30.4.2008 | 14:05
Nítjándu aldar málsmeðferð hingað til.
Nú er liðin vika síðan átökin frægu urðu við Rauðavatn og þær fréttir berast að allsherjarnefn Alþingis, sem tekið hefur málið til skoðunar, sé ekki enn komið með myndband í hendur. Ég fullyrði að án myndbandsupptöku er tómt mál að fjalla um þessa atburði. Á fundinum, sem allsherjarnnefnd hélt með deiluaðilum sögðu þeir báðir frá atburðum frá sínum sjónarhóli án þess að hægt væri að nýta sér kosti tækninnar og skoða hvað þeir voru að tala um, biðja um útskýringar og sannreyna framburðinn eftir því sem tök voru á.
Sem sagt, þetta var að mestu ónýt nítjándu aldar málsmeðferð og þýðir væntanlega annan fund með aðilum þegar myndbandið verður komið og þar með var hinn fyrri fundur ónýtur að miklu leyti og málið dregið á langinn.
Við skoðun á þeim hluta atburðanna, sem sýndir voru í sjónvarpsfréttatímum og þáttum var hægt að fá býsna skýra mynd af nokkrum atriðum sem skipta máli og sýna mistök og röng viðbrögð á báða bóga.
Þegar brununum á Mýrunum lauk hér um árið voru eldar varla slokknaðir þegar beðið var um allt tiltækt myndefni yfir þá.
Það er komin 21. öldin og það á að vera hægt að afgreiða svona áilitamál á mun markvissari, öruggari og meira upplýsandi hátt en á 19. aldar árum Alþingis. Það er gert með því láta öflun grundvallargagna hafa forgang.
Athugasemdir
Þetta er auðvitað rétt athugað, út af fyrir sig. Þar á móti er ekki augljóst hvers vegna allsherjarnefnd Alþingis fjallar um þetta mál, enda hefur hún ekkert vald til þess að hafa einu sinni skoðun á því hvað þá meira.
Það er með ólíkindum þessi ríka þörf sem alþingismenn hafa, sumir umfram aðra, til þess að taka upp umfjöllun um hin og þessi mál á þingfundum og í nefndum - en vitanlega bara þegar þing stendur sem er ekki nema um helming ársins.
Hvernig þjóðin bjargast hinn helminginn er alveg óskiljanlegt.
Herbert Guðmundsson, 30.4.2008 kl. 14:46
Þetta er nú einmitt aðall alvöru þjóðþinga að rannsaka mál á óháðan hátt. Því miður er ofurvald framkvæmdavaldsins yfir þinginu hér svo mikið að þetta verður ósköp máttlaust og vinnubrögðin léleg og ómarkviss. Sum mál, eins og Guðmundar- og Geirfinnsmál og símahleranir okkar daga þyrfti að rannsaka og kosturinn við rannsókn á vegum þingsins er sá, að þá er hægt að haga málatilbúnaði þannig að ekki séu felldir dómar um sekt eða sakleysi þeirra sem stjórnuðu til dæmis hlerunum heldur til að hreinsa málin og koma í veg fyrir að þeim sé sópað undir teppið.
Ómar Ragnarsson, 30.4.2008 kl. 22:51
Ég ætla mönnum ekkert nema það sé reynt af þeim. Ég er ekki einn um það að finnast lögreglan hafa um margt gengið of hart fram samkvæmt Gallup-könnun. Þessu þarf að kippa í liðinn því að það er lögreglunni sjálfri fyrir bestu.
Ómar Ragnarsson, 1.5.2008 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.