Löggan var sprúttsali.

Á síildarárunum fyrir hálfri öld var ég fenginn til að skemmta í samkomuhúsi úti á landi þar sem var haldið ball á eftir skemmtuninni. Ég uppgötvaði þá að unglingspiltur var á sífelldum hlaupum frá litlu herbergi undir sviðinu með flöskur, fullar af víni og kom síðan til baka með hálftómar flöskur. Ég fór að kanna málið svo lítið bar á og varð agndofa þegar ég komst að því að í kjallaranum var miðstöð leynivínsala sem byggðist á starfi lögregluþjóns, sem var dyravörður. 

Pilturinn fór að milli inngangs hússins og kjallarans og bar skilaboð sitt á hvað. Hann sagði lögregluþjóninum frá því hverjir keyptu vínið og lögregluþjónninn hirti síðan flöskurnar af kaupendunum við innganginn. Þar fékk pilturinn hálftómu flöskurnar í hendur, fór með þær niður í kjallarann þar sem hellt var á milli og vínið síðan selt í annað sinn og flöskurnar jafnvel teknar oftar en einu sinni af kaupendunum í anddyrinu.

Ég frétti síðar að komist hefði upp um lögregluþjóninn og hann látinn fara. En aðferðin hjá honum var gargandi snilld, byggð á sérstæðum íslenskum aðstæðum.


mbl.is Löggan reyndist vera bankaræningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Góð saga sem ætti skilið að verða nánar skráð á spjöld sögunnar.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 13.4.2008 kl. 17:36

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Já svona var þetta á þeim tímum og að þetta var snilld. Mín saga er af svipuðum toga, en það voru inngöngumiðar í því dæmi. Þetta var einhversstaðar  í Þykkvabænum og stelpurnar áttu ekki fyrir miðum og var á minnsti okkar (GM)fenginn í að fara út og fá miða í anddyrinu og  gefa einni stelpunni, inn um  kjallaradyrnar og út  um þessa lúgu sem var alltaf við senurnar og þaðan í anddyrið osv. þangað til allar stelpurnar voru komnar inn. Mun saklausara en sprúttsalan, blessuð sé minning þeirra.

Wolfang 

Eyjólfur Jónsson, 13.4.2008 kl. 17:38

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sagan af sprúttsalanum er ein af þeim sem stendur upp á mig að skrá á spjöld sögunnar. Ég stefni að því.

Ómar Ragnarsson, 13.4.2008 kl. 19:51

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Næsta verkefni fyrir Ómar, ef hann hefur tíma aflögu... ...sem hann hefur aldrei. Mannlífsþættir, þar sem svona sögum eru gerð skil. Kannski er þetta þó betra í bók en á skjánum.

Villi Asgeirsson, 13.4.2008 kl. 20:11

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er nýbyrjaður (á spítalanum) að skrifa fyrstu bókina í ritröð sem ber yfirskriftina "Fólk og fyrirbæri."

Svona sögur verða meðal efnis þar.

Ómar Ragnarsson, 13.4.2008 kl. 22:48

6 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Það verða skemmtilegar sögur sem þú skráir,hlakka til að sjá þær og lesa.

Guðjón H Finnbogason, 13.4.2008 kl. 22:49

7 Smámynd: Þórhildur Daðadóttir

Svona sögur á einmitt að skrá, það tapast mikið ef þær tapast.

Þórhildur Daðadóttir, 14.4.2008 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband