SKIPULEGT UNDANHALD SAMFYLKINGAR.

Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur eins og aðrir ráðherrar Samfylkingarinnar hopað á hæli í umhverfismálum með því að segja að "of seint" sé að grípa til eðlilegs mats á heildarumhverfisáhrifum álvers í Helguvík. Hún vill breyta lögum um þetta seinna. "Ég ætla að hætta að drekka á morgun" sungu Stuðmenn. Össur sagði í ræðu á dögunum að afstaða almennings væri ekki sú sama í þessum málum og fyrir kosningar. Álversferlið myndi bruna áfram.

Sem sagt: Allt ómark sem Samfylkingin sagði fyrir kosningar, þar með loforð um stóriðjuhlé á meðan lokið sé við nauðsynlegar rannsóknir á þeirri náttúru sem nú verður stútað áfram linnulaust. Fagra Ísland, so what?

Ingibjörg Sólrún sagði fyrir kosningar að kæmist Samfylkingin til áhrifa myndi hún drífa í því að breyta lögum svo að einstök sveitarfélög hefðu ekki um það sjálfdæmi að skaða einstæð náttúruverðmæti sem væru í raun sameign alls mannkyns og óborinna kynslóða.

Samfylkingin er á sama róli og í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar þegar hún hringsnerist á nokkrum vikum í því máli til að vera "stjórntæk." Hlutskipti hennar er aumara en Sjálfstæðisflokksins. Maður hefur þó alltaf vitað hvar maður hefur hann.


mbl.is Vill stjórnarskrárbreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sorglegt að sjá þennan pistil Ómar. Það er sá sandkassayfirbragð á honum sem þú sjálfur hefur gagnrýnt stjórnmálamenn fyrir. Sem fréttahaukur veistu að Þórunn hefði stigið á bremsurnar ef þær væru í ökutækinu. Sem stjórnmálamaður hefðirðu getað komið með málefnalegri gagnrýni. Ertu kannski ekki stjórnmálamaður?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 19:23

2 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Gísli Baldvinsson, ekki er ég stjórnmálamaður og þess vegna spyr ég alveg einstaklega ómálefnalega  ...  af hverju hefði Þórunn stigið á bremsurnar, ertu að gefa í skyn að einhver hafi komið og sagt skamm, má ekki.   Ég vil spyrja, afhverju stígur hún ekki á bremsurnar og stendur við það sem flokkurinn hennar hefur haft uppi sem eitt af sínum aðalmálum. Loforðagrauturinn hjá stjórmálamönnum áður en þeir komast í hús er vondur grautur. Hvernig loforðin eru síðan steyngleymd og grafin eftir að stólsetan er farin að verma rassinn er svo annar kapítuli.

Pálmi Gunnarsson, 3.4.2008 kl. 19:54

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Er ekki nokkuð ljóst að í umhverfismálum er Þórunn ráðherra EKKI einráð? Það hefur löngum gilt að flokkar boða stefnu fyrir kosningar, en síðan eru myndaðar ríkisstjórnir með málamiðlunum og þá fjúka allavega sum kosningaloforð. Ef frá er talið að ráðherra taldi sig augljóslega ekki hafa LAGASTOÐ til annarrar ákvörðunar þá blasir og við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðra stefnu en Þórunn Sveinbjarnardóttir. Samfylkingin getur ekki efnt loforð um stóriðjustopp ef málamiðlun við Sjálfstæðisflokkinn segir annað. Þórunn gerði ágætlega grein fyrir því með viðtölum hversu einlæglega mótfallin hún er eigin ákvörðun. Ég held Ómar að þú eigir að skamma einhvern annan. Prufa verkstjóra ríkisstjórnarinnar?

Friðrik Þór Guðmundsson, 3.4.2008 kl. 20:52

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég verð að taka undir þessi orð þín heilshugar, Samfylkingin er að sýna það og sanna fyrir okkur enn einu sinni að ekki er mark takandi á neinu sem þeir segja. Hafa ítrekað í gegnum árin gefið eftir prinsipp mál fyrir stóla og völd, kjól og hvítt.

Á hvaða forsendum er ómálefnalegt að nefna það að Þórunn er að vinna þvert á loforð, nei ekki bara loforð, markaða framtíðarstefnu Samfylkingarinnar í Fagra Ísland, fæ ég ekki skilið Gísli. Þórunn hefur vissulega staðið sig betur en aðrir ráðherrar í umhverfismálunum, en það þykir mér líka eðlilega krafa að gera til umhverfisráðherra.

Sjálfstæðisflokkurinn siglir eftir vilja heildarinnar innan flokksins og á það má í flestu treysta í landsmálunum, eftir hverju siglir Samfylkingin ef ekki bara tískustraumum? Það að segja að afstaða almennings (lesist tískustraumar fenjafólksins) sé önnur nú en fyrir kosningar er einfaldlega fyrirsláttur. Almenningur hefur kannski aðeins slakað á og þá í þeirri vissu að flokkurinn sem kosinn var m.a. að miklu leyti vegna fagurgala um Fagra Ísland, myndi standa við loforðin sín. Það er jú eðlilegt að ætla að loforð skuli standa ekki satt??

Baldvin Jónsson, 3.4.2008 kl. 20:54

5 Smámynd: Sævar Helgason

Það skortir lagastoð , segir umhverfisráðherra.   Er það ekki þó nokkuð mikill skortur ?

Nú vantar fyrirhuguðu álveri þarna suður með sjó bara raforku og raflínur til að flytja þá orku sem þeir eru að leita eftir. Það er væntanlega heilmikið basl eftir fyrir þá Suðurnesjamenn og ekki útséð með verklok.

Sævar Helgason, 3.4.2008 kl. 21:05

6 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Fróðlegt innlegg hjá Friðrik hér að ofan og í raun alveg kórrétt sem hann er að fara með. Það er;   loforðin fögru eða það sem Friðrik kýs að kalla stefnur, og gefin eru með hönd á hjarta fyrir kosningar verða að engu, ekki eftir að stjórnasamstarf er hafið heldur meðan menn sulla saman málefnasamningi og manga með framtíð lands og þjóðar í baksölum. Þá spyr ég; er ekki heiðarlegt að gefa það upp eftir að búið er að sjóða saman málefnasamning, hvað af loforðunum verði ekki hægt að standa við. Í mínu ungdæmi var talað um loðtungur þegar orð og athafnir fóru ekki saman. Ég veit að Þórunn hefur umhverfishjarta en því fylgir pólitískur rass og mér er nær að halda að hann sé svipaður undir flestum sem setjast upp á Alþingi.

Pálmi Gunnarsson, 3.4.2008 kl. 21:24

7 identicon

1. Pálmi: Bremsuskorturinn stafar af lagaskorti. Enginn segir skamm við Þórunni. Eitt er að setja fram "kosningaloforð er eitt, veruleikinn stundum annar þegar til kastanna kemur. Ef til vill óstjórnmálalegt svar en samt heiðarlegt. Það sem þú segir um Sjallann get ég alveg tekið undir. Bara það sé ljóst að stjórn landsins eða bara að taka að sér ábyrgð merkit "it´s cold at the top"
Þú spyrð málefnalega og verið kurteis eins langt aftur og ég man.


2. Sammála Friðrik Þór. Það kemur fyrir að við deilum en svo sól þar á milli.

3.Eins og þú segir Baldvin, þá er Samfylkingin ekki með hreinan meirihluta. Það hvessir oft á stjórnarheimilinu eins og á öllum heimilum.

4. Þessi úrskurður kom mér á óvart Sævar en eins og alltaf þá eru það lögfræðingar sem eru til ráðfgjafar. Ráðherrans bikarinn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 21:39

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú segir Ómar "Maður hefur þó alltaf vitað hvar maður hefur hann", um Sjálfstæðisflokkinn. Þetta hef ég reyndar lengi sagt um V-græna. Þar er flokkshollustan ofar allri skynsemi. Einsleitari hjörð er vandfundin.

Samfylking er 3-4 sinnum stærri flokkur en Vg, því raunfylgi Vg er ekki nema 7-10%, eða svipað fylgi og flestir græningjaflokkar í Evrópu hafa. 14% fylgið skýrist af óróa í íslenskri pólitík vegna fylgishruns Framsóknarflokksins og vegna villandi og linnulauss áróðurs gegn Kárahnjúkavirkjun. Innan Samfylkingarinnar leynast nokkrir græningjar, en sem betur fer er þar jarðtengt fólk sem ræður ferðinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.4.2008 kl. 22:22

9 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Hún einfaldlega sinnti sinni vinnu.  Tók rökrétta ákvörðun enda ferlið of langt komið.  Frábærar fréttir fyrir okkur suðurnesjamenn enda ál hið besta mál.  Vissulega var hún fúl yfir þessu en gerði rétt og ber að hrósa henni fyrir það.

Örvar Þór Kristjánsson, 3.4.2008 kl. 22:33

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ingibjörg Sólrún sagði við mig haustið 2006 eða fyrir einu og hálfu ári, að ef Samfylkingin kæmist í stjórn myndi hún drífa í því að breyta lögum svo að ekki yrði lengur hægt fyrir einstök sveitarfélög og fyrirtæki að taka ákvarðanir um stórfelld spjöll á náttúruverðmætum á heimsmælikvarða.

Þetta var ítrekað af henni og öðrum forystumönnum Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni.

Nú hefur Samfylkingin haft heilan þingvetur til að láta til sín taka í þessu máli en ekkert hefur gerst.

Hún kom því inn í stjórnarsáttmálann að gerti yrði stóriðjuhlé þangað til lokið væri rannsóknum á náttúru Íslands samkvæmt rammaáætlun.

Á sama degi og tvö álver eru komin á fulla ferð er augljóst að þetta eru orðin tóm og svik, bæði við stjórnarsáttmálann og stefnu flokksins fyrir kosningar.

Umhverfisráðherra hefur haft heilan þingvetur til að vinna í því að breyta lögum en segist ætla að gera það síðar, kannski rétt áður en kjörtímabilið er liðið.

Össur Skarphéðinsson haggaði ekki við rannsóknarleyfi í Gjástykki, sem gefið var á mjög hæpinn lagalegan hátt og algerlega siðlausan hátt nokkrum dögum fyrir kosningar. Ætlunin er að valda þar mestu umhverfisspjöllum, sem framin verða vegna álversins fyrir norðan fyrir skitin 40 megavött.

Jónína Bjartmarz treysti sér ekki til að hrófla við Gjábakkavegi á sínum tíma og þannig gengur þetta flokk fram af flokki og konu fram af konu í umhverfisráðuneytinu. Ég sé því miður engan mun á Samfylkingunni núna í þessum málum og Framsóknarflokknum á sínum tíma annan en þann að Samfylkingin svíkur meira af loforðum.

Ómar Ragnarsson, 3.4.2008 kl. 23:03

11 Smámynd: Ásta Steingerður Geirsdóttir

Sammála þér Ómar,við vitum jú alltaf hvar við höfum Sjálfstæðiflokkinn.  Mér var kennt það í æsku að "allt er betra en íhaldið" en svo flutti ég á Fljótsdalshérað og kynntist Framsókn :) þá skynjaði ég að betra er að vita hvað andstæðingurinn er að hugsa, en þennan eilífa hringlandagang og vera sífellt að hlaupa útundan sér og vita ekki hvert ferðinni er heitið. Nú er sá ágæti Framsóknarflokkur gengin sér til húðar og nær horfinn, þökk sé sér drottin:)

Þá er það Samfylkingin, jafnaðarmannflokurinn sem öllu átti að bjarga. Það er vissulega sorglegt að horfa upp á þann flokk sem Samfylkingin er, með allt það bakland sem hann hafði við síðustu kosningar, vera á endalausu filleríi og komast ekki niður á jörðina hvað varðar þau málefni sem brenna á og hann ætlaði svo sannarlega að beita sér fyrir. það er greinilegt að loforð eru lítils virt meðal þeirra, svo leitt sem það er.  Það er eins og enginn geti verið sjálfum sér samkvæmur, það að fá að sitja í ríkisstjórn virðist  algjörlega blinda þetta góða fólk. Það verður bara að segjast eins og er . Þetta er ljótur leikur.

Ásta Steingerður Geirsdóttir, 3.4.2008 kl. 23:24

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gjástykki og Leirhnjúkur eiga engan sinn líka í heiminum og Gjástykki er fyllilega jafnoki Öskju hvað varðar tengsl við geimferðir. Í Gjástykki var búið að velja svæði fyrir æfingar marsfara framtíðarinnar á sama hátt og tunglfarar voru æfðir í Öskju. Enginn ferðamaður mun koma í Öskju eða Gjástykki til að sjá hvernig geimfararnir fengu tilfinningu fyrir öðrum hnöttum ef þar verður búið að fylla allt af borholum, gulfuleiðslum, stöðvarhúsum og hápennulínum.

En Gjástykki hefur það fram yfir Öskju að þar sést á gjánum hvernig Ameríka og Evrópa fjarlægjast sitt hvorum megin við gjárnar. Í Gjástykki má sjá hvernig jörðin rifnaði, hraun kom upp úr gjám og féll niður í sömu gjárnar norðar.

Um eldgosin og umbrotin, sem voru fjórtán alls, eru til kvikmyndir með ótal einstæðum myndskeiðum, sem gefið geta fólki upplifun með því að skoða þau og setja sig í sömu spor og þeir gerðu sem voru þá á svæðinu.

Meðal þessara myndskeiða er eina myndskeiðið í heiminum sem sýnir, hvernig jörðin rifnar og eldurinn kemur upp. Ég fullyrði að 40 megavatta orka sem kæmi frá þessu svæði myndi ekki færa okkur nema lítið brot af þeim tekjum sem náttúruverndarnýting þessa einstæða svæðis getur gefið okkur.

40 megavött gefa ca 25 þúsund tonn af áli á ári eða um 30 störf í álverinu. Fyrir þessi 30 störf á að færa fórn sem er í engu samræmi við þennan ávinning, hvorki peningalega né gagnvart heiðri þessarar þjóðar.

Bara rannsóknarleyfið í Gjástykki mun valda spjöllum, sem ekki eru afturkræf, því að umturnun jarðýtnanna á nýrunnu hrauni verður aldrei bætt.

Þetta, ásamt varðveislu Þingvalla og Þingvallavatns eru langstærstu málin á umhverfisverndarsviðinu núna og í báðum tilfellum eru hagsmunirnir, sem menn þykjast vera að berjast fyrir með vegalagningum og mannvirkjagerð svo hlægilega litlir að engu tali tekur.

Á svæðinu frá Leirhnjúki norður um Gjástykki verður ekki hægt að standa að orkunýtingu með neinu móti öðru en að eyðileggja náttúruverndargildi svæðisins. Um það gildir það sama og í Öskju.

Ég hef hér aðeins talað um Leirhnjúk og Gjástykki en ekki minnst á önnur orkuöflunarsvæði. Þegar því verður lokið að gera allt svæðið austan Mývatns frá Bjarnarflagi og norður um Kröflu að samfelldu kraðaki stöðvarhúsa, gufuleiðslna, borhola og háspennulína er ég hræddur um að ýmsir muni hrökkva upp og spyrja hvað hafi orðið um friðun Mývatns og Laxársvæðisins.

En eins og er mun maður víst fá nógu mikið af hnýfilyrðum yfir sig um "öfgar" og "ofstopa" vegna komandi baráttu fyrir verndur Leirhnjúks og Gjástykkis.

Hugsanlega mun maður síðar verða atyrtur fyrir það að hafa ekkert aðhafst gegn því sem til stendur að gera sunnan Leirhnjúks.

Þannig hefur málflutningurinn verið vegna virkjananna á Nesjavalla- og Heillisheiðarsvæðinu. Umhverfisverndarfólk skammað fyrir að hleypa öllum þessum virkjunum í gegn en líka fyrir að berjast á öfgafullan hátt fyrir því að einhverju verði þyrmt.

Ómar Ragnarsson, 3.4.2008 kl. 23:41

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Steingrímur J. kraup kjökrandi á skeljarnar þegar hann sá að ráðherrastóllinn var að ganga honum úr greipum, þegar Geir og Ingibjörg tóku tal saman á ballinu eftir síðustu Alþingiskosningar og sagðist ekki útiloka álver á Bakka og í Helguvík. 

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill þessar framkvæmdir, en með markvissum og linnulausum umhverfisáróðri er hægt að rugla almenning í ríminu með ýkjum og bulli. Rétt á meðan sýna skoðanakannanir gjarnan vaxandi andstöðu við framkvæmdirnar. Þetta ferli sá maður oft í sambandi við Kárahnjúka og á eflaust eftir að sjást vegna fyrirhugaðra framkvæmda en þó ekki í eins miklum mæli hygg ég. A.m.k. hef ég ekki séð Landvernd eða einhver "Sólarsamtök" gera neinar skoðanakannanir nýlega. Þessir aðilar hafa samt örugglega kannað "jarðveginn", það þarf enginn að segja mér annað.  

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.4.2008 kl. 23:44

14 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Samfylkingin keypti sér einfaldlega ímyndarsérfræðinga fyrir kosningar: Fagra Ísland var úr þeirra smiðju. Forystumennirnir blekktu umhverfissinna bæði í sínum eigin flokki og utan hans. En ég hélt virkilega að Þórunn Sveinbjörnsdóttir væri meiri bógur. Ríkistjórnar málamiðlanir eru engin afsökun, því var lofað af Samfylkingu einsog Ómar bendir á að engar framkvæmdir við álverksmiðjur færu í gang fyrr en búið væri að gera heilstæða úttekt.

María Kristjánsdóttir, 3.4.2008 kl. 23:48

15 identicon

Já ,heldur þú það Gunnar Th. að meirihluti þjóðarinnar vilji þetta .) sem betur fer þá held ÉG að þú hafir ekki rétt fyrir þér. Það fólk sem hugsar til framtíðar og gerir sér þ.a.l. grein fyrir fáránleika þeirra framkvæmda sem t.d. Kárahnjúkavirkjun er, fer ekki af þeirri skoðun Andstað við þetta brölt hefur aukist, en Það verður eflaust brugðið á margvísleg ráð til að koma fyrirhuguðum framkvæmdum á koppinn, það er taktík þeirra sem vilja leggja landið undir virkjanir og álver. Það er eins og ekkert annað rúmist í þeirra kolli.

Það er ekki víðsýninni fyrir að fara á þeim bænum :)

Ásta Steingerdur Geirsdottir (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 00:02

16 identicon

Ómar. Mér finnst stundum eins og það sé óværa í kommentakerfinu hjá þér. Þú skrifar um svæði eins og Gjástykki af þekkingu. En svo kemur fólk með færslur eins og þessar hér: ,,með markvissum og linnulausum umhverfisáróðri er hægt að rugla almenning í ríminu með ýkjum og bulli." Þó ertu nýbúinn að skrifa af þekkingu og innblæstri um Gjástykki. Það er alveg með ólíkindum að til sé fólk á þessu landi sem sér engin takmörk í því hvað er hægt að færa Alcoa af náttúruverðmætum. 40MW úr Gjástykki jafnast á við að veiða lax og bræða hann í kjúklingafóður og sýnir algert virðingarleysi. Það væri ráð að spyrja: Hvar setja okkar vísindamenn í jarðvísindum mörkin? Eru þeir til í að taka þátt í hverju sem er? Á hvaða hraða sem er? Fyrir hvern sem er? Við verðum að fara að spyrja vísindamennina okkar, hvar setja þeir mörkin?

ASM (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 00:14

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt hjá Gunnari Th. að þegar Steingrímur J. Sigfússon sá í hvað stefndi miðvikudaginn eftir kosningar og að draumur Styrmis og margra í Sjálfstæðisflokki og VG um stjórn þessara flokka var að verða að engu, fékk hann örvæntingarkast og sagði sem svo að það yrði ekki stöðvað sem búið væri að gera samninga og taka ákvarðanir um.

Í örvæntingunni bauð hann jafnvel betur en Samfylkingin en var búinn að missa af strætisvagninum ef hann var þá einhver.

Ingibjörg Sólrún er raunsæispólitíkus þegar hún vill það við hafa. Allt of mikil sárindi voru enn á milli Samfylkingar og VG til þess að þessir flokkar næðu saman. Það var svipað og hjá krötum, Frjálslyndum og vinstri mönnum og Alþýðubandalaginu á sinni tíð.

Kratar og Allaballar náðu aldrei saman í vinstri stjórninni 1956-58 og hún sprakk með miklum hvelli.

Frjálslyndir og vinstri menn vildu helst samstarf í útvíkkaðri Viðreisnarstjórn en neyddust til að fara í vinstri stjórn 1971-74 sem sprakk líka með miklum hvelli.

Allir vita hvernig stjórnin 1978-79 sprakk.

Undantekningin var stjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991 sem honum tókst af pólitískri snilli að halda saman.

Eftir á að hyggja var aldrei möguleiki á stjórn kaffibandalagsins, allra síst með eins þingmanns meirihluta á þingi. Heldur ekki á stjórn Framsóknar, Samfylkingar og VG vegna fyrrnefndra sárinda plús gagnkvæmrar andúðar milli Framsóknar og VG.

En Steingrími var vorkunn. Héðan af mun honum varla auðnast að komast aftur í ráðherrastól og geta flogið aftur að óþörfu með rándýrri Flugmálastjórnarvél á landbúnaðarþing í Hrútafirði

Ég segi af óþörfu því að ég fór þessa sömu leið á bíl og var ekki nema hálftíma lengur en Steingrímur, vegna þess að það tók tíma að fara út á flugvöll í Reykjavík og í loftið og enn meiri tíma að aka frá flugvelli inni í Miðfirði til Reykjaskóla og aftur til baka.

Ég segi nú bara svona til að spyrða saman gagnrýni hans á þotuliðið sem fór til Rúmeníu og svik Samfylkingarinnar við stóriðjustoppið. Við erum víst öll mannleg.

Ómar Ragnarsson, 4.4.2008 kl. 00:20

18 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Mikill dýrðartími væri fyrir ferðamenn á Íslandi í dag ef forfeður okkar hefðu haldið sig "heima" í stað þess að nema landið og spilla því.

Væri ekki besta umhverfisverndin að maðurinn fjarlægði sjálfan sig af Jörðinni? Kannski öfgaumhverfisverndarsinnar vilji fyrstir ríða á vaðið? Þá yrði þetta fegurðin ein.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 4.4.2008 kl. 01:04

19 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gunnar segir tvennt skemmtilegt í einni setningu. 'Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill þessar framkvæmdir, en með markvissum og linnulausum umhverfisáróðri er hægt að rugla almenning í ríminu með ýkjum og bulli.'

Fyrst það að meirihluti landsmanna vilji ál. Það efast ég um. Ég held að það séu þrjár fylkingar, 'með', 'móti' og 'hef ekki kynnt mér málið almennilega og er óákveðinn'. Síðasta fylkingin er fjölmennust. Þar sem yfirgnæfandi meirihluti er ekki á móti, er það túlkað þannig að meirihlutinn sé fylgjandi. Ég hef ekki séð þennan yfirgnæfandi meirihluta. Kannski af því ég er svo langt í burtu.

En með markvissa og linnulausa bullinu sló hann allt út. Er það ekki linnulaust bull að halda því fram að álið tryggi efnahagslega framtíð landsins, meðan efnahagurinn hrynur ári eftir að Fjarðarál tekur til starfa? Ég verð að vísu að gefa álmennunum það að orðalagið hefur breyst úr 'tryggja' í 'redda' eða 'bjarga'. Á meðan Kárahnjúkar voru fylleríið verður Bakki eða Helguvík afréttarinn, en við erum orðnir svo miklir djönkarar að einn afréttari er ekki nóg.

Ég segi bara eins og ASM, Ómar kom með góða punkta og rök, Gunnar með skítkast út í alla nema álbræður. Ef Ómar talar um Gjástykki, talar Gunnar um Steingrím J. og VG. Hvar eru rökin með áli? Eftir alla þessa mánuði hef ég enn ekki séð þau.

Villi Asgeirsson, 4.4.2008 kl. 04:01

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Á meðan Ómar skrifaði sinn ágæta fróðleik um Gjástykki o.fl. þá var ég að skrifa mína athugasemd. Ég játa það fúslega að ég hef ekki staðgóða þekkingu á virkjanasvæðinu við Mývatn, en að "allt" verði eyðilagt og háspennulínur út um "allt", kaupi ég ekki. Það myndi flokkast undir ýkjur í mínum skilningi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.4.2008 kl. 07:52

21 identicon

Ja það er fróðlegt að lesa oft yfirlýsingar "álsinnans" það eru mótsagnir og alhæfingar út um alla veggi, ykkur dugar að lesa nokkrar færslur "álsinnans" reglan er : Bara fá álver það var svo gott í bakgarðinn hjá mér, hvað sem það kostaði og hvað sem það mun kosta skiptir ekki bara álver í garðinn hjá mér og helst í alla garða því það er svo gott. Þið hin sem eruð á móti þið eruð bara að rugla fólk með vitleysu og staðhæfingalausu tali og það er ekkert að marka það, það vilja allir álver er það ekki.

kv. Bernt Tove

Bart Skofe (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 09:22

22 identicon

Ég er búin að ganga nokkrum sinnum kringum Leirhnjúk. Í fyrsta sinn með Náttúrufræðifélaginu vorið 1976. Mér finnst það alveg óskiljanlegt að menn skuli ekki átta sig á og njóta þeirra undra náttúrunnar, sem eru þarna. Sennilega eru það fleiri útlendingar en Íslendingar sem ganga hringinn . Við eigum hins vegar kost á að sjá breytingarnar frá ári til árs. Í  hraunmyndunum  frá Mývatnseldum eru lika margar  furður og öll gossaga svæðisins  merkileg. Í fræðritum er jafnvel litið á Kröfluelda sem smiðshöggið á landrekskenninguna. þar sem mannlegt auga sá jörðina gliðna.

   Lítið á bls. 7 í "Íslenskum eldstöðvum "Ara Trausta frá árinu 2001. Þar sést á korti greinileg sprunga á Bakka. Misgengi tengt sprungunni liggur í gegnum Húsavíkurfjall. Reyndar stendur sjúkrahúsið á sprungunni og hugsuðu álveri er líka ætlaður þar staður. Samkvæmt mínum heimildum munu þeir telja sig vera í svo góðu sambandi við þann í neðra, að hann muni ekki skaka  þarna á líftíma álversins,  Hvað stórir skjálftar hafa orðið á Tjörnesbrotabeltinu? Telst það ekki mjög virkt? Ætli hluthöfum Alcoa standi enginn stuggur af jarðhræringum?

 Bergþóra Sigurðardóttir,

huldukona (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 09:37

23 identicon

Takk nafni Th. alltaf hægt að ná í brandara fyrir helgina hjá þér, Takk kallinn.

GUnnar Tg (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband