30.8.2008 | 12:09
Íhugunarefni.
Tjaldað til einnar nætur. Kannski lýsa þessi fjögur orð best grunnatriðum atvinnustefnu Íslendinga allt til þessa dags. Ég man þá tíð þegar Bretavinnan, störf á Keflavíkurflugvelli og síðar við virkjanur voru einu "bjargráðin" sem íslenskum ráðamönnum datt í hug.
Stefnan snerist mestu um að útvega fjölmennri verkamannastétt atvinnu. Enn láta menn eins og ekkert hafi breyst í þessum efnum í hálfa öld, allt standi og falli með því að útvega nógu mörg verkamannastörf.
Afleiðingin blasir við: Hvergi í okkar heimshluta er brottfall unglinga jafn hátt úr námi, meðal annars vegna þess að ekki er nógur hvati til þess að örva æskufólk til framhaldsnáms. Þetta er bagalegt vegna þess að á okkar tímum hefur veruleikinn breyst og samkeppnishæfni þjóða og þar með möguleikar á góðum lífskjörum og lífsfyllingu byggist fyrst og fremst á sem bestri, fjölbreyttastri og almennastri menntun.
Einkum á þetta við á landsbyggðinni eins og margoft hefur komið fram á alþjóðlegum ráðstefnum um vandamál dreifbýlisins.
Svo mjög eru menn bundnir við 50 ára gamla og úrelta sýn, að það þótti einn helsti kostur við Kárahnjúkavirkjun að 80 prósent vinnuaflsins yrði innlent en aðeins 20 prósent erlent. Þetta varð alveg öfugt, - 80 prósent vinnuaflsins varð erlent.
Á Húsavík, þar sem hin gamla stefna er enn efst á baugi hjá fylgismönnum álversframkvæmda, hafa unnið 136 útlendingar þrátt fyrir allt talið um atvinnuleysi.
Vikulegar heilsíðuauglýsingar álversins í Reyðarfirði á tímabili í sumar þar sem auglýst var eftir starfsfólki og sérstaklega tekið fram að ENGRAR sérstakrar menntunar væri krafist, segja sína sögu.
Nú hópast útlendingarnir heim til sín, enda komu þeir hingað í algerlega afbrigðilegu efnahagsástandi, þar sem kveikt hafði verið þenslubál við Kárahnjúka 2002 með hárri ofþensluöldu sem gat ekki endað öðruvísi en með öldudal á eftir, sem við súpum nú seyðið af. Timburmenn eftir fyllerí.
Tjaldað til einnar nætur og ekkert horft fram á við til hinna óhjákvæmilegu endaloka, sem óbreytt virkjana- og stóriðjustefna mun færa þjóðinni: Í fyrirhuguðum álverum fá aðeins 2% vinnuafls landsmanna atvinnu í kjörfar auglýsinga þar sem lýst er eftir starfsfólki og ENGRAR sérstakrar menntunar krafist.
P.S.
Heyri í útvarpsfréttum í viðtali nú í hádeginu við einn af skólastjórum framhaldsskóla á Austurlandi að skólamenn þar séu alveg undrandi á því að nemendum fjölgi ekki heldur fækki jafnvel á þessum þenslutímum hér fyrir austan, þar sem ég er staddur nú.
Í verkmenntaskólanum hefur nemendum fækkað um fimmtíu og reyndist algerlega misheppnað að bjóða upp á sérstaka námsbraut í álfræðum. Er það furða úr því að erfiðlega virðist ganga að manna störf í álverinu þar sem engrar sérstakrar menntunar er krafist?
Hópast heim til Póllands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þennan pistil ætti að lesa upphátt á næsta fund Alþingis og útvarpa um allt land. Þetta ætti hver einasta maður á Íslandi að heyra. Takk fyrir þetta, Ómar
Úrsúla Jünemann, 30.8.2008 kl. 13:02
Yfir 100 manns af fjögurhundruð manna starfsliði Alcoa í Reyðarfirði er háskóla og tæknimenntað, auk þess er háskólamenntað fólk í afleiddum störfum á svæðinu. Auk þess er annað eins, ef ekki meira af iðnmenntuðu fólki.
Bentu á það Ómar, hvar þú hefur lesið að vandamál Húsvíkinga sé atvinnuleysi. Á Reyðarfirði hefur atvinnuleysi ekki verið vandamál frá því ég flutti þangað árið 1989. Samt heyrðist stöðugt frá andstæðingum framkvæmdanna að álverið ætti að bjarga okkur frá atvinnuleysi! Bull og vitleysa eins og annað sem frá þeim hefur komið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.8.2008 kl. 13:18
Þetta er rétt hjá Ómari hvað svo sem Gunnar Th. segir. Álversunnendur halda því statt og stöðugt fram að þetta sé hátækniiðnaður og að eftirspurn eftir störfum í álverum sé mikil. Það er í hróplegri mótsögn við óteljandi heilsíðuauglýsingar frá Alcoa þar sem auglýst er eftir starfsfólki og ENGRAR menntunar krafist.
Nú eru sumar afleiðingar framkvæmdanna farnar að koma í ljós. Mikið brottfall er úr eina menntaskólanum í Fjarðarbyggð, fækkar um tæp 20% á milli ára. Í öllum öðrum landshlutum fjölgar nemum á framhaldsskólastigi og í verknámi.
Er það framtíðarsýn flestra íbúa Fjarðarbyggðar að hafa lágt menntunarstig og einn allsráðandi vinnuveitanda eða hefur einfaldlega verið þaggað niður í mótbárum sumra með hótunum og einelti? Ég bendi á grein á bls. 28 í Fréttablaðinu í dag um væntanlegt álver á Bakka þar sem segir m.a.:
"Íbúarnir [í Tjörneshreppi], sem Fréttablaðið talaði við, óttast álversframkvæmdirnar og telja þær geta lagt jarðir sínar í eyði. Þeir vildu ekki allir koma fram undir nafni og vísuðu sumir til þess að í sveitinni, sérstaklega á Húsavík, væri því sem næst bannað með lögum að vera á annarri skoðun en sveitarstjórnin. Nokkrir íbúar Húsavíkur höfnuðu einnig viðtalsbeiðni blaðamanns."
Gömul vinkona mín sem býr á Ísafirði sagði nýlega í tölvupósti:
"Á Ísafirði er fólk lagt í einelti fyrir að vera á móti olíuhreinsunarstöð ! Þannig að ég er ekki hissa ef fólk á Bíldudal sem vill ekki stöðina, tjáir sig ekki."
Er virkilega svo illa komið fyrir fólkinu hér á þessu landi að það eigi að troða mengandi verksmiðjum niður í kokið á okkur hvort sem okkur líkar betur eða verr? Svo er hrópað á náttúruverndarfólk ókvæðisorð af ýmsu tagi og það kallað umhverfisfasistar, öfgamenn eða jafnvel hryðjuverkamenn. Síðast í 24 stundum í dag kallaði hinn umboðslitli fulltrúi Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur framkvæmdastjóra Landverndar atvinnumótmælenda!!!
Er þetta ekki líka íhugunarefni?
Sigurður Hrellir, 30.8.2008 kl. 14:58
Það hvarflar náttúrulega ekkert að þér Sigurður, að leita skýringa á auglýsingum eftir störfum í álverinu enda ertu skíthræddur um að þær gætu verið eðlilegar og þar með hryndi af þér ánægjuglottið í vissu þinni að allt sé þarna ómögulegt.
Fólki hefur fækkað á áhrifasvæði álversins, en það eru einnig eðlilegarskýringar á því og það skilar sér svo í Verkmenntaskólanum á Nesk., en ef um fækkun er að ræða í ME þá er hún óveruleg, ef nokkur.
Þetta sem Sigurður vitnar í með rauðu letri er eiginlega glæpsamlegt bull en ég veit að þeir örfáu sem voru á móti þessu í Fjarðabyggð, reyndu að bera svona lygaþvætting út hér. Það fólk er undantekningarlaust langt til vinstri í pólitík og mér flökrar af tilhugsuninni einni saman hvernig þetta fólk hugsar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.8.2008 kl. 15:38
Ég hringdi í eigin persónu í upplýsingafulltrúa Alcoa snemma í vor til að forvitnast um þessar fjölmörgu auglýsingar eftir starfsfólki. Hún sagði mér þá að það væri næstum fullmannað og að það hefði gengið vel að finna fólk í flest störf. Samt sem áður hafa ófáar heilsíðuauglýsingar birst síðan þetta samtal átti sér stað. En það er allavega rangt að ég leiti ekki skýringa eins og Gunnar Th. heldur fram.
Svo finnst mér það með eindemum að kalla það "glæpsamlegt bull" eða "lygaþvætting" þegar fólk er hrakið burtu af eigin landi, hótað öllu illu eða rekið úr starfi. Fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík þurfti að taka pokann sinn eftir að hafa lýst neikvæðri afstöðu sinni til olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum. Staðreyndin er sú að meirihluti landsmanna (57%) vill ekki fleiri virkjanir fyrir stóriðju. Minnihlutinn (flestir miðaldra karlar) beitiróprúttnum hótunum og dulbúnu ofbeldi til að ná sínu fram. Einnig njóta þeir þess forskots að orkufyrirtækin leggja mikið fé og mannskap til að fegra ímynd sína og stóriðjunnar. Þetta er því ójafn leikur ef leik skyldi kalla.
Sigurður Hrellir, 30.8.2008 kl. 16:07
Samkvæmt þessu hjá þér Sigurður, ertu þá að halda því fram að Erna Indriðadóttir hafi verið að ljúga að þér (og fengið kannski borgað aukalega fyrir?)
Kynntu þér málið enn betur Sigurður, kannski leynist fiskur undir steini.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.8.2008 kl. 16:15
Ég held því ekki fram að Erna beinlínis ljúgi neinu en hins vegar fær hún klárlega borgað fyrir að segja það sem er Alcoa til framdráttar. Að mínu mati ætti Alcoa einnig að borga Gunnari Th. fyrir óbilandi stuðning sinn í gegnum þykkt og þunnt!
Sigurður Hrellir, 30.8.2008 kl. 16:50
Þetta er góð grein hjá Ómari og þyrfti að fara sem víðast. Framlag Sigurðar hér í athugasemdum er að mínu áliti mikil skynsemi líka, takk fyrir það.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 30.8.2008 kl. 18:36
Nei, það er akkúrat engin skynsemi í þessu, einfaldlega vegna þess að menn hafa ekki staðreyndir á hreinu, heldur bulla bara eitthvað út í loftið. Hér peppa menn hvern annan upp í vitleysunni. Hönd í hönd leiðast menn hér um dimma dali fordóma og þekkingarleysis.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.8.2008 kl. 20:30
Sem svo oft þegar ég les pistla þína Ómar og athugasemdir sem þem fylgja geri ég mér æ betur ljóst hversu mikilvæg barátta okkar er fyir því að gæta lands með öllum þeim auðæfum sem það geymir. Það er með ólíkindum hvað gullið glepur og hvað menn ganga langt í því að réttlæta skammtímasjónarmið, allt í skjóli vafasamrar atvinnusköpunar sem í raun fáir sækjast eftir og eru ekki í takt við raunveruleg og eftirsóknanleg búsetuskilyrði.
Ég er ansi hræddur um að Gunnar Th. sé í dimmum dal fordóma og þekkingarleysis þegar hann réttlætir þá óafturkræfu eyðileggingu sem átt hefur sér stað allt frá jökli til sjávar á Austurlandi og vill að þannig eyðileggingu verði framhaldið í öðrum landshlutum.
Það er þungt að hugsa til þess að þú, með þínar raunsæju og fögru hugsjónir, þurfir að að skrifa minningu um horfið land og aðrar afleiðingar mannanna verka sem svo margir víðsýnir og vel menntaðir hafa varað við í mörg mörg ár. Ætlar þessu aldrei að linna?
Snorri Sigurjónsson
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 00:11
Ef það væri aðeins Gunnar Th., þá væri allt í fína lagi, en hann er því miður fulltrúi stóriðjuflokkanna og þeir eru samtals fjórir, þ.e. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn.
Við megum þó ekki gleyma því að innan þessarra flokka er fólk sem skynjar hvað skiptir máli og hvers ber að gæta. Þar á Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra svo sannarlega við ramman reip að draga. Sem dæmi um fleiri innan þessarra flokka vitna ég í ummæli Kristins K. Guðfinnssonar, sem hefur upplifað einstaka náttúru Vestfjarða og Hornstranda og að því svæði megi ekki spilla. Auk þess lét hann þess getið í viðtali við tímaritið Útiveru að afar gagnlegt hafi verið að kynna sér sjálfur og gera sitt eigið umhverfismat á einstöku svæði Langasjávar, Eldgjár og Skælinga og að hans skoðun væri að þar væri um einstaka náttúruperlu að ræða sem að hans mati kæmi ekki til álita að nýta sem virkjunarsvæði. Að slíkum áforum hefur Landsvirkjun hins vegar unnið leynt og ljóst í mörg ár og stóriðjuflokkarnir ekki hreyft andmælum.
Ellert Schram hefur í blaðagrein látið í ljós að Alþing eigi ekki að hafa forræði yfir auðlindum, slíkt sé sveitarfélga, en í sömu blaðagrein lætur hans þess gegtið að hann megi ekki til þess hugsa að neðri hluti Þjórsár verði virkjaður. Ég bara spyr? Hver ræður í þessu landi?
Valgerður Sverrisdóttir ætlaði alveg að rifna yfir því að fram skildi fara heildstætt umhverfismat vegna álvers á Bakka, þ.e. hvaða áhrif slík framkvæmd hefði á líf og land. Ég býst við því að hún hefði líka farið af hjörunum í öðru samhengi ef til álita hefði komið að reisa risaálver í Grýtubakkahreppi, t. d. í landi Lómatjarnar, sennilega verið alveg sama ef það hefði verið fjær, t.d. í Fjörðum. Í sama knérunn tekur Birkir Jón Jónsson um árangur og ekkert stopp til að halda uppi öflugu velferðarkerfi, en hann gleymir að 98% þjóðarinnar lifir á einhverju öðru.
Ekki má gleyma öflugum stuðningi Samfylkingar við Kárahnjúkavirkjun og nú við álver á Bakka og í Helguvík og að andstæðingur virkjana í neðri hluta Þjórsár, Björgvin Sigurðsson þegir nú þunnu hljóði. Svona mætti lengi telja og margar náttúrugersemar í stórhættu.
Frjálslyndi flokkurinn mun ekki standa gegn því sem þeir geta réttlætt sem atvinnusköpun, hverju sem fórnað verður án tillits til þess hvað er þess virði að búa í þessu landi.
Ekki má gleyma orðum klerksins og kratans í Heydölum sem dásamar malbikið að Kárahnjúkum sem auðveldar fólki að virða fyrir sér Íslenska náttúru, en hann gleymdi að geta þess sem búið er að sökkva og hvaða hræðilegu afleiðingar öll sú framkvæmd mun hafa.
Er ekki kominn tími til að staldra við og spyrja hverjum við treystum og hvert við stefnum?
Snorri Sigurjónsson
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 02:54
Góður pistill og athugasemdir. Sérstaklega finnst mér Hrellir hafa staðið af sér orrahríðina með sóma. Þegar málið er skoðað er það hrikalegt hverju á að fórna fyrir hvað. Kannski að Churchill hefði orðað það svo, sjaldan hefur svo miklu verið fórnað fyrir svo fáa. Það sem fékk mig endanlega til að missa alla samúð og virðingu fyrir stóriðjubrjálæðinu og Landsvirkjun kannski sérstaklega, var þegar ég las um hamfaraáætlun þeirra þar sem Þjórsárverum yrði fórnað til að bjarga einhverjum stíflum. Kæmi til eldgoss og hlaups yrði því öllu stefnt gegn um Þjórsárver svo að mannvirki LV skemmdust ekki. Það má kalla okkur hryðjuverkamenn ef það hentar, en mér sýnist að fólk megi líta í eigin barm. Auðvitað myndi stórflóð eyðileggja Þjórárver og það er kannski málið. Verði þau bara eitt drullusvað er ekkert því til fyrirstöðu að virkja þau. Því miður hef ég ekki tíma til að fara lengra núna eða finna heimildirnar sem ég notaði. en eg bloggaði um þetta fyrir ekki svo löngu síðan.
Villi Asgeirsson, 31.8.2008 kl. 04:20
Mig langar að bæta þessum hlekk og þessum við athugasemdir mínar frá í gær um ofbeldisfulla framgöngu sumra virkjannasinna. Þar má rifja upp einstaklega asnalega framgöngu stórs hóps manna úr samtökum sem kölluðu sig "Afl fyrir Austurland" þegar þeir haustið 2000 gengu í Náttúruverndarsamtök Austurlands til þess að koma í veg fyrir ályktanir gegn þeim virkjunarframkvæmdum sem þá voru í burðarliðnum. Skyldi Gunnar Th. hafa verið í þessum hópi?
Sigurður Hrellir, 31.8.2008 kl. 08:59
Gunnar Th. gefur orðtakinu: „Enginn er eins blindur og sá sem ekki vill sjá.“ alveg nýja vídd svo af hverju í ósköpunum að taka hann alvarlega?
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 13:17
Já, ég var í þeim hópi Sigurður og ég skrifaði grein í Morgunblaðið um þann atburð, sjá HÉR
"Samtökin hafa ávallt komið fram af hófsemi og festu, og forðast allar öfgar", segir í seinni greininni sem þú vísar í.
Þetta eru öfugmæli og ástæða þess að þessi hópur ákvað að keyra saman upp í Snæfellsskála og "yfirtaka" fundinn. Dæmi voru um að fólk var hrakið úr samtökunum fyrir að vera ekki í einu og öllu sammála Hjörleifi Guttormssyni, stofnanda samtakanna. Samtökin fengu mjög mikla umfjöllun í fjölmiðlum þegar þau gáfu út yfirlýsingar um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir, eins og þetta væru "virt" og öflug samtök sem sýndu þverskurð samfélagsins, en raunin var að þetta var fámenn klíka í kringum Hjörleif og skoðanir hans.
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.8.2008 kl. 13:54
Ég las nafnið á þessari samkundu eitthvað vitlaust. Marglas það áður en ég sá að það hét ekki Afi fyrir Austurland.
Villi Asgeirsson, 31.8.2008 kl. 19:59
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.8.2008 kl. 21:58
Gunnar, þú hefur vissulega fullan rétt á að hafa skoðun á hverju sem þig lystir. Þér getur t.d. fundist að samtök sem nefna sig Náttúruverndarsamtök Austurlands séu öfgasinnuð og ekki þér að skapi. Þú getur meira að segja sótt um inngöngu í samtökin til að láta þína gagnrýnu rödd heyrast á þeim vettvangi.
Það sem ég tel hins vegar algjörlega óverjandi er það að hópur utanaðkomandi manna ráðist inn í félagsskap með það eitt fyrir augum að hindra eða breyta stefnu stjórnar félagsins. Það er ekki hægt að horfa framhjá tilganginum með félaginu "Afl fyrir Austurland" og velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum þeir töldu sig hafa rétt til að ráðskast með Náttúruverndarsamtökin og þeirra ályktanir.
Þetta væri t.d. sambærilegt við það að stór hópur kaffifíkla úr 101 Rvk. flytti lögheimili sitt til Reyðarfjarðar gagngert í þeim tilgangi að kjósa Latteflokkinn í sveitastjórnarkosninum sem hefði það eitt á stefnuskrá sinni að breyta álverinu í heimsins stærstu kaffibrennslu!
Sigurður Hrellir, 1.9.2008 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.