Fundnar flugbrautir Agnars og Bergs?

Nú eru fimm ár síðan ég rakst fyrst á "Flugvöllinn", sem svo hefur verið kallaður af staðkunnugum og er á mel um 15 km suðvestur af Kárahnjúkum. Þetta er eitt elsta vallarstæði á landinu, fundið 1939 og merkilegt fyrir margra hluta sakir.

Sagnir hafa verið um að í haustleitum 1940 hafi Jökuldælingar fundið hlaðnar vörður á melnum og borið burtu vegna ótta um að annað hvort Emmy Todtmann, þýskur jarðfræðingur, sem var þarna 1938, eða þeir Agnar Koefoed Hansen og Bergur Gíslason, sem lentu þar á þýskri flugvél í september 1939, hefðu hlaðið vörðurnar til leiðbeiningar fyrir Þjóðverja. 

Vísindamenn Þjóðverja voru tortryggðir á þessum árum og einnig Agnar Koefoed vegna þess að hann flutti inn þýska landflugvél (Klemminn), þýskar svifflugur og þýska flugvini sína rétt fyrir stríð.  

Kolbeinn Arason, flugstjóri, sem flaug eystra í mörg ár og var frá barnæsku að Vaðbrekku í Hrafkelsdal segir mér nú að sagan um brottflutning varðanna sé ósennileg.

Við merkingu þriðju flugbrautarinnar á vellinum í fyrra (1000 m löng) rakst ég á tvær vörður rétt við hana en var ekki athugulli en það að ég tók nokkra steina úr þeim til að merkja nýju flugbrautina.

Í ferð minni á vellinum í fyrradag sá ég hins vegar þriðju vörðuna, og viti menn, þessar þrjár vörður liggja í þráðbeinni línu. Með því að fylgja línunni kom upp mjög hentugt brautarstæði á milli tvegga af brautunum sem þarna eru nú, fyrir alls 1100 metra langa braut.

En ekki nóg með það. Við athugun á möguleika á 1600 metra braut samsíða 1400 metra brautinni, sem þarna er, fann ég vörðu á mögulegum brautarenda slíkrar brautar.

Varla getur staðsetning þessara varða verið tilviljun. En af hverju eru þær ekki fleiri? Hugsanlegar skýringar: 1. Agnar Koefoed og Bergur höfðu ekki tíma til að hlaða fleiri vörður. 2. Jökuldælingar fundu nokkrar af vörðunum og báru í burtu en sást yfir þessar fjórar sem ég skoðaði loks af einhverju viti í fyrradag.  

Enga aðra skýringu er hægt að finna á tilvist þessara varða aðra en að þær hafi verið hlaðnar til að merkja fyrir hentugum brautarstæðum. Melurinn er misgrófur og staðsetning brauta fyrr og nú miðast við það svo og að ekki sé notað neitt verkfæri eða yfirborði raskað, - yfirborðið eingöngu valtað og egghvassir smásteinar fjarlægðir. 

Ákveðið hefur verið að leggja NA-SV- brautina niður á Reykjavíkurflugvelli hið fyrsta og eftir það er flugvöllurinn á Sauðármel orðinn næststærsti flugvöllur landsins hvað snertir heildarlengd brauta. NA-SV-brautin er 1400x30m, A-V-brautin er 1000x20 og N-S-brautin er 700x20. Í fyrradag var flughlað stækkað upp í 5000 fermetra og lokið við breikkun allra brautanna.

Í sumar útveguðu Flugstoðir vindpoka, sem ég flaug með austur og setti upp við gamlan húsbíl, sem stendur þarna sem nokkurs konar flugstöð.

Tvær Fokker F50 flugvélar hafa æft aðflug að vellinum, sem er mikilvægur öryggislendingarstaður á leiðinni Reykjavík-Egilsstaðir. Í fyrrahaust lá við nærri í upphafi hreyfilbilunar að lenda þyrfti þar. Við virkjanaframkvæmdirnar eyðilögðust fjórar stuttar brautir á svæðinu og Sauðármelsvöllur er því langstærsti flugvöllurinn á hálendinu og hinn eini á 500 ferkílómetra svæði austan Jökulsár á Fjöllum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar.

Þú verður að gefa okkur GPS hnit á þessar brautir og stefnu.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 08:31

2 Smámynd: Jón Ragnarsson

Merkilegt. Hvar er þetta nákvæmlega?

Jón Ragnarsson, 1.9.2008 kl. 17:03

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Ómar þetta er ljóst og Kolli veit manna best um allt sem flug snertir á Austurlandi, svona fyrir utan þig.

Haraldur Bjarnason, 1.9.2008 kl. 21:07

4 identicon

Jóhann,

staðsetningin á brautarmótunum er:

64° 50' 36''N
016° 02' 11''W

Ómar, 

Nú er hún Snorrabúð stekkur, hvað varðar "frímerki" á svæðinu.Skelkaður

Víðir Gíslason (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband