Þekkt fyrirbæri.

Sú ályktun að Svínaflóaklúðrið hafi verið lyfjaneyslu Kennedys að kenna er athyglisverð en þó vafasöm. Ráðamenn heims hafa ekki þurft slíkt til að taka rangar ákvarðanir. Kennedy var nýtekinn við afar krefjandi starfi og reiddi sig á upplýsingar hers og leyniþjónustu. Vafasamt er að niðurstaða Kennedys um að gefa grænt ljós á hana hefði orðið önnur þótt hann hefði verið heill heilsu.

Mér finnst uppljóstrunin um ástand Nixons þegar Yom Kippur stríðið brast á mun skelfilegri. Nixon var blindfullur og menn neyddust til að taka ákvarðanir fyrir hans hönd á þann hátt að í raun var hann sviptur völdum á meðan á þessu ástandi hans stóð. Þar var um að ræða forseta með hönd á kjarnorkuhnappnum.

Vitað er að Winston Churchill skolaði niður að minnsta kosti viskíflösku á hverjum degi og tók ýmsar rangar ákvarðanir. Ein þeirra varð ein af ástæðum þess að hann tapaði í kosningunum 1945, en það var þegar hann sagði að kæmist Verkamannaflokkurinn til valda stefndi í hliðstætt ástand og verið hefði í Þýskalandi.

Kannski var kallinn rallhálfur þegar hann sagði þessi ósköp. Enginn er fullkominn.

Churchill hefði kannski afrekað enn meira og gert færri mistök ef hann hefði verið allsgáður allan tímann, en ekkert verður sannað í þeim málum.

Fáir voru eins grátt leiknir af samstarfi sínu við lækna og Adolf Hitler sem var orðinn veruleikafirrtur lyfjasjúklingur síðustu misseri stríðsins. Hugsanlega spillti valdið í þeim efnum. Þegar einum foringja er falið alræðisvald verða læknar eins og allir aðrir að lúta vilja hans, þótt hann felist í skaðlegri fíkn.

LJóst er þó að stríðið hefði ekki farið á annan veg þótt Hitler hefði verið allsgáður. Forsendan fyrir helstefnu hans var sú að Þjóðverjar hefðu gert mistök með því að gefast upp árið 1918 án þess að erlendur her væri kominn inn í landið. Hitler sagði frá upphafi að þeir sem að því stóðu hefðu svikið þjóðina og að slíkt mætti aldrei koma fyrir aftur.

Þetta var megingrundvöllur stefnu nasista í 23 ár og því fór sem fór að milljónum manna var fórnað í löngu tapaðri baráttu.


mbl.is Lyfjaneysla Kennedys sögð óhófleg um tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert.

Reyndar er það þekkt að Churchill war háður amfetamíni. Hann mældi ræðulengdir í pillufjölda. Lítilvæg ræða var einnar pillu ræða, en mikilvægar og langar voru þriggja pillu ræður.

Adolf Hitler var stakur bindindismaður, reykti hvorki né drakk, og hafði mikla andstyggð á Churchill vegna lifnaðarhátta hans. Hitler var grænmetisæta. Á fyrstu árum sínum sem kannslari setti hann fyrstur stjórnmálamanna lög um meðferð á dýrum.

Hvað seinna varð, þ.e. þátt lækna í andlegu ástandi þessara manna væri fróðlegt að vita meira um. Þegar maður horfir á kvikmynd ein og Der Undergang sér maður svo ekki verður um villst að stjórnmálamaðurinn Hitler er oðinn vitskertur maður.

Alfreð Alfreðsson (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 08:39

2 Smámynd: Karl Ólafsson

Athyglisverðir punktar sem gaman væri að heimfæra upp á Frónið.

Ég held að ef grannt er skoðað leynist sams konar dæmi í íslenskri stjórnmálasögu, þó ekki hafi kannski legið jafn mörg mannslíf að veði í þeim tilfellum.

Karl Ólafsson, 17.4.2008 kl. 11:04

3 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Sæll Ómar

Er svo víst að stríðið hafi farið á annan veg, hafi Hitler verið allsgáður? Hvað með ef hann hefði haldið griðarsáttmálan við sovétríkin.

Þegar ákvörðun um innrás til austurs var tekin, var Hitler orðin sjúkur og hann hefði kanski ekki tekið þessa ákvörðun, hefði hann verið i sama ástandi og fyrir og  í upphafi stríðs.

Ég gæti vel trúað að það væri önnur mynd á evrópu í dag, hefði bandalag rússa og nasista haldið

Anton Þór Harðarson, 17.4.2008 kl. 16:33

4 Smámynd: Anton Þór Harðarson

að sjálfsögðu átti þetta að vera "Er svo víst að stríðið hafi EKKI farið á annan veg, "

Anton Þór Harðarson, 17.4.2008 kl. 16:34

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í Mein Kamph er útþenslan til austurs, þ.e. stríðið við Sovétríkin, stærsta atriðið fyrir utan útrýmingu Gyðinganna. Í margendurteknum ummælum hans er sama stefið: Útrýming gyðinga og glæpagengisins í Kreml, undirokun og alger yfirráð hinna arísku ofurmenna (ubermenshen) yfir honum óæðri (subhuman) slavnesku þjóðum, sem áttu að vera vinnuafl til að tryggja næga fæðu í hinu nauðsynlega "lífsrými" fyrir herraþjóðina.

Griðasáttmálinn við Stalín 1939 var aðeins hugsaður sem millileikur til að komast hjá því berjast á tvennum vígstöðvum eins og í fyrri heimsstyrjöldinni. Öll hugsun Hitlers frá upphafi beindist að því að gera ekki sömu mistök og í fyrra stríðinu, drýgja þann glæp að gefast upp.

Hitler ákvað innrásina strax haustið 1940 og var þá í fínu formi, nýkominn úr samfelldri sigurgöngu um meginlandið og ekkert á bömmer vegna Bretanna, sem gátu beðið eftir að verða teknir í bakaríið eftir að þýski herinn hefði lagt undir sig Rússland austur að Ardennafjöllum.

Hitler varð ekki alvarlega háður lyfjum fyrr en eftir að fór að halla undan fæti og lyfjaneysla breytti engu sem máli skiptir um gang stríðsins.

Ómar Ragnarsson, 17.4.2008 kl. 23:02

6 identicon

Þetta var ekkert klúður hjá Kennedy, hann hafði í raun neitað CIA um hjálp við þessa innrás, ma með því að neita þeim um aðstoð herflugvéla....en samt var gerð innrás. Nauðsynlegt að lesa um Zappata olíu fyrirtækið og Bush eldri CIA mann til að skilja öflin á bak við skítalyktina.  Kennedy hótaði í frægri ræðu að uppræta leyniþjónustu USA sem hann taldi spillta.....en hann var nú ekki nægilega langlífur til þess blessaður karlinn.  Betra væri nú ef fjölmiðlar einbeittu sér að því að lyfta leyndinni af skjölunum í kringum morðið á Kennedy, í stað þess að sverta nafn hans. Enn þann dag í dag er opinber útskýring á dauða Kennedy hin svokallaða töfrakúlu-kenning sem Arlen Specter bjó til.......en kúla þessi á að hafa beygt í loftinu og snúist 180 gráður og gert ýmsar fleiri kúnstir.

Það að hann hafi notast við Amfetamín er nú ekkert athugavert per se, en vissulega er hætta á ofnotkun. Í okkar samfélagi er Amfetamín notað enn sem lyf, ma í formi Ritalíns sem er gefið krökkum.

Bush yngri núverandi forseti var þekktur fyrir ofnotkun á áfengi sem og Kókaini hér á árum áðum, en hann er sagður hafa séð Guð á fertugsafmælinu og verið "clean" síðan......það koma alltaf orðrómar annað slagið að karlin sá sé nú enn á kafi í búsinu og kókinu en það má nú víst lítið tala um það.....en það er nú frekar auðvelt að trúa slíkum frásögnum ef maður horfir eithvað á hann í imbanum, því hann virðist oft vera eithverstaðar lengst "út á túni". Hann talar auk þess stundum eins og hann sé að vinna verk Guðs og þykist trúaður mjög. Þetta á hann sameiginlegt með Hitler því hann var einnig Guðsmaður mikill að eigin sögn, Kaþólskur og viss í sinni sök. Okkur er kennt að Hitler hafi verið trúleysingi og Kirkjan Kaþólska hafi barist á móti honum en það þarf ekki að glugga mikið í ræðurnar hans til að komast að sannleikanum í málinu.....til dæmis með því að nota Google. 

símon (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 23:08

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eitthvað virðist mönnum greina á um hvað "Lífsrýmið" í raun þýddi hjá Hitler. Í bók enska sagnfræðingsins  A.J.P. Taylor segir hann um "Lebensraum":

"...Hitler var engan veginn höfundur þess. Allir notuðu það á þessum tíma og bók Hans Grimm, Wolk ohne Raum, seldist til að mynda miklu betur en Mein Kampf, er hún var gefin út 1928 (Mein Kampf 1925)"

"Úkraína átti að verða þýskt land, og það sem meira er, menn hugðust flytja alla íbúa Póllands og Úkraínu á brott og byggja löndin Þjóðverjum".

"Ef marka má Mein Kampf var hann (Hitler) heltekinn af gyðingahatri, sem er aðalefni bókarinnar. Um Lífsrýmið er aðeins fjallað á sjö af sjö hundruð blaðsíðum hennar..."

"Eins og ég skil orðið "áætlun", hafði Hitler aldrei neina áætlun um lífsrými. Engar rannsóknir voru gerðar á auðlindum landanna, sem leggja átti undir yfirráð Þjóðverja, og aldrei var ákvæmlega skilgreint hvaða landssvæði þetta væru. Aldrei voru ráðnir starfsmenn til að fylgja þessum "áætlunum" eftir og aldrei var skipulagt hvaða Þjóðverja ætti að flytja, þaðan af síður að fólk væri skráð til flutnings. Þegar svo þýski herinn hafði lagt undir sig stór landssvæði í Sovétríkjunum, snerust stjórnendur hinna sigruðu landssvæða í hringi, rifu hár sitt og gátu engin fyrirmæli fengið um hvað þeir ættu að gera við fólkið sem bjó þarna, hvort þeir ættu að útrýma því eða láta það vinna, hvort þeir ættu að koma fram við það sem vini eða óvini.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 04:32

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

23. maí 1939, rúmum þremur mánuðum fyrir innrásina í Pólland segir Hitler við hershöfðingja sína: "Stríð við Pólland snýst um að þenja út lífsrými okkar og tryggja okkur fæðu."

30. mars 1941,tæpum þremur mánuðum fyrir innrásina í Sovétríkinn segir Hitler á fundi með hershöfðingjunum: "Þetta verður útrýmingarstríð. Ef við lítum ekki þeim augum á það kunnum við að sigra óvininn en eftir 30 ár horfast að nýju í augu við hinn kommúniska óvin. Við heyjum ekki stríð til þess að viðhalda óvininum."

Í maíbyrjun 1941 skipar Eric Hoepner hershöfðingi mönnum sínum fyrir: "Stríðið við Rússa er snýst um tilveru þýsku þjóðarinnar. Stríðið við Rússa er hin gamla barátta gegn asískum áhrifum og felst í því að útrýma hinum gyðinglega bolsévisma.Við verðum að mylja Rússland í duftið og þess vegna sýna áður óþekkta hörku. Allar hernaðaraðgerðir verða í skipulagi og framkvæmd að vera leiddar af járnvilja til þess að ná fram miskunnarlausri, algerri útrýmingu óvinarins."

Ástæður þess að aldrei voru til neinar nákvæmar áætlanir um það hvernig átti að framkvæma þessi ósköp eru áreiðanlega margar, skortur á tíma og mannafla til að gera áætlanir og einnig það, að aðstæðurnar í stríðinu buðu ekki upp á annað í bili en að viðhalda þeim landbúnaði og öflun hráefna, sem þurfti á hinu hertekna svæði í Rússlandi.

SS-aftökusveitirnar virðast hafa verið einar um það að hafa áætlanir um framkvæmd útrýmingarinnar, enda auðveldara að afmarka viðfangsefnið, þ. e. að elta uppi og drepa forystumenn kommúnista og gyðinga.

Ég kom til bæjarins Demyansk 500 km fyrir norðvestan Moskvu í hitteðfyrra en þar var 110 þúsundmanna þýskur her lokaður inni í fjóra mánuði 1942 uns hann braust út úr herkvínni og fór á braut.

Gömul kona sem þá var unglingsstúlka þar sagði mér að þýsku hermennirnir hefðu verið ósköp venjulegir hermenn, flestir þeirra ungir menn sem voru komnir í ókunnugt land án þess að hafa mikla hugmynd um hvers vegna. Innan um hefðu verið þrjótar eins og ævinlega í herjum, en ekkert fleiri en búast hefði mátt við.

Hún sagði að þau hefðu ekki verið mest hrædd við Þjóðverjana, heldur Finnana, sem hefðu verið sjúklega grimmir.

Þetta kom mér gersamlega í opna skjöldu en síðar meir áttaði ég mig á því að munurinn var sá að Finnarnir voru í hefndarhug eftir vetrarstríðið 1939-40 en ungu Þjóðverjarnir höfðu enga slíka ástæðu með í farteskinu.

Þetta sýnir hve miklir ofstopamenn voru í fyrirsvari fyrir þessari hræðilegu herför nasista. En líka er ljóst að margir herforingjarnir, svo sem Hans Guderian, voru ekki haldnir þessu æði og heldur ekki þorri hermannanna.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2008 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband