10.8.2008 | 23:36
Skaftártunga, - ekki -tungur.
Það færist í vöxt að farið sé skakkt með örnefni í fréttum. Sveitin, sem Skaftá rennur í gegnum heitir Skaftártunga en ekki Skaftártungur og sagt er í fréttum af Skaftárhlaupinu.
Miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar heitir Hálslón en ekki Hálsalón eins og oft heyrist sagt.
Yst á Reykjanesskaga er Reykjanes eða Reykjanestá en skaginn heitir ekki Reykjanes eins og sífellt er tönnlast á.
Vegurinn milli Svínadals og Skorradals liggur yfir Geldingadraga en ekki Dragháls. Bærinn við hálsinn heitir Dragháls og menn aka ekki yfir hann nema á stærri skriðdrekum en ennþá hafa verið framleiddir.
Vegurinn úr Skagafirði upp á Öxnadalsheiði liggur um Giljareit en ekki Giljareiti eins svo oft heyrist talað um.
Í fréttum heyrist talað um slys á Holtavörðuheiði þegar þau verða við eyðibýlið Fornahvamm sem áður var efsti bær í Norðurárdal.
Í kvöld var talað um Hvítárvallabrú. Ég hef aldrei heyrt það nafn fyrr. Brúin hefur alltaf verið kölluð Hvítárbrú og ef þurft hefur að aðgreina hana frá öðrum brúm yfir ána hefur hún verið kölluð Hvítárbrú hjá Ferjukoti eða brúin yfir Hvítá hjá Ferjukoti.
Fólk talar oft um að hafa komið að Barnafossum í Hvítá. Það er ekki rétt nafn. Fossarnir heita Hraunfossar en Barnafoss er hins vegar ekki langt undan.
Aðeins 30% Reykjavíkurflugvallar er í Vatnsmýri. 70% eru á Skildingarnesmelum og við Skerjafjörð. Það er ekki verið að byggja Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýri því að næstum kílómetri er frá nýbyggingum skólans yfir í syðstu mörk Vatnsmýrar sem liggja fyrir norðan Loftleiðahótelið. Miklu nær væri að segja að Háskólinn verði í Nauthólsvík en í Vatnsmýri.
Listinn er miklu lengri, - þetta er aðeins það sem ég man eftir í fljótu bragði.
Mikið hlaup komið í Skaftárdal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þörf áminning og margt fleira mætti tína til eins og þú tekur fram. Allar þessar nafnabrenglanir kannast ég við nema Hvítárvallabrú hef ég ekki heyrt eða séð nefnda fyrr en núna í fréttunum.
Afskaplega algengt er að Möðrudalur á Fjöllum sé nefndur svo. Heimamenn tala um Möðrudal á Efra-Fjalli. Og þannig ritar Benedikt Gíslason frá Hofteigi þetta bæjarnafn, sagnafróður og málvís umfram aðra menn flesta á sinni tíð.
Árni Gunnarsson, 11.8.2008 kl. 00:19
Elsku kallinn minn. Ég er svo stolt af að við (þjóðin) eigum svona mann eins og þig Ómar...
Ég er ekkert að grínast!!!! Þú ert einn af gersemum okkar - íslensku þjóðarinnar - alveg ómetanlegur - gjörsamlega yndislegur.
Edda (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 00:51
Góðar ábendingar Ómar
Þessi útþynning á örnefnum er víða, til dæmis virðast Þingholtin í Reykjavík virðast nú orðið ná yfir stóran hluta Skólavörðuholtsins, langt inn eftir Laufásvegi og niður í Skuggahverfi.
Flosi (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 08:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.