Kirkjugrið íþróttanna.

Úr Íslandssögunni þekkjum við það þegar menn flúðu í kirkju sem griðarstaðar þar sem ekki mætti beita ofbeldi eða vopnum. Í nútímanum hafa íþróttaleikvangar veraldar verið griðastaðir fyrir keppnisfólk sem vill koma saman og etja kappi í drengilegum leik þar sem stjórnmálaátök eru utan vallar og íþróttafólk frá öllum þjóðum er hlutgengt.  

Það hafa verið undantekningar. Á leikunum 1936 í Berlín heilsuðu keppendur frá þremur þjóðum þáverandi þjóðhöfðingja Þýskalands, Adolf Hitler, með nasistakveðju. Þeir sem þetta gerðu hafa síðan setið uppi með skömmina.

1956 vantaði keppendur frá Ungverjalandi á Ólympíuleikana í Melbourne vegna innrásar Sovétmanna í Ungverjaland. Þetta var slæmt en ekkert við því að gera. Besta knattspyrnulandslið heims tvístraðist og keppti ekki.  Þá var alræðisstjórn í Sovétrikjunum sem fótumtróð mannréttindi þegna sinna og réðst inn í nágrannaríki en samt kepptu íþróttamenn frá Sovétríkjunum á þessum leikum eins og öðrum leikum frá og með 1952.

1992 gátu íþróttamenn frá Júgóslavíu ekki verið með vegna sundrungar ríkjanna, sem höfðu myndað ríkið. Fyrir bragðið komust íslenskir handboltamenn inn í stað Júgóslavíu.  

1980 sniðgengu Bandaríkjamenn leikana í Mosvku á þeim forsendum að Sovétmenn hefðu ráðist inn  í Afganistan og hrakið Talibana frá völdum. Í ljósi sögunnar sést hvað þetta var hæpið vegna þess að rúmum 20 árum síðar réðust Bandaríkjamenn ásamt fleirum inn í Afganistan til að hrekja Talibana frá völdum.

1984 svöruðu Sovétmenn fyrir sig með því að sniðganga leikana í Los Angeles.  

Keppendur frá Suður-Afríku voru utangarðs lengi vel meðan kynþáttaðskilnaðarstefna stjórnarinnar ríkti þar. Rökin fyrir þessu keppnisbanni voru meðal annars þau að þessi aðskilnaðarstefna mismunaði íþróttamönnum innan Suður-Afríku og það stríddi gegn Ólympíuhugsjóninni.

1968 mótmæltu tveir bandarískir hlauparar á verðlaunapalli kynþáttamisrétti í landi sínu með því að reiða krepptan hnefa á loft þegar þjóðsöngurinn var spilaður. Síðan hefur sem betur fer ekkert svipað gerst við verðlaunaafhendingar.  

Ég tel að mótmæli af þessu tagi eigi ekki heima á íþróttaleikvöngunum. Ef svo væri myndi stefna í algert óefni. Spánskir keppendur eða hverjir sem væru gætu til dæmis mótmælt fyrir hönd Baska og hægt væri að hafa uppi hvers kyns mótmælaaðgerðir aðrar.

Öðru máli gegnir um hefðbundnar mótmælaaðgerðir utan íþróttanna og íþróttavallanna, svo framarlega sem þær trufla ekki mótshaldið sjálft eða eyðileggi þá stemningu griða og friðar sem er grunnur allra íþróttasamskipta.

Sovétríkin héldu Ólympíuleika í Moskvu 1980 og flestar þjóðir heims, þar á meðal Íslendingar, sendu þangað keppendur. Það breytti ekki því að þvílík harðstjórn og kúgun ríkti í Sovétríkjunum að full þörf var á berjast gegn því, - utan íþróttanna.


mbl.is Mótmælendur handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Innilega til hamingju með verðlaunin Ómar.  Þú ert svo sannarlega vel að þeim kominn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.8.2008 kl. 15:02

2 identicon

Samkvæmt stjórnarskrá Kína auk fjölda alþjóðlegra skuldbindinga eiga mannréttindi að vera tryggð í Kína. Stjórnvöld þar í landi kjósa hins vegar að hundsa öll slík lög og brjóta með því gróflega gegn 1stu grein Ólympíusáttmálans (Olympic Charter).

Með því að mismuna fólki eftir skoðunum, trú, sjúkdómum og fleiru um þátttöku á leikunum sjálfum hafa þessi sömu stjórnvöld fyrirgert rétti sínum til að koma nálægt starfi Ólympíuhreyfingarinnar. (sjá grein 5 og 6 í sáttmálanum).

Athugaðu að mesta hryðjuverkaógnin á Ólympíuleikunum í huga þessarar valdaklíku stafar af Falun Gong iðkendum, sem eru þekktir fyrir að hafa aldrei beitt illu á móti illu heldur alltaf minnt á mannréttindabrot kínastjórnar á friðsamlegan máta.

Þegar fulltrúar okkar þjóðar mæta á opnunarhátíð Ólympíuleikanna gagnrýnislaust og með bros á vör sendum við okkar “nasistakveðju” til kínverskra stjórnvalda.

Fundamental Principles of Olympism

1. Olympism is a philosophy of life, exalting and combining in a balanced whole the qualities of body, will and mind. Blending sport with culture and education, Olympism seeks to create a way of life based on the joy of effort, the educational value of good example and respect for universal fundamental ethical principles.

2. The goal of Olympism is to place sport at the service of the harmonious development of man, with a view to promoting a peaceful society concerned with the preservation of human dignity.
-------

5. Any form of discrimination with regard to a country or a person on grounds of race, religion, politics, gender or otherwise is incompatible with belonging to the Olympic Movement.

6. Belonging to the Olympic Movement requires compliance with the Olympic Charter and recognition by the IOC.

Tekið af: http://multimedia.olympic.org/pdf/en_report_122.pdf

Auka tengill tengdur efni:

Senator Brown: Is China fulfilling the Olympic Charter?

 http://fora.tv/2008/05/20/Senator_Brown_Is_China_Fulfilling_the_Olympic_Charter


Hafþór Sævarsson (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 16:11

3 Smámynd: Sævar Helgason

Óskilt kirkjugriðum íþróttanna -

Bestu hamingjuóskir með eftirfarandi :  " Ómar Ragnarsson, kvikmyndagerðarmaður og fyrrverandi fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu, hlýtur Seacology umhverfisverndarverðlaunin árið 2008 fyrir baráttu sína gegn eyðileggingu á náttúru á hálendi Íslands.

Fram kemur í yfirlýsingu frá Seacology að Ómar hljóti verðlaunin fyrir að vekja almenning til vitundar um risavaxnar virkjanaframkvæmdir á hálendi Íslands og þau umhverfisspjöll sem stíflugerð og uppistöðulón til að knýja álver Alcoa á Reyðarfirði hafa valdið."   (copy áf Eyjunni )

 Hvenær verður myndin frumsýnd ?

Sævar Helgason, 6.8.2008 kl. 18:50

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

 Takk fyrir hlý orð. Virði þessara verðlauna felast fyrst og fremst í því að vekja athygli erlendis á þeim heimsverðmætum sem okkur 'Íslendingum hefur verið falið að varðveita fyrir allt mannkyn og afkomendur okkar. Þetta er ekki mál Íslendinga einna.

 Ef mistök voru gerð með því að halda Ólympíuleikana í Kína fólust þau í upprunalegu ákvörðuninni að halda þá þar. Að sjálfsögðu er það afdrifaríkari ákvörðun að halda leikana í ríki með mannréttindabrotum en að leyfa íþróttamönnunum frá því ríki að keppa annars staðar.

Á sínum tíma var samþykkt að halda leikana í Moskvu 1980 þrátt fyrir heimsþekkt mannréttindabrot og skoðanakúgun í Sovétríkjunum og reikna má með að Bandaríkjamenn og skoðanabræður þeirra hefðu tekið þátt í þessum leikum ef innrás Sovétmanna hefði ekki dunið yfir árið áður.

Að minnsta kosti var þessi innrás ein tilgreind sem ástæða en ekki mannréttindabrotin í landinu.

Í haust verður lokið við eystri hluta Kárahnjúkavirkjunar sem felst í að fullgera tvær stórar stíflur, skrúfa fyrir tvær stórar ár með tugum fossa og sökkva landi undir tvö ný miðlunarlón. Fólk verður alltaf undrandi þegar ég segi því frá þessu.

Tökum í myndina og siglingu Arkarinnar á þremur lónum virkjunarinnar lýkur því ekki fyrr en í haust og því verður hún vart frumsýnd fyrr en vorið 2009.

Síðan hef ég einnig verið að taka myndir í heimildarmynd um Leirhnjúk og Gjástykki, sem er mun meira áríðandi viðfangsefni eins og nú er komið málum. Ég vonast til að klára hana strax í haust ef hægt er að finna fjármagn til þess.  

Ómar Ragnarsson, 6.8.2008 kl. 19:10

5 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Til hamingju með verðlauninn karlinn! -  www.blog.is/hallibjarna

Haraldur Bjarnason, 6.8.2008 kl. 19:54

6 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Smá klúður Ómar eins og þú veist að mér er tamt þegar tæknimál eru annars vegar en ætli þetta gangi upp svona. og síðan mín sé hér.

Haraldur Bjarnason, 6.8.2008 kl. 19:56

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þessi mótmæli voru ekki inn á íþróttaleikvanginum... og eiga fullan rétt á sér.

Vil þakka Hafþóri fyrir gagnlegar upplýsingar

Ágætt er líka að muna, að geðsjúkum, fólki með aids, Tíbetum og þeim er iðka Falun Gong hefur verið bannað að mæta á leikana. Þannig að one world one dream hljómar ansi innantómt...

Birgitta Jónsdóttir, 6.8.2008 kl. 20:19

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Hef ekkert heyrt um þessi verðlaun, nema það sem skrifað er hér að ofan. Hvað um það, til hamingju Ómar! Þú átt þau margfalt skilið. Það tekur ótrúlegan viljastyrk og þor að gera það sem þú ert að gera. Það er mikill munur á að vera elskaður og dáður sem skemmtikraftur og fréttamaður, og að vera umdeildur og jafnvel fyrirlitinn fyrir að vera "latte þambandi skáld 101 hippi haus í skýjum" og allt það. Ég efast um að það sé til mikið af fólki sem hefði þorað að fórna því sem þú fórnaðir fyrir sannfæringuna. Það hefði verið mikið þægilegra að breyta engu og njóta efri áranna í friði. Þú átt virðingu skilið, hvort sem fólk er sammála þér eða ekki. Það sem Bono sagði við David Bowie á 50 ára afmæli hins síðarnefnda á svo sannarlega við um þig. "The world should get down on their knees and kiss your arse". Set þetta inn á frummálinu því þetta þýðist svo illa.

- En um Bejing 2008. Það að halda leikana í Kína voru mistök og ég er viss um að IOC vissu það frá upphafi. Þetta er sennilega pólitík. Það að IOC hafi lagt blessun sína yfir takmörkun aðgangs blaðamanna að netinu, eins og CNN sagði frá, er auðvitað út í hött. Það þarf eitthvað mikið til að ég líti Ólympíuleikana sömu augum eftir þetta.

Villi Asgeirsson, 6.8.2008 kl. 20:38

9 identicon

Sæll aftur Ómar, innilega til hamingju með verðlaunin þín, þú átt þau sannarlega skilið.

Varðandi Ólympíuleikana þá geta allir tekið undir það að óheppilegt er að gera íþróttaviðburði að vettvangi fyrir pólítískar deilur. Íþróttir og pólitík, fræðilega, ætti ekki að blanda hvoru við annað. Í praksís, eins og þú kemur orðum að hér að ofan, virðist það þó ef til vill óumflýjanlegt í ákveðnum tilfellum.

En hver er raunverulega að blanda saman pólítík og íþróttum að þessu sinni? Væri það Gordon Brown sem hyggst sniðganga opnunarhátíðina? Kanslari þýskalands? Eða ráðamenn hinna landanna sem hafa tekið þá afstöðu að sniðganga leikana í sumar? Eru þau að misskilja heildarmyndina? – Að Ólympíuleikar séu hvorki staður né stund til að fordæma voðaverk.

Svarið við þessum spurningum endurspeglast ef til vill í rangfærslu sem þú gefur þér hér að ofan og rökfærsla þín byggir á:

“Ef mistök voru gerð með því að halda Ólympíuleikana í Kína fólust þau í upprunalegu ákvörðuninni að halda þá þar.”

Kínversk stjórnvöld fengu að halda Ólympíuleikana með skilyrðum. Skilyrðum sem ráðamenn í Kína samþykktu; ákvörðunin að hýsa þá þar var tekin með hliðsjón af þeirri skuldbindingu.

Þessi skilyrðu voru meðal annars að bæta mannrétti fyrir leikanna og gefa erlendum fjölmiðlum fullt frelsi til að miðla fréttum.

Kínverjar einfaldlega sviku þessar skuldbindingar og í stað þess að Ólympíuleikarnir yrðu lyftistöng fyrir bætt mannréttindi þar í landi hafa þeir orðið að tylliástæðu til að brjóta enn frekar á fólki.

Valdaklíkan hefur fært sér í nyt dýrðarljóma þessa íþróttaviðburðar sem byggir á fagurri hugsjón með þeirri afsökun að við ættum að taka tillit til ólíkra menningarheima. Með því reyna þeir að þvinga heiminn til að samþykkja að mannréttindi séu afstæð.

Með því að neita hinum ýmsu hópum þátttöku brjóta kínversk stjórnvöld Ólympíusáttmálann og hafa með því gert leikana að vettvangi fyrir ómannúðlega ,,pólitík”.

Undir slíkum kringmstæðum er einungis eðlilegt andsvar að sniðganga opnunarhátíðina, sýna vanþóknun okkar gagnvart því hvernig reynt er að nota íþróttir í glæpsamlegum tilgangi; annað væri vanvirða við Ólympíuhugsjónina.

Við stöndum nefnilega frammi fyrir þeirri staðreynd að sumarólympíuleikar ársins 2008  eru ólögmætir samkvæmt Ólympíusáttmálanum sjálfum.

Hafþór Sævarsson (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 22:32

10 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Hjartanlegar hamingjuóskir Ómar.  Þú ert svo sannarlega vörður íslenskrar náttúru og vel að þessum verðlaunum kominn  

Ragnhildur Jónsdóttir, 6.8.2008 kl. 22:42

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var að fá eina athyglisverða ábendingu um vafasama þátttöku ríkja í Ólympíuleikum en það er þátttaka þjóða, einkum fyrr á árum, þar sem konur voru beittar því misrétti að það kom í veg fyrir þáttöku þeirra.

Varðandi svik Kínverja á loforðum um úrbætur í mannréttindamálum sýnist augljóst að eftir að dýrasta framkvæmd sögunnar á Ólympíuleikum var komin langt á veg varð vart aftur snúið. Betra hefði verið að segja við Kínverja í upphafi: Þið getið fengið að halda leikana EFTIR að þið hafið komið þessum málum í lag. 

Ómar Ragnarsson, 6.8.2008 kl. 23:06

12 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þessum íþróttamanni var bannað að keppa því hann vekur athygli á ástandinu í Darfur sem er kínverskum yfirvöldum ekki þóknanlegt:

http://sports.yahoo.com/olympics/beijing/blog/fourth_place_medal/post/Chi?urn=oly,98718

Birgitta Jónsdóttir, 6.8.2008 kl. 23:18

13 identicon

Til hamingju með verðaunin Ómar.

Gummi (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 05:38

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Villa Ágeirs finnst erfitt að þýða : "The world should get down on their knees and kiss your arse". Mín þýðing er ágæt í seinnipart ferskeytlu. Ómar, komdu með fyrripartinn!

Heimurinn ætti að krjúpa á kné

og kyssa þig á rassinn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.8.2008 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband