Réttdræpir í Kína og Bandaríkjunum.

Listi Amnesty International yfir mannréttindabrot í Kína er langur og ljótur og engin ástæða til að gera lítið úr því. Tvennt af því sem nefnt er í þeirri upptalningu er þó ekki óþekkt á Vesturlöndum, dauðadómar og það að halda fólki í fangelsum án ákæru eða réttarhalda.

Ástfóstur það sem Bandaríkjamenn hafa tekið við líflátsdóma er blettur á lýðræðisþjóð sem telur sig í fararbroddi í baráttu fyrir mannréttindum og mannúð um allan heim. Ekki batnar það þegar líflátsaðferðirnar eru skoðaðar.

Meðferð á föngum í Guantanamo hefur líka verið kapítuli út af fyrir sig. Bandaríkjamenn setja líka kíkinn fyrir blinda augað þegar um er að ræða mannréttindabrot og harðstjórn hjá þóknanlegum bandamönnum svo sem Saudi-Aröbum.

Fréttirnar af hæstaréttindadómnum um notkun á banvænum sprautum við dauðarefsinga eru dapurlegar og koma mér á óvart. Ég var að vona að það væri einhver hreyfing í aðra átt vestra.


mbl.is Eitursprautur áfram leyfðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Kristinsson

Já, og svo segja þeir "Liberty and justice for all". Ættu kannski að bæta við þetta "Except for suspected terrorists and children in texas suspected for being child abusers."

Pétur Kristinsson, 16.4.2008 kl. 21:47

2 identicon


Það er margt slæmt sem búið er til í Bandaríkjunum og eflaust er það land eitt það öfgamesta sem til er í heiminum.  Mikið af þeim hroðaverkum sem framin eru í US eru framin vegna þess að um er að ræða þjóðfélagslegt vandamál sem brenglar siðgæðisvitund margra einstaklinga.  Ofan á þetta er skotvopnalöggjöfin ekki til að bæta málið þar sem það hjálpar enn frekar við þá öfga sem þarna eru. Efnishyggjan sem tröllríður öllum heiminum (og hefur alltaf gert) fær fólk til að gera ótrúlegustu hluti (með stóru Ó-i)  ræður oft ríkjum hjá "heilbrigðari" hlutanum af þeim sem fremja afbrot og er það akkúrat ástæðan fyrir því að ég er sáttur við að þeir leyfi banvæna sprautur áfram.  Það er munur á því hvort manneskjan er fárveik í hausnum eða með "einbeittan brotavilja" eins og þeir kalla það hérlendis. 

eikifr (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 22:11

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

USA er ekkert öfgafyllsta land í heimi - þeir búa bara við óvenju frjálsa fjölmiðla, sem básúna út því öfgafulla sem þeir gera.  Því það sem þeir gera venjulega er ekki gott TV.

Evrópumenn mættu taka skotvopnalöggjöf kanans til fyrirmyndar.  Það sýnir traust sem Ríkið ber til íbúanna, að þeir geti borið ábyrgð á sjálfum sér, og gerðum sínum.

Ásgrímur Hartmannsson, 16.4.2008 kl. 23:05

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú er ég sko innilega sammála þér Ómar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.4.2008 kl. 03:41

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Merkilegt hvað þið hamist á Bandaríkjunum – af hverju ekki á Japan, Íran og Saudi-Arabíu? Fjöldi morða er svo gífurlegur í Bandaríkjunum á ári hverju, að um 50 aftökur þar á ári eru harla hæpin forsenda til að tala um "[á]stfóstur það sem Bandaríkjamenn hafa tekið við líflátsdóma," eins og þú gerir hér, Ómar. Tíðni dauðarefsinga þar er eitthvað í áttina við, að hér á landi færi fram einn dauðadómur á u.þ.b. 65 ára fresti.

Þegar ég ætlaði að finna enduróminn af BBC-frétt um dauðarefsingar í ísl. blöðum, greip ég í tómt um það atriði, að Amnestymaður hafði þar talað um nálægt 8.000 aftökur í Kína í fyrra, þrátt fyrir opinberar tölur um 470. Svo sé ég, að þessa tölu er ekki lengur að finna í BBC-fréttinni ...  En þar segir þó í þessari útgáfu:

  • While there were 470 confirmed executions, the real figure was likely to run into thousands, Amnesty said.
  • "As the world's biggest executioner, China gets the 'gold medal' for global executions," said the organisation's UK director, Kate Allen. 

Hér vilja hins vegar ýmsir koma gullinu á Bandaríkjamenn! Ætli menn komist aldrei yfir það, að við urðum að þiggja varnir ókeypis af þeirra hálfu í sex áratugi og notuðum það m.a.s. til að auðgast á þeim?

Jón Valur Jensson, 17.4.2008 kl. 03:44

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef áður bloggað um það að við Íslendingar höfum alrangar hugmyndir úr bíómyndum um Bandaríkjamenn, sem byggjast á álíka fordómum og ef útlendingar dæmdu okkur eftir ástandinu í miðbænum um nætur og helgar.

Agi, kurteisi og ljúf og létt framkoma eru aðalsmerki venjulegs bandarísks þjóðfélags sem að stórum hluta er dreifbýlisþjóðfélag. Frelsisyfirlýsing þeirra og stjórnarskrá komu á undan frönsku stjórnarbyltingunni og í báðum heimsstyrjöldunum komu þeir lýðræðisríkjum heims til hjálpar á ögurstundum.

Opin umræða og oftast fordómalaus í kynþáttamálum er einnig til eftirbreytni.

Það er einnig rétt að margar aðrar lýðræðisþjóðir hafa dauðarefsingar.

En maður gerir mestar kröfur til öflugasta lýðræðisríksins sem sjálft telur sig vera í fararbroddi í mannúðar- og mannréttindamálum. Í pistli mínum dró ég enga fjöður yfir það að önnur ríki séu miklu verri, svo sem Saudi-Arabía.

Bandaríkjamenn hafa afsakað fáránlega tíðni byssumorða með því að í landi þeirra sé svonefnt "frontier"þjóðfélag sem byggi á hefð landnámsins á sínum tíma sem var auðvitað ekki fólgið í öðru en að taka land af frumbyggjum landsins.

Kanada er líka "frontier"land en þar er margfalt lægri tíðni morða með skotvopnum enda löggjöfin önnur.

Undarlegt er að sjá hól um þá "ábyrgð" sem ríkið feli þegnum sínum með skotvopnalöggjöf sem minnkar öryggi íbúanna en eykur það ekki. Það er svona álíka og að hér á landi væri byrjað að berjast fyrir svipuðu fyrirkomulagi og var hér á þjóðveldisöld þegar hver maður bar sjálfur ábyrgð á því að fullnægja dómum.

Ómar Ragnarsson, 17.4.2008 kl. 06:36

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Flott svar hjá þér, Ómar, virkilega vel svarað. Loka-málsliðurinn er svar við orðum Ásgríms, en mér svaraðir þú bæði með ágætu og jákvæðu tali um Bandaríkjamenn og svo með þessum orðum:

  • "Það er einnig rétt að margar aðrar lýðræðisþjóðir hafa dauðarefsingar.
  • En maður gerir mestar kröfur til öflugasta lýðræðisríksins sem sjálft telur sig vera í fararbroddi í mannúðar- og mannréttindamálum. Í pistli mínum dró ég enga fjöður yfir það að önnur ríki séu miklu verri, svo sem Saudi-Arabía."

Samanburðarorðið "verri" felur óneitanlega þarna í sér, að Bandaríkin séu vond í þessum málum. En spyrja má: Ef lífsvernd ýmissa saklausra borgara verður gerð ótryggari en forhertra raðmorðingja og fjöldamorðingja, eigum við þá að líta á það sem skref áfram "í mannúðar- og mannréttindamálum"? Hér má líta á þrennt til hliðsjónar:

  1. Dauðarefsing kann að vera fráfælandi fyrir suma (ef hún er það í einungis 10%-20% tilvika, svo að dæmi sé nefnt, þá mun það samt bjarga þúsundum mannslífa í Bandaríkjunum einum).
  2. Það getur gerzt, að harðsvíraðir morðingjar losni úr fangelsum og dæmin eru um að þeir drepi aftur. Þá má líta á það sem kostnað hinna saklausu vegna verndar hinna seku, þ.e. þeirrar verndar, að dauðarefsing hafi ekki verið þar í gildi. Eins geta (og hafa) slíkir menn framið manndráp á samfanga sínum, svo að menn gleymi því ekki heldur.
  3. Á tímum hryðjuverka og harðvítugrar baráttu samheldinna hagmunahópa, sem hefja "hetjur" sínar til skýjanna, er einnig hætt við því, að reynt verði með valdi að leysa hættulega fjöldamorðingja úr haldi -- ýmist með árás á fangelsið, þar sem saklausir fangaverðir og lögreglumenn geta þá fallið, eða með gíslatöku, t.d. í flugvél, og er þá líf margra saklausra í húfi; frekar en gefast upp, velja slíkir gíslatökumenn stundum fremur skotárás eða að sprengja sig í loft upp með eins mörgum saklausum og þeim er unnt. Verði hins vegar "hetjan" leyst úr haldi, að kröfu mannræningjanna, kann viðkomandi aftur að verða valdur að fjöldamorðum saklausra.

Og í framhaldi af þessu síðastnefnda vaknar ágeng spurning: Var rétt að hlífa lífi fjöldamorðingjans? Var það jafnvel bein skylda okkar eða samfélagsins "í mannúðar- og mannréttindamálum"? -- Ef svo er að þínu mati, kæri Ómar, viltu þá ekki rökstyðja það fyrir lesendur þína?

Með kærri kveðju og virðingu, 

Jón Valur Jensson, 17.4.2008 kl. 21:04

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir athugasemdina, Jón Valur. Auðvitað er ódýrara að aflífa fjöldamorðingjann en að halda honum á lífi í fangelsi á kostnað samfélagsins sem hann braut gegn. En ég er almennt á móti dauðarefsingum vegna þess að ég tel að aldrei eigi að taka líf nema engra annarra kosta sé völ.

Í tilfelli hörðustu refsinga yfir illmennum eiga menn völ á því að viðkomandi sé haldið í fangelsi ævilangt, sé þess talin þörf.

Dæmi um slíkt er Rudolf Hess, sem aldrei var látinn laus.

Öðru máli gegnir um ákvarðanir þar sem ekki verður komist hjá því að mannslífum sé fórnað, hvaða kostur sem er valinn.

Dæmi er ákvörðun Trumans um að varpa frekar kjarnorkusprengjum á Japan og drepa með því um 200 þúsund manns en að gera það ekki og að afleiðingarnar af því yrðu að jafnvel fleiri myndu farast í áframhaldandi hefðbundnum árásum á japanskar borgir og í bardögum vegna innrásar í Japan.

Miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir sýndist þessu vera svona háttað en menn hafa deilt um það síðar og talið að nóg hefði verið að varpa annarri sprengjunni þar sem hún sýndi eyðingarmáttinn án þess að drepa svona marga.

Kaldhæðnin við kjarnorkuvopngaógnina er hins vegar sú, að hún virkar ekki nema sá, sem ógnað er, trúi því að vopininu verði beitt til ítrustu eyðingar.

Ég stóð frammi fyrir áleitnu vali nýlega þar sem mannslíf eru í veði, þótt óbeint sé.

Ísland er að verða eina landið þar sem svonefndar MOSA-sýklar hafa ekki numið land, en það eru sérlega illvígir fjölónæmir sýklar.

Þessum árangri hefur verið náð vegna þess að landið er eyja en ekki síður vegna þess að menn hafa sett sér mjög harðar reglur varðandi svona sýkingar sem berast hingað frá öðrum löndum.

Þannig fór dótturdóttir mín nýlega í mánaðar einangrun hér heima og varð að sótthreinsa sig með spritti daglega vegna þess að hún hafði greinst með þessa sýkla þegar hún kom erlendis frá.

Henni var með þessu haldið langt frá sjúkrahúsum og tryggt að þangað kæmi hún ekki.

Þegar ég fékk heiftarlega ígerð og sýkingu í baki á leið til Bandaríkjanna nýlega átti ég möguleika á því að láta stinga á kýlinu og jafnvel fara í frekari aðgerð í Bandaríkjunum. Ég ákvað að fara ekki í aðgerð vegna þess að þá hefði ég getað orðið innlyksa þar og það hefði kostað gríðarlega peninga.

Auk þess vissi ég af hættunni á MOSA-sýklunum og ákvað að taka enga áhættu hvað það snerti.

Ef ég hefði látið stinga á kýlinu og komið síðan heim, hefði frekari meðferð mín hér heima geta tafist meðan gengið var tryggilega úr skugga um það að ég væri ekki með MOSA-sýkla.

Ég ákvað að taka áhættuna á því að gera ekkert vestra, en daginn sem ég var á leiðinni heim þandist sýkingin hratt út og náði frá hrygg og út á síðuna hægra megin.

Þegar kýlið var tekið varð eftir gat sem var meira en tíu sentimetra djúpt og fimm sentimetrar í þvermál og hefur tekið sex vikur að gróa innan frá. En vegna þess að ég hafði ekki látið krukka neitt í mig vestra var hægt að taka mig strax til meðferðar og koma á síðustu stundu í veg fyrir allsherjar blóðeitrun.

Minnsta töf í þessum efnum hefði getað orðið dýrkeypt og þetta stóð tæpt sem sést á því að mér var haldið í 17 daga á sjúkrahúsinu.

Og þá er komið að kjarna málsins. Ef MOSA-sýklarnir ná fótfestu á Íslandi mun það kosta nokkur mannslíf á ári, sem hægt er að bjarga með því að halda landinu hreinu.

Ef þær hörðu aðgerðir, sem til þarf, kosta eitt mannslíf, verður að velja þann kost og bjarga hinum. Kalt mat en óhjákvæmilegt.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2008 kl. 00:15

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú segir fréttirnar, Ómar – sem raunar er nú ekkert nýtt! – og ég votta þér hluttekningu mína vegna þessara þungu heilsuáfalla sem þið feðginin hafið orðið fyrir. Guð gefi ykkur góðan bata og blessaða, langa ævidaga.

Í svari þínu fórstu sem sé út í þessa hliðarumræðu og endaðir þar á ályktun í lokin (sjá þar), en ræddir einnig um siðferði stríðs og kjarnorkusprenginga, sem ég gef mér ekki tíma til að ræða hér og nú, enda þykir mér það út fyrir efnið farið.

Hið eiginlega svar þitt við innleggi mínu tekur ekki nema yfir fyrstu þrjá málsliðina í þessu innleggi þínu kl. 0.15. Það svar þitt þykir mér, satt bezt sagt, ónógt. Athugaðu líka, að ég var ekki að ræða það, hvort það sé "ódýrara að aflífa fjöldamorðingjann en að halda honum á lífi í fangelsi á kostnað samfélagsins sem hann braut gegn," ef þú átt þar eingöngu við fjárhagslegan kostnað, ekki kostnað í mannslífum saklausra.

Ég lagði fyrir þig ágenga spurningu í lok þessa stóra innleggs míns og bað þig rökstyðja það fyrir lesendum, ef þú teldir, að það [absolút] skyldu okkar eða samfélagsins að hlífa lífi fjöldamorðingja. Svar þitt var: "En ég er almennt á móti dauðarefsingum vegna þess að ég tel að aldrei eigi að taka líf nema engra annarra kosta sé völ." – Þetta er í raun ekki rökstutt svar, heldur tjáning á afstöðu, hverrar grunnforsendur koma þar ekki skýrt fram. Ég vona, að þú sért sammála því og veitir mér og lesendum þínum betri úrlausn.

Taka má þó fram hér í lokin, að þú ert í raun á sömu línu og Jóhannes Páll 2. páfi var: að ekki ætti að beita dauðarefsingu í neinu því landi, sem talizt getur eiga trygg fangelsi – en hann gerði undantekningu með hin löndin, sem ekki eiga örugga fangaklefa, af því að þar með væri þá lífum margra ógnað, ef hinn dæmdi slyppi ... En þessi afstaða minnir í raun þó nokkuð mikið á þau konkret dæmi, sem ég nefndi í 2. og 3. lið í innleggi mínu hér ofar, jafnvel þótt í þeim væri hugað að Ameríku og Evrópu ...

Aftur með kærri kveðju, 

Jón Valur Jensson, 18.4.2008 kl. 02:17

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allt í lagi, Jón Valur. Ég var með ansi löngum útskýringum að setja fram svipaða skoðun og Jóhannes Páll 2. páfi, sem sé þá, að þegar þess er kostur, eigi ekki að aflífa fólk. Páfinn nefnir dæmi hliðstætt mínum dæmum, þar sem niðurstaðan geti orðið sú að fleiri mannslífum sé fórnað en bjargað með því að gefa illskeyttum morðingjum líf.

Í ríkustu ríkjum heims hlýtur að vera hægt að búa svo um hnúta að engu mannslífi sé fórnað, hvað snertir dauðarefsingar. Ef til þess þarf lífstíðar fangelsi verði þeirri refsingu beitt.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2008 kl. 11:30

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Reyni að gera þetta enn skýrara: Eitt af höfuðatriðum kristins mannúðarsiðgæðis, sem er undirstaða vestræns samfélags, lýðræðis og mannréttinda, er mannslífið, líf og heilsa.

Það er ekki bara tilfinningarlegt atriði heldur getur líka verið kaldur útreikningur á því hve mörg mannslíf eru í veði.

Dauðarefsing á samkvæmt þessu ekki rétt á sér ef hún leiðir til þess eitt mannslíf tapist án þess að mannslífi sé bjargað í staðinn.

Ef þér líkar ekki þessi afstaða mín verður svo að vera. Mér þykir afar ólíklegt að ég muni skipta um skoðun í þessu efni.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2008 kl. 11:39

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta snýst kannski bara um peninga, þar sem dauðarefsingum er beitt.

Auðvitað eru til glæpamenn sem manni finnst ekkert eiga betra skilið en að vera steiktir í stólnum, barnamorðingjar, fjöldamorðingjar o.s.fr.v. en bara sá möguleiki, þó lítill sé, að saklaus maður verði tekinn af lífi, gerir það að verkum að það er brjálæði að beita þessari "endanlegu" refsingu.

Af því Jón Valur er sérlegur fulltrúi Guðs hér, þá vil ég spyrja hann hvar Biblían segir okkur að við höfum vald til þess að taka líf manna? "Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn", er boðskapur þess að okkur beri skylda til að launa líkt með líku? En hvað þá með sanna og einlæga iðrun? Fyrirgefninguna? Á hún bara við í sumum tilfellum en ekki öðrum?

Í BNA eru bara morðingjar teknir af lífi, þó hygg ég að dauðarefsingar nái yfir landráðaglæpi einnig. Í mörgum öðrum löndum er dauðarefsingu beitt fyrir margskonar glæpi, eiturlyfjasmygl, nauðganir, mansal, jafnvel þjófnaði og samkynhneigð. Þetta er brjálæði og er örugglega ekki Guði þóknanlegt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 11:58

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér svarið, Ómar. Ég svara hér á hlaupum og á eftir að hugleiða svar þitt betur. Eitt skulu menn þó hafa í huga: Jóhannes Páll leyfði ekki – ekki frekar en Kristur né kaþólska kirkjan – að lífi saklauss manns verði fórnað til að bjarga öðrum (saklaus maður hefur hins vegar sjálfur, sjálfviljugur, leyfi til að fórna lífi sínu fyrir aðra). Bein og viljandi kjarnorkuárás á almenna borgara í borg eða bæ (en ekki sem árás á herstöð eða kjarnorkubyrgi) er því siðferðislega ávallt óheimil. – Vitja þessarar slóðar aftur!

Gunnar Th., mér vitanlega er ég ekki "fulltrúi Guðs" hér! Einu get ég þó svarað þér, þ.e.a.s. þegar þú spyrð, "hvar Biblían segir okkur að við höfum vald til þess að taka líf manna?" – Hún gerir það í I. Mós. 9.6:

  • Hver sem úthellir blóði manns,
    hans blóði skal og úthellt verða af manni,
    því að í mynd sinni
    skapaði Guð manninn.

Jón Valur Jensson, 18.4.2008 kl. 14:51

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En ég spyr þá aftur, hvað með iðrunina og fyrirgefninguna? 

Einhversstaðar segir líka í Biblíunni að maður eigi að vera góður við þrælana sína, eins og það sé sjálfsagt mál að hver bjargálna maður eigi þræl!

Við gagnrýnum öfgamúslima fyrir bókstafstrú og jafnvel rangtúlkanir á Kóraninum. Kristnir menn eru nú stundum lítið skárri. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 16:55

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég hef verið upptekinn og gat því ekki svarað þessari aths. Gunnars kl. 16:55 fyrr en nú. Ég spyr hann á móti: Hvað á hann við með iðrun og fyrirgefningu? – Sjálfur get ég sagt, að engin iðrun sakamanns og fyrirgefning Guðs kemur í veg fyrir, að við stingum þeim seka í fangelsi samkvæmt lögunum, sér í lagi ef um mikla sök er að ræða og viðkomandi er talinn hættulegur umhverfi sínu. En hann getur samt iðrazt og fengið fyrirgefningu, þ.e. uppgjöf á sinni sekt gagnvart Guði sjálfum. Dæmdur morðingi, jafnvel sá, sem tekinn er af lífi, getur hafa náð að sættast við Guð fyrir andlátið og verið velkominn í eilíft dýrðarríki Guðs við upprisuna, á meðan annar, sem aldrei komst í kast við lögin, getur með innri afstöðu sinni verið að kasta frá sér eilífu hjálpræði. Iðrun og fyrirgefning eru þannig fjarri því að vera lítils nýt í mannlegri tilveru.

2. málsliður Gunnars er útúrsnúningur. Sá 3. kemur ekkert við mig. – Með kveðju,

Jón Valur Jensson, 19.4.2008 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband