Rússnesk Súdetahéruð.

Eilífðarmál þjóðernisminnihluta eru flókin og oft erfitt að skera úr um réttmæti þess að í einu ríki eru slíkir hópar ekki taldir eiga rétt á sjálfstæði en í öðru ríki að eiga þennan rétt. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var sett fram sú lausn og framtíðarsýn að fólk fengi að ráða þessu sjálft. Þetta gerðu íbúar Saar-héraðsins 1935 með atkvæðagreiðslu.

Hins vegar gátu þeir sem réðu ferðinni ekki alltaf sætt sig við þetta og Versalasamningarnir báru þess merki. Í Súdetahéruðunum í Tékkóslóvakíu voru þýskumælandi íbúar sem ekki fengu að vera í þýska ríkinu vegna þess að þá voru landfræðileg landamæri Tékkóslóvakíu óverjandi hernaðarlega og Frakkar töldu mikilvægt að Þýskaland væri umkringt ríkjum sem væru með eins sterka hernaðarlega stöðu gagnvart Þjóðverjum og unnt væri. 

Fjöllin voru því látin ráða. Þetta nýtti Hitler sér og æsti Súdetaþjóðverja upp þangað til menn stóðu frammi fyrir því haustið 1938 að láta Evrópustyrjöld skella á eða að gefa eftir að leyfa Súdetaþjóðverjum að sameinast Stór-Þýskalandi, sem þá hafði innlimað Austurríki með glæsilegum fagnandi mannfjölda við innreið Hitlers í Vínarborg.

Chamberlain sagði þegar hann undirritaði friðarssamkomulag í Munchen sem fól í sér innlimun Súdetahéraðanna í Þýskaland: "Hve hræðilegt, hrikalegt og ótrúlegt væri það ef við færum að grafa skotgrafir og setja á okkur gasgrímur vegna deilna i fjarlægu landi milli fólks sem við þekkjum ekki."

Chamberlain hefur réttilega verið álasað fyrir það að hafa misreiknað sig gróflega þegar hann hélt að með þessu hefði hann "tryggt frið um okkar daga" með hinu illræmda rsamkomlagi. Þvert á móti gaf þetta Hitler byr undir báða vængi við þá iðju sína að gera samningana á blaðinu, sem Chamberlain veifaði við heimkomuna, ekki pappírsins virði. 

 Samt var Chamberlain aðeins að uppfylla þá göfugu hugsjón Wilsons Bandaríkjaforseta að þjóðarbrot fengju að ráða sjálfir hvar í ríki þau skipuðu sér.

Öll sagan síðan sýnir hve erfitt það er í raunveruleikanum að setja eina reglu sem gildir um öll svona deilumál.

Þjóðverjar uppskáru svo beiskan ósigur og skömm í stríðslok að nánast þegjandi og hljóðlaust sættu allir sig við það að um 14 milljónir manna voru neyddar til að flytja frá átthögum sínum í Evrópu eftir stríðið til þess að skapa friðvænlega tíð.

Dæmi um þetta er Austur-Prússland þar sem þýskt fólk, sem hafði búið þar mann fram af manni í aldir, var neytt til brottfarar og þetta svæði gert að hluta Rússlands sem á ekki einu sinni landamæri að því landi sem það er hluti af. Engu hefur samt dottið í hug að breyta þessu til baka.

Baskaland? Kosovo? Suður-Ossetía? Abkasía? Kúrdistan? Hver af þessum svæðum eiga rétt á að vera sjálfstæð ríki? Öll? Engin? Sum? Og þá hver?

Pólitík er skrýtin tík og alþjóðapólitík sýnist oft kolrugluð tík.  

 


mbl.is „Rök Rússa sömu og Hitlers"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Bergz

Góður pistill

Snorri Bergz, 11.8.2008 kl. 21:48

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Góð greining, söguleg upprifjun og skynsamleg ályktun. Ég er hugsi yfir þessum atburðum í ljósi sögunnar.

Gísli Tryggvason, 11.8.2008 kl. 22:00

3 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Vestmannaeyjar og íbúar þeirra - sjálfstætt ríki? Eða bara akureyringar, þeir eru æðri öðrum.

Hver á að ákveða svona? Sagan 10.000 ár aftur í tíman, eða fólkið sem nú lifir á þessum svæðum?

Birgir Þór Bragason, 11.8.2008 kl. 22:00

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Framferði Rússa þverbrýtur alþjóðalög – þarna er ráðizt inn í sjálfstætt lýðræðisríki og sótt gegn bæði óbreyttum borgurum og Tblisi-Baku-olíulæeiðslunni sem er víðs fjarri Suður-Ossetíu. Markmið Rússa virðist að vængstýfa Georgíu og steypa löglega kjörnum stjórnvöldum landsins. Ég blogga um fáeinar hliðar málsins hér í kvöld: Sá viðsjárverði í austri rís upp úr bjarnarhíði sínu, en hygg, að Júlíus Sigurþórsson beri höfuð og herðar yfir þá, sem fjalla um það á Moggablogginu, ásamt Alberti málvini hans o.fl. þar, sjá t.d. þessa nýjustu grein J.S. (þar sem hann telur afar líklegt, að mikill hluti Georgíu verði hernuminn): Því miður hafði ég rétt fyrir mér.

Einu gleymirðu, Ómar, í Súdetadæminu: tilbúnings-mótmælum og uppspunnum "almennum sameiningarvilja" Súdetanna með Þýzkalandi – þetta var allt fabríkerað í Berlín og Berchtesgaden, þýzkir flugumenn látnir búa til tilefnin, rétt eins og þeir gerðu líka í Austur-Prússlandi (Danzig-hliðinu, minnir mig það sé kallað) til að búa sér til "tilefni" til að hefja innrásina í Pólland. Samur hygg ég að sé hugur Pútíns þarna eystra. Og verði Úkraína ekki tekin inn í NATO, verður Krímskaginn o.fl. hlutar Suður- og Austu-Úkraínu næsta eða þarnæsta "deilu-" og útþensluefnið.

Jón Valur Jensson, 11.8.2008 kl. 23:17

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Í þessu máli öllu sést ennfremur, hvílíkt ógæfuspor það var fyrir friðinn í Evrópu, þegar Evrópubandalagið samþykkti í þrákelknislegri vanhugsun sinni að styðja sjálfstæði Kosovo, en 'sjálfstæðisstofnun' þess (sem þó stendur á algerum brauðfótum, haldið uppi af EBé) er ein helzta átylla Rússanna í þessari íhlutun sinni og reitti þá til reiði gegn Vestur- og Mið-Evrópu.

Jón Valur Jensson, 11.8.2008 kl. 23:36

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo eru Ossetar ekki Rússar, þótt Súdetar hafi verið þýzkir!

Jón Valur Jensson, 12.8.2008 kl. 00:11

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Já, pólitíkin er kolrugluð tík og ruglar marga í ríminu. Það getur sagan líka gert ef menn hafa gleymt helstu staðreyndum. Samlíkingar á Súdetalandi við Ossetíu og Afkasíu eru t.d. í hött.  Framferði Pútíns er áframhald stefnu þeirrar sem Sovétrússland sýndi í utanríkismálum. Í hvert og eitt skipti verður að leysa þessi vandamál með því að taka afstöðu til svæðisins og vandámálsins en ekki bera það saman við atburði sem gerðust fyrir 60 árum eða fyrr og koma vandanum ekkert við.

En ríki eins og Rússland er líka hægt að þvinga. Þvingunin kemur þó væntanlega ekki frá vinunum í ESB, sem fá gas beint í æð frá Rússlandi.

Vandinn er fyrst og fremst Pútín og hans pakk, sem eru að endurreisa heimsveldi. Nú er það ekki Kommúnisminn sem er drifskaftið framan á Pútín. Nei, það er þjóðernisfasismi. Rússland er að verða eins konar Hitler-Þýskaland. Það er alvarlegra ástand í Rússlandi en í Georgíu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.8.2008 kl. 10:15

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ossetar eru ekki rússar, eins og Jón Valur minnist á. Flestir hafa þeir þó rússnesk vegabréf, sem hefur verið úthlutað á undanförnum mánuðum, ásamt "efnahagsaðstoð" og vopnum. Erum við að tala um heimatilbúið stríð rússa?

Villi Asgeirsson, 12.8.2008 kl. 10:34

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, vegabréfum "hefur verið úthlutað á undanförnum mánuðum, ásamt "efnahagsaðstoð" og vopnum." Svo vaknar upp einhver Rússadindilshneigð í sumum hér uppi á Íslandi – ég á við gamlan Allaballa og einn ungan, sem ritaði í Fréttablaðið í morgun – sem réttlæta vilja íhlutun Rússa með þessum "rússnesku vegabréfa"-falsrökum!

Samlíking Ómars milli Súdetahéraðs og Ossetíu stenzt ekki. Öllu skelfilegri samlíking gæti átt hér við: þ.e. við þjóðernisóróann á viðkvæmu svæði SA-Evrópu snemma á 20. öld og eitt banaskot, sem hleypti fyrri heimsstyrjöldinni af stað.

Jón Valur Jensson, 12.8.2008 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband