Skrímslið í Bolungarvík.

Nú eru Bolvíkingar og gestir þeirra byrjaðir að sjá hvernig hlíðinni fyrir ofan bæinn verður umturnað til þess að búa þar til snjóflóðavörn sem líkja má við skrímsli í stað þess að aðstoða fólkið í þeim tiltölulega fáu húsum, sem töldust vera í snjóflóðahættu, til að flytja annað. Uppkaupa-og flutningalausnin í Bolungarvík hefði orðið óvenju auðveld, því að á fáum stöðum á býðst betra og öruggara byggingarland á flötu landi en þar.

Fyrir rúmum áratug fór ég í fréttaferð til snjóflóðastöðvarinnar í Davos í Sviss, talaði þar við sérfræðinginn sem fenginn var til Íslands eftir snjóflóðið á Seljalandsdal en var bannað að úttala sig um snjóflóðahættu á öðrum svæðum. Ég kom heim úr ferðinni með úttekt á því hvernig hægt væri að leysa snjóflóðamálin á fleiri en einn hátt með því að læra af langri reynslu Svisslendinga.

1. Með snjóflóðavarnir í hlíðunum. Í Sviss var sjaldnast um háa garða að ræða heldur stórar lítt áberandi girðingar eða spjöld ofarlega í fjöllunum sem komu í veg fyrir myndun þykkra snjófleka.

2. Með því að kaupa upp eignir á hættusvæðum og gera íbúum kleift að flytja sig á betri stað.

3. Með því að gera hús snjóflóðaheld með litlum tilkostnaði, svo að snjóflóð færu yfir þau eða klofnuðu um þau þannig að húsin stæðu heil, sama á hverju dyndi. Sjá mátti heilu kirkjurnar með þessu lagi. Þeim íbúum sem vildu vera heima hjá sér í slíkum húsum meðan hættuástand ríkti var gert skylt að hafa hjá sér nægar vistir og aðrar nauðsynjar til dvalar í þeim þar til hættan væri liðin hjá.

Ég get ekki varist þeirri hugsun að versti kosturinn hafi verið valinn í Bolungarvík. Hægt hefði verið að fara blandaða leið úr kostum 2 og 3 í stað þess að velja skrímslis-kostinn.

En ráðamenn þjóðarinnar voru fastir í þessu á sínum tíma og eru líklega enn. Einn þeirra flutti mér þau rök, að ef því fólki, sem ætti hús á hættusvæði, yrði borgað fyrir þau, myndi það vekja öfund hjá öðrum íbúum, sem áfram yrðu í átthagafjötrum verðlausra eigna. Þar af leiðandi yrði um mismunun að ræða, íbúum á hættusvæðunum í vil.

Sem sagt: Betra að allir séu í átthagafjötrum verðlausra eigna og fá í ofanálag ofan við bæinn forljóta og fokdýra umhverfisskemmd heldur en að fara aðra og bærilegri leið.

Svisslendingar hafa ekki látið svona rök ráða og þess vegna sá ég ekki garða- og haugaskrímsli ofan við byggðir þar í landi, - mannvirki sem skapa leiðindi og vandræði með úrrensli og jafnvel skriðuhættu þar sem vörnin sjálf getur orðið að nýrri ógn.

Þannig er það á Siglufirði og Norðfirði, en munurinn á Sigló og Neskaupstað annars vegar og hins vegar Bolungarvík er sá að stærð hættusvæðis, fjöldi húsa og takmarkað bygginarland, gera þeim fyrir norðan og austan erfitt fyrir, en öðru máli gegnir um Bolungarvík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Snjóflóðavarnargarðar eru eingöngu til þess að sefa samvisku ráðamanna sem ekkert gerðu alla 20. öldina til að verjast snjóflóðahættu. Það sem vinnst líka er að halda almenningi í skefjum. Mannskaðinn sem varð í Súðavík og á Flateyri var algerlega og eingöngu á ábyrgð ráðamanna. Íslendingar eiga ekkert og hafa aldrei átt neitt að sækja til útlanda um snjóflóðaþekkingu. Þekkingin á snjóflóðum hefur verið til staðar í landinu frá fyrstu tíð.

Hvað skyldi bærinn sem stendur á Norðureyri við Súgandafjörð hafa staðið af sér mörg snjóflóð??

Kristján Sigurður Kristjánsson, 16.7.2008 kl. 22:43

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vitneskjan um snjóflóðahættu í landi Súðavíkur var skjalfest í jarðabók í upphafi 18. aldar. Þegar ég gerði frétt veturinn 1995 um fáránleika þá gildandi hættumats með því að standa á Urðarvegi á Ísafirði og benda á að vinstri fótur minn væri á hættusvæði en hægri fóturinn ekki, varð allt vitlaust fyrir vestan.

Ráðamenn vestra hringdu í fréttastjóra minn og reyndu að stöðva umfjöllun mína um þessi mál og ég fékk harða yfirhalningu hjá einum þeirra.

Ári síðar hitti ég hann og bað hann afsökunar á því að hafa valið skakka götu til sýna mörk hættusvæðis. Ég hefði frekar átt að standa á götunni Ólafstúni á Flateyri þar sem fólk, sem taldi sig á öruggu svæði neðan markalínu hættusvæðis hefði farist í snjóflóði. Ráðamaðurinn brást við þessu með djúpri og langri þögn.

Ómar Ragnarsson, 17.7.2008 kl. 14:00

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ég lít svo á að ég sé gestur í málfundarstofu síðueiganda og verð því að haga orðum mínum eftir því.

Árið 1930 flutti afi minn með fjölskyldu sína til Flateyrar móðir mín þá sjö ára. Hann bannaði henni stranglega að leika sér á Ólafstúni á vetrum.  Ef ugglega þótti horfa um snjóflóð var bannað að leika sér sem kirkjan stendur núna, ekki náði snjóflóðið þangað 1995. Á sjöunda áratugnum byggði systir hennar sér hús ekki langt frá kirkjunni þrátt fyrir bann afa míns, ekki grandaði snjóflóðið því húsi 1995. Var afi minn ruglaður? Á áttunda áratugnum var hrúgað upp snjóflóðavörnum til að "verja" nýbyggingarnar á Ólafstúni. Faðir minn, utanbæjarmaður, taldi þetta algerlega þýðingarlaust þar sem eitt snjóflóð færði hrúgurnar í kaf og næsta flóð sem gæti komið innan hálftíma ætti greiða leið að húsunum. Var hann líka ruglaður? Hafsteinn Númason missti þrjú börn í flóðinu "mikla" í Súðavík, hann leyfði sér þá svívirðu að spyrja spurninga. Hann var opinberlega á prenti lýstur geðveikur. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hreytti í okkur Hafstein skætingi í Mbl., hún lýsti þó ekki Hafstein geðveikan. Fleiri Súðvíkingar voru líka með "svívirðu" við stjórnvöld. Í hefndarskini létu æðstu embættismenn ekki sjá sig þegar mannskaðans var minnst 2005. Afturármóti þökkuðu fyrrverandi og núverandi ráðamenn Flateyringum ástarþakkir fyrir þögnina með því að mæta þar af sömu ástæðu átta mánuðum seinna. Rifjaðar vóru upp of fluttar margtuggnar hundruð ára gamlar ræður, sem árlega vóru fluttar yfir ekkjum og munaðarlausum eftir jafnfáránlega mannskaða á sjó og landi, og stundum oft á ári.

Ómar, borgar sig bara ekki að þegja?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 17.7.2008 kl. 23:25

4 identicon

Ómar kíktu á myndasíðuna mína. Segðu mér hvað þér finnst.

NH (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband