10.5.2008 | 03:42
Fram og aftur blindgötuna.
Vesalings Seðlabankinn eigrar nú fram og aftur um þá blindgötu og öngstræti sem hann og íslensk efnahagsmál eru komin í eftir óstjórn, stóriðjuæði og neyslufyllerí undanfarinna ára. Spáð er stýrivaxtahækkunn og síðan hraðri lækkun þegar verðbólgan, sem hann heldur að hann ráði eitthvað við, fer að minnka. En bankinn stjórnar æ minna af efnahagskerfinu eftir því sem flóttinn frá krónunni rýrir gildi hennar. Davíð og co sveiflast eins og strá í vindi verðbólgunnar.
Óttinn við fjárfestana sem hafa fjárfest í vaxtamuninum svo hundruðum milljarða skipti veldur því að svigrúm til lækkana vaxta er lítið vegna hákarlanna sem hafa stóran hluta hagkerfisins í hendi sér.
Æ meiri líkur eru á því að þjóðin muni ekki sjá sér annað fært en að sækja um aðild að ESB. En þeir sem trúa á það sem allherjarlausn gleyma því að til þess þarf grjótharðar ráðstafanir til þess að standast þær kröfur sem gerðar eru þar á bæ um þau atriði hagstjórnar sem hér eru fokin út í veður og vind.
Aðvörunarorð frá þeim sem sáu hvert stefndi síðustu árin hafa verið að engu höfð og nú súpum við seyðið af því hlaut að gerast, að krónan lækkaði um síðir og þá stjórnlaust. Það er komið að skuldadögunum og íslenska stefnan eða öllu heldur stefnuleysið: "Þetta reddast allt einhver veginn" á eftir að reynast okkur dýr.
Spá frekari hækkun stýrivaxta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Íslendingar ættu að nota loftbrúnna og flyta til Evrópu, þar er Evran og allt sem okkur langar í. Til hvers að vera að sækjast eftir aðild hér þegar öll Evrópa er opin og miklu betra og traustara líf þar.
Jón V Viðarsson, 10.5.2008 kl. 13:12
Í skýrslu sendinefndarinnar dags. 11. júní 2007 segir svo í lok inngangskafla:
12. The formation of a new government presents an ideal opportunity to take the hard decisions necessary to increase macroeconomic stability in Iceland. The sooner these decisions are taken, the sooner balance will be restored to the Icelandic economy.
(Þýðing: Við myndun nýrrar ríkisstjórnar gefst kjörið tækifæri til að taka þær erfiðu ákvarðanir sem eru nauðsynlegar til þess að efla þjóðhagslegt jafnvægi á Íslandi. Því fyrr sem þessar ákvarðanir eru teknar, þeim mun fyrr verður jafnvægi endurheimt í íslenzka hagkerfinu.).
Umsögn:
Fyrirlestur Prófessor Aliber við Háskóla Íslands í gær er sagður hafa komið flatt upp á suma áheyrendur hans.
En þó talaði hann bara hreint út um einfalda hluti sem sendinefnd IMF talaði um undir rós fyrir ári síðan.
Hluti sem undirritaður og ýmsir aðrir íslenzkir hagfræðingar hafa varað við í ræðu og riti um langt árabil.
Staksteinahöfundur Mbl. velti því fyrir sér í gær hvort hagfræði væri eftirávísindi.
Já - eftirávísindi ráða ríkjum í Bankaráði SÍ.
Bankaráði skipuðu fulltrúum allra íslenzkra stjórnmálaflokka.
Bankaráði sem skilur ekki fyrr en skellur í tönnum.
***
Á opnu Morgunblaðsins 7. maí er haft eftir Arnóri Sighvatssyni, aðalhagfræðingi Seðlabanka Íslands, undir fyrirsögninni "Algjört glapræði" sem vísar til hugmyndar Alibers "Að leggja verðbólgumarkmiðið á hilluna tímabundið" á meðan unnið er að endurheimt jafnvægis í íslenzka hagkerfinu.
Þetta var reyndar ekki kjarni þess máls sem Arnór setti þar fram - hann var að finna í eftirfarandi umsögn hans:
"Telji menn að hægt sé að reka peningastefnu og ná einhverjum skikkanlegum stöðugleika án þess að peningastefnan hafi einhverja kjölfestu er það algjörlega ný kenning. Þetta hafa menn gert í gegnum söguna með því að binda gjaldmiðilinn við gull, binda hann við annan traustan gjaldmiðil, hafa peningamagnsstýringu eða gera það sem við höfum gert, þ.e. láta gjaldmiðilinn fljóta og setja sjálfstæðum seðlabanka verðbólgumarkmið. Þeir sem vilja víkja frá verðbólgumarkmiðinu verða þá að benda á hvern hinna kostanna þeir vilja fá í staðinn."
***
Í umræðunni á málefnin.com setti einn áheyrenda Alibers fram ágætar athugasemdir og spurði um leið hvort Gangleri hefði verið viðstaddur fyrirlestur hans.
Gangleri sagði svo ekki vera, en setti fram eftirfarandi athugasemdir sem líta má á sem efnislega umsögn um þá heildarsýn á stjórn peningamála sem endurspeglast í umsögn Arnórs Sighvatssonar hér að ofan.
***
Varðandi efnisatriði málsins, þá hefur Aliber væntanlega horft á þær þjóðhagslegu stærðir sem skipta meginmáli þegar meta skal hvort íslenzka hagkerfið sé vel, illa, eða hrikalega statt - stærðir eins og útlánaþenslu lánakerfisins innan lands og utan fjármagnaða að miklu leyti með skammtíma skuldsetningu á erlendum lánamörkuðum og meðfylgjandi halla á viðskiptajöfnuði og (núna) ískyggilegum horfum um endurfjármögnun erlendra skammtímalána bankanna.
Þetta eru þær þjóðhagsstærðir sem sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins túlkaði á sama hátt og Aliber - en með diplómatískara orðavali.
Ég þekki ekki til Alibers né vinnubragða hans.
Þó sýnist mér mega virða honum það til vorkunnar að hafa verið grunlausan um verðtryggingu útlána sem á sér engan líkan á byggðu bóli.
Það er engin spurning að þúsundir heimila landsins eiga eftir að gjalda þeirrar (hagfræðilega) óskiljanlegu ákvörðunar stjórnvalda í útlánaþensluríki eins og Íslandi
(a) að verðtryggja stóran hluta útlána heimilanna,
(b) að gefa einkavæddum (fyrrverandi) ríkisbönkum lausan tauminn við innlenda útlánaþenslu fjármagnaða með skammtíma erlendum lántökum,
(c) að bregðast við fyrirsjáanlegum afleiðingum þessa í mynd innlends verðbólguþrýstings með stýrivaxtahækkun í stað þess að beita ákvæðum 11. og 13. gr. laga um Seðlabanka Íslands og auka bindiskyldu bankanna og/eða setja þak á nettó erlenda skuldastöðu þeirra (hið síðarnefnda hefði reyndar dugað eitt og sér til að halda útlánaþenslunni í skefjum), og
(d) að fljóta sofandi að feigðarósi þegar erlendir spákaupmenn sáu sér leik á borði og keyptu skammtíma jöklabréf í stórum stíl.
Að teknu tilliti til alls þessa sýnist mér bæði sendinefndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (a.m.k. í tvígang, 2005 og 2007) og Aliber hafa nokkuð til síns máls.
Yfirstjórn efnahagsmála á Íslandi hefur um langt árabil verið glæfraleg.
Og hörð lending verður ekki umflúin.
***
Í lið (c) er vikið að því sem (ef ég skil hann rétt) Arnór nefnir "peningamagnsstýringu" - þ.e. að Seðlabanki Íslands setji þau efri mörk á erlendar lántökur viðskiptabankanna sem bankaráð SÍ telur samrýmast verðbólgumarkmiði hans.
Þetta hefur bankaráð SÍ látið ógert og verður það eitt ráðið af því, að þar á bæ hafa menn talið að stýrivaxtastjórntækið eitt og sér myndi duga til að halda verðbólgu, viðskiptahalla við útlönd og meðfylgjandi erlendri skuldsetning þjóðarbúsins í skefjum.
Síðustu tölur SÍ sýna að nettó erlend skuldastaða viðskiptabankanna var í kringum 1.900 milljarða króna í apríllok.
Brúttó skuldin var um 6.900 milljarða en á móti kom m.a. erlend verðbréfaeign og lán til erlendra viðskiptavina upp á ca. 4.000 milljarða m.m.
Síðastnefnda upphæðin sýnir eignir bankanna af því tagi sem erlendir bankar hafa verið að afskrifa svo hundruðum milljóna dollara nemur undanfarna mánuði.
Það er nánast útilokað að íslenzku bankar hafi sloppið við - eða muni sleppa við - einhverjar hliðstæðar hremmingar í mynd afskrifta af erlendum eignum sínum.
Nettó erlend skuldsetning þeirra kann því í raun að vera umtalsvert umfram 1.900 milljarða króna.
Þar sem mikill hluti erlendra skulda bankanna er til skamms tíma - og gjaldeyrisforði SÍ er e.t.v. hálfdrættingur á við upphæð útistandandi jöklabréfa erlendra spákaupmanna - þá er það borðleggjandi að....
Örlagastundin nálgast grimm og köld
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 16:28
Ómar Ragnarsson, 10.5.2008 kl. 23:46
Ég er ansi hræddur um að þetta sé rétt sem Gunnar segir og einnig rétt hjá þér Ómar.
En takið eftir því hvað afneitun raðamanna er sterk. Þeir tala ennþá um snertilendingu í efnahagsmálum og svo fari allt á flug aftur. Það vantar bara eitt álver til að redda þessu. Eigum við ekki heimsmet í skammsýnum ráðamönnum?
Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 10:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.