6.7.2008 | 17:37
Lýsandi fordæmi fyrir heiminn.
Það eru forréttindi að fá að vera viðstaddur athöfn eins og þá sem fór fram að Sólheimum í gær og vera í Lionsklúbbi, sem var svo heppinn að geta valið sér fyrir rúmum 50 árum þennan stað til að efna kjörorð Lionsmanna: Við þjónum.
Sú þjónusta þarf að vera innt af hendi með auðmýkt andspænis því stóra og margþætta hlutverki sem staðurinn gegnir, - að virða manngildið og virðingu fyrir fólki og umhverfi. Hvort tveggja gefur Sólheimum sérstöðu á heimsvísu.
Návist Vigdísar Finnbogadóttur og Sigurbjörns Einarssonar biskup gaf athöfninni einstakan blæ, að ekki sé minnst á eindæma blíðviðri. Sigurbjörn var í þeirri fágætu aðstöðu í gær að geta, vegna hás aldurs síns, rakið í viðtali upphaf starfsins og þær miklu fórnir sem það kostaði Sesselju Sigmundsdóttur og stuðningsfólk hennar við ótrúlega frumstæðar aðstæður.
Þetta mundi hann eins og það hefði gerst í gær og sagði, að fyrir 77 árum hefði engan getað órað fyrir því hverju háleitar hugsjónir gætu fengið áorkað, slík væri sú umbylting sem orðið hefði að Sólheimum.
Vigdís og Sigurbjörn umvefja alla, sem návistar þeirra njóta, persónutöfrum og hlýju og athöfnin í gær verður því stór perla í fjársjóði minninganna.
Vigdísarhús var opnað í gær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér fannst það vel til fundið að húsinu skyldi gefið nafn Frú Vigdísar Finnbogadóttur sem hefur verið einn helsti velgjörðarmaður Sólheima að öðrum ólöstuðum. Og að fá Sigurbjörn Einarsson þann aldna höfðingja til að blessa var hreint frábært.
Þó ég sé ekki samferðamaður Sigurbjörns Einarssonar í trúnni þá er ekki hægt annað en að fyllast lotningu og virðingu gagnvart þessum manni, því af honum geislar mannviskan, góðvild og gæskan.
Þau tvö voru í frábærum félagsskap vistmanna á Sólheimum sem eru yndislegt og frábært fólk og sannar perlur Íslands.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 6.7.2008 kl. 19:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.