3.5.2008 | 20:45
Hinn forsetabíllinn eftir 2019?
Afhendingin á hinum glæsilega forsetabíl er fagnaðarefni. Næsta skref í þessu máli getur hins vegar verið stigið árið 2019 þegar 75 ár verða frá því er Goðafossi var sökkt og með honum hinum raunverulega fyrsta forsetabíl, gjöf frá Roosevelt Bandaríkjaforseta. Þá er lögum samkvæmt aflétt grafarhelgi af flakinu.
Engu máli skiptir í hvaða ástandi sá bíll er vegna þess að einu ófrávíkjanlegu kröfurnar, sem eru gerðar til að bíll sé upprunalegur, eru að fyrir hendi sá hluti grindar sem er með grindarnúmeri og vélarblokk með blokkarnúmeri.
Með þetta er í höndum má endurnýja allt annað með viðurkenndum hlutum eða jafnvel kaupa heilan og góðan bíl og setja hann ofan á grindina.
Samkvæmt frásögn manns í sjónvarpsþætti um slysið, sem ég gerði í nóvember 1994, og komst af þegar skipið sökk, stóð bíllinn í kassa frammi á skipinu. Þegar skipið sökk stökk hann ofan á kassann og af honum í sjóinn. Dramatískara gerist það varla.
Viðmælandi minn taldi að bíllinn hefði verið af gerðinni Packard Clipper, sem var nokkuð straumlínulagaðri og nýtískulegri í útliti en bíllinn sem var afhentur í dag.
Ef þessi bíll verður sóttur niður að Titanic Íslands og stendur um síðir á hlaðinu á Bessastöðum á íslenska forsetaembættið bíl með sögun, sem ekkert annað þjóðhöfðingjaembætti í heimi getur leikið eftir að eiga.
Fyrsti forsetabíllinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Meira að segja máladeildarstúdent sér að líklega á þetta að vera 2019, félagi sæll !
Eiður (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 21:04
Búinn að leiðrétta!
Ómar Ragnarsson, 3.5.2008 kl. 21:26
Ómar, veistu á hve miklu dýpi Goðafoss liggur?
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.5.2008 kl. 23:35
Ég hef rætt við ýmsa kafara og fór út á slysstaðinn 1994 til að minnast hálfrar aldar afmælis slyssins.
Þetta er ekkert óyfirstíganlegra en svo að kafarar telja sig hafa komist niður að skipinu en eins og er gilda lög um grafarhelgi um það þannig að bæði það og flakið af Glitfaxa út af Flekkuvík eru skilgreind sem grafreitir.
Ég myndi giska eitthvað í kringum 50 metra en jafnvel þótt það væru 100 metrar á að vera hægt að komast þangað niður.
Ef bíllinn hefur verið bundinn í kassa við skipið er hann líklega þar enn, en ef hann hefur losnað frá því fyrr, getur orðið mál að finna hann.
Ómar Ragnarsson, 4.5.2008 kl. 12:02
Á "grafarhelgi" við í sambandi við skipsskaða? Oft er reynt að ná skips og flugvélaflökum úr sjó vegna rannsóknarhagsmuna, stundum vikum eða mánuðum eftir slysið. Er ekki hægt að kanna Goðafoss á grundvelli menningarsjónarmiða?
Þeir sem áttu um sárt að binda vegna þessa skipsskaða eru langflestir komnir undir græna torfu, þar á meðal föðursystir mín sem beið ólétt með fjölskyldu föður míns við Reykjavíkurhöfn milli vonar og ótta, hvort barnsfaðir hennar væri meðal þeirra sem kæmu í land með björgunaraðilum. Barnsfaðirinn var staddur í vélarrúmi skipsins þegar tundurskeytið hitti og er talin hafa látist samstundis.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2008 kl. 14:23
Í báðum tilfellum, Goðafossi og Glitfaxa, var það ósk eigenda farartækjanna og aðstandenda þeirra sem fórust, að flökin yrðu skilgreind sem grafreitir. Það var ekki tilviljun að fyrst eftir 1989 þegar 75 ár voru liðin frá Titanic-slysinu, gátu menn farið að að kanna flakið.
Um rannsóknarhagsmuni gildir hliðstætt og um krufningu eða umleitun eftir DNA-rannsókn, að brýnir rannsóknarhagsmunir víkja burt grafarhelgi.
Engir slíkir brýnir hagsmunir liggja fyrir um Goðafoss og Glitfaxa. Það skiptir ekki máli héðan af hvort skoðun á flaki Glitfaxa leiðir í ljós nú eða eftir átján ár, hvers vegna flugvélin fór í sjóinn.
Ómar Ragnarsson, 4.5.2008 kl. 20:23
Getur það ekki hafa verið af tæknilegum ástæðum, sem ekki var farið niður að Titanic, fyrr en 1989?
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.5.2008 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.