Kolbrún og Þórunn fyrstar með orðið "orkufrekja."

Mér þykir gott að geta vitnað í samherja mína í umhverfisbaráttunni og í viðtali á Morgunvaktinni nú rétt áðan vitnaði ég í nýyrði sem ég sá fyrst notað, svo að ég mundi, af Dofra Hermannssyni í bloggi hans nú í vikunni. Þetta er orðið orkufrekja. Mér finnst þetta frábært orð vegna þess að það varpar ljósi á að orðin "orkufrekur iðnaður", sem búið er með 40 ára síbylju að sveipa jákvæðum ljóma, er í raun neikvætt.

Það sést best ef af því eru leidd önnur orð eins og orkufrekja. Nú hefur hins vegar komið í ljós að Dofri var ekki fyrstur til að nota þetta orð heldur mun það hafa verið í blaðagrein þeirra Kolbrúnar Halldórsdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttir sem þetta orð kom fyrst fram opinberlega.

Hafi þær þökk fyrir. Fátt er jafn skemmtilegt en þegar vopn í orðasennu reynist vera boomerang eða bjúgverpill sem hittir að lokum þann fyrir sem kastar því á loft. Orðvopnið "orkufrekur iðnaður" snýst í höndunum þegar hægt er að kalla þá, sem það nota, "orkufrekjur". Þeir geta ekki gagnrýnt notkun orðsins "orkufrekja" af því að það er byggt á sömu hugsun og þeirra eigin orð "orkufrekur iðnaður."

Þetta er líka neyðarlegt þegar haft er í huga að Þórunn er nú umhverfisráðherra, sem neyðist til að reyna að fullvissa fólk um að stóriðjuhraðlestin muni ekki hægja á sér þrátt fyrir hina annars lofsverða gjörð hennar að setja álver á Bakka og tilheyrandi orkuöflun og orkuflutning í heildstætt mat á umhverfisáhrifum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja, litlu verður Vöggur feginn, en gott og vel – og vel á minnst, til hamingju með umhverfisverðaunin.

Mig hryllir satt best að segja við þeirri mynd sem þú dróst upp í morgunútvarpinu af möguleikunum við Kröflu og Leirhnjúkssvæðið og bið þess heitum bænum að hún verði aldrei að veruleika. 

Tugir fólks að starfa við bíósýningar í nýju þorpi við Leirhnjúk allan ársins hring væntanlega.  Hvílík sýn.  Til að standa undir rekstri þess þyrfti að margfalda ferðamannastrauminn til landsins.  Líklega veitti ekki af því að tífalda hann jafnvel meira. 

Full ástæða er að skelfast margfalt meira ágang ferðamanna í viðkvæmri náttúru landsins en að einhverjir afmarkaðir ferkílómetrar séu teknir undir þau mannvirki sem við þurfum til að tryggja samskonar afkomu okkur og afkomendum okkar til handa og ferðamannastraumurinn sem náttúru"verndar"sinnar láta sig hér dreyma um myndi gera. 

Ég heyrði á dögunum viðtal við útlending sem hafði komið hingað fyrir tuttugu árum.  Og hvernig lýsti hann muninum þá og nú;  Þá fannst mér ég vera einn hér og uppi á hálendi landsins í kyrrð og ró en nú er hér allt fullt af ferðamönnum svo langt sem augað eygir var inntakið í lýsingu hans.  Og þó eru aðeins, hvað, um  400 þúsund ferðamenn sem hingað koma árlega nú.  Hvernig verður þá ef ein, tvær, þrjár eða fleiri milljónir traðka niður þetta viðkvæma hraun þarna uppfrá – og  um land allt, því víðar færu þeir væntanlega?  Ógerningur væri að stýra eða fylgjast með ferðum þeirra og gerðum á hálendinu.  Hér væri því ekki stefnt í umhverfisslys.  Hér væri stefnt í umhverfishamfarir.  

Og hliðaráhrifin?  Tíföldun lendinga og tíföldun flugtaka millilandavéla með tilheyrandi mengun, sem gerði álverin hér að umhverfisvænni starfsemi í samanburðinum.  Tilheyrandi útþensla vegakerfisins með hraðbrautum sem skæru hálendið og margföldun rútna, fjallabíla, bílaleigubíla og flugvéla í innanlandsflugi með tilheyrandi mengun, samgöngumannvirki, WC og snyrtingaraðstaða um byggðir og óbyggðir landsins, og halda mætti áfram lengi.

Við höfum í hendi okkar að stýra þeim fórnum á náttúrunni sem hljótast af mannvirkjagerð vegna virkjana og stóriðju en milljónum ferðamanna sem flæða um viðkvæm víðerni landsins verður ógerlegt að stjórna.  Gefið væri þá frjálst skotleyfi á náttúri Íslands.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 10:49

2 identicon

Hver er kominn til að segja að heildstætt umhverfismat sé betra en að hver og ein framkvæmd fari í umhverfismat? Umhverfisráðherra gat ekki svarað þeirri spurningu sjálf í kastljósþætti í vikunni. Því hefur hún að virðist ekki hugmynd um hvað hún var að úrskurða! Það er því neyðarlegt að umhverfisráðherra Íslands veit ekki um hvað hann var að úrskurða og enn neyðarlegra að hann eigi að sannfæra fólk um eitthvað sem hann veit ekki hvað er.

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 10:50

3 identicon

Spurningar til Hjálmars Boga.

Ef Century sameinast Alcoa sem er talið mjög líklegt enda samþjöppun hröð á markaðnum. Telur þú æskilegt að Alcoa eigi fjórar álverksmiðjur á Íslandi - að opinber orkufyrirtæki hafi skuldsett sig sem nemur 300 milljörðum til að selja fyrirtækinu orkuna á lágmarksverði? Og ef Rusal kaupir Century - erum við komin í æskileg viðskiptasambönd?

Eru einhver mörk fyrir því hversu mörg álegg við eigum að setja í eina körfu?

Hefur þú kynnt þér aðbúnað fólks þaðan sem súrálið mun koma á Jamaica. (sbr. www.jbeo.com)

Og Sigurjón:

Með tilliti til menntunar þinnar og reynslu. Gætir þú búið á Húsavík ef þú vildir flytja ,,heim". (Þótt þú fílir þig best í Grímsnesinu). Og ef þú gætir það - værir þú þá ekki dæmi um eitthvað annað? Og kannski Hjálmar Bogi - Hvað lærðu jafnaldrar hans og hvar eru þeir í dag? Gætu þeir flutt heim með tilliti til menntunar sinnar og reynslu? Þá er ég að segja án tillits til þess hvort súráls, álver eða pólífónkór verði settur niður á Norðurlandi og án tilliti til þess hvort þú viljir stofna félag um blómarækt, sadó masó eða leggjast í klappliðið.

Getur verið að með því að skoða það sem kynslóð Benedikts frá Auðnum gerði

ef nokkrir árgangar hittast - til dæmis árgerðir 1970-1980 úr þingeyjarsýslum - að þar finnið þið einhver svör - hvað veldur því að menn kjósa ekki að flytja aftur heim þótt þeir gætu það og samfélagið þyrfti kannski að horfa aðeins í eigin barm. Upptalning á verkefnum sem ekki hafa tekist er í fullu samræmi við hvernig frumkvöðlastarf fer fram. Krókódílar og súrál brást - en hvalaskoðun, gulrætur og þekkingarsetur hefur tekist. Aðeins lítilll hluti hugmynda tekst.

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 12:19

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta kallast nú orðhengilsháttur hjá ykkur "nýyrðasmiðunum". Í viðskiptum þykir jákvætt að selja mikið magn af einhverju, jafnvel þó það þýði lægra einingaverð, magnið bætir það upp.

Andri, hvað er neikvætt við það þó viðskiptaaðilar okkar sameinist og styrkjist? Ég sé ekki að það skipti neinu máli. Það sem þú ert eflaust að meina er að þá geti kaupandi orkunnar hagað sér eitthvað öðruvísi gagnvart okkur en ef þeir væru fleiri og smærri. Að ef við gerum ekki eins og stóri kaupandinn vill, þá hóti hann að pakka bara öllu draslinu saman og hverfa á brott. Eða ertu ekki annars að meina þetta?

Ef það yrði raunin, þá er sko mér að mæta!

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 13:38

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þó að það sé nú varla að maður þori að leggja orð í belg af ótta við að vera úthrópaður sem greindarskertur eða skipað að sleppa því að setja inn athugasemdir, langar mig samt að benda Hjálmari Boga á eina staðreynd. ESB hefur látið frá sér þá tilskipun að gera eigi heildstætt umhverfismat þegar um margþættar framkvæmdir er að ræða með hættu á samlegðaráhrifum:

"The European Commission and the European Court of Justice have insisted on the importance of doing cumulative impacts studies when the assessment of multiple individual projects could not give the right results".

Það vill svo til, hvort sem fólki líkar betur eða verr, að okkur ber að framfylgja þeirri stefnu hér á landi. Reyndar er það nú svo að án EES samningsins væri umhverfismat líklega óþekkt fyrirbæri á Íslandi og sennilega búið að rústa flestum háhitasvæðum okkar nú þegar.

Það er ófyrirgefanlegt að Þórunn skuli ekki fá meiri stuðning frá sínum eigin flokki og mun aldrei nokkur maður trúa því að Samfylkingin meini það sem hún segir í umhverfismálum. "Fagra Ísland" var ekkert annað en auvirðileg lygi í örvæntingarfullri kosningabaráttu þar sem framan af leit út fyrir mikið fylgishrun flokksins. Eitt stærsta baráttumál Samfylkingarinnar, að undirbúa inngöngu í ES, hefur sömuleiðis verið stungið undir stól og verð ég að játa að ég botna ekkert í því fólki sem vill kjósa þetta lið aftur á þing.

Sigurður Hrellir, 8.8.2008 kl. 15:32

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrirtækið Þeistareykir er sjálfstætt fyrirtæki sem vill selja orku. Orka þeirra er ekki bundin við álver á Bakka, afhverju að spyrða það saman?

Ég tek undir með þér Sigurður, Fagra Ísland var kosningatrikk og kemur ekki á óvart þegar kratar eru annarsvegar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 16:28

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikið óskaplega eru þeir orðnir margir sem fyrirlíta landið sitt og eigin uppruna þar með. Við eigum svo ótrúlega margraddaðan kór sem krefst þess að hver fermetri þessa lands sé blóðmjólkaður til hins ítrasta.

Ég hef hlustað á kór vel skólamenntaðra manna syngja einum rómi sönginn:

"Það er sko á hreinu að ef þessum umhverfishálfvitum tekst að stöðva hagvöxtinn með allri fjallagrasaheimskunni þá er ég sko fluttur af þessu andskotans skeri, One Way Ticket!

Það er svo aftur á móti spurningin hvort þetta fólk þarf meira á þessu landi að halda en landið á þeim?

Árni Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 16:46

8 identicon

Íslenskt umhverfismat

Ég veit að hann er sekur

og hann verður hengdur í haust.

Hann fær réttláta málsmeðferð

sem ég vona að tefji ekki

fyrir hengingunni

ef svo illa vill til að málið fari fyrir hæstarétt

þá ætti hengingin ekki að tefjast

nema um nokkrar vikur

og þá er alltaf hægt að breyta lögunum

og ef það gengur ekki

látum við heimamenn ráða

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 16:54

9 identicon

Það er alltaf voða gaman að fabúlera með útópíska draumóra Andri Snær, um falleg ævintýri, fegurð heimsins og réttlæti handa öllum; „Blómabörn Húsavíkur komi nú saman um næstu helgi og bjargi heimabyggðinni frá vondu álkapítalistunum.  Gítar og blóm í hári æskileg.  Hari krisna“ 

Þessir draumar rættust nú ekki hjá okkur 68 kynslóðarbörnunum, manstu. Ekki tókst heldur að koma þessu á koppinn með útópíu kenndri við kommúnisma.  Ætli ein tilraun til að breyta heiminum sé ekki nóg á ævi flestra og þá snúi maður sér að því að fást við lífsins óvægna raunveruleika með sínum bláköldu staðreyndum.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 19:16

10 identicon

Umræðan er komin víðsfjarri kjarnanum. Ég hef lagt inn nokkrar spurningar til Andra Snæs sem hann hefur aldrei svarað og er það miður. Hvað eru æskileg viðskiptasambönd? Svarið mitt flest í spyrja Andra Snæ svo, ég keypti mér golfbuxur um daginn og inn í þeim stóð, made in Cambodia. Hefði égf átt að sleppa því að kaupa hana?

Við Árna Gunnarsson segi ég, hvort borðar þú til að lifa eða lifir til að borða? Spurningin er fáránleg en í takt við hans innlegg hér.

Ég vil taka undir með Sigurði Hrelli vegna Fagra Íslands. Þórunn er í raun að vinna eftir því og undarlegt að hún hljóti ekki meir stuðning við þennan gjörning af samflokksfólki. Bæði Kristján Möller og Einar Már, þingmenn Samfylkingarinnar, studdu Fagra Ísland en vilja ekkert kannast við það núna. Það sýnir að málið er pólitískt. Vegna umræðu um ESB þá felst alltaf í því huglægt mat hvað eru margþættar aðgerðir, hvaða aðgerð tengist hverri o.s.frv. Því hefur enn ekker verið svarað, hver er kominn til með að segja að heildstætt umhverfismat gefi bestu mögulegu mynd af áhrifunum?

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 20:19

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég býst við að ég viti jafn mikið og þú um samþættingu þess að borða og lifa Hjálmar Bogi. Kæmi mér reyndar ekki á óvart þó ég reyndist vita talsvert meira um það mál en þú.

Árni Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 20:26

12 identicon

HB: Ef buxurnar þínar valda skógareyðingu, eitrun á vistkerfum og heilsutjóni á þeim sem framleiddu þær, og ef þær hafa auk þess verið grafnar undan heimilum fólks þá ættirðu að fara í golf á gömlu buxunum. Ef þær eru auk þess 30 sinnum orkufrekari en buxur úr einhverju öðru efni ættirðu að henda þeim. Það er raunveruleiki Báxít og súráliðnaðarins sem þú ættir að kynna þér áður en þú fagnar sjálfsmarkinu.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item220478/

Sigurjón hefur enn ekki svarað hvort hann gæti flutt á Húsavík með þekkingu sína eða starf ef hann aðeins vildi það. Það er ekkert hippalegt við það. Ég meina það er maður á Húsavík sem lifir á því að sýna getnaðarlimi.

andri snær Magnason (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 23:13

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Rökfimi borgarskáldsins er aðdáunarverð.... eða þannig.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 23:23

14 identicon

Best væri ef allir gengu bara um naktir. Þá fer engin orka í að framleiða föt. Andri Snær hefur fengið mýmargar spuringar en engu svarað. Hvaða maður er það á Húsavík sem LIFIR á því að sýna getnarlimi??? Hér á Húsavík er rekið Reðasafn og ljóst að Andri Snær hefur ekki kynnt sér þann rekstur svo mikið er víst. Ég hvet Andra Snæ til að svara efnislega þeim spurningum sem beint hefur verið til hans bæði hér við þessa grein á blogginu og öðrum.

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 00:05

15 identicon

Úff - þetta er að verða dálítið þrúgandi. Ég sé engar spurningar frá HB og finn þær ekki. Og ég skil ekki eitt. Hvers vegna er svona erfitt að svara spurningu um hvort Sigurjón Pálsson gæti búið á Húsavík ef hann aðeins vildi það?

ASM (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 00:18

16 identicon

Eftirfarandi spurningar hafa þegar komið fram.

  1. Hvers vegna meginþorri þjóðarinnar býr á suðvesturhorni Íslands?
  2. Á Húsavík hefur verið mikil fólksfækkun en þrátt fyrir það heldur sveitarfélagið uppi háu þjónustustigi sem leiðir til þess að færri eru til að greiða það sem þarf til þess að svo megi vera. Það leiðir til þess að fólk flytur eða að þjónustustigið skerðist verulega. Myndi Andri Snær og Ómar Ragnarsson sætta sig við það?
  3. Hvað finnst þér um að orkan í álverið við Bakka kæmi aðeins frá gufuaflsvirkjunum? Þeistareykjum, Kröflu, Bjarnarflagi og Gjástykki?
  4. Hvernig væri samfélag aðeins skipað háskólamenntuðum einstaklingum?
  5. Hvað heldurðu að Norðurþing fái í fasteignagjöld á ári sem tekjur af álverinu? Sorpgjöldum? Holræsagjöldum? Hafnargjöldum?
  6. Veltu því fyrir þér Andri Snær hvers vena kýst þú að búa þar sem þú býrð? Hvað er það sem fær þig til að velja að búa einhvers staðar?
  7. Hver er þessi gegndarlaus óvirðing við landið okkar í þessu verkefni á Húsavík?Var Nesjavallavirkjun virðingarleysi? Dæmi hver fyrir sig. Er Hellisheiði virðingarleysi?
  8. Hvaða framkvæmdir á að meta heildstætt? Hafnarframkvæmdir, samgögnur, línulögn, verksmiðjuna sjálfa, virkjunina, o.fl.? Gefur heildstætt umhverfismat endilega gleggstu myndina?
  9. Hvað er fólgið í umhverfismati? Allir geta verið sammála því að stórar framkvæmdir á að meta vegna umhverfissins en hvað á að meta? Samfélagsáhrif, þjóðhagslega áhrif, umhverfisleg áhrif, hagræðingu, kostnað móti tekjum, o.fl.?
  10. Hver er kominn til að segja að heildstætt umhverfismat sé betra en að hver og ein framkvæmd fari í umhverfismat?

Þessar spurningar hafa allar áður komið fram en Andri Snær aldrei svarað. Gjöri hann svo vel að svara þeim fyrst hann var svo kurteis að biðja um þær í heild sinni.

Við þetta vil ég bæta.

  1. Hefur Andri Snær kynnt sér starfsemi Hins íslenska reðasafns?

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 00:35

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í þeim þjóðgörðum sem ég hef komið í erlendis er ekki sama stjórnleysið og hér á landi. Görðunum er skipt í svæði eftir umferð, og á sumum þessara svæða og göngustíga er ítala og það tryggt að fólk fái þá einveru sem það sæksti eftir- og borgar þá líka fyrir. 

Agaleysið hér á landi skapar fyrirbrigði eins og nýlegar skemmdir við Landmannalaugar og við tímum ekki að halda uppi almennilegri þjónustu eða eftirliti. Lögregla sem kemur tvisvar á sumri á svæðið er bara brandari.

Ég tel persónulega ekkert keppikefli að moka inn peningum með því að skófla inn ferðamönnum. En þegar samtíminn setur allt í hagnaðarkröfur tel ég að við gerti átt bandaríska setningin "to beat them at their own game", að bjóða betri fjárhagslegan kost ef það er það eina sem menn hugsa um. 

Í Yellowstone-þjóðgarðinum kemur ekki til greina að fara virkjanaleiðina og þrátt fyrir tveggja milljón manna ferðamannastraum á ári tekst að leysa úr því með réttum aðgerðum. Þar getur sá sem vill borga fyrir það fengið að ganga gönguleið þar sem einvera hans er tryggð. Það er hægt að gera ýmislegt fyrir tekjurnar af 2 milljónum gesta en hér á landi tíma menn ekki neinu slíku, - halda að hægt sé hægt að græða án þess að kosta nokkru til.   

Ómar Ragnarsson, 9.8.2008 kl. 00:44

18 identicon

Andri Snær.

Ég hef ætíð verið þess fullviss að ég ætti eftir að flytja til Húsavíkur aftur - en enginn er eyland.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 15:18

19 identicon

Hjálmar Bogi spyr:

Hvers vegna meginþorri þjóðarinnar býr á suðvesturhorni Íslands?

SV: Ég held að svarið við þessu sé heil bók? Ég skrifaði reyndar um þetta í minni síðustu bók sem ég veit ekki hvort þú hafir lesið. Borgir um allan heim vaxa vegna þess að borg er aflvél sem skapar störf og verðmæti vegna þess að hún auðveldar samskipti fólks, viðskipti og sérhæfingu. Á hverju lifir Kaupmannahöfn? Engin orka, engar auðlindir og tvær milljónir? Reykjavík (og að vissu marki Akureyri) telja sig vera heimsborgir og rembast við að gera meira en sambærileg samfélög ættu að geta gert - þótt Reykjavík hafi verið einn stærstu sjávarútvegsbær á landinu hefur fókusinn alltaf verið á ,,eitthvað annað". Það er jarðvegur fyrir alls kyns atvinnugreinar. Það er auðvelt að koma sér fyrir og finna sér farveg. (Þetta er ekki tæmandi svar)

HB: Á Húsavík hefur verið mikil fólksfækkun... og skerða þjónustu.

sæll - nú svarar þú - ef þú horfir á vini þína, jafnaldra og árgangana sem ólust upp á húsavík fædda frá 1970-1985 - hvað er þetta fólk að gera gæti það gert það á Húsavík. Ef þú ímyndar þér í smá stund að álverið verði á Siglufirði. Mér finnst alltaf jafn sorglegt að sjá í fréttum fullan sal af miðaldra og eldra fólki álykta um stóriðju í óljósri von um heimkomu unga fólksins. Hvernig væri að sjá fullan sal af árgangi 1970-1985? Og kannski væri fróðlegt að sjá hvað kæmi út ef það væri bannað að segja orðin stóriðja og ferðaþjónusta.

HB: Hvað finnst þér um að orkan í álverið við Bakka kæmi aðeins frá gufuaflsvirkjunum? Þeistareykjum, Kröflu, Bjarnarflagi og Gjástykki?

SVAR: Í fyrsta sinn sem ég stakk niður penna um þessi mál þá var fljótsdalsvirkjun í umræðunni, Eyjabakkar og lítið álver á Reyðarfirði sem átti að bjarga þjóðinni. Ég skrifaði grein um að á Þeistareykjum væri líklega næg orka fyrir þetta litla álver og allir gætu verið vinir og lifað í sátt. Þá vissi ég ekki að orkumenn hér á landi virðast ekki kunna sér hófs í umgengni við landið og hentu tappanum þegar þeir fengu loksins að opna flöskuna. Þeir ætluðu sér hvort tveggja og höfðu engan áhuga á neinum sáttum eða smærri skömmum. Og þar sem þetta eru mest allt karlmenn með keppnisskap þá hleypur þeim kapp í kinn þegar andstæðingar birtast og ganga jafnvel enn lengra. Það er leitt vegna þess að andstæðingurinn er vinur eða frændi - þótt menn kjósi stundum að sjá hann sem Saving Iceland. 500-600MW úr þessum svæðum er of mikið. Gjástykki á að friða, það segja mér bændur í Aðaldal og jarðfræðingar. Það er eftirsjá í Þeistareykjum. Og álverið þarf Skjálfandafljót og kannski Skagafjörðinn. Þannig var það líka hugsað í upphafi - þegar Alcoa kannaði staðarvalið.

HB: Hvernig væri samfélag aðeins skipað háskólamenntuðum einstaklingum?

SVAR: Það er hið fullkomna samfélag þar sem allir taka vísindalega réttar ákvarðanir byggðar á faglegri þekkingu og rannsóknum. Það er samfélag þar sem eiturlyfja er ekki neytt vegna þess að börnin hafa kynnst sér skýrslur um skaðsemi þeirra, bílum er ekki ekið hratt og allt er unnið í fullkominni sátt við náttúruna. Það er samfélag án flokkadrátta og stjórnmála vegna þess að menn hafa fundið sannleikann og öll orðræða er greind jafnóðum af kynjafræðingum.

Ef þú vilt fá alvöru svar þá þarft þú ekki að hafa áhyggjur: Við eigum nefnilega mjög langt í land, hvort sem um er að ræða iðnnám eða doktorsgráður: Þá vitna ég í skýrslur:

Háskólamenntaðir starfsmenn á vinnumarkaði á Íslandi voru 25.800 á árinu 2001, sem var 16% af vinnuaflinu, og er hlutfallið mun lægra en í löndum Evrópusambandsins.

Hlutfall ófaglærðra á vinnumarkaði, þ.e. fólks sem ekki hefur lokið framhaldsskólanámi, er með allra hæsta móti hér á landi, eða tæp 40%. Ljóst er að margt af því fólki sem ekki hefur lokið framhaldsnámi stendur höllum fæti þar sem atvinnulífið tekur sífelldum breytingum. Um leið liggur fyrir að takmörkuð grunnmenntun og starfsmenntun stendur samkeppnishæfni og nýsköpun fyrir þrifum." Þetta segja samtök atvinnulífsins.

Aldamótakynslóðin var nánast óskólagengin og talaði óhikað um menntun. Þingmenn okkar fengu tækifæri til að mennta sig en gerðu það margir hverjir ekki og þeir tala ekki um menntun vegna þess að þá segja þeir kjósendum sínum að hugsanlega skorti þá eitthvað og það er mjög viðkvæmt. Þess vegna hafa menn frekar talað niður menntun heldur en hitt hér á landi. Kynslóð átti kost á menntun en kaus að fara frekar fyrr á vinnumarkaðinn. Þess vegna endurspeglar það sem þú sagðir frasa sem maður heyrir oft í heitum pottum hérlendis en það byggir því miður ekki á neinum veruleika. Ekki heldur þegar við segjumst vera svo vel menntuð. Herinn og of mikill fiskur varð til þess að víða á landinu þótti tilgangslaust að hanga of lengi í skóla.

Samtök iðnaðarins í fyrra:

Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990 til 2004 sköpuðust vegna hátækni. Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um 4 þúsund í sjávarútvegi. Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.

Í hátækni eru 40% starfsfólks með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun. Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést aðvirðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju. Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu, einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en 70% flyst úr landi.

http://www.si.is/starfsgreinahopar/sprotafyrirtaeki/frettir-og-greinar/nr/2825

Hvað heldurðu að Norðurþing fái í fasteignagjöld á ári sem tekjur af álverinu? Sorpgjöldum? Holræsagjöldum? Hafnargjöldum?

Hafnargjöld í Straumsvík voru um 40 milljónir á ári. Orkuverðið fyrir austan sparaði Alcoa um 20 milljarða á ári. Um 4000 árslaun verkamanna. Um önnur gjöld er ég ekki viss enda hef ég sagt þér, álverið er of stórt og þarf meiri orku en ásættanlegt er, það notar meira en þér var sagt í fyrstu þegar þú myndaðir þér skoðun á verksmiðjunni.

Ég get bara vísað í Forstjóra Marel í grein í MBL:

,,Í álverinu verða til um 400 ný störf, stjórnvöld eru því tilbúin að fjárfesta um 250 milljónir í hverju starfi sem skapast án þess að gera eðlilegar kröfur til arðsemi fjármagnsins. Í ofanálag við þessa slöku arðsemi raforkuframleiðslunnar og miklu fjárbindingu þá eru stjórnvöld og sveitarfélög einnig tilbúin að gera sértæka samninga við stóriðjufyrirtækin. Þessir samningar eru nokkuð breytilegir milli fyrirtækja, en sem dæmi má taka nokkur atriði úr samningnum við Fjarðaál. Fyrirtækið fær 90% afslátt af stimpilgjöldum, það er undanskilið vörugjöldum, markaðs- og iðnaðarmálagjaldi og greiðir 5% tekjuskatt af arði í stað 10%. Þá fær fyrirtækið verulegan afslátt af leyfisgjöldum vegna byggingarframkvæmda og umtalsverðan afslátt af fasteignagjöldum til frambúðar. Það þarf ekki að taka fram, að hátæknifyrirtæki, þjónustufyrirtæki og önnur fyrirtæki í eigu Íslendinga fá engar þessara ívilnana.

Áhrif á starfsmenn og eigendur annarra fyrirtækja

Þessi atvinnustefna með gríðarlegum inngripum stjórnvalda hefur haft mikil áhrif á fyrirtæki í útflutningsiðnaði og samkeppnisiðnaði. Skýrustu dæmin sem endurspegla lakari kjör og atvinnuóöryggi starfsmanna þessara fyrirtækja eru launalækkanir sjómanna um 20-30% og uppsagnir starfsmanna í fiskvinnslu. Í raun hafa starfsmenn allra annarra fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisiðnaði orðið fyrir sambærilegum áhrifum. Hluthafar fyrirtækjanna hafa einnig orðið fyrir mikilli eignaskerðingu og jafnvel hefur komið til gjaldþrota fyrirtækja vegna langvarandi erfiðra rekstrarskilyrða."

Þetta var forstjóri Marels sem hefði skapað um 100 - 200 störf hérlendis ef krónan hefði ekki farið í rugl.

HB: Veltu því fyrir þér Andri Snær hvers vena kýst þú að búa þar sem þú býrð? Hvað er það sem fær þig til að velja að búa einhvers staðar?

Ég er fæddur í Reykjavík og hef búið í Bandaríkjunum og Seyðisfirði. Ég á vonandi eftir að búa erlendis í einhver ár og mig hefur alltaf langað til að prófa að búa aftur á Seyðisfirði eða svipuðum stað. Ég er rithöfundur, konan mín er hjúkka. Við gætum búið hvar sem okkur langar. Reykjavík er að mörgu leyti ágæt. Ég er ekki í 101 og ólst upp í 110 árbæ. Amma mín býr þar, bróðir minn, afi minn, móðursystur tvær og margir vinir.

HB: Hver er þessi gegndarlaus óvirðing við landið okkar í þessu verkefni á Húsavík? Var Nesjavallavirkjun virðingarleysi? Dæmi hver fyrir sig. Er Hellisheiði virðingarleysi?

Virðingarleysið er falið í stærðinni og því að það þarf að flæma Jónas bónda af Héðinshöfa í nafni hagsmuna heildarinnar. Þarna er fögur aðkoma að tjörnesinu og fallegt að horfa á kinnafjöllin og höfðana. Þarna verður mjög ljótt. Nesjavallavirkjun er eins og hitaveita Húsavíkur eða Krafla. Hellisheiði er sama marki brennd og háhitinn fyrir norðan, of mikið á of skömmum tíma, í sumum tilfellum ágeng nýting og mikil óvissa. Það á að gjörnýta flest svæðin vegna álvers í Helguvík. Þú getur séð það á www.natturukortid.is.

HB: Hvaða framkvæmdir á að meta heildstætt? Hafnarframkvæmdir, samgögnur, línulögn, verksmiðjuna sjálfa, virkjunina, o.fl.? Gefur heildstætt umhverfismat endilega gleggstu myndina?

Ég vil vita hvað álverið þarf að vera stórt og hvað þarf að virkja. Þá er hægt að taka afstöðu. Það er þegar ljóst að það er of stórt og endurtek önnur rök. Of mikið vald til eins fyrirtækis í einu kjördæmi. Það er ólýðræðislegt að lauma inn litlu álveri sem allir vita að þarf að stækka. Norðurál er sérfræðingur í þeirri aðferð og tæknin gerir ráð fyrir 350.000 tonna verksmiðju.

HB: Hvað er fólgið í umhverfismati? Allir geta verið sammála því að stórar framkvæmdir á að meta vegna umhverfissins en hvað á að meta? Samfélagsáhrif, þjóðhagslega áhrif, umhverfisleg áhrif, hagræðingu, kostnað móti tekjum, o.fl.?

Álverið í Helguvík hefði átt að meta heildstætt. Umhverfismat á að vera hluti af ákvörðunarferlinu. HVORT. Ekki bara formsatriði. Umhverfismat fyrir norðan mat friðun neikvæða fyrir samfélagið.

HB: Hver er kominn til að segja að heildstætt umhverfismat sé betra en að hver og ein framkvæmd fari í umhverfismat?

Er það ekki Þórunn?

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 17:25

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"SVAR: Í fyrsta sinn sem ég stakk niður penna um þessi mál þá var fljótsdalsvirkjun í umræðunni, Eyjabakkar og lítið álver á Reyðarfirði sem átti að bjarga þjóðinni".

Ég mæli með því Andri Snær að þú vinnir heimavinnuna þína aðeins betur áður en þú tjáir þig spekingslega um þessa hluti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2008 kl. 17:42

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

HB: Hvernig væri samfélag aðeins skipað háskólamenntuðum einstaklingum?

SVAR: Það er hið fullkomna samfélag þar sem allir taka vísindalega réttar ákvarðanir byggðar á faglegri þekkingu og rannsóknum.

Hvað heitir veröldin sem þú býrð í Andri Snær? Haldin hafa verið málþing í Skandinavíu (Ég held hér líka) af verkalýðsforystunni og fl. um að draga úr áherslum á háskólamenntun en reyna að auka iðnmenntun, vegna þess að með áframhaldandi þróun horfir til vandræða.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2008 kl. 17:47

22 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Virðingarleysið er falið í stærðinni og því að það þarf að flæma Jónas bónda af Héðinshöfa í nafni hagsmuna heildarinnar

Ef áhugafólk um bætt lífsskilyrði á Húsavík þurfa að berjast við röksemdarfærslur af þessu tagi, þá þarf það ekki að hafa miklar áhyggjur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2008 kl. 17:49

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég bendi á nýja skoðanakönnun á mínu bloggi

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2008 kl. 17:54

24 identicon

Svar Gunnars Th. styrkir grun minn um að hann sé ekki til heldur alteregó myndlistarmanns frá Akureyri að þykjast vera ,,landsbyggðarmaður". Mig grunar að hann sé búinn til af Snorra Ásmundssyni á Akureyri eða bróðir hans. Það er eitt að vera pr sjálfboðaliði fyrir Alcoa en ég trúi ekki að til sé í alvöru fólk sem getur ekki gert neinn greinarmun á raunveruleika, hálfkæringi eða öfugmælum í svari við spurningu sem er útópísk eins og ,,samfélag eingöngu með háskólafólki". Ekki síst þegar í kjölfarið fylgir ,,raunverulegt svar". Trúir hann í alvöru að undirritaður telji að samfélag eingöngu búið háskólafólk sé líka svona: ,,Það er samfélag án flokkadrátta og stjórnmála vegna þess að menn hafa fundið sannleikann og öll orðræða er greind jafnóðum af kynjafræðingum." Æ - ég vildi krydda mjög leiðinlega umræðu með smá bulli - ég mátti bara til, ha - (létta þetta aðeins enda reyndi HB að reka ofan í mig reðursafnið sem ég hef bara heimsótt en ekki kynnt mér þótt ég vissi ekki betur en að Sigurður Hjartarson væri fluttur til Húsavíkur með safninu) - bregða upp mynd af fáránleika samfélags eingöngu háskólamanna. Gunnar - ef þú ert til í alvöru þá getur þér ekki verið alvara. Snorri stígðu fram, þetta er mjög fyndið hjá þér en full langt gengið - ég vandaði mig við þetta svar - ég reyndi meira að segja að vera fyndinn í svari um háskólamenn - ég las skýrslur, tölfræði - töflur og já - úff... O já hvað Alcoa er í góðum höndum ef þú endurspeglar ,,heimamanninn", Vá hvað þeir geta lagt undir sig verðmæt svæði, vá hvað þeir geta gert góðan díl. Vá hvað við erum í vondum málum, vá hvað þetta er klikkað - vá hvað það er engin fyrirstaða. Og ég er ekki heimamaður, ég á ekkert land - ég á bara slaufur og malbik - annað kemur mér ekki við. Gunnar - þú átt landið - þú ert heimamaður - Alcoa talar beint við þig, rússarnir koma beint til þín með olíuhreinsistöðina, Landsvirkjun beint til þín með virkjunina, notar engan hálfkæring - kemur sér beint að efninu: Þú verða ríkur - þú fá þessar glerperlur. Vá hvað við erum í góðum höndum. Það er að segja, ef þú ert til í alvöru. Ég vona ekki. Nema þú hafir verið að grínast - kannski er það ég sem skil ekki neitt. Svarið var til HB og byggt á rökum og skýrslum en þú setur bara rugl inn á milli. Úff hvað þetta er hræðilegt. Ó hvað þetta er leiðinlegt. Hvílík og önnur eins tímasóun. Díses kræst.

ASM (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 18:42

25 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

OK, þetta skýrir allt. Þú tala bara í hálfkæringi og öfugmælum. Umræðan um þessi mál varðar okkur landsbyggðarfólkið meira en svo til þess að þú fáir mig til þess að taka þátt í slíku með þér.

Ber að líta á öll þín skrif sem hálfkæring og öfugmæli með blandi af útópískum draumum? Allt sem þú segir hér ber merki þess og Draumalandið líka

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2008 kl. 23:15

26 identicon

Ykkur landsbyggðarfólkið? Ykkur Hvergerðinga? Ykkur Langnesinga? Ykkur Borgnesinga? Ykkur Ísfirðinga? Ykkur Mosfellinga? Ykkur Akureyringa? Ykkur Skagfirðinga? Ykkur Seltirninga? Ykkur í Fljótsdal? Ykkur á Þingvöllum? Meira bölvað ruglið. Þú ert ekki fulltrúi landsbyggðarinnar. Þú ert þú sjálfur. Skrifaðu framvegis ég svo þú sért ekki að draga hálfa þjóðina niður í svaðið.

Andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 10.8.2008 kl. 10:19

27 identicon

Í heild sinni bera svör Andra Snæs vott af ákveðinni vitfirringu. Það sem ég á við með því að í svörunum felst enginn skilningur á því samfélagi sem við búum í í dag en það einkennist af mikilli misskiptingu í víðasta samhengi þess orðs. Svörin við þessum spruningum eru hvorki röng NÉ rétt heldur einkennast af huglægni og skortir stundum skynsemi vegna þess að skilningurinn er ekki fyrir hendi og í stað þess að kynna sér málin til hlýtar gefa menn sér forsendur sem standast ekki raunveruleika íslensks samfélags.

Vegna spurningu 1. Þá gleymir Andri Snær því að að nánast öll opinber þjónusta er í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu og það hefur gífurlega mikil áhrif á samfélagsgerðina og alla framvindu svæðisins. Þessu gleymir Andri Snær.

Vegna spurningu 2. Til upplýsa Andra Snæ um þá borgarafundi sem haldnir hafa verið um atvinnuuppbygginu hefur ungt fólk sett sterkan svip sinn á þá fundi. Ungt fólk sem jafnvel hefur búsetu í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu. Andri Snær svaraði því engu hvort hann myndi sætta sig við skerta þjónustu! Að spyrja hvernig væri að sjá fullan sal af fólki fætt á bilinu 1970-1985 lýsir akkúrat þeim aðstæðum sem uppi eru í atvinnumálum utan höfuðborgarinnar. Þarna er Andri Snær að útskýra, hugsanlega ómeðvitað, hvert vandamálið er sem við erum að ræða.

Vegna spurningu 3. Það er hræðsluáróður að halda því fram að álver við Bakka þurfi orku frá Skjálfandafljóti og hugsanlega úr jökulánum í Skagafirði. Það er ekki rétt.

Vegna spurningu 4. Ég viðurkenni að ég skil ekki svar Andra Snæs, hvort um kaldhæðni sé að ræða eða útópískan draum. Þó vil ég segja að Andri Snær talar um orðið sannleika. Í þessu máli erum við ekki að tala um hvort hlutirnir eru sannir eða ósannir heldur raunveruleika og draumsýn.

Vegna spurningu 5. Andri Snær gefur það í skyn hvaða skoðun ég hef á verksmiðjunni sem á að rísa á Bakka og segir að það sem ég segi sé ekki rétt vegna þess að það sem hann segir er satt. Við hann vil ég segja að fjárfesting í álveri, orku og öðru tengdu þessu verkefni felur í sér fjárfestingu í samgöngum, menntun, menningu, fasteignum. Því er dapurlegt að fjalla aðeins um verksmiðjuna sem einangraða breytu. Það skilja allir sem vilja að skilja að er ekki rétt. Áætluð fasteignagjöld af álveri við Bakka gætu numið 260 milljónum á ári.

Vegna spurningu 6. Andri Snær svara því engu hvers vegna hann býr þar sem hann býr né heldur um það hvers vegna einstaklingar, fjölskyldur eða heilar ættir velja sér að búa þar sem fólk velur að búa. Þetta er lykilspurning og skiptir gríðarlega miklu máli í umræðum um þetta mál.

Vegna spruningu 7. Það dylst engum að ásýnd svæðisins þar sem álverið á að rísa mun breytast. Það gerist við stórar framkvæmdir. Virðingarleysið er fólgið í stærðinni. Þannig að ég get notað sömu rök um það að Reykjavík má ekki stækka meira vegna þess að Kópasker þarf að stækka? Þetta stenst ekki. Fjöllin heita Víknafjöll og höfðarnir heita Bakkahöfði og Héðinshöfði Andra Snæ til upplýsingar. Að Nesjavallarvirkjun er eins og hitaveita Húsavíkur og Krafla skil ég nú ekkert í hvað Andri Snær er að vitna. Það dylst heldur engum að einn ókosturinn við háhitasvæði og orkuöflun á þeim er óvissuþátturinn. Hvers vegna úrskurðaði umhverfisráðherra þá ekki með sama hætti um Helguvík þar sem orkan skal koma frá Hellisheiði?

Vegna spruningu 8. Til að vita hvað álverið á að vera stórt og hvað á að virkja er í fyrsta lagi ekki samverkandi þættir í framkvæmdinni enda þarf ekki heildstætt umhverfismat til að fá svör við þessu. Hver og ein framkvæmd fer í umhverfismat. Af sama skapi um vald í einu kjördæmi á ég þá að segja að Reykjavíkurkjördæmin tvö hafi of mikið val yfir öllu Íslandi? Nei, þessi rök standast ekki. Andri Snær svara því engu um það hvort heildstætt umhverfismat gefi engilega gleggstu myndina þar sem að ekki einu sinni umhverfisráðherra veit hvað felst íþessu mati. Umhverfisstofnun veit það ekki, Skipulagsstofnun veit það ekki. Hver veit það þá? Andri Snær?

Vegna spurningu 9. Umhverfismat er hluti af ferlinu, Þannig hefur það verið, þannig hefur það verið og þannig mun það vera í þessu verkefni sem öðru. Enn svarar Andri Snær því engu hvað umhverfismat á að meta? Svar hans við þessari spurningu er frekar dapur.

Vegna spurningu 10. Ef umhverfisráðherra hefði verið samkvæmur sjálfum sér þá hefði hann metið Helguvík á sama hátt og Bakka. Það gerði Þórunn Sveinbjarnardóttir sem lýsis heigulshætti hennar sem umhverfisráðherra. Andri Snær svara heldur ekki spurningunni. Í spurningunni felst að fá afstöðu hans hvort heildstætt umhverfsmat sé betra en að hver og ein framkvæmd fari í umhverfismat. Hann hefur misksilið spurninguna.

Vegna bónusspurningarinnar þá er það rétt að Sigurður hefur rekið Hið íslenska Reðasafn á Húsavík í núna um 3 ár. En hvernig gengur rekstur þess? Það að flytja safn til Húsavíkur segir ekki að það skyli hagnaði, það þýðir ekki að það sé atvinnuskapandi, það þýðir ekki að fólki fjölgi o.s.frv.

Við Andra Snæ vil ég segja að enn einkennast orð hann í hans af ákveðnum hroka. Hér er enginn að draga þjóðina með í svaðið. Það sem þér FINNST

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 10.8.2008 kl. 22:47

28 identicon

Við Andra Snæ vil ég segja að enn einkennast orð hans af ákveðnum hroka. Hér er enginn að draga hálfa þjóðina niður í svaðið. Það sem þér FINNST er ekki engilega það sem er RÉTT og því væri hollt fyrir Andra Snæ að velta fyrir sér að meiren hugsanlega eru til aðrar skoðanir og meiren hugsanlega eru sumt sem hann segir RANGT og það sem aðrir segja RÉTT. Þessu þyrfti Andri Snær að velta fyrir sér.

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 10.8.2008 kl. 22:51

29 identicon

Kæri HB

Það er mjög sérkennilegt að eiga orðastað við þig. Kannski er það miðillinn sem gerir þig svona reiðan og fjarlægðin í honum - ég vona að þetta hái þér ekki í daglega lífinu. Það er mjög skrítið að eiga orðastað við fólk sem notar orð eins og vitfirring og hroka og þessi sífellda leiðrétting á vanþekkingu manna verður hvimleið. Ég veit alveg hvar kinnafjöllin eru. Af hverju heldurðu alltaf að menn séu svona vitlausir? Ég sýni þér ekki hroka heldur tók ég drjúga stund í að svara fremur löngum spurningarlista. Ég sendi þér skýrslur frá SI sem sýna að við erum eftirbátar nágrannalanda í iðn og háskólamenntun. Ég setti hins vegar fáránlega klausu um fáránleika samfélags eingöngu háskólamanna sem svar við fáránlegri spurningu. Það eru til alveg blómstrandi háskólasamfélög um allan heim. Og það átti að meta Helguvík sem 360.000 tonna álver með öllu tilheyrandi áður en ákvörðun var eða verður tekin. Og í svari mínu voru vísanir í forstjóra Marel um forgjöfina sem álið fær - já fasteignagjöldin voru hækkuð en heildargreiðslur til Íslands voru lækkuð og síðan er það orkuverðið sem skiptir öllu máli fyrir okkur sem ÞJÓÐ þar eru 300 milljónir skítur á priki - en stjórnvöld hafa komið málum þannig til leiðar að við hugsum þetta ekki lengur sem þjóð. Og verkfræðingar eru sáttir ef þeir byggja virkjun á sléttu skuldsett til 40 ára. Litlir molar handa litlum bæ ráða úrslitum - ekki hvort þetta styrki okkur sem þjóð - já eða veiki okkur. En þetta er okkar auðlind og okkar fegurð. En það skiptir ekki máli enda virðumst við ekki vera þjóð eða langa til að vera þjóð sem er mjög sorglegt. Og það er mikilvægt fyrir Alcoa að við séum ekki þjóð. Meðgjöfin aðeins í kolefniskvóta á ári nemur ein og sér milljörðum og afskáttur af orkuverði milljörðum og þá mætti henda því í þjónustu hvar sem er á landinu já jafnvel á Hvolsvelli, Hornafirði eða Bíldudal eða Breiðholti. Og varðandi skerta þjónustu þá spurði ég á móti: Gætu æskuvinir þínir flutt heim ef þeir vildu það og tekið störfin með sér eða fundið sér vettvang fyrir norðan. Fólki fylgir væntanlega þjónusta. Þú svarar því ekki. Þeir vilja álver segir þú en það fríar þá líklega ábyrgð og þeir geta þá búið áfram einhversstaðar í Lindarhverfinu með hvítu sprautulökkuðu eldhússinnréttinguna án samviskubits og talið sér trú um að fjögurra ára gullæði á Húsavík hafi leyst vandann. Þú hefur ekki svarað þeirri spurningu sem er að mínu mati grundvallarspurning. Getur unga kynslóðin eða hluti hennar tekið ábyrgð á sínu samfélagi, flutt heim og byggt það upp á eigin forsendum? En ekki svara. Þetta er allt að verða mjög sorglegt.

ASM (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 00:39

30 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 "Og verkfræðingar eru sáttir ef þeir byggja virkjun á sléttu skuldsett til 40 ára".

Þetta er einfaldlega rangt hjá þér Andri Snær. Það kom út skýrsla eftir Þorstein Siglaugsson, hagfræðing sem Náttúruverndarsamtök Íslands flögguðu af mikilli ákefð. Þorsteinn reiknaði út tap á Kárahnjúkaverkefninu og til þess að fá út tap, þá gaf hann sér forsendur sem tryggðu þá niðurstöðu sem hentaði honum. Aðdróttanir Þorsteins þóttu svo fjarstæðukenndar um færni og starfsheiður þeirra sérfræðinga sem Landsvirkjun  hafði ráðið til sín, að þær þóttu vart svaraverðar. Þó svaraði Guðmundur Ólafsson hagfræðingur og kennari við Háskóla Íslands, bullinu í Þorsteini með tveggja til þriggja síðna greinargerð sem var aðgengileg á netinu og rituð á alþýðumáli svo allir skildu.

Náttúruverndaarsamtök Íslands og Þorsteinn Siglaugsson urðu sér til minnkunnar með skýrslu sinni. Ert þú að bætast í hópinn?

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.8.2008 kl. 02:34

31 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þess má geta að Árni "Greenpeace" Finnsson og Landvernd hafa einnig reynt að skreyta röksemdarfærslur sínar gegn Kárahnjúkafrakvæmdinni með skýrslunni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.8.2008 kl. 04:12

32 Smámynd: Sigurður Hrellir

Mig langar að spyrja hina álverssinnuðu og sjálfskipuðu talsmenn landsbyggðarinnar, Hjálmar Boga, Gunnar og Sigurjón að því hvar þeir vilja draga mörkin á álversvæðingu landsins? Hversu mörg álver af stærðargráðunni 360.000 tonn finnst þeim eðlilegt að setja niður á Íslandi? Verða þeir sælir og sáttir þegar 5 álver verða tekin til starfa eða er það einungis "ágætis byrjun"? Hvenær ætli þeir standi upp og segi: "Hingað og ekki lengra!"?

Í framhaldi af því væri líka áhugavert að heyra hvort það séu yfirleitt nokkur virkjanleg vatnsföll eða háhitasvæði á gjörvöllu Íslandi sem þeir telja að beri að hlífa.

Sigurður Hrellir, 11.8.2008 kl. 11:45

33 identicon

Kæri Sigurjón Pálsson, ég er svo glöð að lesa að menn hafi það í hendi sér að stýra þeim fórnum á náttúrunni sem hljótast af mannvirkjagerð vegna virkjana og stóriðju! Viltu vera svo vænn að gera Landsvirkjun grein fyrir þessu; svo þeir geti heft leirfok af bökkum Hálslóns, því það er virkilega verulega hvimleitt vandamál fyrir okkur sem búum á Fljótsdalshéraði og svo mun það valda stærstu eyðimerkurmyndun í sögu lands vors; af manna völdum. Þú getur ekki ímyndað hversu mér er létt að lesa að það sé ekkert mál að sporna við þessu! Einnig vil ég biðja þig að sýna þeim fram á hvernig koma á í veg fyrir landbrot sem verður við Héraðsflóa þar sem Jökla mun ekki bera fram aur þangað lengur sem heldur í við hafið og svo hvernig á að koma í veg fyrir hrun í fiskistofninum sem þarf á næringarefnum þeim að halda sem Jökla hefur borið fram í sjó. Með bestu kveðjum og þakklæti. Gréta Ósk Sigurðardóttir, Vaði, Skriðdal.

PS Ómar - innilega til hamingju!

Gréta Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 13:10

34 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gréta Ósk frá Vaði í Skriðdal: Það hefur ekkert leirfok orðið frá Hálslóni enn og áhyggjur þínar vegna landbrots í Héraðsflóa, þar sem Jökla ber ekki aur þangað lengur og áhyggjur þínar af hruni fiskistofna eru ástæðulausar. Láttu ekki móðursýki vistkvíðasjúklinga rugla þig í ríminu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.8.2008 kl. 14:05

35 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

3 álver í viðbót verður að duga okkur held ég, Sigurður.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.8.2008 kl. 14:06

36 identicon

Gunnar, ég bý á Fljótsdalshéraði og hef nú þegar, ásamt öllum þeim sem hér búa; sjálf tuggið þennan leir, séð hann og fest á filmu; og enda hefur þetta þegar komið í fréttum, sem og að Landsvirkjun væri að glíma við þetta vandamál.  Þætti vænt um útskýringar á því, af hverju áhyggjur af landbroti og hruni í fiskistofnum ættu að vera ástæðulausar; hefur eitthvað nýtt komið fram í þeim málum?

Gréta Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 14:37

37 identicon

Sæl Gréta Ósk og þakka þér athugasemdina.

Ég segi reyndar hvergi að ekki verði færðar neinar fórnir við gerð virkjana og stóriðju því þær verða færðar þar, eins og í öllum framkvæmdum, sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Þú byggir ekki hús, leggur ekki veg, brýtur ekki mó undir tún nema að undir fari ósnert náttúra.  Í hátt í eina öld hafa bændur t.d. ræst fram mýrar til að koma sér upp stærri og betri túnum og gengið þar með freklega á votlendið í náttúru Íslands. 

Í dag þurfa framkvæmdir sem þessar, góðu heilli, að fara í umhverfismat.  Að því loknu vitum við hvaða fórnir verða færðar við framkvæmdina, - nota bene: verði hún leyfð að matinu loknu.  Það er sú stýring sem ég á við hér að framan og biðst ég velvirðingar ef það er eitthvað óljóst.

Ég er sem sagt fylgismaður þess að  framkvæmdir fari í slíkan farveg því annars er ekki hægt að taka upplýsta ákvörðun um hana. 

Mér er hins vegar ekki kunnugt um að ákveði t.d. ferðamálayfirvöld eða ferðaþjónustaðilar að stefna að því auka straum ferðamanna t.d. úr 400 þúsund á ári upp í eina milljón, tvær, fjórar, þá sé þeirri ákvörðun gert að sæta umhverfismati.  En leiðréttu mig í öllum bænum ef þú veist betur.

PS: ég nenni ekki að elta ólar við skrif þeirra sem af lítillæti sínu ákveða fyrir mig hver ég er og hvað ég er.  Þetta á ekki við um þig Gréta Ósk.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 14:50

38 identicon

Svo það sé Andra Snæ alveg ljóst þá er ég ekki reiður maður og síður að það skyldi há mér á nokkurn hátt. Andra Snæ til upplýsingar þá er ég mjög glaðlyndur og síkátur að eðlisfari. Það sem mér gremst aftur á móti er fólk sem tjáir sig um hluti sem það hefur ekki kynnt sér fyrst og að aðeins það getur haft rétt fyrir sér. Andri Snær á ekki að saka mig um að vera reiðan, það er eiginlega bara hlægilegt. Mér finnst enginn maður vitlaus en ljóst er að Andri Snær er kominn í mikið rökþrot í sínum málflutningi. Eins og Andri Snær sagði við Gunnar Th. þá á maður aðeins að svara fyrir sjálfan sig og svarið við spruningunni hans Andra er því já við þeirri grundvallarspurningu sem Andri Snær leggur fram. Vandinn er að fá fleiri til þess og það er grundvallaratriðið í umræðunni. Andri Snær sýnir mér persónulega engan hroka enda á fólk sem hefur samskipti á netinu að hætta því strax ef það er hörundsárt. Heldur sýnir hann heildinni hroka með málflutningi sínum. Auðvita er hvimleitt fyrir mann eins og Andra Snær að vera sífellt leiðréttur það gefur augaleið á sama tíma og menn vilja telja sig málsmetandi mann á landsvísu.

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 14:58

39 identicon

Takk fyrir Sigurjón.

Mér finnst fórnarkostnaður vegna Kárahnjúkavirkjunar miklu meiri en svo, að hægt sé að tala um að alltaf verði færðar ,,einhverjar“ fórnir, enda er þessi framkvæmd stærsta framkvæmd Íslandssögunnar, ekki ,,bara“ verið að ræsa fram mýrar og byggja nokkur hús. Ég óttast bæði fyrirséðar og ófyrirséðar afleiðingar þessarar risaframkvæmdar.

Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni í ljósi þeirra afleiðinga sem hún myndi hafa. Ráðherra gerði álit stofnunarinnar að engu með einu pennastriki.

Ég veit ekki hvernig stjórnvöld hafa ákveðið að bregðast við, verði ferðamannastraumur hingað til lands svo mikill, að náttúru landsins muni stafa ógn af.

Ef til vill með því að setja á laggirnar stofnun, einsog Skipulagsstofnun? Og hunsa svo  álit þeirrar stofnunar, eins og gert var vegna Kárahnjúkavirkjunar-?

Gréta Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 15:20

40 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég sá á mbl.is að Þórunn umhverfisráðherra ætlar að hitta Húsvíkinga að máli og svara fyrirspurnum annað kvöld. Vonandi taka Hjálmar Bogi og félagar hans í Borgarhólsskóla vel á móti ráðherranum og sýna henni fyllstu kurteisi. Það eru ekki allir ráðherrar sem hafa haft hugrekki til að fylgja ákvörðunum sínum eftir á þennan hátt. Hún hefur auk þess mátt þola stóran skammt af ómaklegum gífuryrðum vegna ákvörðunnar sinnar sem þó er fyllilega í anda tilskipunar ESB. Vonandi sýnir ríkisstjórnarfjölmiðillinn okkur svipmyndir frá þessum fundi.

Sigurður Hrellir, 11.8.2008 kl. 21:01

41 Smámynd: Sigurður Hrellir

Hjálmar Bogi varpar hér fram löngum spurningarlista til Andra Snæs er hirðir ekki um að svara spurningum frá mér frekar en Sigurjón Pálsson. Gunnar Th. er þó skömminni skárri. Af svari hans að dæma virðist hann þó vilja láta virkja flestöll vatnsföll og háhitasvæði fyrir álbræðslur. Er það rétt skilið, Gunnar? 

Sigurður Hrellir, 12.8.2008 kl. 10:11

42 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nei, það er ekki rétt skilið Sigurður

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.8.2008 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband