Álverin sem "bjarga þjóðinni".

Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var í Kastljósi Sjónvarpsins 20. desember 2001 spurð álits á úrskurði Sivjar Friðleifsdóttur um Kárahnjúkavirkjun, sagði hún að Siv hefði "bjargað þjóðinni". Þetta er sagt í hvert skipti sem umræða um ný álver og virkjanir kemur upp, - álverin hafa hvert og eitt bjargað þjóðinni í 40 ár og í leiðara Morgunblaðsins sagði að stóriðja væri orðin einn af þremur höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, hinir væru sjávarútvegur og fjármálaþjónusta.

Ferðaþjónustan komst ekki á blað hjá leiðarahöfundi og "álið er komið fram úr fiskinum" sagði í frétt í blaðinu. Skoðum það nánar.

Í álverum landins vinna nokkuð á annað þúsund manns, eða innan við 1% af vinnandi fólki  á Íslandi. Samanlagt er álframeiðslan um 3% af þjóðarframleiðslunni.

Álútflutningurinn vegur að vísu þungt í gjaldeyristekjum en ævinlega er því sleppt að í hvert skipti sem nýtt álver tekur til starfa og eykur útflutninginn, eykst innflutningurinn líka í formi súráls og báxíts, því að framleiðslan byggist á því að flytja inn hráefni yfir þveran hnöttinn og breyta því í annað hráefni. Fiskurinn kemur hins vegar beint upp úr sjónum í lögsögu landsmanna.

Ef öll virkjanleg orka landsins verður virkjuð munu innan við 3% prósent landsmanna vinna í álverunum og "bjarga þjóðinni." "Það verður hlutverk þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi" svaraði einn ráðherranna 1998 þegar ég spurði hann hvað ætti að gera til að bjarga þjóðinni þegar ekki væri hægt að virkja meira.

Víst er þetta hrædd þjóð eins og Andri Snær Magnason orðaði svo vel í "Framtíðarlandinu". Þjóð sem sífellt þarf að bjarga hlýtur að vera að farast, - aftur og aftur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Já gott og blessað. Hitt þykir mér samt undarlegt, að í þeirri umræðu að ferðaþjónustan lúti í lægra haldi fyrir stóriðju og hvalveiðum, er hvergi minnst á þau lúsarlaun sem boðið er upp á í ferðaþjónustunni. Að því leiti gef ég skít í þann atvinnuveg. Ég vann í greininni árum saman áður enn ég settist á skólabekk í annað sinn og aldrei hefur verið traðkað jafn mikið á mér, launalega séð, með allskyns smánarskap og svindli.

Aðalheiður Ámundadóttir, 23.6.2008 kl. 17:18

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Skil heldur ekki þessa álbræðsluást meðal ráðamanna.

Vestur á Snæfellsnesi við Djúpalónssand voru byggð nokkur salerni fyrir nokkrum árum. Þessi mannvirki standa þarna engum að gagni enda er e-ð tæknilegt stopp sem kemur í veg fyrir að unnt sé að taka þau í notkun. Ef ráðamenn fengju þá fáranlegu hugmynd að byggja álbræðslu á þeim slóðum, væru þeir sjálfsagt eldfljótir að mæta með skóflurnar sínar eins og gerðist við Helguvík fyrir nokkrum vikum. Um hvoru tveggja hefi eg bloggað og mættu sem flestir lesa þau sjónarmið sem þar koma fram, nú síðast í morgun.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 23.6.2008 kl. 19:04

3 identicon

Sæll Ómar, ég skil ekki þessar galdraofsóknir í þér gagnvart áverum.

Það er vitað mál að álverum eru greidd einhver hæstu laun á launamarkaði. Fólk sem hefur byrjað að vinna þar, allavega í straumsvík hættir helst  ekki fyrr en það kemst á eftirlaun. Aftur á móti eru laun í ferðaþjónustu með þeim lægstu á landinu. Svo má ekki heldur gleyma því að ál er notað í flesta hluti, eins og flugvélar, örugglega líka í þá sem þú þeysist á yfir landið þvert og endilangt, potta, pönnur, ferðagrill, bíla, reiðhjól og göngustafi fyrir ferðafólk. Svona mætti endalaust telja. Svo maður tali nú ekki um þann iðnað sem tengist álverum bæði beint og óbeint.

Einnig má benda á það sennilega er fiskurinn ofveiddur, allavega er alltaf verið að minnka kvótann.  Nú er verið að segja upp 200 manns í ferðaþjónustugeiranum hjá Icelandair group. 

Það má líka benda á það að fólkið sem þú ert að ráðast á er fólkið sem hefur greitt launin þín til fjölda ára er þú vannst við sjónvarpið.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 21:13

4 identicon

Sæll nafni.

Þessi þráhyggja þín gegn álverum sem hafa fært þjóðinni bætt lífskjör, er með öllu óskiljanleg og full af þverstæðum. Ég skora á þig að bera saman laun þeirra sem vinna við ferðaþjónustu og þeirra sem vinna við álframleiðslu. Ef ferðaþjónustan er svona spennandi hvers vegna borgar hún þá ekki mannsæmandi laun? Svo vil ég benda þér á að flugvélarnar sem koma með þessa væntanlegu ferðamenn eru úr áli og menga meira andrúmsloftið en nokkur önnur farartæki. Síðan eru þessir ferðamenn keyrðir þvers og kruss um landið á mengandi farartækjum, og landinn sem þjónar komumönnum gerir það á lúsarlaunum. Hvað er svona spennandi við þetta. Þar á ofan hafa  hvalaskoðunarfyrirtækin verið rekin með bullandi tapi.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 21:30

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ágætu félagar Sigurðssynir.

Þið kannist líklega við söguna um gæsina sem verpti gulleggjum. Eigandi hennar var ekkert gáfumenni því að í græðgi sinni drap hann gæsina til að ná öllum eggjunum. Ekki reyndist það skynsamlegt hjá honum.

Ég er hvorki að líkja ykkur við umræddan mann eða Íslandi við gæsina góðu. Hins vegar finnst mér umhugsunarvert að svo mikið liggi á að virkja hér fyrir stóriðju að flestu sé til þess fórnandi. Sjáið þið virkilega ekki hversu eftirsóknarverð raforkan okkar verður innan nokkurra ára? Hér verða rafdrifnir bílar og almenningssamgöngur fyrr en varir því að olían verður okkur allt of dýr. Hingað munu koma fyrirtæki sem vilja borga gott verð fyrir "græna" raforku því að það skiptir viðskiptavini þeirra máli. Þá væri nú heldur dapurlegt ef allri virkjanlegri orku hefði verið lofað til stóriðju.

Síðast en ekki síst mun verðmæti náttúrunnar sjálfrar aukast svo lengi sem hún fær að vera ósködduð af manna völdum. Það er auðvitað álitamál hversu mikinn fjölda ferðamanna hver staður þolir.

Svo vil ég að lokum leiðrétta þær rangfærslur hjá Rafni að Ómar ráðist á fólk. Hann stendur hins vegar vörð um náttúru landsins af meiri þrautsegju en nokkur annar einstaklingur. Svona bull eins og hann skrifar í lok athugasemdar sinnar er honum sjálfum til skammar. Það eru hins vegar menn eins og Rafn og Ómar Sig. sem finnst sjálfsagt að ráðist sé á íslenska náttúru hvar og hvenær sem er til þess að geta haldið áfram að viðhalda sínum eigin lífsmáta.

Sigurður Hrellir, 23.6.2008 kl. 22:26

6 identicon

Ég mæli með því að við aukum eftirlitsiðnaðinn og aðra opinbera þjónustu því þar vilja flestir vinna þar er öryggið mest og best. Hvort við höfum efni á því skiftir ekki máli frekar en fyrri daginn.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 22:46

7 identicon

Sæl Ómar aftur,

Mig langar bara til að bæta við að það sem þú segir að það þurfi að flytja inn súrál og báxít en fiskinn þurfi bara að sækja þar sem hann syndir í lögsögunni. Þetta er nú ekki alveg svona einfalt. Til að sækja fiskinn þarf innflutta orku, sem er olía og veiðarfæri sem eru einnig innflutt. Svo held ég að þú þurfir ekkert að hafa blaðurfulltrúa til að svara fyrir þig eins og hann Sigurð Hrellir, þú gerir það ágætlega sjálfur.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 04:30

8 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll, Ómar, samkvæmt greiningum banka og fjármálastofnana erlendra sem innlendra

og eins og þú segir þá standa þeir sem vinna í álgeiranum fyrir yfir 50 % þjóðatekna

Hvað gefur þá hvert starf inn í þjóðarbúið?.

  Þíðir  það að ein starfsmaður í áliðnaði skila meira inn í þjóðar --búið,

en  70 til 120 kaffistofur í 101 RVK.

Rauða Ljónið, 24.6.2008 kl. 11:10

9 Smámynd: Jóhannes Gunnarsson

Það sem fólk gleymir þegar það er að mæra álverin er hvernig vinnustaðir þau eru. Það er talað um að u.þ.b. 10% þeirra sem vinna í kerskálum fái astma. Gífurlegur fjöldi manna hefur t.d. brennt sig t.d. hjá Ísal/Alcan með að stíga ofaní ker og eða orðið fyrir járnslettum frá bráðnu járni í skautsmiðju og áli í steypuskála. Því miður hefur fyrirtækið fengið sinn hluta af banaslysum. Öll þessi efni sem notuð eru í framleiðslu áls eru ekki beinlínis framleidd til átu og reyndar langt frá því. Hiti og mengun er gífurleg. Það er ekki fyrir hvern sem er að vinna í álverum og mér finnst það algjört ábyrgðaleysi að leggja að jöfnu sköpuð störf í þessari atvinnugrein miðað við aðra atvinnugrein. Værum við með fullu fimm þá værum við ekki að skapa svona “nasty” störf. Ástæðan fyrir því að fólk vinnur í álveri er sú að það leggur fyrir sig áhættuna miðað við launin og það er ýmislegt sem maður er tilbúinn að gera fyrir þau, sérstaklega þegar maður er ungur. Það kemur að skuldadögunum. Stór hluti starfsmanna sem vinna í kerskálum, steypuskála, skautsmiðju og kersmiðju lenda í einhverju á starfsævinni í álveri, mismunandi slysum, bruna eða brotum eða sjúkdómum tengdum starfinu. Það sem mér sýnist á öllum umræðum, eins og eru hér, að fólk vilji fljótfenginn gróða og einhverja aðra í þessari vinnu en þá sjálfa?

Það sem vantar hérna er stórhuga stjórnmálamenn sem þora. Það hefði átti að taka Keflavíkurvöllinn og Hafnafjarðarhraunið (ekki of seint) og gera svæðið að frísvæði/framleiðslusvæði fyrir erlend/innlend stórfyrirtæki sem framleiða (mat) vörur til útflutnings t.d. í matvælaiðnaði o.þ.h.

Jóhannes Gunnarsson, 24.6.2008 kl. 12:49

10 identicon

Sæll Ómar

Það eru alltaf mikil læti á blogginu þínu. Rauða ljónið urrar á 101 liðið. Í fréttum um daginn var sagt að útflutningstekjur af áli væru 165 milljarðar. 70 milljarða útflutningstekjur Alcoa er sagt í fréttum. En hvað verður mikið eftir í raun? Ef árslaun eru 6 milljarðar sem er bara ágætt - þá eru launin ekki mikið meira en tveir á hálfur milljarður á ári. Það skilar sér vissulega til landsins en heldur ekki uppi heilli þjóð. Og kannski er annað eins keypt af þjónustu í grenndinni. Segjum jafn mikið og fyrirtækið borgar í laun. Alcoa greiðir um 6 - 8 milljarða fyrir rafmagnið. Verðið miðast við meðaltal einhverra ára svo að það kemur í ljós hvort tímabundin hækkun á áli skilar sér og líklega hefur Alcoa sett einhvern varnagla á hækkanir í samningum - sem voru gerðir í miklum flýti. En þessi upphæð fer beint úr landi til einhverra banka - næstu 40 árin. Það er því miður ekki nóg að ,,skapa störf" og enn verra að standa í mannaflsfrekum framkvæmdum sem skapa færri störf eftir að framkvæmdum er lokið og ekki nægan hagnað til þjóðarbúsins. Þótt þau væru 2000 vel launuð duga ekki til að halda þjóðinni á floti, þrátt fyrir miklar reiknaðar ,,útflutningstekjur". Það sem skiptir máli er það sem verður eftir - og ef 5 milljarðar verða eftir þegar launin, aðföngin og lánin eru greidd af Kárahnjúkum og skipafélög hafa fengið sitt fyrir flutninga og almannatengslafyrirtæki hafa fengið sitt, þá þurfum við að ,,gera eitthvað annað" næstu 40 árin. Menn eru duglegir að andæfa umhverfisskoðunum en þetta er líka viðskiptalegt mál. Miðað við Financial Times Deutschland sparar Alcoa um 20 milljarða árlega í rafmagnsreikingi með því að loka í Evrópu og Ameríku og opna hér. Það er gríðarleg upphæð sem sparast þarna árlega - ígildi árslauna 4000 verkamanna. Ef orkuiðnaðurinn skilaði slíkum gróða beint inn í ríkissjóð í beinhörðum gróða væri ekki að koma kreppa, hins vegar var orkuverð til almenningsveitna nýlega hækkað um 6% og því greinilega ekki mikið borð fyrir báru. Þótt almenningur noti aðeins 10% orkuframleiðslunnar og þarfir okkar voru uppfylltar árið 1980 - og við ættum því að vera skuldlaus í dag. Besti virkjunarkosturinn í dag er að koma þessum 90% í almennilegt verð. ,,Hrein" orka ætti að vera dýrari en ,,óhrein" og við eigum ekki að vera helmingi lægri en Brazilía í orkuverði. Þannig ættum við smám saman að geta fengið einhvern arð. En þá þarf að vera samstaða í landinu um að orkan sé hrein. Rauða ljónið. Hvernig færðu út þessar 50% þjóðartekna? Þetta er því miður ekki rétt. Við eigum ekki að þurfa að segja erlendis: Hér er heilbrigðiskerfi út af Alcoa. Það er ekki rétt. Forstjórinn á einkaþotu út af okkur.

Með kærum kveðjum

Andri Snær Magnason

vonast til að sjá þig á tónleikum Bjarkar á laugardaginn.

andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 12:51

11 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Þingeyingar hafa rekið atvinnuþróunarfélag í áratugi í þeim tilgangi að sækja atvinnutækifæri inn í héraðið.  Eftir áratuga vinnu er niðurstaðan að álver sé vænlegasti kosturinn.  Ég treysti mér ekki til að gera lítið úr þessari niðurstöðu Þingeyinga og vinna á móti þeirra hagsmunum.   Það hefur enginn bent á aðra betri leið við atvinnuuppbygginu þar.  

Það er ekki eins og það sé bannað að byggja upp ferðaþjónustu og annan atvinnurekstur á sama tíma og álversframkvæmdir standa yfir.   Það hefur verið gert og oft hafa menn notið meðbyrs vegna álvers- og virkjanaframkvæmda.   Það skilar bara svo ósköp litlu og er ekki stöðug vinna sem hægt er að byggja lífsafkomu sína á.   Þess vegna horfa menn til álvera sem skapa stöðuga vinnu og tekjur allt árið.

G. Valdimar Valdemarsson, 24.6.2008 kl. 12:52

12 identicon

Sæll Ómar

(lagfærð versíon mátt taka hina út)

Í fréttum um daginn var sagt að útflutningstekjur af áli væru 165 milljarðar. 70 milljarða útflutningstekjur Alcoa er sagt í fréttum. En hvað verður mikið eftir í raun? Ef árslaun eru 6 milljónir sem er bara ágætt - þá eru launin ekki mikið meira en tveir á hálfur milljarður á ári. Það skilar sér vissulega til landsins en heldur ekki uppi heilli þjóð. Og kannski er annað eins keypt af þjónustu í grenndinni, kannski jafn mikið og fyrirtækið borgar í laun, líklega minna.

Alcoa greiðir um 6 - 8 milljarða fyrir rafmagnið. Verðið miðast við meðaltal einhverra ára svo að það kemur í ljós hvort tímabundin hækkun á áli skilar sér og líklega hefur Alcoa sett einhvern varnagla á hækkanir í samningum - sem voru gerðir í miklum flýti. En þessi upphæð fer beint úr landi til einhverra banka - næstu 40 árin. Hvað verður þá eftir frá Reyðarfirði? Streyma 70 milljarðar inn í hagkerfið? Nei, því miður.

Það er því miður ekki nóg að ,,skapa störf" og enn verra að standa í mannaflsfrekum framkvæmdum sem skapa færri störf eftir að framkvæmdum er lokið og ekki nægan hagnað til þjóðarbúsins. Þau hafa þá rutt öðrum tækifærum úr veginum, skapað fölsk tímabundin góðærisstörf og skilja svo eftir tómarúm. 400 störf duga ekki til að halda þjóðinni á floti, þrátt fyrir miklar reiknaðar ,,útflutningstekjur". Það sem skiptir máli er það sem verður eftir - og ef 5 milljarðar verða eftir þegar launin, aðföngin og lánin eru greidd af Kárahnjúkum og skipafélög hafa fengið sitt fyrir flutninga og almannatengslafyrirtæki hafa fengið sitt, þá þurfum við að ,,gera eitthvað annað" næstu 40 árin. Þá hefur hver einasta bloggfærsla um álið verið til einskis vegna þess að hún hefði nýst til að hugsa um ,,eitthvað annað"

Menn eru duglegir að andæfa umhverfisskoðunum en þetta er líka viðskiptalegt mál. Miðað við Financial Times Deutschland sparar Alcoa um 20 milljarða árlega í rafmagnsreikingi með því að loka í Evrópu og Ameríku og opna hér. Það er gríðarleg upphæð sem sparast þarna árlega - ígildi árslauna 4000 verkamanna. Ef orkuiðnaðurinn skilaði slíkum gróða beint inn í ríkissjóð í beinhörðum gróða væri ekki að koma kreppa, hins vegar var orkuverð til almenningsveitna nýlega hækkað um 6% og því greinilega ekki mikið borð fyrir báru. Þótt almenningur noti aðeins 10% orkuframleiðslunnar og þarfir okkar voru uppfylltar árið 1980 - og við ættum því að vera skuldlaus í dag. Besti virkjunarkosturinn í dag er að koma þessum 90% í almennilegt verð. ,,Hrein" orka ætti að vera dýrari en ,,óhrein" og við eigum ekki að vera helmingi lægri en Brazilía í orkuverði. Þannig ættum við smám saman að geta fengið einhvern arð. En þá þarf að vera samstaða í landinu um að orkan sé hrein. Rauða ljónið. Hvernig færðu út þessar 50% þjóðartekna? Þetta er því miður ekki rétt. Við eigum ekki að þurfa að segja erlendis: Hér er heilbrigðiskerfi út af Alcoa. Það er ekki rétt. Forstjórinn á einkaþotu út af okkur.

Ætla Þingeyingar að falla í sömu gildruna? Spara Alcoa aðra 20 milljarða á ári. Ganga of nærri hverasvæðunum sínum, spara þeim 4000 árslaun og gera Alcoa að ráðandi afli á Norður og Austurlandi? Það hljómar ekki mjög Þingeyskt fyrir mér. Frekar ættu þeir að virkja fjórum sinnum minna, selja þrefalt dýrar og nýta þessi 1000 árslaun sem má græða til að gera eitthvað að viti.

Það er skrítið þegar menn taka fagnandi þessum 70 milljörðum og hrópa gagnrýnislaust: SJÁIÐ! Þeir standa undir okkur! Ósjálfstæðisbarátta af sorglegri gerð.

Með kærum kveðjum

Andri Snær Magnason

vonast til að sjá þig á tónleikum Bjarkar á laugardaginn.

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 13:16

13 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Andri áætlaður gjaldeyrir er 45 til 50% með fullri framleiðslu frá og með júní júlí það er einfalt, Rússneskureikningur VG  og svartamengunarfíkla er 35% Rússneskureikningur VG gerir ráð fyrir að 80 til 85 % tekna af sjávarútvegi verði eftir í þjóðabúinu, enga afborganir af skipastól eða vinnslu þetta á víst að falla af himni ofan lítil sem engin olíukoðnaður, svona vinnubrögð dugði víst í bók Félagi Napaljón en ekki í raunveruleikanum.

Andri hvað er 778 *1250 og

Rauða Ljónið, 24.6.2008 kl. 13:43

14 Smámynd: Rauða Ljónið

Andri hvað er 778 *1250 og 400*778 =

Kær kveðja Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 24.6.2008 kl. 13:46

15 identicon

Sæll Sigurjón

Ég vil ekki aðeins trúa því sem mér er sagt, heldur reikna það út sjálfur. Hagfræðingar tyggja tölur, VG tyggur tölur. Þetta er ekki flókið. Segjum bara að Alcoa greiði öllum milljón sem er ekki rétt en við skulum smyrja: Það eru þá 5 milljarðar inn í laun. Komið í kassann. Segjum að þeir borgi 5 milljarða í aðkeypta þjónustu. Segjum að þeir borgi 10 milljarða fyrir rafmagnið sem þeir borga ekki. Ég smyr. Segjum að stíflan sé skuldlaus. Segjum að fyrirtækið borgi 10 milljarða í skatt. Sem þeir gera ekki. Ég er búinn að smyrja þykkt en samt er ég bara kominn í 30 milljarða. Sem rétt slefar upp í það sem Steingrímur J. notaði. Við getum alveg talað saman. Þess vegna vil ég svar: Hvert fara peningarnir? Þeir enda ekki á Jamaica í báxítnámunni. www.jbeo.com Fara þeir ekki allir framhjá og hvert? Er ekki búið að nýlenduvæða hugarfar okkar Íslendinga. Hvað er bak við ljónagrímuna Sigurjón? Þú átt hlut í Landsvirkjun, ekki Alcoa. Hagsmunir Alcoa eru ekki þínir hagsmunir. Þú ert frændi minn Sigurjón. Taktu niður ljónagrímuna. Hættu að urra og reynum að komast til botns í þessu.

 sjáumst á tónleikunum á laugardag

 kær kveðja

Andri Snær Magnason 

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 14:03

16 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Andri er hér einhver misskilningur á ferðinni ég er að tala um allan pakkann ekki bara Alcon,?   Jbeo.com er ekki trúverðu síða af því er ég las.

Kv, Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 24.6.2008 kl. 15:10

17 identicon

Sigurjón - ég var að tala um Alcoa vegna þess að reikningsdæmið er skýrast þar og einfaldast að skilja. Sýnist þér þetta rétt reiknað? Ég hækkaði allar tölur um helming og gerði kárahnjúka skuldlausa en samt kemst ég ekki upp fyrir 30 milljarða af þessari verksmiðju fyrir austan. Talan er nær 5 milljörðum. Mr Burns - þú ert krútt líka en geturðu útskýrt hvernig þú ert 100% ósammála þessu reikningsdæmi? Vantar eitthvað í tölurnar, rökin? Eitthvað?

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 15:55

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég veit ekki betur en landsbyggðarskríllinn sé farinn að flytja inn hvítabirni, bæði raunverulega og ímyndaða, og hafi af þeim góðar tekjur.

Ef við reiknum með að einn ímyndaður hvítabjörn gefi af sér 100 milljóna króna tekjur á ári, og Norðlendingar ímynda sér árlega 100 hvítabirni, eru tekjurnar af þeim samtals tíu milljarðar króna á ári. Raunverulegar tekjur af ímynduðum hvítabjörnum.

Þorsteinn Briem, 24.6.2008 kl. 16:43

19 identicon

Hefur einhver pælt í því hversu mikið af fókli ferðast til landsins útaf þessum virkjunum og álverum.  Ég er 99% viss um að það sé fleira fólk en það fólk sem hættir við að koma af því að það eru álver hérna.  Ég held einnig að það fólk sem kemur hingað í gegnum þennan iðnað eyði mun meiri pening hérna heldur en hinn hópurinn.

Bjarki Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 16:49

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gott að fá tölur og útreikninga hjá Andra Snæ. Þótt ég hafi sjálf skrifað mikið um virkjana- og stóriðjumál og olíuhreinsistöð hef ég ekki hætt mér út á þann hála ís.

Ég vil benda Sigurjóni, og öðrum þeim sem vilja fræðast um þessi mál, á viðtal við Sigurð Jóhannesson, hagfræðing, um opinberan stuðning við stóriðju þar sem fram kemur að Íslendingar borga allt að 30 milljarða á ári MEÐ stóriðjunni í landinu. Ég setti viðtalið í tónlistarspilarann á blogginu mínu og þar er það merkt: R - Morgunvaktin á Rás 1 - Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur, um umhverfi og arðsemi virkjana.

Í tónlistarspilaranum er einnig hægt að hlusta á ýmis viðtöl og alls konar umfjöllun um virkjanir, stóriðju og fyrirhugaða olíuhreinsistöð. Auk þess eru úrklippur úr fjölmörgum fréttum og öðrum þáttum úr sjónvarpi í bloggpistlum mínum. Lesið, hlustið, horfið og sannfærist.

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.6.2008 kl. 16:52

21 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Bjarki... ertu að meina að erlendir ferðamenn komi hingað til að skoða virkjanir og álver? Ef það er meining þín get ég fullvissað þig um að það er alrangt.

Ég hef unnið við ferðaþjónustu í mörg ár og ég hef aldrei orðið vör við að erlendir ferðamenn biðji um að fá að skoða virkjanir eða álver. Aldrei.

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.6.2008 kl. 16:54

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bjarki. Um hálf milljón ferðamanna kemur til landsins í ár og eyðir hér um fimmtíu milljörðum króna. Hver ferðamaður dvelst hér að meðaltali í viku og þeir eyða hér jafnvel enn meiru en þessari upphæð, því nú fá þeir miklu meira hér fyrir sinn erlenda gjaldeyri en í fyrra, um þriðjungi meira fyrir evruna. Hins vegar má gera ráð fyrir að Íslendingar ferðist minna til útlanda á næstunni en þeir hafa gert undanfarin ár.

Hér er sífellt verið að reisa ný hótel og iðnaðarmenn hafa haft af því góðar tekjur. Bílstjórar og flugmenn transportera ferðamenn á milli staða og það þarf ekki annað en ímyndaðan hvítabjörn, myndarlegt fjall eða kvenmann til að lokka ferðamenn á staðinn. Mun meira fyrirtæki er að reisa álver en ímynda sér hvítabjörn og hér eru myndarleg fjöll og fossar úti um allar koppagrundir, án þess að ríkisstjórnin hafi lagt þar hönd á plóginn.

Og með snarhækkuðum olíuprísum styttist óðum í að hér verði notaðir rafmagnsbílar til transportasjóna og ekki þarf að reisa hér virkjun til að koma þeim í gagnið, því nóg er að stinga þeim í samband við ódýrt húsarafmagnið á nóttunni.

Eftir rúman mannsaldur verða allir jöklar hér horfnir, fyrir utan Vatnajökul, sem verður horfinn eftir tvær aldir, samkvæmt útreikningum Landsvirkjunar, og því engin virkjun hér lengur í neinni jökulá. Uppistöðulón fyllast smám saman af aur og djúpborun er ekki föst í hendi. Það verður því engan veginn hagstætt að vera hér með álver eftir nokkra áratugi, því þau greiða ekki hátt verð fyrir raforkuna.

Þorsteinn Briem, 24.6.2008 kl. 17:56

23 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Lifum við kannski bara á loftinu?

Ég var að svara öðrum á blogginu og tók saman í flýti nokkrar tölur, sem ég fann á netinu. Hugsanlega eru þær ekki allar réttar en gefa samt að mínu mati nokkuð góða mynd af því, sem stóriðjan hefur gert fyrir okkur Íslendinga á undanförnum árum. Á næstu árum munum við hins vegar sjá, hvað hún mun gera fyrir okkur.

Þetta verður gott að hafa í huga, þegar fiskurinn skilar okkar minna og minna með hverju árinu. Ég átta mig nefnilega á því – öfugt við marga aðra – að maður lifir ekki á loftinu einu saman.

Hversvegna streyma ekki annars þessi „Eitthvað annað störf” hingað í augnablikinu? Mér sýnist að við gætum þurft á þeim að halda á næstunni! Nú reynir á kænsku og hugkvæmni manna á borð við þig Ómar og Andra Snæ og félaga ykkar. Þið gætuð t.d. byrjað á að finna 240 störf fyrir þetta fólk, sem missti vinnuna í gær. Bíddu nú aðeins við voru þetta ekki einmitt umhverfisvæn „Eitthvað annað störf”, sem voru að tapast? Heyrði ekki af neinum uppsögnum í álverum í dag.

Síðan missa einhverjar þúsundir iðnaðarmanna og verkafólks vinnuna í haust, þegar byggingabólan springur endanlega. 57% þjóðarinnar hafa auðsjáanlega trú á Draumalandinu ykkar Andra og félaga. Nú er best að dusta rykið af þeim hugmyndum, sem birtust víða á prenti í fyrra og Andri Snær skrifaði heila bók um og þú stofnaðir stjórnamálaflokk um.

Vel á minnst, hafi þjóðin verið hrædd og án sjálfstrausts í fyrra, hvernig er þá fyrir henni komið í dag. Andri: Nú er að hvetja fólk til dáða ... Nei, fram þjáðir menn í þúsund löndum.

Ég trúi líka á „Eitthvað annað störf” , en leyfi mér að hafa einn „hjáguð”- álið! Það er bannað hjá ykkur, þessum stóriðjuandstæðingum, á ykkar bæ snýst þetta nefnilega um pólitískan rétttrúnað! Hjá mér um heilbrigða skynsemi!

Mér fróðari menn sögðu að reikna mætti 1,5-2,0 störf á hvert starf í álframleiðslu hér á landi. Í Bandaríkjunum benda rannsóknir hinsvegar til þess að 2,5 störf komi á hvert starf í áli. Ég vil vera sanngjarn og vel því lægsta stuðulinn 1,5.

Hafnarfjörður - Rio Tinto Alcan

Hjá Rio Tinto Alcan starfa um 500 starfsmenn. Ef álverið hefði verið stækkað hefðu 300 starfsmenn bæst við. Þeir iðnaðarmenn, sem kusu á móti álverinu eiga eftir að sjá eftir þeim störfum í haust, þegar þeir verða atvinnulausir.

Af þeim 300 starfsmönnum, sem nú vinna fyrir félagið eru u.þ.b.:

  • 70 Stjórnendur og millistjórnendur, nær allir háskólamenntaðir
  • 120 iðnaðarmenn
  • 200 ófaglærðir
  • 150 sumarstarfsmenn

Ég á von á skiptingin sé svipuð í flestum stóriðjuverum.

  1. Alls störf: 500
  2. Afleidd störf: 750 

Vesturland - Íslenska járnblendifélagið

Hjá Járnblendifélaginu starfa um 110 starfsmenn.

  1. Alls störf; 110
  2. Afleidd störf: 165

Vesturland - Norðurál – Century Aluminum

Eftir stækkun álversins starfa þar um 320 manns. Af þessum störfum komu um 130 til vegna stækkunarinnar nú nýlega.

  1. Alls störf: 320
  2. Afleidd störf: 480

Austfirðir – Reiðarál – Alcoa

Áætlað er að starfsmenn verði um 450 í nýja álverinu fyrir austan. Áætluð eru 154 ársverk til viðbótar fyrir 2012.

  1. Alls störf: 600
  2. Afleidd störf: 900
Reykjanes – Helguvík – Norðurál - Century Aluminum
  1. Alls störf: 450
  2. Afleidd störf: 675

Þegar álverið verður komið í fulla stærð árið 2015 munu þar starfa 400 starfsmenn.

  1. Alls störf: 400
  2. Afleidd störf: 800

Norðausturland – Bakki

Kemur að öllum líkindum til með að skapa 400 ný störf.

  1. Alls störf: 400
  2. Afleidd störf: 600

Þetta eru alls a.m.k. um 7000 störf, sem öll eru mjög vel borguð.

Meðallaun í álverinu í Hafnarfirði voru árið 2006 um 500.000 kr og eru líklega nær 600.000 í dag. 

Þannig að útreikningurinn eru einfaldur: 7 milljónir x 7000 störf = 49 milljarðar kr.

Samkvæmt útreikningum Kaupþings mun útflutningur á áli á næsta ári skila 180 miljörðum í útflutningingstekjur. Af þessum tekjum verða um 40-45% eftir í landinu. Þetta eru u.þ.b. 80 milljarðar króna.

Auðvitað er fullkomlega óábyrgt að slumpa á þetta svona og auðvitað er hugsanlega um eitthvað lægri tölur að ræða, því allir eru ekki svo heppnir að fá vinnu í álverinu og verða að láta sér nægja afleiddu störfin, sem eru flest ekki jafnvel borguð.

Auðvitað vitum við ekki heldur nákvæmlega hvað verður mikið eftir: 30-40-50% af útflutningstekjunum? Þetta eru hins vegar svipaðar reiknikúnstir og ég er að sjá hjá ykkur, andstæðingum stóriðju.

Ljóst er þó að um gífurlega háar upphæðir er að ræða og þetta getið þið ekki einu sinni viðurkennt, þótt þetta sé hægt að sanna svart á hvítu - ykkar hugmyndir eru hins vegar í besta falli „draumkenndar”. Það, sem mér sárnar er því hræsnin, lygin og múgæsingin, sem einkennir alla umræðu um þessi mál. Þetta jaðrar við loddaraskap.

Hvað haldið þið stóriðjuandstæðingar að þurfi margir ferðamenn að koma til landsins til að skilja eftir 180 milljarða króna eða þá 80 milljarða, sem verða eftir í landinu? Hversu mikið mengar slíkur fjöldi ferðamanna?

Hvað haldið þið að þurfi mörg netþjónabú til að skilja svona mikið af peningum, eða fjallagrasatínslu eða önnur gæluverkefni vinstri- og hægrigrænna?

Við ættum kannski að athuga, hver fjöldi sjómanna er, þegar kvótinn hefur nú verið skorinn niður um 100.000 tonn og hverjar meðaltekjur þeirra eru?

Hefur fólk í fiskvinnslustöðum 500-550.000 kr á mánuði? Hefur fólk á Eddu-hótelum þessi laun? Hefur fólk í „Eitthvað annað störfum” þessi laun?

Þessara spurninga ættu 57% þjóðarinnar að spyrja sig í kvöld og þó aðallega í haust, þegar kreppa mun að.

Hverjar ætli niðurstöðurnar verði í október eða nóvember, það verður fróðlegt að sjá.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.6.2008 kl. 00:24

24 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Iðnaðarráðuneytið og Alcoa reiknuðu með 300 afleiddum störfum af 450 hjá Fjarðaáli, ekki 900 af 600.

Pétur Þorleifsson , 25.6.2008 kl. 05:49

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðbjörn. Verðmæti útfluttra sjávarafurða hefur aukist undanfarin ár, samkvæmt Hagstofunni:

Árið 2007: 128 milljarðar króna (4,4% aukning á milli ára.)
Árið 2006: 124 milljarðar króna (1,0% aukning á milli ára.)

Útflutt ál árið 2007: 80 milljarðar króna.

Hins vegar eiga útlendingar, aðallega Pólverjar í fiskvinnslunni, stóran þátt í þessari verðmætaaukningu. Og á Vestfjörðum, þar sem sumir vilja reisa olíuhreinsistöð, vinna um fimm hundruð útlendingar í fiskvinnslunni. Og vegna gengisfalls krónunnar fást nú mun fleiri krónur en í fyrra, allt að 40%, fyrir hvert útflutt kíló af fiski.

Verð á olíu til fiskiskipa hefur hækkað en á móti kemur að langmest af þeim fiski sem við vinnum hérlendis, er veiddur í íslenskri lögsögu. Við erum 13. mesta fiskveiðiþjóð í heimi, Íslandsmið eru ein af matarkistum heimsins og fáar þjóðir í heiminum, ef nokkrar, flytja út meira af matvælum á mann en við gerum.

Dýrara verður að fljúga hingað til Íslands en áður vegna olíuverðshækkana en á móti kemur að erlendir ferðamenn geta nú fengið mun meira hér fyrir sinn erlenda gjaldeyri en þeir fengu í fyrra og eyða því væntanlega meiru, hver og einn. Og gengi íslensku krónunnar hefur verið allt of hátt skráð undanfarið.

Ekkert atvinnuleysi er á Húsavík og þar hefur fjöldinn allur af útlendingum unnið undanfarin ár. Og það er heldur ekkert atvinnuleysi á Vestfjörðum. Og öll lifum við á loftinu. Ef þú myndir anda að þér áli værirðu steindauður. Við eigum eftir að veiða hér og vinna fisk um ókomna tíð en að reisa hér fleiri álver er einungis skammtímasjónarmið, eins og ég færði rök fyrir hér að ofan.

Samtök iðnaðarins í fyrra:

Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990 til 2004 sköpuðust vegna hátækni. Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um 4 þúsund í sjávarútvegi. Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.

Í hátækni eru 40% starfsfólks með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.
Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að virðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju. Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu, einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en 70% flyst úr landi.

http://www.si.is/starfsgreinahopar/sprotafyrirtaeki/frettir-og-greinar/nr/2825

Við flytjum út fleira en fisk og ál, til dæmis lyf og hugbúnað. Hins vegar er stærsta fiskihöfn landsins í 101 Reykjavík og Hafnarfjörður stendur ekki Reykjavík langt að baki í þeim efnum. Höfuðstöðvar Hampiðjunnar, eins stærsta veiðarfæraframleiðanda í heiminum, eru í Hafnarfirði, og Grandi, eitt stærsta fiskvinnslufyrirtæki landsins, er í 101 Reykjavík. Þar að auki hefur fjöldi annarra fiskvinnslufyrirtækja verið í 101 Reykjavík, til dæmis Fiskkaup.

Útflutt lyf og lækningatæki árið 2007: Um 10 milljarðar króna.
Útflutt kísiljárn árið 2007: Um 8 milljarðar króna.

Heildarútflutningur á hugbúnaði var um fjórir milljarðar króna árið 2004 en mörg fyrirtæki í Reykjavík framleiða hugbúnað. Sala hátæknifyrirtækisins Marels, sem er með höfuðstöðvar í Garðabæ, nam í fyrra 290 milljónum evra, um 40 milljörðum króna á núvirði, sem er um 40% aukning frá árinu 2006. Sala stoðtækjafyrirtækisins Össurar, sem er með höfuðstöðvar í Reykjavík, var 89 milljónir Bandaríkjadala á fyrsta fjórðungi þessa árs, um 12 milljarðar króna á núvirði, og fer vaxandi.

Nú eru rúmlega 230 þúsund áskrifendur að tölvuleiknum EVE Online í 190 löndum og hérlendis störfuðu um 80 manns við þróun og rekstur tölvuleiksins árið 2006. Hver áskrifandi greiðir 15 Bandaríkjadali í áskrift að leiknum á mánuði, þannig að tekjur CCP, sem rekur EVE Online, eru um 3,5 milljarðar króna á ári og fara vaxandi. Höfuðstöðvar CCP eru í 101 Reykjavík.

Þúsundir erlendra ferðamanna kaupa lopapeysur og fleira í Rammagerðinni í 101 Reykjavík og hálf milljón ferðamanna eyðir hérlendis samtals að minnsta kosti fimmtíu milljörðum króna í ár. Og ómældur matur og drykkur er seldur ofan í erlenda ferðamenn á krám og veitingahúsum í 101 Reykjavík.

Höfuðstöðvar KB-banka og Landsbankans eru einnig í 101 Reykjavík. "Gaman er að geta þess að árið 2006 voru umsvif bankanna í fyrsta skipti meiri en umfang sjávarútvegsins í efnahagssögu landsins. Árið 2006 voru tekjur íslensku bankanna meiri af erlendri starfsemi en innlendri í fyrsta skipti í sögunni,” sagði Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans 5. janúar í fyrra.

Útflutningstekjur á hvern starfandi mann eru því trúlega hvergi meiri í heiminum en einmitt í 101 Reykjavík.

Það er ekki raunverulegt atvinnuleysi þegar fólk er skráð atvinnulaust meðan það leitar sér að vinnu en skráð atvinnuleysi vegna þess er talið vera allt að 4%. Hér hafa um 20 þúsund útlendingar verið við störf undanfarin ár og einungis lítill hluti þeirra hefur flust aftur til útlanda.

Brottfluttir erlendir ríkisborgarar samkvæmt Hagstofunni janúar til mars 2008: 671.

Þorsteinn Briem, 25.6.2008 kl. 08:22

26 identicon

Guðbjörn

Mér sýnist þú ekki hafa lesið bókina mína en ég óska þér til hamingju. Bókin fjallaði einmitt um að svarið er ekki til, að skipulagið kallar grimmd yfir samfélagið og eyðileggingu og fyrirtæki eins og Össur, Marel, CCp og hvað þau heita öll verða ekki stofnuð með miðstýrðri ákvörðun. Við erum nú þegar búin að bræða nóg ál. Þú sérð samt enga aðra leið og vilt halda áfram. Þú hefur setið í þínum stól og reiknað út framtíðina. 7000 störf (vel smurt að vísu) og allt vel borgað. Núna veistu hvernig Stalín leið þegar hann gerði 5 ára áætlun. Einn maður með yfirsýn, heildarskipulag - þú sérð jafnvel fyrir þér flugmenn og flugfreyjur fara í Helguvík. 300 manns missa vinnu. 300 fara í vinnu í Helguvík. Þú sérð ekki einu sinni ferðamennsku sem alvöru starf heldur einskonar skúringar á edduhóteli. Maðurinn er eining sem er sett inn í verksmiðju. Ég var að segja þér. Verðmæti bæði náttúru og orkuauðlindar er langt umfram störfin. Með starfalosta okkar spörum við Alcoa 4000 árslaun verkamanna í lágu orkuverði - og aftur 4000 fyrir austan. Það er betra að skapa ekkert starf og fá helmingi hærra verð fyrir orkuna. Framfarir heimsins snúast ekki um að skapa störf. Þær snúast um að eyða störfum, auka framleiðni, auka hagnað og gera eitthvað annað. Þú átt eftir að skipuleggja framtíðina fyrir 293.000 manns vegna þess að þessi störf standa ekki undir okkur. Hinir verða að gera eitthvað annað. Haltu áfram að reikna. Þú ert búinn með orkuna? Dettur þér ekkert annað í hug?

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 09:16

27 identicon

Lára, ég hef unnið með mikið af mönnum sem hafa komið til landsins vegna stóryðjuframkvæmda.  Þeir eyða ekki miklum tíma í það að skoða Gullfoss og Geysi því þeir eru hér til að vinna.  Það væri áhugavert að bera saman tölur yfir fjölda fólks sem kemur inn í landið og fjölda fólks sem nýtir sér einhverskonar ferðaþjónustu.  Þó þetta fólk nýti sér yfirleitt ekki ferðaþjónustu eyðir það samt sem áður miklum pening hér.

Steini, heldur þú virkilega að þessir 500.000 ferðamenn sem eyða 50 miljörðum hérna sem koma hingað munu hætta að koma hingað af því að það eru álver hérna???  Ég kíkti á þessar tölur á heimasíðu ferðamálastofnunar og þetta heildartölur yfir fólk sem ferðast til landsins.  Hversu stór hluti af þessu fólki ætli sé að koma hingað í viðskiptaerindum?  Þú segir einnig í seinni skrifum þínum að verðmæti sjávarafurða aukist milli ára.  Hversu mikil aukning er þetta þegar þú tekur mið af verðbólgu?

Bjarki Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 13:34

28 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bjarki. Þessi hálf milljón erlendra ferðamanna, sem kemur hingað til lands í ár, kemur hingað aðallega til að skoða landið en stoppar yfirleitt stutt við í Reykjavík. Sumir koma þó hingað eingöngu, til dæmis frá Bretlandi, til að skemmta sér í Reykjavík eina helgi, eða koma hingað á nokkurra daga fundi og ráðstefnur. En þú getur skoðað þetta betur hér:

http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Erl_ferdam_ahrif_greinargerd/$file/Erl_ferdam_ahrif_greinargerd.pdf

Ég minntist ekki á álver en ef þeim fjölgar hér enn frekar fjölgar hér einnig raflínum og tilheyrandi staurum úti um allar koppagrundir. Þessar raflínur eru mjög fyrirferðarmiklar og mikið lýti í annars ósnortinni náttúru og erlendir ferðamenn koma ekki hingað til að njóta raflína og raflínustaura. Hins vegar er mjög dýrt að grafa raflínurnar í jörð.

Tekjur Norður-Siglingar á Húsavík af hvalaskoðun hafa verið um 700 milljónir króna á núvirði frá árinu 1995, sé miðað við þrjú þúsund króna tekjur af hverjum farþega, en fyrirtækið hefur farið með vel á þriðja hundrað þúsund manns í þessar ferðir síðastliðin 13 ár. Það má því reikna með að tekjur fyrirtækisins af erlendum ferðamönnum í hvalaskoðun hafi verið á núvirði um hálfur milljarður króna frá upphafi í 2.400 manna bæjarfélagi.

Erlendir ferðamenn gistu í 48.400 nætur á Vesturlandi og Vestfjörðum árið 2006, en hver erlendur ferðamaður eyðir hér um 100 þúsund krónum að meðaltali og dvelst hér í viku. Til landsins komu um 420 þúsund erlendir ferðamenn árið 2006 og eyddu því hér samtals um 42 milljörðum króna það ár. Þar að auki hafa komið hingað árlega um 60 þúsund farþegar með um 80 skemmtiferðaskipum og nú geta þau lagst að bryggju á Húsavík. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað hér árlega og því má reikna með að þeir eyði hér að minnsta kosti um fimmtíu milljörðum króna í ár.

Hvað útflutning sjávarafurða snertir reikna ég ekki með að þar sé tekið tillit til verðbólgu hér en hún hefur rokið upp á þessu ári. En á móti kemur að nú fást mun fleiri krónur fyrir hvert útflutt kíló af sjávarafurðum en í fyrra, allt að 40%, og gengi íslensku krónunnar var alltof hátt skráð. Það væri þó eðlilegt að gengið hækkaði eitthvað á ný á næstunni en ekki upp í fyrra horf.

Þorsteinn Briem, 25.6.2008 kl. 15:33

29 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég vil byrja á að þakka Steina Briem fyrir pistilinn hans, sem var mjög góður og fræðandi.

Ef þið hefðuð lesið það sem ég skrifaði, hefðuð þið einmitt séð að ég hef ekkert á móti ferðaþjónustu, eða hátækniiðnaði, eða hugbúnaðarfyrirtækjum eða sjávarútvegi!

Eitt af fjölmörgu, sem ég hef tekið mér fyrir hendur um ævina, var að fara í ferðamálanám og að því loknu vann ég í 2 ár á ferðaskrifstofu (innanlandsdeild og utanlandsdeild). Reynsla mín þaðan segir mér að stór hluti þeirra starfa, sem eru í ferðaiðnaðinum eru einmitt láglaunastörf (meira að segja yfirmannastöður) og yfirleitt er starfsfólki fækkað um 50-70 % í innanlandsdeildum á veturna og sama gildir reyndar um allan bransann. Það má vera að þið hafið aðra reynslu af þessu en ég, en svona er veruleikinn í þessum málum. Síðan er þessi bransi mjög sveiflukenndur eins og allir vita. Auðvitað á ferðabransinn samt framtíðina fyrir sér, en til þess að ná þeim gífurlegur tekjum, sem álið gefur verður hann aldrei nógu stór. Enda væri ólíft í landinu með þann ferðamannafjölda, sem það hefði för með sér.

Þá er ég meira hrifinn af Marel og Actavis og öðrum hátækniiðnaði sem og af fyrirtækjum í hugbúnaðar- eða tölvuleikjageiranum. Þessum geirum á auðvitað að reyna að skapa betra umhverfi, t.d. með því að kanna inngöngu í ESB og upptöku evru.

Ég er í eðli mínu ekki ofstopamaður og ég hef alls ekkert á móti öðrum geirum en stóriðjunnar og vil veg þeirra sem mestan. Vandinn er sá að þau eru ekki að setjast að austur á fjörðum eða á norðausturlandi. Ég er ekki þeirrar skoðunar að landsmenn allir eigi að flytjast á Suðvesturhornið.

Hvað útreikningana varðar, virðast allir reikna eins og þeir vilja - stóriðjusinnar sem stóriðjuandstæðingar. Ég fann blaðagrein, þar sem út 400 störf í álverinu Helguvík áttu að leiða af sér 800 störf á Reykjanesi. Þaðan kemur þetta og er ekki hugarfóstur mitt.

Ég tók stuðulinn 1,5 af því að hann var sá lægsti, sem ég fann. Hugtakið afleidd störf er mjög teygjanlegt og því viðbúið að menn deili um það.

Ég endurtek það sem ég sagði að mér finnst þið vera í trúarbragðastríði, en það er ég ekki.

Ég er ekki að líka fólki við Stalín eða aðra harðstjóra, en undir á valdatíma hans dóu 20 milljónir manna. Að líkja nokkrum manni við Stalín eða Hitler er alltaf óviðeigandi.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 25.6.2008 kl. 16:17

30 identicon

Sæll Ómar,

Það er ekki bara súrál sem þarf að flytja inn fyrir álframleiðslu.

Ekki gleyma því að álver þurfa líka kol í miklu magni.  Kolin eru í sjálfum rafskautunum og brenna við framleiðslu áls.  Tæplega hálft tonn af kolum þarf til að framleiða hvert tonn af áli.  Við höfum engar kolanámur hér á landi, svo álverin verða að flytja þau inn í formi rafskauta og borga fyrir í gjaldeyri.

Einnig þarf að flytja inn flúoríð og ýmis íblöndunarefni til að framleiða  mismunandi álmelmi. Allt kostar þetta gjaldeyri.  Einnig þarf að flytja inn ýmiskonar búnað og tæki sem hafa takmarkaðan líftíma og þarf að endurnýja reglulega.

Álverin þurfa líka rafmagn í miklu magni sem þau kaupa af orkufyrirtækjunum, en þær tekjur fara að mestu í að borga upp erlend lán sem hafa verið tekin til að fjármagna byggingu orkuveranna, svo þannig streymir líka gjaldeyrir frá landinu.  Það sem skapar þann litla hagnað sem orkufyrirtækin hafa eru við almennu neytendur sem kaupum raforku frá orkuverum sem þegar er búið að afskrifa.

Raforkuverðið  til álvera er reyndar bundið heimsmarkaðsverði á áli að hluta og orkufyrirtækin telja okkur trú um að þau séu að græða í dag vegna þess að álverð er hátt.

Staðreyndin er hins vegar sú að orkufyrirtækin hafa þegar gert framvirka samninga (afleiður) við erlend fjármálafyrirtæki um að þau síðarnefndu kaupi  ál af þeim fyrrnefndu á því verði sem orkufyrirtækin telja sig þurfa til að tapa ekki enn meira en þau gera í dag.  Þannig voru og eru orkufyrirtækin að tryggja sig til framtíðar gegn hugsanlegri lækkun á álverði sem hefði alveg eins getað átt sér stað og gæti enn gerst í framtíðinni.  Íslensku orkufyrirtækin eru í dag að kaupa ál í miklu magni á heimsmarkaði og selja þau áfram til fjármálafyrirtækja á lægra verði sem síðan selja álið áfram og hirða hagnaðinn.  Þannig hverfur líka til útlanda hagnaður af hækkun rafrokuverðs vegna hærra heimsmarkaðsverðs á áli.  Þetta getur svo líka snúist við og fjármálafyrirtækin tapað.

Við megum ekki gleyma þeirri hagfræðilegu staðreynd að sérhvert starf er afleitt starf og sérhvert starf skapar önnur afleidd störf.  Ef einhver er tilbúinn að borga þér fyrir vinnu, sama hver hún er, þá ertu að leggja til landsframleiðslunnar, hvort sem það er að draga fisk úr sjó, setja súrál í ker, eða skenkja bjór á veitingastað í 101. Það gleymist stundum í umræðunni.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 17:03

31 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verði þér að góðu, Guðbjörn minn. Samkvæmt launakönnun VR voru heildarlaun í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu í fyrra að meðaltali 339 þúsund krónur á mánuði, eða 13% hærri en árið áður.

Heildarlaun starfsmanna á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum voru 296 þúsund krónur á mánuði í fyrra, í flutningum og samgöngum á sjó og landi 320 þúsund krónur og í flugsamgöngum 335 þúsund krónur á mánuði. Lægstu heildarlaunin sem ég fann í ferðaþjónustunni í fyrra voru í gestamóttöku 237 þúsund krónur á mánuði.

Með auknum fjölda ferðamanna hér og lægra gengi íslensku krónunnar en það hefur verið undanfarin ár verður væntanlega hægt að greiða hér enn hærri laun í ferðaþjónustunni og að öllum líkindum munu Íslendingar ferðast meira innanlands en þeir hafa gert hingað til. En á móti kemur hins vegar hækkað verð á olíu.

Þorsteinn Briem, 25.6.2008 kl. 18:16

32 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Steini, veistu hve margar vinnustundir liggja á bak við laun í ferðaþjónustu? Þessi atvinnugrein borgar skítakaup.

Mér dettur ekki í hug að hampa ferðaþjónustu hér eða tala fyrir þörfum hennar fyrr en þeir hafa hisjað uppum síg í launamálum.  

Vann í fleiri ár í þessum bransa og hef fylgst nokkuð vel með. Endalaust svindl og svínarí í gangi, sennilega vegna þess að störfunum gegnir oft ungt skólafólk, sem auðvelt er að (mis)nota, án þess að ég vilji alhæfa um það. 

Aðalheiður Ámundadóttir, 26.6.2008 kl. 02:32

33 identicon

Ég er nýkominn ofan úr Veiðivötnum þar sem ég eyddi 4 dögum í þessari paradís á jörðu.

Á leið minni bæði uppeftir og niðureftir aftur keyrði ég á malbikuðum vegum framhjá Búrfellsvirkjun, Sultartangavirkjun og Hrauneyjarvirkjun ásamt tilheyrandi skurðum, lónum, inntaks- og úttaksmannvirkjum, línum osfrv.

Og ég fylltist stolti yfir því að búa í landi þar sem hug- og verkvit hefur verið notað ásamt skynsamlega nýttum náttúruauðlindum til þess að skapa nútímalegt og mannvænt þjóðfélag þar sem lífskjör eru með þeim hætti að ég get tekið mér frí frá vinnu og notið náttúrunnar sem óvíða er fegurri en þarna í næsta nágrenni við mesta virkjanasvæði landsins.

Og hana nú !!

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 11:16

34 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alla. Heildarlaun starfsmanna á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum voru 296 þúsund krónur fyrir 46 klukkustunda vinnu á viku að meðaltali í fyrra.

Heildarlaun í flutningum og samgöngum á sjó og landi voru 320 þúsund krónur fyrir 45 klukkustunda vinnu á viku og í flugsamgöngum 335 þúsund krónur fyrir 43ja klukkustunda vinnu á viku.

Hér er einungis reiknað með þeim sem eru í fullu starfi og það þykir nú ekki mikið að vinna 3-6 klukkutíma yfirvinnu á viku hérlendis, um það bil einn klukkutíma á dag fimm daga vikunnar.

Vinnuvika félaga í VR var jafnlöng árin 2007 og 2006, 45 klukkustundir að meðaltali. Karlar unnu í fyrra 47,5 klukkustundir á viku en konur 42,9. Sem fyrr var vinnuvika stjórnenda og sérfræðinga lengst, 46,9 stundir, og vinnuvikan var lengst í verslunar- og þjónustufyrirtækjum, 46,7 stundir.

Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2003:

"Ferðaþjónustan skilaði þjóðarbúinu um 38 milljarða króna gjaldeyristekjum árið 2001 eða rúmlega 13% af heildargjaldeyristekjum landsmanna. Ferðaþjónustan er því sú atvinnugrein landsins sem aflar næstmestra gjaldeyristekna.

Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafa vaxið um rúmlega 85% síðan 1985 og eru þá ótaldar tekjur af innlendum ferðamönnum. Reiknað er með að umsvif greinarinnar vaxi um 6% að jafnaði til ársins 2006. Ársverk í ferðaþjónustu eru 5-7 þúsund en talið er að allt að 15.000 manns hafi af henni tekjur. Ferðaþjónustan skapar því mikla atvinnu og ekki síst um hinar dreifðu byggðir landsins þar sem atvinnulíf er víða einhæft."


https://secure.xd.is/skipulag/landsfundur/eldri_landsfundir/?ew_news_onlyarea=newsarea&ew_news_onlyposition=3&cat_id=33220&ew_3_a_id=158833

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra fyrr á þessu ári:

"Ferðaþjónusta er núna þriðja stærsta útflutningsatvinnugrein Íslendinga. Hún er orðin ein af fjölmennustu atvinnugreinum samfélagsins og getur ef við höldum rétt á spilunum haldið áfram að dafna á komandi áratugum. Ferðaþjónusta er margbrotinn atvinnuvegur með fjölbreyttri starfsemi á ýmsum sviðum. Þar starfar fólk við stjórnun og stefnumörkun, kynningar og auglýsingar, sölustarfsemi og fjármálaumsýslu, leiðsögn og flutninga, veitinga- og gististarfsemi, svo aðeins nokkur svið séu nefnd.

Á Íslandi er því spáð að með hliðsjón af fjölgun erlendra ferðamanna undanfarið gæti fjöldi þeirra verið orðinn á bilinu sjö til átta hundruð þúsund árið 2015. Til að stuðla að farsælli uppbyggingu ferðaþjónustunnar á komandi árum er ekki síst mikilvægt að vanda skipulag námsframboðs á framhaldsskólastigi og háskólastigi."

http://www.menntamalaraduneyti.is/radherra/raedur/2008/02/19/nr/4457

Þorsteinn Briem, 26.6.2008 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband