Mikilvægur áfangi.

Það var ánægjulegt að vera viðstaddur stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs að Skaftafelli í gær. Nú er liðinn meira en áratugur síðan ég sneri mér að gerð þátta um svæðið með samanburði við þau svæði erlendis, sem telja mátti hliðstæð, þótt ekkert þeirra jafnist á við Vatnajökul og ríki hans frá strönd til strandar. Fékk ég bágt fyrir hjá mörgum og var sakaður um brot í starfi en sérstök rannsókn á vegum útvarpsráðs hreinsaði mig af þeim ásökunum.

Gaman var að sjá Hjörleif Guttormsson njóta þessarar stundar, en langt á undan samtíð sinni hefur hann verið brautryðjandi á þingi og annars staðar í að vinna hugmyndum um jöklaþjóðgarð eða jöklaþjóðgarða. Það sést alltaf betur og betur hve mikilsvert hlutverk Hjörleifs hefur verið í náttúrverndarbaráttunni á Íslandi.

Þetta er stærsti áfanginn í sögu náttúruverndar á Íslandi, en rétt að staldra við orðið áfangi, því mikið verk er óunnið við að stækka þjóðgarðinn allt til Eyjafjallajökuls og Heklu í suðvestri og norður um víðernið norðan Vatnajökuls í gegnum Leirhnjúk og Gjástykki allt til sjávar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Já óhætt er að óska öllum landsmönnum til lukku með þessa ákvörðun sem hefði í raun átt að hafa verið búið að taka fyrir langt löngu.

Sjálfur var eg í dag á ferð með græna hópnum Samfylgingarinnar um Hellisheiði. Við ókum vítt og breitt umHeiðina, skoðuðum framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjun, ókum upp á Stóra Skarðsmýrarfjall þar sem Innstidalur blasti við. Þar var Mosi á feðrinni fyrir meira en aldarfjórðungi þar sem hann kom af stað töluverðri umfjöllun fjölmiðla um náttúrurspjöll. Nú 25 árum síðar eru þau spjöö barnaleikur við það sem við horfum upp á.

Þá var farið að skoða aðstæður á sunnaverðri Hellisheiði við Hverahlíð og að lokum forum við eftir slóðum að Ölkelduhálsi, komum að hverunum sem þar eru skammt við gömlu réttina sem reyndar er ekki eldri en 100 ára um þessar mundir.

Töluverða athygli vakti refur sem við sáum á leiðinni. Sú skýring kom upp að þarna væri heimilisköttur úr Hveragerði sem flúið hefði skelfingu lostinn jarðskjálftana á dögunum og enn væri ekki búinn að finna leiðina heim.En þetta var íslenskur refur í allri sinni dýrð, sjaldgæf sjón sem ekki sést á hverjum degi enda bændur ekki hrifnir af neinni samkeppni mannfólksins um gómsætt lambaketið.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 8.6.2008 kl. 20:46

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég óska íslensku þjóðinni til hamingju með þennan merkan áfanga. Vonandi mun þessi þjóðgarður stækka og dafna, enda höfum við nóg að bjóða í hann.

Úrsúla Jünemann, 8.6.2008 kl. 23:26

3 identicon

Það er bara vonandi að ekki verður farið að malbika alla vegi og slóða. Og tillit verði tekið til ríðandi fólks, slóðaaksturs vélhjóla, jeppafólks og útivistarfólks. Að litið verði til hefðarinnar í þeim efnum. Það er mjög slæmt ef á að fara banna aðgang að svæðinu nema með undanþágum og selt verði inná svæðið þannig að t.d. náttúruljósmyndari þurfi að fara skrá sig inn í hlið og þar með hverfur notalega óbyggðatilfinningin með auknu eftirliti stóra bróðurs.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 8.6.2008 kl. 23:30

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Til hamingju með þennan merkilega áfanga Ómar! Þú átt þakkir og heiður skilið fyrir að opna augu landsmanna fyrir hinu miklu verðmætum, sem fólgin eru í náttúru Íslands.

Júlíus Valsson, 8.6.2008 kl. 23:38

5 Smámynd: Jón Ragnarsson

Já, til hamingju. Hann hefði reyndar mátt innihalda Veiðivötn og jafnvel ná suður á Mýrdalsjökul, en þetta er frábær byrjun.

Jón Ragnarsson, 9.6.2008 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband