30.7.2008 | 21:41
Fyrsta heita hafgolan síðan 1944 og 1939?
Þá rúma sex áratugi sem ég man aftur í tímann minnist ég þess ekki að norðvestan hafgola í Reykjavík hafi verið meira en tuttugu stiga heit. Venjulega hefur slík gola fært með sér allt niður í 10-12 stiga heitt loft af sjónum þegar hún hefur náð sér á strik, og þá hefur hitinn í borginni getað fallið um allt að tíu stig.
Ástæðuna mátti heyra í dag með því að hringja í númer fimm eftir að hringt hefur verið í sjálfvirka símsvara Veðurstofunnar, 9020600 en þar er upplýst um flugveðurskilyrði. Þar kom í ljós að í öllum hæðum fór heitt loft frá Evrópu frá austri til vesturs yfir landið með um 30 hnúta hraða. Þetta er svo mikið magn og straumurinn svo sterkur að ellefu stiga heitt hafið við vestanvert landið nær ekki kæla loftið svo neinu nemi.
Hugsanlega hefur loftið í hafgolunni komið að hluta úr norðaustri ofan úr uppsveitum Borgarfjarðar og af norðanverðu hálendinu þar sem hitinn komst í 24 stig, t.d. á Hveravöllum. Þessi loftmassi hefur hugsanlega náð að sveigjast í hálfhring inn til höfuðborgarsvæðisins án þess að missa mikinn varma.
Athygli hefur vakið þessa hlýju daga að á veðurkortum í sjónvarpinu hefur heita loftið frá Evrópu náð að breiða sig yfir allt norðanvert Atlantshafið og yfir Grænlandsjökul líka, þannig að í norðanátt á vesturströnd Grænlands var 10 stiga hiti í Nuuk og 13 stig í Narsarsuaq. Er óvenjulegt að sá mikli ísmassi sem Grænlandsjökull er nái ekki að framleiða neinn kuldapoll.
Þetta minnir á hitabylgjuna síðsumars 2005 þegar svo hlýr, stöðugur og þurr loftmassi var yfir landinu að hvergi kom hafgola né þoka við strendur þótt hitinn færi langt yfir 20 stig yfir miðju landinu. Hvergi varð heldur moldrok á hálendinu.
Loftið núna er líka tiltölulega þurrt, - rakastigið á Kárahnjúkum var til dæmis aðeins 53% í dag. Eftir því sem ísinn minnkar meira á norðurskautinu verður minni hætta á að kuldinn þar sameinist kuldaútstreymi Grænlandsjökuls og verði fóður fyrir háloftakuldapoll sem sendi kalda strauma suður til okkar og geri okkur lífið leitt.
29 gráður og sólskin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrir 4 árum en maður man eftir þessu eins og hafi gerst fyrir 4 mánuðum! Tíminn líður alltof hratt! VIÐ VERÐUM AÐ STÖÐAVA HANN STRAX!
Jónas Jónasson, 30.7.2008 kl. 23:37
Hvað segir ekki skáldið í einhverrju skarplegasta upphafi íslensks ljóðs: "Tíminn líður hratt á gervihnattaöld." Auðvitað var þetta 2004 þegar Jökla gaf okkur sýnishorn af leirburðinum og leirfokinu sem koma skyldi.
En úr því að ég er farinn að tala um minnistæðar ljóðlínur þá held ég að upphaf Gleðibankans sé þó ekki toppurinn heldur þetta upphaf eftir sama höfund enn skarpara: "Á morgun er kominn nýr dagur..."
Ómar Ragnarsson, 31.7.2008 kl. 15:52
Ef þetta er "resúltatið" hef ég ekkert á móti hlýnandi Íslandi!
Hins vegar held ég að Kristinn Pétursson hafi á réttu að standa og að við séum lokisins að ná því hitastigi, sem er "eðlilegt" hér á landi. Þetta bull um hlýnun jarðar er mjög ýkt.
Loksins er kominn makríll á Íslandsmið og hvað gerir "barbarinn"´, jú hann bræðir þennan fisk, einn besta matfisk, sem ég hef smakkað!
Ég vona að íslenskir sjómenn bræði ekki túnfiskinn, þegar hann fer að veiðast!
Við Íslendingar erum villimenn, hvað þetta varðar.
Hvernig væri að Ómar og samtökin "Saving the World" myndu benda á þessa staðreynd, þ.e.a.s. að betra væri að fólk borðaði fiskinn, sem veiddur er í sjónum en að bræða hann, sem skepnufóður.
Hafið þið smakkað þurrkaða loðnu dýfðri í soja sósku? Unaður!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 31.7.2008 kl. 21:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.