Meira um vegaröxlina.

Í bloggfærslu minni um sllysið á Suðurlandsvegi í gær gerði ég að umtalsefni að vegaraxlirnar á kaflanum milli Hveragerðis og Selfoss væru þær lélegustu á allri leiðinni milli Reykjavíkur og Selfoss, einmitt á þeim kafla leiðarinnar þar sem þeirra er mest þörf. Það er meðal annars þetta atriði sem fær mig til að segja að þessi vegarkafli sé orðinn dýrkeyptasti vegarkafli landsins vegna þess að menn telji of dýrt að lagfæra hann.

Það er að vísu ekki hægt að sanna að góð og breið vegaröxl hefði breytt einhverju um slysið í gær. Hins vegar blasir við notagildi vegaraxlar þegar ökumaður, sem þarf að beygja út af veginu og fara yfir miðlínu vegar, þarf að stansa við miðlínuna til þess að bíða eftir að umferð úr gagnstæðri átt fari framhjá.

Þá gefur góð og breið vegaröxl bílum, sem koma aftan að hinum stansaða bíl, rými til að fara fram hjá honum hægra megin og halda áfram án þess að trufla umferðina.

Núverandi þrengsli á þessum vegarkafla auka á slysahættu og valda umferðartruflunum. Sagt er að vegna mikillar og tímafrekrar skipulagsvinnu verði þessi vegarkafli tvöfaldaður síðast. Í ljósi þessa má setja fram eftirtaldar tillögur:

1. Hámarkshraðinn á þessum kafla verð strax lækkaður.

2. Löggæsla á kaflanum verði tryggð og ætlað til þess fé.

3. Þegar í stað verði veitt fjármagni í að breikka og laga vegaraxlir á veginum og gera útskot eða viðbótarakreinar við vegamót sem liðka fyrir umferð þegar ökumenn þurfa að fara út af veginum.

4. Fyrrnefndri skipulagsvinnu við tvöföldun vegarins verði veittur eins öflugur forgangur og unnt er og kapp lagt á að þessi kafli þurfi ekki að koma síðastur í tvöföldun vegarins.

Ef litið er til hundruð milljóna króna beins fjárhagstjóns þjóðfélagsins vegna slysanna á þessum kafla ár hvert hljóta menn að sjá að það er ótækt að bera fyrir sig fjárskorti varðandi umbætur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Það mætti hugsa sér að setja niður hringtorg á þeim stað sem slysið varð í gær. Um leið þarf líka að fækka gatnamótunum á þessum vegarspotta. Það þarf ekki að lækka hraðann á allri leiðinni heldur þarf að skrepa á athygli ökumanna á nokkrum stöðum.

Birgir Þór Bragason, 12.8.2008 kl. 14:28

2 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Mér finnst að fyrst og fremst þurfi að hrista duglega upp í ökumönnum og fá þá til að skilja að það að aka bíl er dauðans alvara.

Hvernig hægt væri að gera það veit ég hins vegar ekki. Mér finnst almennt vera ekið alltof hratt úti á vegum miðað við aðstæður. Það er alls ekki ráðlegt að keyra á 90 á öllum þeim stöðum þar sem það er leyft. Þó svo að meiningin sé að 90 sé hámark við bestu aðstæður er raunin önnur. Á  stórum hluta leiðarinnar á milli Hveragerðis og Selfoss finnst mér vegurinn vera meira og minna í bungum og sveigjum og þó ekki væri nema þess vegna ætti leyfilegur hámarkshraði að vera minni.

Mér finnst að hámarkshraði ætti almennt að vera 80 úti á vegum, með undantekningum í 90 og jafnvel 100 á sérvöldum góðum köflum. Með því móti tryggjum við líka að öll ökutæki séu á sama hraða sem aftur ætti að draga úr framúrakstri. 

Þóra Guðmundsdóttir, 12.8.2008 kl. 14:51

3 identicon

Ég fór um slysstaðinn milli Hveragerðis og Selfoss seinna sama dag og reyndi að átta mig á því hvers vegna slysið hafði orðið. Þó eflaust sé nokkur umferð um afleggjarann sem þarna liggur af hringveginum eru gatnamótin á beinum vegarkafla á jafnsléttu og ekkert sem hindrar sýn ökumanna. Ég gat ekki með nokkru móti séð að aðstæður þarna gætu kallast hættulegar, svo framarlega sem ökumenn væru með hugann við aksturinn og ækju eins og menn. Það er lykilatriðið. Ökumaður sem ekur af krafti aftan á kyrrstæðan bíl eins og hann sé ekki þarna, hefði ekkert frekar farið yfir á næstu akrein eða út á vegöxlina, hann var greinilega ekki með hugann við það sem í kringum hann var og því fór sem fór. Þó ég sé sammála því að margir vegarkaflar séu beinlínis hættulegir finnst mér of mikið gert af því að kenna aðstæðum um þegar orsökin er einfaldlega gáleysislegur akstur. Þetta sýndist mér vera eit slíkt tilfelli.

Siggi (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 16:52

4 Smámynd: Birgir Þór Bragason

ergó - það þarf að skerpa athygli vegfarenda.

Birgir Þór Bragason, 12.8.2008 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband