoða landið sitt, gangandi ferðalangur eða ferðalangur á vélknúnu Ökutæki? Ég myndi segja Maðurinn á vélknúna ökutækinu.

Helst vildi ÉG BANNA alla umferð gangandi fólks þar sem von er á vélknúnum ökutækjum.

Er ekki álíka heimskt að halda þessu fram eins og að segja að banna þurfi umferð vélknúinna ökutækja þar sem hugsanlega getur verið hætta á að  gangandi fólk sé á ferðinni, HUGSANLEGA. 

Glanni (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 01:37

29 identicon

Annað er Ómar minn, við höfum nú farið í nokkrar ferðir bæði sundur og saman en aðalega sundur þó:)  'Eg trúi því bara ekki að þú sért orðin svona gamall og gleyminn, hélt að þú værir enþá ern . Heldur þú virkilega að ég noti þennan bíl "sem ég smíðaði sjálfur" til að snatta um borgina!?Hverskonar fordómar eru þetta eiginlega í  er ekki allt í lagi? hann er 6 manna og eyðir 15-20 ltr pr 100 km sem er lítið per farþega og  minna en súkkan þín.  

 Ég hef gaman af því að ferðast um hálendi Íslands að vetrarlagi og ekki síður að sumri til eins og þú veist, og ef þú myndir bjóða mér að borga fyrir mig ferð til spánar í 3 vikur, þá myndi ég frekar taka peningin og eyða honum í að ferðast um hálendi Íslands.

Hvet þig til þess að hugsa aðeins um upprunan.

Glanni (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 02:04

30 identicon

Kemst bara einn maður í súkkuna hans Ómars ?

Gulli Jóns (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband