Fyrir fjórtán árum í Kópavoginum.

Hið breska mál um hávaðakynlífið er ekkert nýtt fyrir Íslendinga. 1994 kom upp sams konar mál í blokk í Kópavoginum, og þurfti ekki drynjandi tónlist til að gera allt vitlaust, parið sá sjálft um að halda vöku fyrir blokkaríbúum heilu næturnar að sögn með óhljóðum úr eigin börkum. Málið fjaraði út en þó minnir mig að það hafi ekki verið fyrir atbeina dómsvaldsins.

Á sínum tíma afgreiddi ég málið með eftirfarandi stöku:

Þau listdans í lostanum stíga.

Hann lætur ei deigan síga

tímunum saman, -

tryllt er það gaman,

en þarf maðurinn aldrei að míga?  


mbl.is Bannað að heimsækja kærustuna vegna hávaðakynlífs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll meistari, er ´lengi búin að velta fyrir mér vísunum sem þú gerðir um vistmenn á elliheimili og söngst inn á plötu.Tengdamóðir mín sem bjó ásamt manni sínum á Hrafnistu´fór svo oft með þær,kunni þær utanað og hló mikið.Er það virkilega bannað að spila þetta í útvarpi.? 
             Tvær hendingar eru mér sérstaklega minnisstæðar,vona ég fari rétt með
                  
                   Ég kynntist einni níræðri sem misst hafði sinn mann,
                    
                    Mærin var svo kölkuð að hún hélt ég væri hann. Veit þú kannt tökin á tækninni,þurrkar þetta út ef ég má þetta ekki.Hafðu það ávalt sem best.

Helga Kristjánsdóttir, 17.8.2008 kl. 02:39

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi síðasta vísa er nú ekkert falleg frekar en þær fyrri en nú er ég að komast á þann aldur að mér líðst kannski frekar að gera gys að vandamálum míns aldurshóps heldur en þegar ég var nítján ára og það þótti svakalegt að grínast með ástalíf blessaðs gamla fólksins. En svona var síðasta vísan í bragnum um elliheimilið: 

Ég er með einni blindri, sem að misst hefur sinn mann.

En mærin er svo kölkuð að hún heldur að ég sé hann

og kallar mig því Hannes þótt ég heiti reyndar Jón

og hamingjan mun fylgja okkur, -  nema´hún fái sjón.  

Ómar Ragnarsson, 17.8.2008 kl. 02:58

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þessar vísur eru snilld Ómar

Haraldur Bjarnason, 17.8.2008 kl. 15:34

4 identicon

Blessaður Ómar. Ég sá þennan pistil þinn og þá rifjaðist upp fyrir mér smá limra sem ég hafði sett fram um sama leyti af sama tilefni.  Þetta er byggt á  lýsingum í fréttinni.

 

Atorkusemi.

Ást þeirra var eins og atglíma

og athöfnin tók engan smátíma.

Fyrst kom óp - og hún stundi,

síðan gelt, sem í hundi.Og svo þindarlaust áfram í þrjá tíma.

Pétur Bjarnason (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 18:02

5 Smámynd: Heimir Tómasson

Málið í Ópavoginum datt út af sjálfu sér. Ég man að Eiríkur var með þáttinn sinn á sínum tíma á stöð2 og afrekaði að fá konuna í viðtal. Það var dálítið merkilegt.

Heimir Tómasson, 17.8.2008 kl. 18:34

6 identicon

Nei nú ættirðu fyrst að gys að vandamálum þíns aldurshóps, þar sem alltaf er hægt að hlæja af þeim sem þora að gera grín af sjálfum sér..

Örvar (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 20:36

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég man eftir þessu lagi. Tær snilld. Ég var á landinu um helgina og reyndi að finna safndiskinn með lögunum frá 58-68, en það gekk ekki. Er þetta ekki ennþá í sölu?

Villi Asgeirsson, 18.8.2008 kl. 08:39

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef ekki haldið utan um það sem ég hef gert en er að byrja á þeirri vinnu núna vegna þess að á næsta ári er ég búinn að vera í þessum bransa í hálfa öld. Magnið er hins vegar svo mikið og óaðgengilegt að ég veit ekki hvernig mér á eftir að ganga að vinna úr því.

Það má alltaf finna eitthvað jákvætt við alla hluti og á þriggja mánaða tímabili í vor veitt ekki af að reyna að sjá bjartar hliðar á tilverunni.

Ég kalla ofsakláðann vegna lifrarbólgu af völdum sterkrar sýklalyfjameðferðar, sem hélt fyrir mér vöku í þrjá mánuði í vor, Guantanamo-ástandið, því að svefnleysisaðferðin í pyntingum er talin sú útsmognasta og áhrifaríkasta í fangelsum heimsins.

Kláðaástandið og ruglið af þess völdum í svefni sem vöku varð mér efni í margar gamansögur.

Þessi lífsreynsla færði mér að vísu 16 kílóa léttingu og missi 40% af blóðinu, - en...

1. Ég hefði hvort eð er þurft að létta mig um helminginn af þessu ( hefði samt viljað gera það á léttbærari hátt).

2. Fyrsti mánuðurinn eftir víti kláðans og svefnleysisins var dýrlegur. Þetta var í fyrsta sinn í hálfa öld sem ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að þyngjast, var allt í einu orðinn alltof léttur.

3. Þessar fyrstu vikur eftir að lifrin jafnaði sig hef ég getað haldið upp á hvern dag eins og hátíðisdag með nafni þeirrar fæðu, sem ég hef loksins getað veitt mér að bragða á eftir þriggja mánaða fitubindindi. Í gær var til dæmis íspinnadagur þegar ég borðaði fyrsta íspinnann eftir þriggja mánaða hlé. Í fyrradag var sviðasultudagur o.s.frv.

4. Áður en þetta dundi yfir hafði Saxi læknir alltaf getað vísað mér frá mér með orðunum: "Snautaðu út. Það er aldrei neitt almenninlegt að þér." Frá því að ég kom aftur til starfa hjá Sjónvarpinu og þar til ég hætti í vor sem fastur starfsmaður, í þrettán ár, hafði ég ekki átt einn einasta veikindadag. Í staðinn var ég gerður að prófverkefni fyrir læknastúdenta í Háskóla Íslands þegar ástandið var einna verst.

5. Ég er félagi í mjög fámennum llokuðum klúbbi fólks sem hefur lent í samsvarandi vandræðum og við höfum algera sérstöðu. Við búum yfir vitneskju sem enginn annar hefur, - vitum hvað er átt við þegar talað er um útsmognustu pyntingaraðferðina í Guantanao.

Ómar Ragnarsson, 18.8.2008 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband