25.8.2008 | 13:20
Kofasósíalismi?
Jón Magnússon kallaði húsaverndarstefnuna "kofasósíalisma" fyrir nokkrum dögum þegar hann var að skilgreina stefnu Ólafs F. Magnússonar í málefnum húsa í Reykjavík sem líkjast Hótel Akureyri í og deilt hefur verið um syðra og nyrðra. Skoðun nánar hverjir "sósílistarnir" eru, sem fylgja húsaverndunarstefnu þeirri sem Jón kallar kofasósíalisma.
Í tólf ár barðist Ólafur F. gegn eyðileggingu húsa sem Sjálfstæðismaður og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem friðaði Hótel Akureyri, er varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nefndarmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í nýjum meirihluta hans og Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Sigmundur Davíð hefur lýst því mjög skilmerkilega og sannfærandi sem byggingahagfræðingur að húsaverndarstefna sú sem rekin hefur verið með góðum fjárhagslegum árangri í fjölmörgum borgum Evrópu skilar ávinningi samkvæmt lögmálum vestrænnar hagfræði.
Síðan kemur Jón Magnússon, sem lengst af sínum pólitíska ferli var í forystusveit ungra Sjálfstæðismanna og kennir hagfræði Sigmundar Davíðs við sósíalisma. Hvernig má það vera?
Skýringin er kannski sú að öll meðöl séu leyfileg þegar Jón reynir allt hvað hann getur að deila á þá sem halda fram umhverfisverndarstefnu nýrra tíma. En Jón virðist auk þess vera einn af þessum mönnum sem eru enn fastir í gömlu fari og virðast ekki hafa áhuga á að endurmeta neitt eða læra neitt nýtt.
Jón er ekki einn um þetta heldur á þetta við um fjöldann allan af mætu og góðu fólki sem á erfitt með að endurmeta hlutina í samræmi við nýjar aðstæður, nýjar upplýsingar og ný viðhorf.
Alhvítt á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bárujárnskofar þeir sem reistir voru í R.vík. á seinni hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu eru ekki íslensk uppfinning né heldur Íslensk byggingar list.Það hefur fáum dottið það í hug að kalla mörg þessi kofaræksni list nema einhverju öfgafólki.Sambærilegar byggingar eru til í fátækrahverfum stórborga heimsins og íbúarnir biðja til Guðs á hverjum degi að þeir fái betra húsnæði.Hundrað ár eru stuttur tími í sögu alvöru bygginga og þessi hreysi eru það ekki.Ef þú Ómar vilt að gömul Íslensk byggingarlist fái að njóta sin í miðborg R.víkur þá skaltu leggja til að miðbænum verði breytt í þyrpingu moldarkofa, eins og þeir litu út um 1500.Byggja á elsta hluta R.víkur upp á fögrum nútíma byggingum sem bera íbúum R.víkur. fagurt vitni þegar þærverða orðnar fornbyggingar ári 2500.Kv.
Sigurgeir Jónsson, 25.8.2008 kl. 13:58
Er Bernhöftstorfan samsafn af "kofaræksnum"? Er EKKERT til að vernda? Ekki einu sinni Innréttingahúsið í Aðalstræti? Er húsið á horni Skólavörðustígs og Laugavegar "kofaræksni"?
Hver hefur lagt til að miðborg Reykjavíkur verði "þyrping moldarkofa eins og þeir litu út um 1500"?
Ómar Ragnarsson, 25.8.2008 kl. 15:05
Algjörlega sammála Sigurgeir.
Bernhöftstorfan er fáránleg þar sem hún er í dag og ég mæli með að hún verði flutt út í Viðey. Götumynd Lækjargötu er hlægileg með þessa kofa þarna.
"...að húsaverndarstefna sú sem rekin hefur verið með góðum fjárhagslegum árangri í fjölmörgum borgum Evrópu skilar ávinningi samkvæmt lögmálum vestrænnar hagfræði".
Þú ert alltaf að bera saman ósambærilega hluti, Ómar. Í erlendum borgum er verið að vernda steinhús en ekki fúnar fjalir úr appelsínukössum. Þar eru líka verið að vernda heilleg hverfi m.t.t. byggingastíls og húsin er hægt að nota áfram á praktískan hátt.
Verndun Laugavegur 4-6 er borginni til háðungar
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2008 kl. 16:16
Það eru furðuleg ummæli sem má lesa hér hjá Gunnari TH, Lassa Fagra og Sigurgeir Jónssyni. Þeir eru varla marktækir í umræðu um verndun húsa. Eru þeir kanski þeirrar skoðunar að hús hafi ekki sömu stöðu og aðrar minjar um fortíðina? Á að tæma Þjóðminjasafnið? Henda handritunum? Hvar eru mörkin?
Hjálmtýr V Heiðdal, 25.8.2008 kl. 16:35
Jú, hús hafa sömu stöðu og aðrar minjar, en það þarf að vera raunhæft að vernda húsin. Ekki bara líta á aldurinn og vernda svo. Það þarf að taka tillit til margra þátta, en hvað þýðir svo sem að tala um slíkt við ykkur, sem viljið vernda allt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2008 kl. 16:44
Gunnar.
Amma mín og langamma mín eru báðar fæddar í Bernhöftstorfunni. Frændi minn bjó í Innréttingahúsinu í Aðalstræti (bróðir Jóns Sigurðssonar forseta -sem einmitt gisti þat þegar hann sat þing hér heima). Ég er Reykvíkingur með rætur í fortíð borgarinnar. Ég lít þetta öðrum augum en þú að sjálfsögðu. En megin hugsunin - um gildi fortíðarinnar - hlýtur að vera okkur sameiginleg. Hvernig ætlar þú að fræða komandi kynslóðir um fortíð Reykjavíkur? Jafnt um gömul hús sem og annað úr fortíðinni. Er ekki áþreifanlegast að geta gengið inn í hús forfeðranna? Þetta er raunhæft. Og það er raunhæft að nýta húsin eins og t.d. er gert með gömlu Duus húsin (Geysishúsið ofl.)
Svo þýðir ekki að segja að við viljum vernda allt. Á ég að segja að þú viljir farga öllu?
Hjálmtýr V Heiðdal, 25.8.2008 kl. 16:57
Ætli Bernhöftstorfan sé ekki mest myndaði staður í Reykjavík. Friðun borgar sig örugglega. Það eru gömul vel uppgerð hús sem eru mesta prýði borgarinnar.
Hólmdís Hjartardóttir, 25.8.2008 kl. 16:59
Ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur og sennilega leitun að meiri Reykvíkingi en mér. Forfeður mínir í báðar ættir eru frá Reykjavík, meira að segja fyrir tíma "Innréttinganna". Einn forfaðir minn var bóndi á bænum Reykjavík en sá bær vék þegar ákveðið var á 18.öld að gera bæinn að miðstöð verslunar og þjónustu. Annar forfaðir minn bjö í Stuðlakoti og þar er amma mín fædd 1888. Í dag vilja menn kalla húsið "Stöðlakot" en amma mín var ekki flámælt og kannaðist ekki við þá nafngift.
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2008 kl. 17:48
Ömmur okkar hafa örugglega þekkst Hjálmtýr
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2008 kl. 17:50
Sæll Gunnar
Mér sýnist á öllu að við ættum að standa saman um minningu forferðra okkar. Ömmurnar lengi lifi - í minningunni! Amma mín bjó lengi í nágrenni Suðlakots, m.a. á Grundarstíg og Bankastræti.
Langalangalangafi minn, Einar Jónsson, fékk fyrsta borgarabréfið í Reykjavík og var kallaður Einar borgari upp frá því.
Hann hefur örugglega þekkt einhvern af þínum forfeðrum.
Það er alltaf gaman að ættfræði - og gömlum húsum með sögu og sál.
Hjálmtýr V Heiðdal, 25.8.2008 kl. 18:29
Það slæddust inn nokkrar innsláttarvillur - Stuðlakot skal það vera.
Hjálmtýr V Heiðdal, 25.8.2008 kl. 18:31
Afi ömmu minnar var "Dannebrogsmaður" og ættaður úr Engey og bjó um tíma á Sölvhól (Sölvhólsgata). Einnig á ég forfeður frá bænum Breiðholti, (Breiðholtshverfið) og aðra forfeður af Seltjarnarnesinu.
Sagan er dýrmæt og minjar ber að vernda sem vit er í að vernda. Við virðumst bara hafa ólíkar skoðanir á því hvað vit er í og hvað ekki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2008 kl. 18:52
Öfgafullir álversunnendur eins og Gunnar Th. og örfáir jábræður hans halda því iðulega fram að lítið sé á ferðamennsku byggjandi og finna þeim "iðnaði" flest til foráttu. Á sama tíma vilja þeir tortíma mörgu af því helsta sem ferðamenn koma hingað til að sjá.
Frasar þar sem fúaspýtur koma við sögu eru mikið notaðir til að réttlæta niðurrif án þess að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að fúnar spýtur má endurnýja og jafnvel heilu húsveggina ef því er að skipta. Í raun eru flest þeirra gömlu húsa sem ekki hafa orðið verktakamafíunni að bráð í prýðisgóðu ástandi og nóg af fólki sem kýs fremur að búa sér heimili í þeim heldur en í sálarlausum steinsteypukössum þar sem fermetranýting hefur verið höfð í fyrirrúmi.
Sú hugmynd að byggja "stórar og fallegar nýjar byggingar í anda þeirra bygginga sem eru í miðbæ Stokkhólms eða Kaupmannahafnar, nú eða Prague" ber heldur ekki vott um mikinn skilning því að hér yrði einungis um afar lélega eftirlíkingu að ræða. Hvers vegna ættu ferðamenn að borga stórfé til að koma hingað og skoða slíka eftiröpun? Þá litist mér í sannleika sagt mun betur á þá hugmynd spekingsins Sigurgeirs sem stakk upp á "að miðbænum verði breytt í þyrpingu moldarkofa, eins og þeir litu út um 1500".
Skammast þessir menn sín fyrir uppruna sinn?
Sigurður Hrellir, 25.8.2008 kl. 20:29
Að gefnu tilefni vil ég bæta því við að ég er sjálfur ekki fylgjandi stórfelldri uppbyggingu á moldarkofum í miðbæ Reykjavíkur. Hins vegar finnst mér það verulega dapurleg staðreynd að enginn torfbær fyrirfinnst lengur miðsvæðis í borginni af öllum þeim torfbæjum sem hér stóðu fyrir ekki svo löngu. Íslenskur veitingamaður og thailensk kona hans hafa nýlega sýnt og sannað að torfbæir þurfa síður en svo að vera lélegir moldarkofar, sjá hér. Sjálfur gæti ég vel hugsað mér að buá í einum slíkum.
Sigurður Hrellir, 25.8.2008 kl. 20:46
Það er staðreynd að fjöldinn allur af gömlum húsum hefur verið gerður upp í miðbæ Reykjavíkur undanfarin ár á mjög smekklegan hátt og sjálfsagt mál að halda því áfram í einhverjum mæli, sérstaklega þegar um hús frá 19. öld er að ræða.
Og það væri nú ekki amalegt ef eitt af elstu kvikmyndahúsum í heiminum, Fjalakötturinn, væri ennþá uppistandandi við hliðina á Morgunblaðskumbaldanum. Skömm þeirra sem Fjalaköttinn rifu mun lengi uppi verða.
Þorsteinn Briem, 25.8.2008 kl. 21:12
Gunnar, þegar þú segir „að vernda sem vit er í að vernda“ - þá er þú auðvitað eingöngu að segja þína skoðun og það sjónarhorn sem þú telur „vitrænt“. En ert þú þess umkominn að vera með svona afdráttalausa dóma um vit og ekki vit? Þú telur að við höfum ólíkar skoðanir á því hvað skuli vernda svo „vit sé í“. Segðu mér þá hvað þú segir um það sem ég skrifaði:Er ekki áþreifanlegast að geta gengið inn í hús forfeðranna? Hvað er betra til þess að upplýsa um fortíðina en að komast eins nálægt henni og kostur er? Hvað er ekki vitrænt í þessari afstöðu minni?
Hjálmtýr V Heiðdal, 25.8.2008 kl. 21:16
Það skiptir kannski ekki máli og þó - Sigmundur D. Gunnlaugsson situr fyrir örflokkinn Framsókn ,enda af gömlu Framsóknarkyni, sonur Gunnlaugs Sigmundssonar fv alþm Framsóknar.
Varðandi varðveislu gamalla bygginga og þá gamalla miðbæjarkjarna þá má benda á það að þjóðverjar hafa lagt óhemjufé í uppbyggingu þeirra miðbæja sem fóru í rúst í stríðinu og byggðu þá nákvæmlega eins og þeir voru - mörg hundruð ára að stofni til- í dag eru þetta eftirsóttustu ferðamannastaðirnir hjá þeim svo og sterk menningarímynd þeirra sjálfra sem, þjóðar. Svíar hafa nagað sig mjög í handarbökin eftir að hafa rústað gömlu Stokkhólm og byggt í staðinn lífvana gler-háhýsi. Við eigum að leggja mikið á okkur til að varðveita gamla borgarkjarnann í Reykjaví og víðar. Á Eyrabakka og í Stykkishólmi hefur tekist aðdáunar vel til í þessum efnum svo dæmi séu tekin.
Sævar Helgason, 25.8.2008 kl. 21:21
Það er ekki svo að það sé næst á dagskrá að byggja upp þyrpingu moldarkofa í miðbæ Reykjavíkur. Nú stendur yfir barátta upp á líf og dauða (húsadauða) sem snýst um það að vernda þessi örfáu gömlu/sögulegu hús sem enn eru eftir í Reykjavík.
Hjálmtýr V Heiðdal, 25.8.2008 kl. 21:24
Það eru fjölmörg dæmi um að vel hafi tekist til við húsfriðun, séstaklega á landsbyggðinni.. Laugavegur 4-6 getur aldrei orðið slíkt dæmi.
Götumynd sjávarsíðunnar á Eskifirði (mest sjávarmegin) er einstaklega vel heppnuð, með húsum sem flest eru byggð um og fyrir aldamótin 1900 og sum töluvert eldri. En það var ekki beðið eftir því að húsin eyðilögðust svo hægt yrði að byggja þau upp fyrir opinbert fé.
Ég er þess alls ekki umkominn að vera með afdráttalausa dóma um vit og ekki vit, í sambandi við húsafriðun. Ég get bara talað fyrir mig og minn smekk í þeim efnum. Og mitt álit er að það er ekki sama hverju er til kostað í sambandi við þennan málaflokk og sum húsin eins og títtnefnd hús við Laugaveg, eru dæmi um hlægilega vitleysu.
En það er bara mitt álit. (og margra fleiri reyndar)
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2008 kl. 22:18
Húsin á Laugavegi 4 og 6 eru upprunalega frá 19. öld og því sjálfsagt mál að hafa þau sem næst upprunalegri mynd.
Miklu máli skiptir einnig að sem mestrar sólar njóti á Laugaveginum og hæð húsanna sunnanmegin við götuna sé í samræmi við það.
Þorsteinn Briem, 25.8.2008 kl. 22:26
Þegar Magnús söng "eitthvað íslenskt, já eitthvað gamalt og gott", þá söng þjóðin með honum. Að rífa þessi gömlu hús er svipað og að henda pottablómunum og og bókunum hans afa og fá sé nýmóðins kili og gerviblóm í Ikea.
Sigurður Þórðarson, 26.8.2008 kl. 14:15
Á að tæma þjóðminjasafnið? spyr einhver á síðunni. Góð hugmynd, þá getum við innréttað það sem flóttamannaheimili og fyllt það af alls konar Rassmusum frá ýmsum löndum. Svo væri sniðugt að senda forsætisráðherrann heim til ættingja sinna í noregi og endurbyggja stjórnarráðið sem fangelsi, fylla upp í tjörnina og hafa þar ókeypis bílastæði fyrir alla þá sem bíða með óþreyju í löngum röðum eftir að fá að horfa á skúrana við bernhöftstorfuna. Seinna ætla ég að skrifa um að fylla þingvallalægðina af vatni með stórri stíflu, margfalda fjölda virkjana í soginu og fylla reykjanesið af álverum.
corvus corax, 26.8.2008 kl. 14:48
"Kaffiogsígóismi"
Það er búið að ræða þetta
til eru kofar
til er kaffi
sjaldan er gott loft í gömlu rými
er farinn út að reykja
Taurus Lasarus (IP-tala skráð) 27.8.2008 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.