Gildi hins persónulega.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fær rós í hnappagatið frá mér og fleirum fyrir það hvernig hann hefur tekið á máli Pauls Ramsesar. Ráðherra hefur vafalaust haft það í huga í upphafi að lögin eru fyrir fólkið en ekki öfugt.

Þetta mál hefur orðið svo stórt í hugum fólks vegna þess að það er svo persónulegt, - við þekkjum öll orðið þessa fjölskyldu, - þau eru "hæfilega fá". Kann að hljóma ankannalega en það er ekki trygging fyrir því að við skynjum mikilsverð mál að það séu margir sem þeim tengist, einhver nafnlaus fjöldi.

Til dæmis var vitað að sex milljónir Gyðinga hefðu verið drepnir í Helförinni en við gátum ekki skynjað það til fulls fyrr en gerð var sjónvarpsþáttaröð um afmarkaða fjölskyldu, sem lenti í Helförinni og við kynntumst fjölskyldumeðlimunum persónulega á skjánum heima í stofum okkar og voru sett í þeirra spor.

Annað dæmi er Geysis-slysið. Hvers vegna er það enn svo ljóslifandi í hugum þeirra sem fylgdust með því? Ég var aðeins níu ára en þetta slys er mér efst í huga af atburðum þessara ára nær 60 árum síðar.

Ég hygg að svarið liggi í því að þau, sem saknað var og jafnvel talin af en síðar bjargað á dramatískan hátt, voru "hæfilega fá", - nógu fá til þess að allir lærðu nöfn þeirra og kynntust kjörum þeirra hvers um sig og vandamanna þeirra. Þar með var þetta mál orðið eins og eigið fjölskyldumál.

Björn Bjarnason er maður skipulagðra vinnubragða og afkasta, en jafnframt vandvirkni. Hann hefur vafalaust lagt talsverða vinnu í þetta mál sem á yfirborðinu virðist aðeins snerta tvær manneskjur.

Björn þarf ekki að sjá eftir því að hafa lagt vinnu og tíma í það því að það eykur okkur öllum skilning á því að rétt eins og við skynjum heiminn út frá okkur sjálfum sem eintaklingar, snerta öll mál fjöldans hvern og einn einstakling sem því tengist og að því leyti skiptir fjöldinn ekki máli.


mbl.is Grátið af gleði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það kemur alltaf skemmtilega á óvart þegar einhver lætur Björn Bjarnason njóta sannmælis ...

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 13:36

2 identicon

Ruglið í tér Ómar. Ertu ekki fréttamaður? Hvað ertu að bulla maður? Ramses var aldrei í hættu. Hann sá engvar fjöldagrafir heldur. Er bara að ljúga sig hingað inn og tað staðfesta landar hanns sem búa hér td. Hringdu í Óla Tynes hann gæti sagt tér fréttir og jafnvel kent tér fréttamensku líka.

óli (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 17:15

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég held því hvergi fram í pistli mínum að Ramses hafi verið í hættu og dettur ekki í hug að bera hugsanleg örlög hans í Kenía við örlög Gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni hvað það snertir.

Dæmin sem ég nefni tek ég til að varpa ljósi á að mál einstaklinga og fjölskyldna vekja yfirleitt meiri athygli en mál fjöldans og geta þannig orðið að gagni fyrir fjölda fólks í svipaðri aðstöðu.  

Enn eitt dæmi um það: Þegar Árni Tryggvason notaði eigin reynslu til að varpa ljósi á aðbúnað og meðferð fólks sem glímir við hliðstæðan sjúkdóm og hann glímir við, vakti það loksins þá athygli á því máli sem það átti skilið. Aður hafði fólkið sem málið snerti verið nafnlaus fjöldi og ekkert virtist vera að gerast til batnaðar í aðbúnaði þess.  

Ómar Ragnarsson, 26.8.2008 kl. 18:27

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ómar, annað dæmi; eftir að Magnús Kjartansson þáverandi heilbrigðisráðherra þurfti skyndilega að leggjast inn á spítala, þá lagaðist margt á Lansanum - um tíma.

Hið persónulega er uppskrift að ójöfnuði, stjórnsýslulögin voru sett einmitt til þess að koma í veg fyrir mismunun.

Með kveðju.

Kolbrún Hilmars, 26.8.2008 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband