HESTURINN BER EKKI ÞAÐ SEM ÉG BER.

Þekkt er þjóðsagan af karlinum sem sat á hesti og bar þungan poka á baki sér í stað þess að hafa hann fyrir aftan sig á hestinum. Þegar hann var spurður að því hvers vegna hann gerði þetta svona svaraði hann: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber." Ríkið hefur í raun lækkað megin álögur sínar á eldsneyti undanfarin ár með því að hafa þær í fastri krónutölu. Tekjuauki vegna virðisaukaskatts hefur verið sáralítill.

Ríkið leggur minna á eldsneyti hér en í nágrannalöndunum og verðið er lægra hér. En margir virðast gæla við þá hugsun að stórhækkun verðs erlendis frá sé hægt að losna við á svipaðan hátt og karlinn á hestinum taldi sig gera.

Í tilfelli eldsneytiskostnaðarins samsvarar hesturinn þjóðfélaginu í heild, karlinn samsvarar ríkissjóði og pokinn samsvarar hækkandi verði eldsneytis sem borga þarf erlendum aðilum. Nú halda menn að hægt sé að láta ríkissjóð taka pokann og að þá beri hesturinn (þjóðfélagið) ekki lengur byrðina.

Hið rétta er að það er ekki hægt að láta þessa hækkun gufa upp rétt si svona. Einhver verður að borga hana. Ef tekjur ríkissjóðs verða minnkaðar til þess að bera hækkunina hefur ríkissjóður minna fjármagn til spítala og skóla. Það þýðir með öðrum orðum að spítalar og skólar eiga að borga hækkunina fyrir þá sem nota eldsneytið.

Um 2010 er áætlað að olíuframleiðsla nái hámarkil. Eftir það verða þær olíulindir, sem taka þurfa við þeim lindum sem þá byrja að þverra, æ dýrari og erfiðari í vinnslu.

Verðið á þverrandi olíu getur ekkert nema hækkað og við því er ekki hægt að finna nein hókus pókus ráð. Hesturinn mun þurfa að bera vaxandi byrði, sama hvað hlaðið verður á bakið á karlinum sem situr á honum.

Að auki er augljóst að kostnaður af afleiðingum olíunotkunarinnar, loftslagsbreytinganna, verður margfalt meiri en nokkur "sparnaður" sem menn þykjast ætla að finna með því að "láta einhvern annan" borga brúsann af olíuverðshækkunum.

Það er rétt hjá bílstjórum að ríkisstjórnin virðist halda að hægt sé að halda þremur nefndum í óratíma við að finna nýtt kerfi á gjaldtöku af eldsneyti.

Einnig er það rétt að ríkisvaldið hefur tregðast við að viðurkenna á sama hátt og nágrannaþjóðirnar þjóðhagslegan ávinning af notkun dísilolíu. Á sama tíma og í nágrannalöndum er leitast við að hafa verð á dísilolíu lægra en á bensíni, er lítrinn af dísilolíu hér tíu krónum dýrari en af lítra af bensíni.

Atvinnubílstjórarnir aka nær eingöngu dísilbílum og það þarf engar þrjár nefndir til að finna út það sama og aðrar þjóðir hafa gert hvað varðar dísilbílana. Stjórnin gæti eftir helgina ákveðið að lækka lítrann á dísilolíu um fimm krónur og hækkað bensínlítrann á móti og efnt gamalt loforð um þetta efni.


mbl.is „Gagnslaus fundur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Mikið er ég sammála þessu. Eina leiðin til að mótmæla þessu háa verði er að kaupa minna af eldsneyti.

Það fyndna er að ef allir, allstaðar, ekki bara á Íslandi taka sig saman þá lækkar verðið. Eins og staðan er í dag á það bara eftir að hækka því eru ekki "allir" kínverjar að fara að fá sér bíl? Þá eykst nú notkunin ekki lítið.

Landfari, 5.4.2008 kl. 00:35

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Raunverulega sitja ráðamenn hér í súpu eigin aðgerðaleysis. Nákvæmlega ekkert hefur verið að gert til þess að stýra eða stjórna til dæmis tollum af ökutækjum eftir stærð ellegar notkunar eldsneytis.

Skilaboð ráðamanna hafa verið þau, " kaupið bara nógu mikið af bílum alveg sama hver þyngdin er eða hvaða eldsneyti um er að ræða ".

Loforð um að díselolía yrði lægri hafa ekki verið efnd.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.4.2008 kl. 00:58

3 identicon

Stórgóð grein Ómar.

Gott væri ef henni yrði dreift á meðal mótmælenda en því miður er bara svo erfitt að komast að þeim í einkabílasúpunni sem þeir hafa gaman af að mynda.

Mér hefur fundist rök mótmælenda óskýr í þessum skæruliðaðferðum þeirra og ekki batnaði álit mitt á þeim þegar þeir fóru að stugga við reglum um hvíldartíma.

Greinin þín getur vonandi bent þeim á hvað það er sem þeir gætu viljað mótmæla.  

Gunnar Geir (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 01:24

4 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Ég held að mótmælin snúist ekki um verð á olíu. Held að það sé bara sýndarmennska hjá Sturlu og félögum. Í raun eru þeir að berjast gegn auknu öryggi í umferðinni vegna þess að aukið öryggi kostar þá fé. Það hefur áður sést að menn vilja ekki verja fjármunum í öryggismál. Þegar kröfur um aukið öryggi í mótorsporti hafa verið settar fram þá eru alltaf einhverjir einstaklingar sem berjast á móti, því öryggi kostar peninga.

Birgir Þór Bragason, 5.4.2008 kl. 08:58

5 Smámynd: Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson

Takk fyrir gott innlegg, hvaða fornaldarhugsun (í neikvæðri merkingu) er það að hvorki stjórnmálamenn né fjölmiðlar skoði á gagnrýnan hátt hugmyndir mótmælenda um undanþágur frá "reglum um hvíldartíma" Hvaða skilaboð eru þetta varðandi umferðaröryggi? Ætlum við að lifa lengi enn í undanþáguheimi vanþróunnar? Þetta förum við með til Brussel segir samgönguráðherra, æææ.

Ég skil vel almennt séð óánægju með hátt besín og dísel verð, en samt sest að mér ógleði þegar ég sé risavaxna 4x4 bíla í mótmælaaðgerðum við Alþingishúsið.

Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 5.4.2008 kl. 09:37

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

2010 er tiltölulega svartsýn spá, en olíuframleiðsla mun í náinni framtíð verða erfiðari og dýrari. Hátt olíuverð er komið til að vera. Ágætis grein á ensku er hér. http://en.wikipedia.org/wiki/Peak_oil

Villi Asgeirsson, 5.4.2008 kl. 10:03

7 identicon

Mjög góð grein hjá þér Ómar. Ég bý nú í Bretlandi og hér hefur eldsneytisverð líka hækkað gríðarlega. En hér er eldsneytisverð talsvert hærra en á Íslandi. Samt hef ég ekki séð neima trukkakalla mótmæla þessu hér. Ég held að þessi mótmæli á Íslandi séu gengin allt of langt og þessir menn ættu að stöðva þetta nú þegar. 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 10:04

8 identicon

Það má deila um hvort eitthvað sem heitir "Peak Oil" sé í raun sannleikur eða lygi til að réttlæta hærra olíuverð.

Bensínið er ekkert dýrara í dag heldur en fyrir 20 árum, þar að segja ef þú berð saman gull og bensínverð.

Það segir manni að það er ekkert dýrara að dæla olíunni úr jörðu heldur en fyrir 20 árum, og ætti í raun að vera ódýrara vegna tækniframfara.

Hvað er þá að, því hækkar alltaf bensínverð?

Kannski vegna þess að stríðið í Írak er fjármagnað að hluta til með prentun á dollara, þar að segja stærri gjaldeyrisforða, sem leiðir af sér útþynntan gjaldmiðil sem augljóslega missir verðgildi sitt, OG ÞVÍ HÆKKAR OLÍUVERÐ!

Hefur ekki dollarinn misst verðgildi sitt um serka 40% og bensínið hækkað um 40% í leiðinni?

Vandamálið er að við fáum greitt í gjaldmiðli sem er búin til úr pappír, gjaldeirisforðinn er svo stöðugt aukinn með nýjum lánum, það þíðir stærri gjaldeiðisforði og því útþynntur gjaldmiðill sem missir verðgildi sitt.

Ef einhver hefur áhuga á að kynna sér raunverulegar ástæður hækkunar á bensínverði og læra um bankakerfið þá mæli ég með þessari heimildarmynd.

http://youtube.com/watch?v=cy-fD78zyvI

Andri (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 12:17

9 identicon

Úrdráttur úr grein: Þar sem daglaunin duga birtist í Morgunblaðinu 19.nóv. 2006 eftir undirritaðan

,,Ef einstaklingur þarf að sækja vinnu og keyra hennar vegna á bíl sínum 50 km. hvern vinnudag frá heimahögum fær hann í frádrátt 20.65 kr. pr. km. frá 25 km. upp að 100 km. Ef þú byggir í Danmörku og þyrftir að sækja vinnu sem samsvaraði vegalengdinni frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur og færir 200 ferðir fram og til baka á ári þá fengirðu í skattfrádrátt 313.880 kr.''

P.S. Danska krónan var 11.60 íslenskar krónur þegar þessi grein var skrifuð. Núna er danska krónan 16 krónur svo nú er bara að uppfæra dæmið og sjá hverju munar.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 23:06

10 identicon

Þar sem daglaunin duga

Danmörk er vel til þess fallin til að bera saman við verðlag og lífsgæði hér á landi þar sem verð á matvöru er það sama eða ódýrara og líkt gildir um tískuvörur, fatnað og fleira. Þar duga daglaunin ágætlega til að lifa fjöldskylduvænu lífi með barnafjölskylduna í fyrirrúmi. Undirstaðan að dönsku velferðinni er réttlátt skattkerfi sem leitast við að hafa sem mestan jöfnuð á meðal þegnanna. Þríeykið, það opinbera, samtök launþega og atvinnurekanda í Danmörku gerir sér grein fyrir því að velferð fyrir alla býr til samfélag sem eykur t.d. jákvæðan hagvöxt. Velferðin ryður síðan brautina fyrir borgarana til að lifa og njóta eins og kostir lands og þjóðar leyfa. Ég er nýkominn heim úr árvissri ferð minni til Danmerkur eftir heimsókn til sonar míns sem þar býr. Á meðan hann var í skólanum gafst mér tími til að gera samanburð á milli landanna um nokkur atriði eins og þau komu mér fyrir sjónir. Persónuafslátturinn á mánuði í Danmörku er 37.217 íslenskrar en 27.647 kr. hjá yngri en 18 ára eða svipað og hjá fullorðnum á Íslandi sem er 29.029 kr. Tekjuskattsprósentan, almennt, er 41% á almenning en hér 36.72%. Þrátt fyrir hærri tekjuskattsprósentu í Danmörku þarf tvöföld lágmarkslaun hér á landi til að mismunurinn á tekjuskattinum á milli landanna fari að skila meiru hér beint í launaumslagið. Þó er þetta ekki sjálfgefið þegar litið er til launa fyrir sambærilega vinnu. Laun láglaunafólks í Danmörku eru frá 1253 kr. fyrir unninn tíma í dagvinnu fyrir utan orlof sem er 12%. Hér heima er borgað fyrir sambærilega vinnu frá 689 kr. auk orlofs sem er 10.17% á Íslandi. Eins og áður segir er skattprósentan 41% í Danmörku almennt séð á meðan tekjurnar fara ekki yfir 3.079,800 kr. á ári.Eftir það bættist við milliskatturinn 6% á tekjur upp að 3.696,920 kr. en þá tekur við topskatturinn 15% þar á eftir. Tekjuskattsprósentu er hægt að fá lækkaða með nýju skattkorti í Danmörku ef um meiriháttar breytingu er að ræða á högum skattgreiðanda. Til dæmis, er vaxtafrádáttur vegna íbúðakaupa og dagvistun barns gefur 46% í frádrátt. Meðlag er líka frádráttarbært, 3488 kr.á mán. svo tekjuskattprósentan getur hæglega breyst úr 41% og lækkað niður í 30% sé mikið af frádráttarliðum eins og hjá barnafjöldskyldum.Á Íslandi er eitt skattþrep sem viðheldur þeim mikla ójöfnuði sem hér er við lýði. Ef einstaklingur þarf að sækja vinnu og keyra hennar vegna á bíl sínum 50 km. hvern vinnudag frá heimahögum fær hann í frádrátt 20.65 kr. pr. km. frá 25 km. upp að 100 km. Ef þú byggir í Danmörku og þyrftir að sækja vinnu sem samsvaraði vegalengdinni frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur og færir 200 ferðir fram og til baka á ári þá fengirðu í skattfrádrátt 313.880 kr. Og vel að merkja, bensínverðið er lægra ytra ef eitthvað er. Vaxtarbætur í Danmörku eru skattfrjálsar og ekki tekjutengdar og sama gildir um barnabætur. Barnabæturnar eru greiddar á 3 mánaða fresti og fyrir barn frá 0 - 7 ára, krónur 39.150 og til 18 ára aldurs krónur 26.100. Þessi upphæð getur hæglega tvöfaldast vegna sérstakra barnabóta sé um einstætt foreldri að ræða. Viðmið fer eftir útreiknaðri lágmarksframfærslu frá hinu opinbera. Á Íslandi eru barnabætur tekjutengdar og borgaðar eingöngu til 16 ára aldurs og upphæð lágmarksframfærslu enn á huldu, eða að minnsta kosti á reiki. Vextir af lánum til íbúðarkaupa hjá okkur veita skattafrádrátt. Þó er það ekki sjálfgefið því hér eru notaðar alls kyns reiknikústir til að ná þeim niður eins og hjá þeim 10 þúsund einstaklingum sem fengu engar vaxtarbætur 1.ágúst sl. vegna nýrra reglna sem fjármálaráðherrann Árni M. Mathiesen skrifaði undir í umboði Sjálfstæðisflokksins. Útflutningsgreinarnar hér heima eiga sér þó málsbætur hvað varðar getu til að borga mannsæmandi laun því vaxtastigið sem fyrirtækin búa við í samkeppninni um markaði erlendis er hér miklu hærri en í Danmörku. Sem dæmi eru stýrivextir hjá Seðlabankanum 14 % en 3,5% í Danmörku. Þetta fyrirkomulag leiðir af sér að á Íslandi er betra að geyma aurana sína á bankabók og liggja síðan rólegur á meltunni og bíða afrakstursins heldur en að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins t.d. með því að fara út í fyrirtækjarekstur. Hér er fjármagstekjuskatturinn aðeins 10%. Þetta alíslenska kerfi er hannað fyrir þá efnuðu, fyrst og fremst og hina útvöldu þ.m.t. útrásarmenn. Þetta leiðir svo sjálfkrafa til atvinnuleysis í samfélaginu og heldur skuldurum í ánauð hárra vaxta og verðtryggingar. Í Danmörku eru fjármagnstekjur hins vegar meðhöndlaðar eins og hverjar aðrar launatekjur og takið eftir að þar er engin verðtrygging eins og við þekkjum hana og enginn skilur. Viðskiptahallinn hér á landi í dag styður þessa kenningu mína en hann er um 300% af landsframleiðlu. Á sama tíma er viðskiptajöfnuðurinn jákvæður hjá frændum vorum. Uppsveiflan er slík þar um slóðir, að vöntun er á um 10.000 manns til arðbærra starfa. Það er engin tilviljun að burtfluttum Íslendingum til Danmerkur hefur fjölgað um góð 100% frá 1993 til dagsins í dag.,,Venlig hilsen . . ."

Baldvin Nielsen, bifreiðarstjóri, Reykjanesbæ.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 19. nóv. 2006

P.S. Danska krónan var 11.60 krónur íslenskar þegar þessi grein var skrifuð núna í dag er danska krónan um 16 krónur íslenskar svo núna er bara uppfæra greinina fyrir þá sem það vilja til að sjá muninn á milli landanna þá eins og ruv.is gerði í frétt sinni um matarkörfuna sína hér á landi og í Danmörku sem dæmi sjá frétt hér neðar. Þessi frétt hjá rúv.is er mjög villandi tekur aðeins eitt dæmi matarverðhækkanir sem verður til að mestu vegna gengismunar eftir fall íslensku krónunar. Rúv.is lætur vera að tala um sem dæmi að persónufrádrátturinn eftir gengisfall íslensku krónununar gerir það að verkum að persónufrádráttur hjá dönskum unglingum frá 13 ára til 18 ára aldurs er hærri en hjá fullornum á Íslandi.

Fyrst birt: 04.04.2008 19:05

Síðast uppfært: 04.04.2008 19:59

Ódýrt að kaupa í matinn hér á landi

,,Ódýrara var að versla hefbundna matarkörfu í lágvöruverslun á Íslandi en í Danmörku, ef marka má lauslega útttekt fréttastofu. Líklega er þó að mikill afsláttur af dýrum vörum geri það að verkum að ekki sé um hefðbundið verð að ræða.

Það kemur líklega flestum á óvart að matarkarfan í Bónus nú , er mun ódýrari nú en hún var fyrir ári síðan og munar þar um 1350 krónur og er því til að mynda ódýrari en í Danmörku. Þess ber þó að geta að margar vörur voru á veglegum afslætti og munar þar mestu um 40% afslátt af bæði kjúklingabringum og nautahakki.

Fréttastofa kannaði í fyrra hvort að lækkun virðisaukaskatts á matvælum gerði það að verkum að verðmunur á hefðbundinni matarkörfu á Íslandi væri að minnka miðað við Danmörk og Bandaríkin. Úttektin leiddi í ljós mörg þúsund króna mun þá. Vegna aðstæðna á markaði nú og umræðu um hækkandi matarverð, var gerð sambærilega könnun nú. Fréttamenn í löndunum þremur, fóru og versluðu sömu vörur í sömu verslunum og fyrir ári síðan. Um var að ræða 13 algengar og sambærilegar vörurtegundir, sem valdar voru af handahófi. Þar má til dæmis nefna, smjör, mjólk, banana og kjúklingabringur.

Fyrir ári kostaði matarkarfan í þessari sömu Netto búð í Kaupmannahöfn tæpar 5200 íslenskar krónur. Hún kostar í dag 7680 krónur. Hækkunin er 48%.

Sú hækkun er að mestu tilkomin vegna gengisbreytinga á Íslandi. Væri gengið enn í dag 12 krónur en ekki 16, er almenn verðhækkun á dönsku körfunni 13%.

Í Bandaríkjunum er talsverð umræða um þessar mundir um hækkandi verð á matvöru - og það er aðallega rekið til þess að verð á eldsneyti er að hækka. En matarkarfan sem fréttamaður sjónvarps tók saman í heimabæ sínum í Delaware ríki í gær, sýnir að sumt hefur hækkað, á meðan annað hefur lækkað.

Samtals kostaði karfan okkar tæplega 6500 krónur. Rétt er að minna á að hér er enginn söluskattur og gengi krónunnar er um 9% lægra en þegar þessi könnun var gerð í fyrra.

Þessi matarkarfa var þannig í raun ódýrari núna, sé miðað við sama gengi og notað var í fyrra - en nokkuð dýrari, miðað við gengið í gær.

Það kemur líklega flestum á óvart að matarkarfan í Bónus nú , er mun ódýrari nú en hún var fyrir ári síðan og munar þar um 1350 krónur og er því til að mynda ódýrari en í Danmörku. Þess ber þó að geta að margar vörur voru á veglegum afslætti og munar þar mestu um 40% afslátt af bæði kjúklingabringum og nautahakki. Ef afsláttar hefði ekki notið við hefði karfan verið tæpum 2000 krónum dýrari.

Þannig að annað hvort er matarverð að lækka á Íslandi þrátt fyrir alla umræðu um hækkandi matarverð, eða ódýrar vörur valdar fyrir tilviljun. Fréttastofa ætlar á næstunni að gera sambærilega úttekt reglulega.''

B.N. (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 00:08

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það vill svo til að í ýmsum erlendum blöðum, sem fjalla bæði um tæknimál og efnahagsmál, er niðurstaðan sú sama, að eftir árið 2010 liggi leiðin niður á við. Auðvitað gætu OPEC-ríkin tæknilega aukið framleiðsluna eitthvað í nokkur ár eftir 2010, en þá verður niðursveiflan þar á eftir bara enn hraðari.

Stórgóð úttekt í Economist í fyrra sló niður glýjuna um gríðarlegar olíulindir á norðurslóðum sem myndu taka við þegar arabaolían er búin. Það er þvert á móti, arabarnir munu til enda olíualdarinnar sitja á langstærsta forðanum sem eftir er.

Það er alveg sama hvernig menn reyna að berjast um á hæl og hnakka í þessu máli. Olían er takmörkuð auðlind og því meira sem menn nota af þenni, þeim mun styttra mun hún endast og brennsla hennar valda meiri búsifjum í vegna loftslagsbreytinga.

Ómar Ragnarsson, 6.4.2008 kl. 01:54

12 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Ómar, hér í noregi er diselolia orðin dýrari en bensin, eftir að stjórnvöld höfðu hvatt bíleigendur til að að kaupa minna mengandi diselbíla, urðu þau náttúrulega vör við minnkandi innkomu á sköttum, diesel bílar eyðja jú minna. Lausnin, jú ósköp venjuleg vinstri lausn, bara hækka skatta á disel og nú sitja þeir sem fóru eftir áróðri stjórnarinnar og keyptu diselbíl með mun hærri eldsneytisreikning

Anton Þór Harðarson, 6.4.2008 kl. 09:36

13 identicon

Þessi leið dana að veita skattaafslátt fyrir hvern ekin km. eins og kemur fram hér ofar í athugasemd númer 10 hér ofar er mjög umhverfisvæn leið til að spara orku.

Danir gera mikið af því að skiftast á að nota bílanna sína til að keyra lengri leiðir í vinnu sem kemur til vegna þessara skattafríðinda sem í felst mjög mikil fjárhagslegur ávinningur.

Tökum dæmi 5 mannst ferðast saman í sama bíl fá þeir allir sama skattafsláttinn engin skerðing. Sama gildir ef þú ferð á hesti,lappandi,reiðhjóli,rútu eða á hverju sem er til að komast í vinnuna skilyrðin eru að vinnan sé í meiri fjarlægð en 21 km frá heimili launþegans því þar byrjar skattafrádrátturinn að telja km.

Super diesel per. líter í Danmörku í dag(sjá q8.dk) er 10.15 dkk eða 162,40 íslenskar. 

Dísel á Íslandi í dag er 157.9 íslenskar krónur og benzín er á 148.9. 

Þungaskatturinn hér á landi er allt að 35 krónur á ekin km. sem er rukkaður sérstaklega með milili fyrirhöfn það kostar mikið eftirlit og býr til alkyns kostnað bæði fyrir ríki og bílstjóraeigendur. í Danmörku  eru öll gjöld sem ríkið tekur af hverjum lítra í olíverðinu þegar líterinn er keyptur það er sýnileiki sem skiftir máli fyrir neytendur. Því miður er þetta eins og margt annað  hér á landi hugsað til að búa til ríki í ríkinu.

P.S. Launþegi í rækjuvinnslu í Danmörku  er með í byrjunarlaun 1840 íslenskar krónur fyrir einn tíma í dagvinnu orlof er svo 12% ofan á eftir 5 ár er borgað 1980 íslenskar krónur fyrir utan orlof. Það er allt of oft sem fjölmiðlar hér á landi eru notaðir til að heilaþvo almenning það líkar mér ekki

Baldvin Nielsen,Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband