Snærið og fiskurinn.

Með lögum skal land byggja en ólögum eyða. "Es muss ordnung sein".  Mál Ásmundar minnir um margt á þau lög, sem voru í landinu á sínum tíma og bönnuðu landsmönnum að versla við aðra en danska kaupmenn.

Það er auðvelt að sjá rök Dana fyrir þessum lögum: Svona lög voru alsiða í öðrum löndum og nauðsyn fyrir hverja þjóð að efla eigin verslun og atvinnuvegi innan ríkisheildarinnar.

Verslunarkerfi þessa tíma voru nokkurs konar kvótalög. Dönsku kaupmennirnir höfðu keypt "verslunarkvóta" sinn á Íslandi og með því að Íslendingar versluðu við annarra þjóða menn fóru verðmæti úr landi og verslunarkvótaeigendurnir, dönsku kaupmennirnir, voru rændir hagnaði af nýtingu kvótans, sem þeir höfðu keypt og áttu rétt á að njóta góðs af.

Verslunarlögin áttu að tryggja sem mesta hagkvæmni og öryggi verslunarinnar og hún mátti ekki við því tapi sem fólst í því að versla við annarra þjóða menn en Dani.

Danska ríkið tapaði líka á "leka" á borð við þann að snærishönk væri keypt ólöglega, því að hinn danski kóngur þurfti á öflugri og vel borgandi kaupmannastétt að halda til þess að fá frá þeim tekjur til að halda uppi á Íslandi menntakerfi, kirkjunni, opinberri þjónustu embættismanna og nauðsynlegum siglingum og verslun og lögin áttu að tryggja að Danir nytu af sanngirnisástæðum einir samskipta við þjóðina sem þeir önnuðustu um.

Á okkar tímum hafa menn haft það sem dæmi um það hvílík ólög þetta hafi verið að dæmi voru um það að menn voru látnir sæta hörðum viðurlögum fyrir það eitt að hafa keypt ólöglega snæri af Hollendingum.

En snæriskaupendurnir voru lögbrjótar rétt eins og Ásmundur er talinn vera nú. Ef Danir hefðu notið nútímaflugtækni hefðu þeir hugsanlega getað sent þyrlu út að duggunni þar sem hin ólöglega snærishönk skipti um eigendur, staðið lögbrjótana að verki og gert snærið upptækt þegar til hafnar kom.

Síðan fylgt því eftir fyrir dómstólum þar sem hinn seki hlaut refsingu í samræmi við gildandi lög.

Það er fróðlegt að rifja þetta upp núna þegar maður veltir fyrir sér því hvort ríkjandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé réttlátara en kerfið sem gerði forvera okkar að sakamönnum fyrir að kaupa snærishönk eða brýnustu nauðsynjar af útlendingum þegar einokunarkaupmannakerfið brást þeirri skyldu sinni að hafa þær á boðstólum.

Eftir situr áleitin spurning:

Eru kvótalögin lög, sem byggja skal land með....

...eða...

ólög, sem eyða skal landi með?


mbl.is Bátur á ólöglegum veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir góða færslu Ómar.

Það er engin spurning að það lénsskipulag sem reynt hefur verið að festa í sessi eru ólög sem eytt hafa fjölmörgum sjávarþorpum.  Sú eyðing er síðan notuð sem röksemd fyrir fráleitum og jafnvel glæfralegum hugmyndum um  olíuhreinsunarstöð.

Sigurður Þórðarson, 16.7.2008 kl. 23:22

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Nákvæmlega þetta er að, Sigurður.

Úrsúla Jünemann, 17.7.2008 kl. 07:14

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Góð samantekt og glögg. En væri innganga í EB þá ekki skref til baka?

Af hverju brýnir ekki þetta ástand þjóðina til að taka upp umræðu um samanburð á fiskveiðistjórn okkar og fiskveiðistjórnina í Barentshafi og biðja Hafró að útskýra þann árangur sem þar hefur náðst?

Erum við þá komin að einhverju Tabu?

En nú á að fjarlægja Íbúðarlánasjóð til hagsbóta fyrir banka!

Heyr! fyrir Hayek og Friedman.

Árni Gunnarsson, 17.7.2008 kl. 07:15

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

......fiskveiðistjórninni......

Árni Gunnarsson, 17.7.2008 kl. 07:16

5 Smámynd: Hagbarður

Góð færsla! En það verða sjálfsagt ekki vandræði hjá ákæruvaldinu að fá sakfellingu fyrir dómi, m.v. við afgreiðslu fyrri dóma um svipuð mál. "Tíðarandinn" og hugsanlega einnig hvar valdið liggur ræður líklega niðurstöðu dóma frekar en að verið sé að leita eftir "réttlæti" við túlkun laganna, sbr. dóm Hæstaréttar í máli íslenska ríkisins gegn Þórðbergi Þórðarsyni um ummæli hans um Hitler. En Þórðbergur var dæmdur í 200 kr. sekt eða 15 daga fangelsi fyrir að hafa birt á prenti að Hitler væri sadisti.

Hagbarður, 17.7.2008 kl. 12:11

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hinn sjóaði Ásmundur síkáti,
frá Sandgerði einn rær á báti,
fékk þar hafmey,
Framsóknargrey,
hana veiddi utan kvóta í ógáti.

Þorsteinn Briem, 17.7.2008 kl. 17:24

7 identicon

Tek undir með Árna Gunnarssyni með að Hafró ætti að skýra út fyrir þjóðinni hvers vegna norðmenn og Rússar ná svo góðum árangri í Barentshafi með allri þeirri ofveiði sem þar hefur farið fram og samt stækar þorskstofninn þar á sama tíma og veiðinn er skorinn niður ár eftir ár hér á íslandi og stofninn okkar bara minnkar eftir því sem þeir segja sjálfir.

Hvernig skýrir Hafró það væri gaman að fá að vita. 

Jon Mag (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 17:58

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hvað hefur maður ekki heyrt einhverjar tuggur frá dogmatistum um að eitthvað eigi að skilgreina sem gott og eitthvað annað sem vont. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur t.d. ferðast um víða veröld til að halda fyrirlestra um "Besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi". Hann hefur m.a. haldið því fram að menn gangi betur um auðlindina því nú sé hún einkavædd. 

Hann hefur mér vitanlega aldrei pissað í salt vatn og  veit ekki að brottkastið hófst með kvótanum. Kannski hefur enginn haft fyrir að segja honum það áður en hann lagði í fyrirlestraferðirnar? En ég er heldur ekki viss um að hann hefði hlustað því hann trúir á sínar dogmur. Hannes er ekki sérfróður um líffræði en veit samt allt sem vert er að vita um vöxt og viðgang fiskistofna. Hannes hefur því safnað mörgum lærisveinum að fótskör sinni. Kannski er Ingvar Guðmundsson einn þeirra?

Sigurður Þórðarson, 17.7.2008 kl. 18:12

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góð spurning frá "joni mag"  en ekki reikna með að fá svar við þessu. Menn lifa nefnilega í heimi kennisetninga sem allir vita að eiga ekki stoð í raunveruleikanum.

Sigurður Þórðarson, 17.7.2008 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband